Sletta

Blessuð blíðan barasta.  Helgin að baki og úrslitin nokkuð ljós.  Stjórnarmyndunarviðræður sennilega á fullu núna, allavega var sagt að það ætti að gefa þeim nokkra daga.  Spennandi verður að sjá útkomuna, ég get alveg sagt að ég vilji ekkert með Framsókn hafa í ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum.  Komi svo upp þá fær sá flokkur bara að vera með út á samúðina að hafa misst formanninn, iðnaðar- og viðskiptaráðherrann og umhverfisráðherrann út.  Tæpt var í langan tíma í talningu hvort heilbrigðisráðherrann kæmist inn.  Það munaði litlu og það í stærsta kjördæminu.  Framsókn missti 6% fylgi.  Það væri ansi einsleit ríkisstjórn ef sama kemur aftur, vona að þannig dæmi verði ekki slett á okkur aftur.

 

Annars bara allt í fínasta hérna hinum megin. Dagurinn bara búin að vera rólegur, tiltektir hér og þar á heimilinu, þvottur og allt það.  Langur göngutúr í Kópavogi í kvöld .  Við erum nokkrar vinkonurnar sem hittumst og göngum einu sinni í viku saman og höfum bara gaman að. Ætli það verði ekki mikið spjallað um kosningarúrslitin og svo er bara ferð í heita pottinn eftir á. 

En svona aðeins að daglega lífinu með sínu tuði.  Ég fór í síðustu viku á kaffihús eitt á Laugaveginum.  Stundum er ég svolítið vanaföst á hvað ég fæ mér og þessi ferð var svolítið merkileg fyrir þær sakir að mikið hefur verið rætt um verðlagningu á veitingarhúsum/kaffihúsum eftir matarskattslækkunina.  Það hefur lítið verið rætt um skammtastærðina og á henni lenti ég illalega á.  Mig minnir að í desember sl. hafi ég farið á þetta sama kaffihús og þá fékk ég mér brauð með reyktum laxi og piparrótarrjóma eins og stóð í matseðlinum.  Notað var baguettebrauð, svona ca 12 cm bútur skorin af brauðinu og það skorið í tvennt.  Lax og piparrótarrjómi settur á brauðsneiðarnar, svona var þetta allavega í desember.  Þetta kostaði 850 krónur.  Núna í síðustu viku fór ég þangað aftur og pantaði sama og síðast.  Núna fékk ég bara einn hlutann af 12 cm bút úr baguettibrauðinu.  Bara neðri hlutann ekki efri.  Skiljið þið.  Ekki nóg með það heldur var enginn  piparrótarrjómi á brauðinu bara mæjónessletta, mér tókst með naumindum að gera athugsemd við að piparrótarrjómann vantaði, það stóð allavega í matseðlinum, stúlkan fór með brauðið og kom aftur eftir stutta stund, sú var ekkert að búa til nýtt, heldur skafði hún mæjónesið af og smurði piparrótarmauki beint úr krukkunni á og setti svo sýrðan rjóma ofan á, grænmetisbleyðu til að fela mistökin og laxinn ofan á.  850 krónur kostaði þetta.  Hneyksl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Svavarsson

Alveg Makalaust, svona veitingastaðir koma óorði á veitingastaði og fæla fólk frá, gaman væri að vita hvað þetta kaffihús heitir? Ég hefði bara sagt Takk fyrir mig ég læt ekki bjóða mér þetta og gengið út! Því það er ekki sjálfsagt að bjóða eitt og selja annað. kær kveðja Jón

Jón Svavarsson, 18.5.2007 kl. 03:01

2 Smámynd: Jón Svavarsson

ps. Fín nýja myndin af þér!

Jón Svavarsson, 18.5.2007 kl. 03:01

3 Smámynd: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

takk ;)

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 18.5.2007 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband