Færsluflokkur: Bloggar

Svona er það nú...

Í dag fór ég á framboðsfund í Samtökunum 78, fínn fundur skal bara segjast og alltaf gaman að fara á fundi þar sem maður er frekar fræddur um hlutina samtímis því sem maður er að fræða aðra um hvað maður vill gera í þeirra málum sérstaklega minnihlutahópanna.  Það sem vakti athygli mína og annara frambjóðanda var að fulltrúi Mannréttindaskrifstofu var þarna á staðnum og sagði okkur frá vanda transgender fólks, þ.e. fólks sem hefur farið í kynskiptiaðgerð.  Fólkið þarf að búa við það að vera vitlaust kynskráð í kerfinu í allt að tvö ár eftir aðgerð.  Til dæmis er enn skráð fyrra kyns nafn í kerfinu til dæmis í vegabréf er karl skráður karl eftir að hafa farið í kynskiptiaðgerð og orðið kona í tvö ár.   Í Bretlandi eru til lög um þetta sem virka um leið og þegar búið er að fara í kynskiptiaðgerðina þá breytist allt samstundist í kerfinu, nafn og kyn.  Þessu þarf að huga að hérlendis. Eftir mánuð kemur út niðurstaða rannsóknar sem Mannréttindaskrifstofa hefur gert um þetta vandamál.   Annars var mest rætt um að samkynhneigðir fengu að fá blessun síns trúfélags við giftingu.  Það er auðvitað sjálfsagt mál, allavega finnst það öllum nema kannski nokkrum prestum.  Mér finnst sjálfsagt mál að fólk fái að gifta sig sama hversu kynhneigð það hefur í því trúfélagi sem það hefur aðhyllst eða öllu heldur meðtekið frá unga aldri.  Þetta er sjálfsagt mannréttindamál.

 

Ég hef farið á nokkra fundi undanfarið.   Á einum fundi sem ég fór kom upp umræða um eftirlaunafrumvarpið og það óréttlæti sem af því er, fólk er kannski ekki alveg að skilja muninn á því og almennum lífeyrislögum.  Það má í stuttu máli segja að munurinn felst í því að lífeyrisréttindi eftirlaunafrumvarpsins vaxa á ógnarhraða miðað við það sem almennt gerist hjá launafólki.  Enginn tekjutenging er í eftirlaunafrumvarpinu fræga, þannig séð getur sá sem þiggur greiðslur samkvæmt eftirlaunafrumvarpinu getur fengið laun annarstaðar án þess að lífeyrisréttindi hans skerðist að einhverju marki.  Ef almennur lífeyrissjóður verður tómur, þá er hann bara tómur og hinn almenni launamaður sem hefur kannski greitt í sjóðinn allt sitt líf fær þá ekkert meira greitt en samkvæmt eftirlaunafrumvarpinu getur þetta ekki gerst því þá tekur ríkissjóður við og greiðir það sem greiða þarf áfram eins og ekkert hafi ískorist.  Svo það ætti því bara að segja burt með óréttlæti eftirlaunafrumvarpsins. Svo einfalt er það.

 

Nýjasta nýtt...

Í morgun urðu kaflaskil í leiðinni að bættu upplýsingaraðgengi táknmálsnotendum til handa.  Verið velkomin að kynna ykkur málið á heimasíðu Íslandshreyfingarinnar - lifandi land og njótið.

Spurt er

Í dag verður Íslandshreyfingin með Opið hús í Víking hótel í Hafnarfirði, rétt hjá Fjörukránni milli kl. 13-17.  Þar verður eitthvað fyrir alla og heitt á könnunni og meðí.

Og fyrst maður er komin hingað inn þá bara getur maður ekki setið á sér að smella inn nokkrum orðum um textun á innlendu sjónvarpsefni.  Ástæða þess er að í gærkvöldi horfði ég aðeins á tvo fréttamenn yfirheyra Geir H. Haarde formann Sjálfstæðisflokksins.  Ég held ég geti fyrir víst staðfest það án þess að athuga málið neitt frekar að heyrnarlaust/heyrnarskert fólk er eitt stórt spurningarmerki hvað það eigi að kjósa eftir þáttinn.  Neðarlega á skjánum komu spurningarnar sem spurðar voru en enginn svör. Til hvers var verið að setja spurningarnar inn í textaformi ef enginn voru svörin?  

 

 


Endurmat ?

Það er mannréttindabrot að láta börn, fatlaða og venjulegt fólk með tímabundinn sjúkdóm hanga á biðlistum mánuð eftir mánuð eða jafnvel ár eftir ár. Það er eins og þessi umræða kemur fram aftur og aftur í hverri einustu kosningarbaráttu.  Einhverju sinni spurði ég til hvers það væri að hafa fólk á biðlistum og loka heilu deildunum, hverra hagur það væri eiginlega.  Það er vitað mál að það felst engin hagræðing í því að loka deildum og láta þar með biðlistana lengjast enn meira.  Svarið sem ég fékk var á þann veg að það yrði bara að vera svona því annars væri lítið hægt fyrir frambjóðendur að hafa eitthvað um að munnhöggvast við og verja sig í kosningarbaráttunni.  Þetta er ljót hugsun ef sönn er.

 

Á morgun er 1. maí, baráttudagur verkalýðsins fyrir bættum kjörum sínum. Þessi dagur hefur verið viðloðandi við þjóðina undanfarna öld og er kærkomin sem sagt, eiginlega bónus að  tímasetning hans sé í dagatalinu í miðri kosningarbaráttu.  Það þarf hrikalega mikið að bæta kjör öryrkja.  Þeir hafa þurft að rekja mál sín varðandi bætt kjör fyrir dómstólum og uppskorið kannski eitthvað en þegar á heildina litið er hlutir þeirra mjög rýr.  Þeir hafa til að mynda ekki fengið aðaláherslumálum sínum framgengt, s.s. afnám tekjutengingu bóta við maka öryrkja, skattleysismörk hækkuð, frítekjumark hækkað og tekjutenginu afnumda (en allavega eitthvað um það núna í smáum skömmtum). 

Nú eru uppi raddir um að til standi að endurskoða örorkumat – ég er ekki alveg að skilja þetta innlegg en það sem mér hefur verið sagt er að mögulega kæmi þetta þannig út að ef öryrkji er í 100% vinnu þá fær hann enga örorku metna og fellur þar með alveg af lista TR.  Mér finnst þetta arfaslæmur kostur ef satt er, því ég hef alla tíð vitað og allir öryrkjar sennilega líka að það kostar sitt að vera öryrkji þó maður sé í 100% vinnu.  Grunnlífeyrinn á að vera fastur liður (núna er hann 24.831,-  áherslur ÖBÍ hljóða upp á að hann verði tvöfaldaður)  og sú upphæð sem það kostar að vera öryrkji/fatlaður.  Grunnlífeyri má aldrei skerða.  Það finnst mér svo eigi að vera, en sé stefnan hinsvegar að afnema örorkumatið af fólki þá er það hræðilegur sannleikur og slíku verður að mótmæla.  Margir eru með varanlegt örorkumat og meirihluti öryrkja féll inn í það kerfi árið 1999.  Spurning hvort ég þurfi að fara í endurmat á örorku minni á næstunni?  Líka spurning hverjir verða kallaðir inn á teppið í endurmat á örorku sinni, jafnvel þó það sé vitað mál og alveg morgunljóst að fötlunin hver sem hún er breytist ekkert þó maður sé í 100% vinnu. Hverjir munu sjá um að meta örorkumatið?  Það er góð spurning því vitað mál er að læknar TR ná varla að meta allar umsóknir á skikkanlegum tíma og því mun koma á svakalegur biðlisti eftir endurmati. Þá bætist við enn einn biðlistinn.   Þetta væri á ljótan ef satt er, sé svo þá útleggst þessi ákvörðun um endurmat á örorku að útrýma öryrkjum.  Það hefur samt ekki mikið verið fjallað um endurmat á örorku í þessari kosningarbaráttu þannig séð virðist það eiga að ná þessu í gegn án þess svo mikið að fólk geri sér grein fyrir beinum afleiðingum á þessu til langstíma litið.  Þeir sem ætla að koma endurmati á örorku á fót þurfa að útskýra fyrir fólki á venjulegu máli ekki einhverjum frumskógarmáli eins og allt heila almannatryggingarkerfið er í núna um hverjar afleiðingar á hag öryrkja þetta hefur á þá.  Ég tek þessari umræðu samt með fyrirvara og set stórt spurningarmerki við endurmat á örorku?   Eins og öllu sem almannatryggingarkerfið er á meðan það hefur ekki verið einfaldað svo um nemi að almennur skilningur sé á því.


Að míga á...

Ekki vissi ég að karlmenn ættu það sameiginlegt með hundum að míga á bíla, allavega held ég að hundar vandi sig þegar kemur að þessari athöfn, þeir láta bleytuna renna við afturdekkið, þannig að ekkert slettist á lakkið.  Þessa athöfn hjá hundum hef ég séð. En í gærkvöldi varð ég vitni að karlmaður vandar sig ekkert og öll gusan rann á lakkið á mínum bíl. Ég skrapp aðeins með vinkonum mínum á Vínbarinn seint í gærkvöldi, það var fín heimsókn þangað, ein úr liðinu baðaði út höndum þegar við komum að bílnum mínum og orðlaus benti hún á mann sem stóð við bílinn minn, bílstjórahurðarmegin.  Ég gekk að honum og hann var að míga á bílinn minn, gusan fór á hurðina og svart vinylbrettið undir hurðinni, það rauk úr þegar hann sá mig koma öskrandi og hljóp í burtu.  Einföld lýsing á honum er að hann er rauðhærður, með hringlanga gleraugu og í svörtum frakka. Það sem eftir stóð var svekkelsi hjá mér og manni bregður að menn séu virkilega svona óvægnir á eigur annara að þeir míga á þær, hvernig myndi maðurinn sjálfur bregðast við ef einhver migi á bílinn hans eins og hann gerði með minn?  Það fyrsta sem ég gerði í morgun var að fara með bílinn á bílaþvottastöð og sagði ég bílaþvottamanninum sérstaklega að þrífa gusublettinn, hann gerði það svipbrigðalaust eins og það gerist víst daglega að hann þrífur svona gusur af bílnum, hann spúlaði vel með háþrýstidælunni á ljóta blettinn.  Eru einhverjir sérstakir litir á bílum sem trekkja frekar að migið sé á þá?  Annars hélt ég að það væri bannað með lögum að míga á almannafæri.

Ég veit að ég er í kosningarbaráttu og ætti að láta þess ógetið að skrifa um smáborgarháttlag drukkins ungs karlmanns EN mér býður jafnmikið við þessu og að ríkisborgarréttarveitingin sem tengdadóttir umhverfisráðherra fékk nú á dögum eins og frægt er núna. Þetta er hneyksli og fýlan af þessu er jafnyfirdrifinn og rjúkandi hlandlyktin. Sem sagt má álita að migið sé á fleira en bíla.  Svo þar hafið þið ástæðuna fyrir skrifunum.


Gjörningur

Á morgun laugardag 28. apríl kl. 13 verður haldin gjörningur við Tjörnina í Reykjavík “Tökum höndum saman, við þurfum á hvort öðru að halda”.  Hugmyndin að gjörningum á ung kona Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir og markmiðið er að mynda hring í kringum tjörnina í Reykjavík en til þess þarf um 1000 manns. Að taka höndum saman og mynda hring óháð stétt og stöðu, augnlit og útlitsgerð, krefst þess að við horfumst í augu við sjálf okkur, speglum okkur í vatninu og jafnframt horfumst við í augun á náunganum sem við höldumst í hendur við.Við erum jú öll manneskjur, gerð úr sama efninu. Mæli með að allir mæti, allavega ætla ég að mæta.  Þetta atriði er hluti af listahátíð fatlaðra List án landamæra.    

Mér var gefin svolítið merkileg bók nú á dögum.  Svolítið var ég lengi að fatta um hvað þessi bók var.  Bókin er ítölsk og heitir á frummálinu “Supplemento al dizionario italiano”  sem á ensku útleggst  “Supplement to the italian dictionary”  Í bókinni er að finna myndir á annarri hverri síðu af mismunandi handahreyfingum með útskýringum á hinni síðunni.  Miðað við myndirnar hélt ég að þetta væri nokkurskonar táknmálsorðabók en sló þeirri ágiskun fljótt frá því venjulega eru táknmálsorðabækur þykkir doðrantar en þessi er bara í vasabrotsútgáfu og í henni eru myndir af um 50 mismunandi handahreyfingum sem fylgja talaðri ítölsku. Í formála segir að fyrsta handhreyfingabókin í ítölsku máli hafi verið gefin út 1832. Þannig séð hafa handapöt og handahreyfingar ítala ákveðna merkingu hvert fyrir sig og hafa e.t.v. þróast eitthvað.  Ég var að spá aðeins í hvort ekki væri hægt að koma svipaðri bók um handahreyfingar í töluðu íslensku máli en snarhætti við því það yrði svo létt verk sem á endanum yrði kannski bara um fjórblöðungur því engin hefð er fyrir því að íslendingar noti hendurnar nema kannski þegar þeir eru í kosningarbaráttu þá ber hæst að vísifingursbending á þumal hinnar handar sé notuð til að leggja áherslu á hvað sé fyrst og fremst á forgangslista stefnunnar… þetta er það algengasta.  En að öðru leyti eru íslendingar ekki mikið fyrir að taka hendurnar upp dagsdaglega í einhverri umræðu nema kannski ef þörf er á að sýna fingurinn eða segja bless, þá fer lófinn allur á loft.  Íslendingar tala mikið með hendur í vösum, ég hef líka tekið eftir að þegar íslenskir karlmenn hafa drukkið mikið þá hafa þeir mikla tilhneigingu til að tala ofan í hálsmálið á sjálfum sér en það er önnur saga.  Svo nú er bara að sem flestir taki þátt í gjörningum, taki hendur upp úr vösum og haldist í hendur á morgun, tjörnina allt í kring, í einum stórum hring og í miðjunni verður hvað? Það fáið þið að sjá.  



...að eigin vilja

Það er fróðlegt að velta einu fyrir sér í kosningarþáttum sjónvarpsfjölmiðla, þeir hafa sennilega aldrei spurt frambjóðendur um stefnu flokks þeirra að bæta upplýsingaraðgengi sérstaklega textun á innlendu sjónvarpsefni. Viðkvæmt eða eldfimt umræðuefni fyrir þá enda eru það þeir og stjórnendur þeirra sem málið varðar að stórum hluta.  En hafi umræða um þetta efni farið fram í einhverjum af þessum þáttum þá hef ég bara ekki numið það og sennilega sömuleiðis meginþorri þeirra sem upplýsingaraðgengi þáttanna næst ekki til. 

Enn og aftur kem ég að því að vel er hægt að senda út textað efni í beinni útsendingu, það hefur verið gert í mörg ár í Bretlandi til dæmis – allar umræður frá Þinghúsinu í Bretlandi sem sendar eru út beint eru textaðar jafnóðum, og þar er umræða mun snarpari og meira um frammíköll en tíðkast hér á Alþingi sem og kosningarþáttum hérna, öll framíköll koma fram á skjánum, þetta er unnið hraðvirkt.  Fólk hefur valmöguleika á sjónvarpi að sjá textann eða ekki. 

 

En aftur að táknmálstúlkaða formannaþættinum sem ég minntist á í síðasta pistli. Í þessum þætti er oftast litið yfir farin veg í kosningarbaráttunni, minnst á stefnur flokkana í einstökum málum, s.s. heilbrigðis, velferð, mennta, utanríkis, umhverfis og efnahagsmálin.  Sennilega munu innflytjendamálin líka koma við sögu núna í ár og það mál sem brennur helst við á þeirri stundu sem þátturinn er sendur út, svo fá allir formenn svigrúm til að koma með kurteisleg lokaorð til kjósenda og veit ég að allir leggja sig fram í þeim kafla til að höfða sem mest til þeirra óákveðnu, hafa lokaorðin stutt, þægileg og grípandi.  Í þeim þáttum sem ég hef séð (ég hef horft á alla frá upphafi) hefur aldrei verið minnst á viðurkenningu táknmáls eða bætt upplýsingaraðgengi. En annars er þáttastjórnendum alveg velkomið að spyrja um þetta í þættinum, þ.e. efnið höfðar mikið til samvisku og vilja þáttastjórnenda og stjórnenda sjónvarpsstöðvarinnar.  Flókið mál sem sagt en ætti ekki að vera það ef upplýsingaraðgengismál sjónvarpsstöðvanna væru þeim sjálfsögð mál. Textun er jú almannaþjónustuhlutverk rétt eins og hljóðið og sjálfsögð mannréttindi.  Það yrði ágætis tilbreyting.


Minnihluta hafnað

Það verður að segjast eins og er að ég hef fengið athugasemdir út á það frá fleirum eins og sést hér í athugasemdum frá óskráðri Elsu við síðustu færslu mína um Kastljósið og það slaka upplýsingaraðgengi sem þættir sem þessir hafa upp á að bjóða.  Mér finnst það mikið jafnréttis og jafnræðismál fyrir alla þjóðina að hún fái óskert aðgengi af allri þjóðmálaumræðu líðandi stundar.  Móðgun við lýðræðið skal það bara segjast. En þarna er ekki bara á við RÚV að sakast heldur líka Stöð 2.  Þeir gera þessa þætti og tryggja þar með áhorf sitt með þjóðmálaumræðunni, ég bara spyr af hverju mega ekki allir njóta þess sem fram fer þarna í þáttunum sem og umræðunni, þetta er þeirra land og þarna geta þeir viðað að sér valmöguleikum til að kjósa í vor.  Það er lítið lýðræði í þáttunum ef ekki fá allir að njóta þeirra.  Það er engin nýlunda að þörfum minnihluta þessa lands sé sífellt hafnað, sumir mæta afgangi en ég verð bara að segja það að í þessu tilfelli mæta heyrnarskertir/heyrnarlausir landsmenn ekki afgangi heldur nákvæmlega engu þegar kemur að upplýsingaraðgengi þeirra og RÚV á að heita sjónvarp ALLRA landsmanna jafnvel þó það sé opinbert einkahlutafélag, þá hefur það skyldur að gegna.  Fyrir hverjar einustu kosningar þarf þessi minnihluti að minna á sig og hvað uppsker hann?  Einn táknmálstúlkaðan þátt kvöldið fyrir kjördag með formönnum stjórnmálaflokkanna. Það þurfti að knýja fram þennan eina möguleika með hæstaréttardómi nokkrum dögum fyrir kosningar 1999. Sem sagt minnihlutinn hefur bara nokkrar klukkustundir til að ákveða hvað eigi að kjósa meðan aðrir hafa nokkrar vikur til þess og hafa fullan aðgang að umræðunni allan tímann meðan hinir hafa stopulan eða lítinn aðgang.  Fattar þetta virkilega enginn? ekki einu sinni korter fyrir kosningar og ekki einu sinni korter yfir? Hvað þarf mörg kjörtímabil til að eitthvað gerist?  Þetta er pjattrófuháttur á hæstu hæðum.

 

Að sama skapi og hneykslan get ég ekki annað sagt en að öðrum minnihluta hafi líka verið hafnað í dag.  Prestaþing hafnaði tillögu um að samkynhneigðir fengu að gifta sig í kirkju. 


Velferð

Ég fór í Kastljósið í kvöld, þar sat ég borgarafund þess og umræðuefnið var félagsmál, helst var talað um málefni öryrkja og aldraðra eins og þau mál eru núna í vörslu/gíslingu ríkisstjórnarflokkana og hafa verið þannig síðustu 12 eða jafnvel 16 árin.  Það virðist á svörum forsvarsmanna ríkisstjórnarflokkana núna að allt eigi að lagast í þessum málum sbr. stefnu þeirra og svörum, auðvitað! það eru að koma kosningar!   Maður bara spyr af hverju einmitt núna?  Af hverju ekki fyrir 4 árum eða af hverju ekki fyrir 8 árum eða jafnvel 12 árum, það var lag þá og því þá núna, maður getur bara ekki lengur tekið svörum þeirra þegjandi.  Það ætla ég ekki að gera, af því að maður er orðin ansi þreyttur að verða vitni að því að börn, öryrkjar og aldraðir hafa alltaf verið látin mæta afgangi, það hefur verið komið fram við fólkið af óvirðingu í stjórnartíð þeirra, eilíft kvabb og alltaf sífellt verið að skerða allt og raddir þessa hópa hafa verið æ háværari eftir því sem árin hafa liðið.  Hvernig geta þeir sofið vel þegar 200 börn með geðraskanir eru á biðlista BUGL og 3 ára biðlistar eru eftir greiningu og viðtali á Greiningarstöð Ríkisins, bara tvö dæmi sem sýna svart á hvítu að mikið þarf að laga til eftir núverandi valdhafa. Félagsmálaráðherra stærir sig svo af að eiga gott samstarf við forstöðumann Greiningarstöðvarinnar, hvað kemur okkur það við?  Hvað kemur okkur það við að þeim finnst gaman að sitja saman og spjalla í mestu góðvild á meðan fullt af börnum bíður í 3 ár eftir greiningu og það er vitað mál að þau tapa mikið á þessari bið hvað skólagöngu sína varðar, það þarf nefnilega að vera til greining svo skólarnir viti hvernig eigi að haga kennslu fyrir barnið, 3 ára bið eftir greiningu þýðir 3 ára tap í námi og mennirnir sem stjórna sitja saman í mestu góðvild og spjalla, um hvað voru þeir að spjalla allan tímann í þessu “góða samstarfi” sem félagsmálaráðherra þurfti svo endilega að koma frá sér?  

Margrét Sverrisdóttir var svo í þættinum á eftir mér um menntamálin og veit ég að henni gekk vel.

 

Svo fór ég strax eftir Kastljósið á opinn fund ÖBÍ, Þroskahjálpar og Eldri borgara sem haldin var á Grand hóteli um velferðarmálin.  Allir hafa einhverjar lausnir á takteinum og allir vilja setja fremst í forgangsröð sína að gera öryrkjum kleift að fara á vinnumarkaðinn og afnema tekjutengingu (svarið frá xD var samt ansi loðið svo því ber að taka með fyrirvara þegar ég segi “allir”).  Það kom nefnilega í ljós að það er ansi hagkvæmt fyrir ríkissjóð að senda öryrkja og aldraða út á vinnumarkaðinn og hækka skattleysismörkin.  Allir voru líka sammála um að einfalda almannatryggingakerfið enda full þörf á því, hefði það verið gert fyrir löngu væru framboðsfundir sem þessir miklu einfaldari líka.

Skemmtiatriðin í hlénu voru flott og ég mæli sérstaklega fyrir því að xD og xB taki það sem aðalshowið á næstu árshátíð sinni.

En annars núna er ég farin að sofa, ég sef oftast vel og ætla að gera það áfram því ég ætla að koma á sveigjanlegu velferðarkerfi og ég gæti jafnvel þurft að verða velferðarráðherra til þess, stjórnliðar fengu langan tíma að reyna, því mætti ég ekki líka láta reyna á getu mína og hæfni í þessum málum.  Það er ansi mikill hagur fyrir ríkissjóð að láta og leyfa öryrkjum að vinna.


Niðurstöðurnar

Rannsóknarniðurstöður á framleiðnimælingu og ávinningi af aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja sem unninn var af Rannsóknasetri verslunarinnar í samvinnu við Hagfræðistofnun HÍ sýnir að ríkið græðir á afnámi tekjutengingar. Hagnaður ríkissjóðs gæti numið rúmum fjórum milljörðum króna ef 1/3 lífeyrisþega og 10 % öryrkja færu út á vinnumarkaðinn.  Um fréttina á visir.is segir þetta meðal annars um núverandi ástand: “„Mönnum er núna að vissu leyti haldið út af vinnumarkaðnum," segir Sigurður [Jóhannesson hagfræðingur] og bendir á að aldraðir hafi sýnt mikinn áhuga á að vinna en þriðjungur þeirra sem eru á aldrinum 65 til 71 árs, eða um fjögur þúsund manns, geta hugsað sér það samkvæmt niðurstöðum rannsóknar. Hann bendir á að eftirspurnin eftir þessu fólki detti líklega fyrst niður þegar ástandið á vinnumarkaði breytist en þó hafi gamalt fólk jafnvel forskot á aðra í viss störf. „Margir öryrkjar og mikið fatlaðir eru líka harðduglegir í vinnu," segir hann.”  Í sömu frétt segir líka: “Verslunina hefur vantað starfsfólk síðustu ár. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þessir hópar nýtist mjög vel í mörg störf sem ekki séu álagsstörf og telur pólitískan jarðveg til breytinga fyrir hendi. „Ef við horfum til lengri tíma þá liggur fyrir að atvinnulífið þarf á starfskröftum þessa fólks að halda. Við tökum þessari skýrslu mjög fagnandi og lítum jákvæðum augum á allt sem er til þess fallið að virkja starfskrafta þessa fólks lengur en nú er," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.”

Miðað við þessar niðurstöður ættu aldraðir og öryrkjar að vera í startholum til að geta farið að vinna og stjórnvöld ættu sömuleiðis að drattast í það mál að afnema tekjutenginu.  Afnám tekjutengingar er meðal annars hluti af sveigjanlegu velferðarkerfi sem Íslandshreyfingin – lifandi land stendur fyrir, það eykur á samfélagsþátttöku og lífsgæði.  

En annars ælta ég að kynna mér allt efni þessarar rannsóknarskýrslu á næstu dögum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband