Færsluflokkur: Bloggar

Hitt og þetta

Maður verður nú smávegis að skrifa hérna svona til að láta vita af sér og gleðja bloggvinina eða koma þeim á skeifustigið.  Bloggvinir mínir eru fínir, bara svo þið vitið þá er þeim ekkert raðað eftir neinni sérstakri röð, eftir uppáhaldi eða hvar þeir eru í stafrófsröð.  Heldur detta þeir bara inn eftir því hvenær þeir panta að gerast bloggvinir manns eða þá ég finn einhvern áhugaverðan til að bæta á listann minn.  

Ég rúnta stundum með kaffibollanum á morgnana ef tími gefst til ef ekki þá bara áður en ég sofna. Bara svo þið vitið það, þið eruð lesin, þá vitið þið það.  Innlitið á síðunni minni er þó ekkert voða hátt.  Byr finnur mig varla.  Það hefur komið fyrir að málfars eða málfræðivillu eiga til að slæðast inn en þeim hefur farið fækkandi eftir því að púkinn bættist við á vinnsluborð bloggsins. Snilld.  Þessi hérna þarf greinilega að fá sér meira en púka á vinnsluborðið.

Þá hefur bara ný ríkisstjórn hafið störf, stjórnsáttmálinn nokkuð sá sami og síðast með örlitlum breytingum í takt við rétt tímatal og copy/paste úr stefnu Samfylkingarinnar, hitt sem tilheyrði Framsókn var deletað.  Annars er bara það að gefa þessar ríkisstjórn sitt tækifæri og spenntust er ég bara að sjá hvernig Framsókn ætlar að sýna hörku í stjórnarandstöðunni þegar sitt og hvað sem þau gerðu og vildu er enn í fullu gildi hjá núverandi valdhöfum.  Ætlar Framsókn að enda öll andsvör sín og ræður á frasanum:  “við getum ekki samþykkt þetta af því við erum ekki með í ríkisstjórn”.  En hvað um það, þetta verða bara orð og meirihlutinn ræður hvort sem Framsókn líkar betur eða verr.

 

Hér er ansi rólegt hjá mér, ég hef þó hagað mér eins og moldvarpa síðustu daga og ætla að gera það áfram.  Það er meira fjör hérna á nóttunni heldur en á daginn. Við morgunverðarborðið fæ ég alltaf fréttir af hvað hafi gerst í nótt, hafi eitthvað merkilegt gerst eins og í nótt keyrði fullur ungur ökumaður á ljósastaurinn og lögreglan kom með tilheyrandi hávaða og ljósum, börnin mín vöknuðu og fyldust með öllu sem fram fór.  Eftir þessa sýn sögðust þau aldrei nokkurn tímann ætla að keyra full.  Eins og það hafi eitthvað verið í framtíðaráformum þeirra.   Hvað kemur fólki annars til að keyra drukkið?  Það hafði allavega efni á flöskunni eða drykkjunum sem kom því í þetta ástand, því ætti það ekki að hafa efni á leigubíl eða bara drullast gangandi heim. Fórnarkostnaður við svona athæfi er þvílíkur að það ætti að vera óhugsandi að slíkt endurtaki sig en það hefur nú samt gerst. Hvílík heimska. Ég sagði bara að mikið hefðu þau verið heppin að vera í rúmunum sínum þegar fullur ökumaður var á ferðinni hérna alveg við götuna okkar.  Þau sögðu líka að mikið hefði ég verið heppin að geta sofið því hávaðinn sem orsakaðist af höggi bílsins við ljósastaurinn hefði verið voðalegur og svo sírenuvælið hjá lögreglunni sem bættist við stuttu síðar.

 

Laugardagur núna, ætli maður kíki ekki á mannlífið í miðbænum aðeins í kvöld og keyri svo heim ódrukkin as usally, ómögulegt að vera að keyra niður fleiri ljósastaura hérna í grenndinni meira.

 

Ný ríkisstjórn

Þingvallastjórn heitir víst nýja ríkisstjórnin okkar, til hamingju með hana.

 

Þegar ég flutti frumvarpið um viðurkenningu á táknmáli síðast á þingi þá var það þverpólitískt, þ.e. þingmenn allra flokka voru meðflutningsmenn þess og í ræðum allra fór ekki á milli mála að málið hafði mikinn stuðning, bæði stjórnarandstöðu og stjórnliða.  

 

Að sama skapi langar mig að vita hvert stefnan verður sett á bætt upplýsingaraðgengi eins og textun á innlent sjónvarpsefni.

Verður  einhver hreyfing verði á þessum tveim málum í Þingvallastjórn?  

 

Fjör

Nú er svo sannarlega fjör í stjórnarmyndunarviðræðum.  Sykursætar fréttir gærdagsins voru að ríkisstjórnin féll.  Ég sagði bara “loksins” í huganum þegar ég sá fréttina á netinu með hönd undir kinn.  Eiginlega mesta furða að það skyldi ekki bara hafa gerst strax eftir kjördag.  En svona er það víst þegar sumir eru meiri afneitun en aðrir.   Geir er víst búin að sækja um til forsetans umboð til stjórnarmyndunar og hann ætlar víst að búa til ríkisstjórn með fulltingi Samfylkingarinnar.  En svo eru aðrir líka að reyna við Samfylkinguna þannig að það er bara fyrir Samfylkinguna að sjá hver býður best.  Hvernig þetta endar kemur vonandi í ljós um helgina. 

 

Hér er bara rólegt enn sem komið er, ég er víst ekki lengur varaþingmaður.  Það er afleitt og ég er sennilega sú síðasta sem fengi einhvern bitling eða hvað þá bútung.  Enn er langt í að ég komist á ellilífeyrinn svo það er enn von fyrir mig að fá að stíga í ræðupúltið á Alþingi, hver veit. Það koma aðrar kosningar eftir þessar. En á meðan vantar frambærilega konu hérna vinnu, ef þið vitið um eitthvað þá má alveg benda á mig, þarf ekkert endilega að vera bitlingur eða bútungur. Ég er dugleg í velflest sem hefur með pappírsvinnu og tölvuvinnslu að gera og er útstjórnarsöm að finna út hvað gott sé hægt að gera úr hlutum.  Áhugasamir hafi bara samband. Hef bíl til umráða og er stundvís með einsdæmum svo fátt eitt sé nefnt af því góða sem mig prýðir.  

 

Brúðkaup á morgun hjá mér, ung vinkona mín er að fara að gifta sig.  Ég hlakka til að sjá hana ganga ganga eftir kirkjugólfinu geislandi af hamingju, með mildan sætan svip á andlitinu algjör andstæða þess svips sem ég hitti hana fyrst, þá var hún 4 ára ákveðin lítil stúlka sem vildi fá alla athyglina og fékk, svo skemmtileg var hún og er enn.   


Sletta

Blessuð blíðan barasta.  Helgin að baki og úrslitin nokkuð ljós.  Stjórnarmyndunarviðræður sennilega á fullu núna, allavega var sagt að það ætti að gefa þeim nokkra daga.  Spennandi verður að sjá útkomuna, ég get alveg sagt að ég vilji ekkert með Framsókn hafa í ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum.  Komi svo upp þá fær sá flokkur bara að vera með út á samúðina að hafa misst formanninn, iðnaðar- og viðskiptaráðherrann og umhverfisráðherrann út.  Tæpt var í langan tíma í talningu hvort heilbrigðisráðherrann kæmist inn.  Það munaði litlu og það í stærsta kjördæminu.  Framsókn missti 6% fylgi.  Það væri ansi einsleit ríkisstjórn ef sama kemur aftur, vona að þannig dæmi verði ekki slett á okkur aftur.

 

Annars bara allt í fínasta hérna hinum megin. Dagurinn bara búin að vera rólegur, tiltektir hér og þar á heimilinu, þvottur og allt það.  Langur göngutúr í Kópavogi í kvöld .  Við erum nokkrar vinkonurnar sem hittumst og göngum einu sinni í viku saman og höfum bara gaman að. Ætli það verði ekki mikið spjallað um kosningarúrslitin og svo er bara ferð í heita pottinn eftir á. 

En svona aðeins að daglega lífinu með sínu tuði.  Ég fór í síðustu viku á kaffihús eitt á Laugaveginum.  Stundum er ég svolítið vanaföst á hvað ég fæ mér og þessi ferð var svolítið merkileg fyrir þær sakir að mikið hefur verið rætt um verðlagningu á veitingarhúsum/kaffihúsum eftir matarskattslækkunina.  Það hefur lítið verið rætt um skammtastærðina og á henni lenti ég illalega á.  Mig minnir að í desember sl. hafi ég farið á þetta sama kaffihús og þá fékk ég mér brauð með reyktum laxi og piparrótarrjóma eins og stóð í matseðlinum.  Notað var baguettebrauð, svona ca 12 cm bútur skorin af brauðinu og það skorið í tvennt.  Lax og piparrótarrjómi settur á brauðsneiðarnar, svona var þetta allavega í desember.  Þetta kostaði 850 krónur.  Núna í síðustu viku fór ég þangað aftur og pantaði sama og síðast.  Núna fékk ég bara einn hlutann af 12 cm bút úr baguettibrauðinu.  Bara neðri hlutann ekki efri.  Skiljið þið.  Ekki nóg með það heldur var enginn  piparrótarrjómi á brauðinu bara mæjónessletta, mér tókst með naumindum að gera athugsemd við að piparrótarrjómann vantaði, það stóð allavega í matseðlinum, stúlkan fór með brauðið og kom aftur eftir stutta stund, sú var ekkert að búa til nýtt, heldur skafði hún mæjónesið af og smurði piparrótarmauki beint úr krukkunni á og setti svo sýrðan rjóma ofan á, grænmetisbleyðu til að fela mistökin og laxinn ofan á.  850 krónur kostaði þetta.  Hneyksl.


Það tókst!

Fimm sekúnda vald kjósenda í kjörklefanum skilaði sér ágætlega.  Felldi stjórnarmeirihlutann, hafnaði formanni Framsóknarflokksins sem líka er viðskipta-og iðnaðarráðherra og að sama skapi komst umhverfisráðherra þeirra ekki inn.   Kjósendur vilja aðra mynd á umhverfistengdu málin en stefna Framsóknarflokksins segir til um “Árangur áfram – ekkert stopp!”.  Ekki get ég samt sagt að ég sé voðalega lukkuleg með kosningarúrslitin, minn flokkur kom engum þingmanni að og ég lít ekki á atkvæði honum gefið sem ónýtt atkvæði, það hafði sitt að segja með endanlega útkomu kosningana, að fella núverandi valdhafa. Við ætlum ekkert að pakka og kveðja.  Frekar munum við minna á umhverfistengdu málin sem og önnur mál utanþings og halda í heiðri það sem við höfum staðið fyrir í stefnu Íslandshreyfingarinnar – lifandi land. 

Fyrir mitt leyti langar mig að þakka fyrir kosningarbaráttuna og öllum þeim móttökum sem minn flokkur fékk.  Við erum komin til að vera og bara rétt að byrja.  

 

Kjördagur

Nú flykkist fólk á kjörstaði og fer að nota sér það vald sem því hefur verið gefið að velja hverjir stjórna landinu eftir þennan dag til næsta kjördags, sem samkvæmt bókinni verður eftir fjögur ár. 

Það er góð grein hérna til að renna aðeins yfir og íhuga það vald sem maður hefur þegar inn í kjörklefann er komið. 

Það er opið og heitt á könnuni á kosningarmiðstöðum x-Í í dag, Víking -Hótel í Hafnarfirði og í Kirkjuhvoli. 

Kosningarvaka verður í kvöld á Hótel Borg.

Því miður er ekki túlkur þar í kvöld, þrátt fyrir að ég hafi pantað túlkinn fyrir um 5 vikum síðan og ítrekaðar tilraunir og allir eru velkomnir þrátt fyrir það.  Fullt af góðu fólki að segja frá hver úrslitin eru.  Þorgerður Katrín veit af þessu, ég skrifaði henni bréf og sýndi henni þetta örlitla dæmi um hvernig stöðu hún er búin að koma upplýsingaraðgengi í, í fyrsta lagi með því að skylda RÚV ekkert að gegna almannaþjónstuhlutverki sínu til ítrasta við að upplýsa um talningu atkvæða og svo vildi hún ekki viðurkenna réttindi heyrnarlausra á forsendum táknmálsins.  Miklu er kostað til að gera þetta kosningarvökur sjónvarpstöðva sem hátæknilegastar en engu er kostað til að aðgengi allra landsmanna að þeim hátæknilegum upplýsingum sé náð, enginn texti eða túlkun.

En annars gleðilegan kjördag!


Kjósum rétt

LogoNú á síðustu sentímetrum kosningarbaráttunnar finnst mér að allir eigi að hafa það í huga að það verður kosið um framtíðina. Við getum skoðað fortíðina aðeins lítillega og það þarf ekki langan tíma til að sjá að þetta kjörtímabil sem nú er að enda hefur logað í deilum og óánægju meginþorra þjóðarinnar með núverandi valdhafa sem við eigum að stefna að á morgun í kjörklefanum að kveðja og leyfum þeim að vera hinum megin borðsins, það er sannarlega komin tími til að skipta um stjórn. Syndalistinn er orðin langur, ef ég ætti að setja fimm atriði sem ég er óánægðust með þá myndi hann líta út svona:

Innrásin í Írak

Stóriðjustefnan

Kárahnjúkar

Eftirlaunafrumvarpið

Öryrkjadómurinn 

En þegar maður er nú einu sinni byrjaður að telja upp þá getur maður ekki hætt svo best er að bæta við sem flestu:

 Einkavinavæðing bankanna

Baugsmálið

Fjölmiðlamálið

Þjóðlendumálið

Falun Gong

Byrgismálið

Klíkuráðningar

,,Sætasta stelpan á ballinu”

,,Jafnréttislögin eru barn síns tíma"

Matvælaverðið

Lyfjaverðið

Vextirnir

Vörugjöldin

Stimpilgjöldin

Bruðlið í utanríkisþjónustunni

Sovéskt landbúnaðarkerfi

5000 fátæk börn

400 eldri borgarar á biðlista

170 börn á biðlista hjá BUGL

8.500 börn án tannlæknis í 3 ár

Ríkisjarðir til flokksgæðinga

Launaleynd

Tekjuskerðing hinna lægst launuðu

Einkavinavæðing

Útsala auðlinda þjóðarinnar

Árni Johnsen

Jónína umhverfisráðherra

Listinn er ekki tæmandi en af öllu sem ég er ósáttust við er að 6 tækifærum til að bæta upplýsingaraðgengi landsmanna var hafnað af núverandi valdhöfum eftir langa baráttu heyrnarlausra að táknmálið væri viðurkennt og réttindi táknmálsnotenda á forsendum táknmálsins tryggð í lögum sem og textun á innlent sjónvarpsefni.  

Nú er tími og nú er lag að við kjósendur gefum fallegum raunsæum hugsjónum um framtíð lands okkar og næstu kynslóða tækifæri til að blómstra, sýna sig og sanna meira í verki en orði.  Gefum nýju stjórnmálaafli tækifæri til að láta ljós sitt skína næstu fjögur árin.  Stysta leiðin til að fella ríkisstjórnina er að kjósa Íslandshreyfinguna –lifandi land.

Kjósum x-Í


Jarðrask

Það var komið að máli við mig í dag útaf skrifum mínum og gerð athugasemd um aðgengi hjólastóla á ferðamannastöðum í síðasta pistli.  Í stuttu máli var mér sagt að stjórnvöld telja það mikið jarðrask að vera að búa til sérstakt aðgengi fyrir hjólastóla á ferðamannastöðum, dýrmætum náttúrperlum sem ekki mætti hrófla við, slíkt sé dýrt og mjög neikvætt hvað arðsemi varðar, fatlaðir ferðamenn myndu engu skila.  Ég át bara eftir honum, “ha, jarðrask?”  og var fljót að spyrja á móti hvað Kárahnjúkaverkefnið væri þá? Það eru fordómafullar staðhæfingar að segja að aðgengi fatlaðra að ferðamannastöðum séu jarðrask.  Höfum við ekki nóg af hugvitsömum verkfræðingum, landslagsarkitektum til að koma þessu á svo fatlaðir búi við sama borð og aðrir ferðamenn hvað aðgengi að ferðamannastöðum varðar. 

 

En annars er hérna hægt að sjá auglýsingar Íslandshreyfingarinnar og það með texta. 

Hér er líka áhugavert myndband.

 

Ég er búin að kjósa Eirík í Evróvision.

 

Þá er bara að skella sér í næstu kosningu á laugardaginn og mæli ég með x-Í, fyrir framtíðina. 


Efling atvinnulífisins

Efling atvinnulífsins er Íslandshreyfingunni – lifandi land  hugleikið, því við viljum fjölbreytt, framsækið, skapandi og réttlátt samfélag. Samfélag þar sem frelsi einstaklingsins, samábyrgð, menntun og sjálfbærni tryggja lífsgæði fólksins.   Meðal annars er þetta sem við leggjum til er að: 

Ísland í fremstu röð frumkvöðla og nýsköpunar
Efnahagsleg velgengni ólíkra svæða í heiminum ræðst nú af frjórri hugsun, frumkvöðlastarfi og nýsköpun.  Eitt mikilvægasta verkefni samtímans er að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf sem meðal annars getur nýtt sér auknar kröfur um sérhæfða þjónustu og vaxandi umhverfisvitund í heiminum. Þar getur Ísland skipað sér í fremstu röð.

Breyta þarf sjávarútvegsstefnunni
Handfærabátar,allt að 6 tonn, fái frjálsan aðgang að fiskimiðunum.
Skapa þarf betri grundvöll fyrir vistvænar veiðar sem krefjast minni orkunotkunar og gagnast hinum dreifðu byggðum landsins. Bæði verði tekið mið af uppbyggingu í greininni á undanförnum árum og byggðaþróun í landinu.

Ferðaþjónusta í fremstu röð
Ferðaþjónustan er ein af styrkustu stoðum íslensk atvinnulífs en hefur notið lítils skilnings stjórnvalda.  Nauðsynlegt er að landnýtingaráætlanir verði gerðar með hagsmuni ferðaþjónustunnar í huga og aðgengi að ferðamannastöðum verði stórbætt. 

Skattar hagstæðir atvinnulífi og umhverfi

Skattar eiga vera sem hagstæðir fyrirtækjum og umhverfinu. Einfalda skal regluverk og eftirlitskerfi og lækka kostnað kringum stofnun fyrirtækja og rekstur. Efla þarf upplýsingagjöf til nýrra fyrirtækja. 
Skattkerfið hvetji fyrirtæki til að styðja við menntun, listir, menningu og góðgerðastarfsemi.

Umhverfisvitund skapar ný sóknarfæri
Vaxandi umhverfisvitund færir atvinnulífinu sóknarfæri til nýsköpunar og nýrra markaða.  Þróun hugbúnaðar og tækja til orkusparnaðar, nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi og hágæðaferðaþjónusta eru nokkur dæmi um slík tækifæri. Rannsóknir og vísindastarf á sviði orkunýtingar og umhverfismála búa yfir miklum möguleikum vegna sérstöðu landsins.

Eitt atvinnumálaráðuneyti

Mismunun atvinnuvega og sértæk atvinnumálaráðuneyti eru tímaskekkja.
Iðnaðar-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti má sameina í eitt atvinnumálaráðuneyti sem vinnur að því að skapa hagstæð almenn skilyrði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi

Ég hef lengi barist fyrir textun á innlent sjónvarpsefni.  Það er rétt að nefna það að textun er atvinnuskapandi tækifæri og myndi gefa fötluðum/öryrkjum færi á að vinna við innsetningu texta.  Ég veit að til dæmis í Bretlandi þar sem innlent sjónvarpsefni þar er textað í meira en 90% tilvika, allavega hjá BBC hafa blindir unnið við innsetningu textans, þeir eru sagðir liprir á lyklaborðinu og nema hljóðið vel.  Þessu hefur ekki verið sinnt neitt að ráði, jafnvel fólk í hjólastólum gæti séð sóknarfæri í atvinnumöguleikum sínum við þetta.  Öryrkjar og fatlaðir fara síður í vinnu sem krefst líkamlegs erfiði eins og í áliðnaði eða við stóriðjuframkvæmdir. Sem sagt vinnuframlag fatlaðra getur haft áhrif á aðgengi annars fötlunarhóps, í þessu tilfelli heyrnarfatlaðs hóps.  Svona hugsun hefur ekki verið almennilega komið á í verklag ráðuneytanna að nota starfskrafta fatlaðra og virkja þá, hafa hvata til þess að þeir skapi sér störf eftir hæfni og getu. 

Að öðru er hér líka í stefnunni nefnt að ferðaþjónustan verði sett í fremstu röð.  Tölur um fjölda ferðamanna hingað slaga hátt í 400.000 á ári núna og hver ferðamaður gefur af sér 98 þúsund krónur eftir veru hérna.   Það er hægt að gera betur og fá fleiri.  Það er jafnvel hægt að hugsa sóknarfæri í ferðaþjónustunni með því að gera landið og ferðaþjónustuna aðgengilegra fötluðum ferðamönnum.  Ég veit ekki um ykkur en þegar ég hef farið erlendis þá finnst mér ég sjá oftar og fleiri hjólastóla og fatlaða á ferðamannastöðum heldur en hérlendis.  Staðir sem gerðir hafa verið aðgengilegir hjólastólum eru til að mynda Þingvellir og Geysissvæðið. Ekki veit ég af fleiri stöðum, en veit þó að vinna við þetta hefur tekið langan tíma í umhverfisráðuneytinu og var þar starfandi nefnd sem ætlað var að sinna þessum málum.  Ég man eftir hóp af daufblindum (heyrnarlaus/blindur) sem kom hingað til landsins fyrir nokkrum árum og upplifðu þau sig stórkostlega í íslensku landslagi.  Í Bláa Lóninu til dæmis gátu þau fundið fyrir öllum náttúruundrum bara með snertingunni einni saman.  Sumir skynja hlutina nefnilega öðruvísi en aðrir og þarf að taka tillit til þeirra þátta í eflingu ferðaþjónustunnar. 

Talandi um atvinnumál, þá fann ég svolitla klausu sem kannski er rétt að rifja upp þegar kemur að atvinnumálum fatlaðra.  Þar segir:

 Árið 2003 leituðu 293 fatlaðir einstaklingar til Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins. Af þeim hópi voru flestir, eða 259 einstaklingar, með 75% örorkumat. Úr þessum hópi voru 32 ráðningar á vernduðum vinnustöðum, s.s. í Múlalundi SÍBS, Örva í Kópavogi, á vinnustofu Öryrkjabandalags Íslands í Hátúni, hjá Blindravinnufélaginu, Bergiðjunni og Ási. Alls voru 75 ráðningar á almennum vinnumarkaði. Flestar ráðningar á almennum vinnumarkaði voru hjá Reykjavíkurborg, eða 57, og var þar bæði um að ræða tímabundin sumarstörf og langtímastörf. Næstflestar ráðningar voru í hópi hlutafélaga, einkafélaga og félagasamtaka eða þrettán, en aðeins fjórar ráðningar voru hjá ríkinu (Ríkið ekki að standa sig). Samtals drógu 62 umsókn sína til baka og liggja ýmsar ástæður þar að baki eins og flutningur eða að fólk hafi sjálft útvegað sér vinnu.”

Hvernig ætli staðan sé núna?  Var ekki einhver að kvarta yfir fjölgun öryrkja á kjörtímabilinu?  Minnir að það hafi verið sá sami sem réð minnst af fötluðum í sérstöku átaki árið 2003.

Fjölmenning er öllum samfélögum mikilvæg.  Það er fjölmenning hvers konar sem mótar samfélagið og passar upp á að ekkert einhæft sé.  Í fjölmenningarsamfélagi verður að passa að enginn sé minni maður en sá næsti.  Íslandshreyfingin – lifandi land vill að jafnræði allra þegna landsins verði tryggt, svo þeir fá að njóta sín í daglegu lífi og starfi sínu.  Atvinnumál fatlaðra verða tekin með í dæmið þegar kemur að því að efla störf og skapa fjölbreytni sem þarf til þess að fjölmenningin dafni sem mest og skili sér í bættum efnahag landsins.

www.islandshreyfingin.is    x-Í á kjördag!

Vorþing

Íslandshreyfingin - lifandi land heldur vorþing sitt sunnudaginn 6. maí kl. 15–18.  Táknmálstúlkur verður á staðnum.

Þingið verður haldið í Iðnó undir nafninu: Gerum gæfumuninn! Ósk Vilhjálmsdóttir og Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar, munu ávarpa þingið og Margrét Sverrisdóttir varaformaður Íslandshreyfingarinnar, mun kynna stjórnmálaályktun hennar. Þá mun Andri Snær Magnason rithöfundur velta því fyrir sér hvort Íslendingar séu þjóð í vondum félagsskap og Katrín Ólafsdóttir, lektor viðskiptafræðideildar Háskólans í Reykjavík, mun fjalla um hugmyndir um það hvernig lægri skattar geta hækkað heildartekjur ríkissjóðs. Tónlist, söngur og glatt á hjalla.  Áhugasömum stuðningsmönnum velkomið að koma.

www.islandshreyfingin.is


 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband