Efling atvinnulífisins

Efling atvinnulífsins er Íslandshreyfingunni – lifandi land  hugleikið, því við viljum fjölbreytt, framsækið, skapandi og réttlátt samfélag. Samfélag þar sem frelsi einstaklingsins, samábyrgð, menntun og sjálfbærni tryggja lífsgæði fólksins.   Meðal annars er þetta sem við leggjum til er að: 

Ísland í fremstu röð frumkvöðla og nýsköpunar
Efnahagsleg velgengni ólíkra svæða í heiminum ræðst nú af frjórri hugsun, frumkvöðlastarfi og nýsköpun.  Eitt mikilvægasta verkefni samtímans er að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf sem meðal annars getur nýtt sér auknar kröfur um sérhæfða þjónustu og vaxandi umhverfisvitund í heiminum. Þar getur Ísland skipað sér í fremstu röð.

Breyta þarf sjávarútvegsstefnunni
Handfærabátar,allt að 6 tonn, fái frjálsan aðgang að fiskimiðunum.
Skapa þarf betri grundvöll fyrir vistvænar veiðar sem krefjast minni orkunotkunar og gagnast hinum dreifðu byggðum landsins. Bæði verði tekið mið af uppbyggingu í greininni á undanförnum árum og byggðaþróun í landinu.

Ferðaþjónusta í fremstu röð
Ferðaþjónustan er ein af styrkustu stoðum íslensk atvinnulífs en hefur notið lítils skilnings stjórnvalda.  Nauðsynlegt er að landnýtingaráætlanir verði gerðar með hagsmuni ferðaþjónustunnar í huga og aðgengi að ferðamannastöðum verði stórbætt. 

Skattar hagstæðir atvinnulífi og umhverfi

Skattar eiga vera sem hagstæðir fyrirtækjum og umhverfinu. Einfalda skal regluverk og eftirlitskerfi og lækka kostnað kringum stofnun fyrirtækja og rekstur. Efla þarf upplýsingagjöf til nýrra fyrirtækja. 
Skattkerfið hvetji fyrirtæki til að styðja við menntun, listir, menningu og góðgerðastarfsemi.

Umhverfisvitund skapar ný sóknarfæri
Vaxandi umhverfisvitund færir atvinnulífinu sóknarfæri til nýsköpunar og nýrra markaða.  Þróun hugbúnaðar og tækja til orkusparnaðar, nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi og hágæðaferðaþjónusta eru nokkur dæmi um slík tækifæri. Rannsóknir og vísindastarf á sviði orkunýtingar og umhverfismála búa yfir miklum möguleikum vegna sérstöðu landsins.

Eitt atvinnumálaráðuneyti

Mismunun atvinnuvega og sértæk atvinnumálaráðuneyti eru tímaskekkja.
Iðnaðar-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti má sameina í eitt atvinnumálaráðuneyti sem vinnur að því að skapa hagstæð almenn skilyrði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi

Ég hef lengi barist fyrir textun á innlent sjónvarpsefni.  Það er rétt að nefna það að textun er atvinnuskapandi tækifæri og myndi gefa fötluðum/öryrkjum færi á að vinna við innsetningu texta.  Ég veit að til dæmis í Bretlandi þar sem innlent sjónvarpsefni þar er textað í meira en 90% tilvika, allavega hjá BBC hafa blindir unnið við innsetningu textans, þeir eru sagðir liprir á lyklaborðinu og nema hljóðið vel.  Þessu hefur ekki verið sinnt neitt að ráði, jafnvel fólk í hjólastólum gæti séð sóknarfæri í atvinnumöguleikum sínum við þetta.  Öryrkjar og fatlaðir fara síður í vinnu sem krefst líkamlegs erfiði eins og í áliðnaði eða við stóriðjuframkvæmdir. Sem sagt vinnuframlag fatlaðra getur haft áhrif á aðgengi annars fötlunarhóps, í þessu tilfelli heyrnarfatlaðs hóps.  Svona hugsun hefur ekki verið almennilega komið á í verklag ráðuneytanna að nota starfskrafta fatlaðra og virkja þá, hafa hvata til þess að þeir skapi sér störf eftir hæfni og getu. 

Að öðru er hér líka í stefnunni nefnt að ferðaþjónustan verði sett í fremstu röð.  Tölur um fjölda ferðamanna hingað slaga hátt í 400.000 á ári núna og hver ferðamaður gefur af sér 98 þúsund krónur eftir veru hérna.   Það er hægt að gera betur og fá fleiri.  Það er jafnvel hægt að hugsa sóknarfæri í ferðaþjónustunni með því að gera landið og ferðaþjónustuna aðgengilegra fötluðum ferðamönnum.  Ég veit ekki um ykkur en þegar ég hef farið erlendis þá finnst mér ég sjá oftar og fleiri hjólastóla og fatlaða á ferðamannastöðum heldur en hérlendis.  Staðir sem gerðir hafa verið aðgengilegir hjólastólum eru til að mynda Þingvellir og Geysissvæðið. Ekki veit ég af fleiri stöðum, en veit þó að vinna við þetta hefur tekið langan tíma í umhverfisráðuneytinu og var þar starfandi nefnd sem ætlað var að sinna þessum málum.  Ég man eftir hóp af daufblindum (heyrnarlaus/blindur) sem kom hingað til landsins fyrir nokkrum árum og upplifðu þau sig stórkostlega í íslensku landslagi.  Í Bláa Lóninu til dæmis gátu þau fundið fyrir öllum náttúruundrum bara með snertingunni einni saman.  Sumir skynja hlutina nefnilega öðruvísi en aðrir og þarf að taka tillit til þeirra þátta í eflingu ferðaþjónustunnar. 

Talandi um atvinnumál, þá fann ég svolitla klausu sem kannski er rétt að rifja upp þegar kemur að atvinnumálum fatlaðra.  Þar segir:

 Árið 2003 leituðu 293 fatlaðir einstaklingar til Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins. Af þeim hópi voru flestir, eða 259 einstaklingar, með 75% örorkumat. Úr þessum hópi voru 32 ráðningar á vernduðum vinnustöðum, s.s. í Múlalundi SÍBS, Örva í Kópavogi, á vinnustofu Öryrkjabandalags Íslands í Hátúni, hjá Blindravinnufélaginu, Bergiðjunni og Ási. Alls voru 75 ráðningar á almennum vinnumarkaði. Flestar ráðningar á almennum vinnumarkaði voru hjá Reykjavíkurborg, eða 57, og var þar bæði um að ræða tímabundin sumarstörf og langtímastörf. Næstflestar ráðningar voru í hópi hlutafélaga, einkafélaga og félagasamtaka eða þrettán, en aðeins fjórar ráðningar voru hjá ríkinu (Ríkið ekki að standa sig). Samtals drógu 62 umsókn sína til baka og liggja ýmsar ástæður þar að baki eins og flutningur eða að fólk hafi sjálft útvegað sér vinnu.”

Hvernig ætli staðan sé núna?  Var ekki einhver að kvarta yfir fjölgun öryrkja á kjörtímabilinu?  Minnir að það hafi verið sá sami sem réð minnst af fötluðum í sérstöku átaki árið 2003.

Fjölmenning er öllum samfélögum mikilvæg.  Það er fjölmenning hvers konar sem mótar samfélagið og passar upp á að ekkert einhæft sé.  Í fjölmenningarsamfélagi verður að passa að enginn sé minni maður en sá næsti.  Íslandshreyfingin – lifandi land vill að jafnræði allra þegna landsins verði tryggt, svo þeir fá að njóta sín í daglegu lífi og starfi sínu.  Atvinnumál fatlaðra verða tekin með í dæmið þegar kemur að því að efla störf og skapa fjölbreytni sem þarf til þess að fjölmenningin dafni sem mest og skili sér í bættum efnahag landsins.

www.islandshreyfingin.is    x-Í á kjördag!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband