Færsluflokkur: Bloggar

Sko...

Hefði ég verið á ferðinni, þá hefði ég ekki ansað blikkljósunum, til hvers eiginlega?  En annars alltaf betra að missa af flugi en að missa vinnuna vegna heimsku.
mbl.is Varðstjóri ákærður fyrir brot í opinberu starfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður textað?

Það er komin nýr fréttastjóri á fréttastofu Stöðvar 2.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig breytingar eða stjórnunarstíl hann mun hafa.  Mér er hinsvegar efst í huga hvort nýi fréttastjórinn láti loksins af því verða að upplýsingaraðgengið verði ekki sent heft út þ.e. ef lagt er í að texta þær.  Með nýjum mönnum koma víst nýir siðir.  Maður heldur í vonina að eitthvað breytist en samt er ég varla svo bjartsýn miðað við vinnubrögð allra síðustu fréttastjóra og stjórnenda Stöðvar tvö sem og það sem hefur á undangengið.

Það var verið að gauka því að mér eftir síðustu skrif hvort mér fyndist ekki skrýtið eftir allt sem ég hef skrifað og sagt um óréttlæti textaleysisins að enginn sjónvarsstöð hefði tekið við mig viðtal um þetta og fjallað um málið eins og venjulega fá málefni óréttlætis og mismunar umfjöllun í fjölmiðlum.  Þetta mál fær sem sagt enga umfjöllun.  Það kemur mér ekkert á óvart því auðvitað vill enginn sjónvarpsstöð spyrja út í gagnrýni á sjálfa sig eða taka til umfjöllunar.  Held það séu bara eðlileg viðbrögð hjá fréttastofunni að þagga málið niður og hefja enga umfjöllun á því sem yrði til þess að farið væri að texta.

Fyrir nokkrum árum buðu öflug hagsmunasamtök RÚV að borga fyrir textun á innlendu efni í eitt ár.  Minnir að það hafi verið Rauði Krossinn með fjármagni sem var safnað í minningarsjóð í nafni látins manns.  RÚV hafnaði styrkinum á þeim forsendum að þeir sæju sér ekki fært að taka við þessu til langtíma litið og yrði þá komin kvöð á þá að halda áfram að texta þegar styrktarféð væri búið. Þetta á semsagt ekki neitt að koma inn sem sjálfsagt mál í rekstri sjónvarpsstöðvarinnar.  Á RÚV ekki að vera sjónvarp allra landsmanna?  Það er svolítið mikið textað þar núna en samt er alltaf hægt að bæta við. Ég bíð enn spennt eftir því að Kastljósið verði sent út textað sem og fréttatímarnir. Það var og er uppi samningur milli menntamálaráðuneytisins og RÚV að auka textun verulega, meira en ár er liðið síðan sá samningur var gerður og enn hef ég ekki orðið vör við neina breytingu eða verulegar viðbætur í textun á innlendu sjónvarpsefni.

Nú er vefurinn mbl.is komin með vefvarp.  Einu sinni tóku þeir viðtal við mig sem sent var út í vefvarpinu sínu og það kom með texta.  Þetta er víst eina viðtalið sem hefur verið sýnt með texta.  Því ekki gera fleiri?  Þetta tók nú svo sem enga stund að smella textanum inn og var vel hægt tæknilega séð.  Sama má segja um vefinn visir.is og vefvörp þau sem honum fylgja.

Stöð 2 sendir mikið út í vefsjónvarpi sínu í gegnum visir.is, auðvitað með engum texta.  En oft á tíðum eru stuttar lýsingar sem fylgja með til dæmis því sem sýnt er og tekið til umfjöllunar í Ísland í dag og oftast enda þessar lýsingar á spurningarmerki, svo er manni tilætlað að horfa á umfjöllunina í vefsjónvarpinu, ég geri það og er enn jafnmikið spurningarmerki og fyrir áhorfið.

Hvað varðar þetta sjálfsagða mál sem textun á innlent sjónvarpsefni er marga landsmenn?  Það varðar 10% landsmanna og svo má bæta við þeim gríðarlega fjölda erlendra manna sem skikkaðir eru með lagaboði að læra íslensku og aðlagast íslensku samfélagi svo framarlega sem þeir ætli að sækja um íslenskan ríkisborgararétt.  Einnig má vel áætla að 10% hlutfallið gæti hækkað því á næstu árum er reiknað með að fleiri greinist með einhverja heyrnarskerðingu því hávaðaáreiti hverskonar nú til dags er mikið.

 

Vitlaust gefið

Fyrst maður er komin aftur á bloggslóðir þá er eins gott að hafa eitthvað að segja á næstunni. 

  

Ég var að spá í eitt um daginn þegar ég frétti af því að leggja ætti fréttastofu Stöðvar 2 niður og allavega hætta fréttaútsendingum á 18.30 fréttum. Einhver sagði að það yrði tilkynnt um mánaðarmótin en sjáum bara til með það.  Ekki ætla ég að tala um að ég sakni þeirrar fréttastofu nokkuð en allavega verður einni fréttstofu minna að giska í fréttir fyrir mér.  Mér sundlaði við kostnaðinum að reka fréttastofuna, heilar 700 til 800 miljónir og 300 miljóna tap, man ekki upp á hár hvort talað var um á ári eða á mánuði. En mér finnst kostnaðurinn stjarnfræðilegur sér í lagi þegar fréttastofan hefur sendir út með skertu upplýsingaraðgengi þ.e. engin texti og settið sem segir fréttirnar er á svimandi háum launum.  Þarna er greinilega vitlaust gefið.  Miklu frekar ætti að auka möguleikann á að fólk nái að skilja fréttirnar heldur en að hækka launin sem þegar eru há fyrir.

 

Ég er á leið til Ameríku eftir pínuspons nokkra daga.  Ég var að rifja upp fyrir mér síðustu Ameríkuferð sem ég fór í – og fann í þeirri upprifjun eitt til að hlakka til.  Nefnilega hvað upplýsingarflæðið í sjónvarpsfjölmiðlum þar er óskert.  Þar fæ ég að horfa á beinar útsendingar með texta, allar auglýsingar þar og fæ að vita upp á hár af hverju ég ætti frekar að kaupa þessar verkjatöflur fremur en aðrar svo eitthvað sé nefnt að daglegu lífi Ameríkumannsins. En þó ætla ég ekki að sitja á rassinum dagsdaglega og horfa á imbann í Ameríku.  En það verður allt annað upplýsingalíf, sé fyrir mér að horfa á morgunfréttirnar með texta, pælið í því það er ekkert smá fyrir fréttaþyrsta konu eins og mig sem býr við skert upplýsingaraðgengi og ágiskun hvern fjandann sé verið að tala um í hinni og þessari frétt á hverjum tíma.  Get ekki annað en svolítið hlakkað til næsta París Hilton skandall – allt í beinni og með texta.

 

Satt best að segja svo haft sé eftir táknmáli götunnar hér á landi þá hafa heyrnarlausir íslendingar oft haft á orði að þeim finnst þeir ekki vera “útlendingar” í útlöndum þar sem textun og óheft upplýsingaraðgengi í sjónvarpsfjölmiðlum eins og í Ameríku er talin sjálfsagður hlutur. Þeim finnst þeir vera “heima” í útlöndum.  Nokkuð sorgleg staðreynd fyrir fallega landið Ísland sem er dásamað fyrir besta velferðarkerfi heims.

 

Og svo annað gott við Ameríkuferðina og sjónvarpsáhorf mitt með texta er nefnilega það að þá læri ég enskuna enn frekar og kem heim betur skiljandi á enskuna sem reyndar átti að kenna mér samkvæmt grunnskólaskyldunni en fór forgörðum af því stjórnvöld studdu ranga stefnu á grunnskólaaldri mínum og margra annarra jafnaldra minna. Já, sem sagt var vitlaust gefið í grunnskólamenntun minni.

 

 

Talandi um að ég læri enskuna af textanum í sjónvarpinu, þá er það þannig að aðflutt fólk þ.e fólk af erlendu bergi brotið lærir íslenskuna líka af því að texti fylgi með innlendum sjónvarpsefni.  Vorum við íslendingar ekki að tala um að erlent fólk sem býr hérna verði að læra íslenskuna og aðlagast íslensku samfélagi?  Því ekki að hafa texta með innlendu sjónvarsefni sem myndi hjálpa til við íslenskulærdóminn.  Það vissu Svíar allavega þegar þeir hófu textun á sænsku efni í sínum sjónvarpstöðvum árið 1976 minnir mig og heyrnarlausir Svíar nutu góðs af því.  Þarna er greinilega enn vitlaust gefið hjá íslenskum stjórnvöldum að sinna því ekki að setja textun á innlent sjónvarpsefni í lög.  

 

 


Ég er líka sek

Ég er líka bullandi sek eins og Össur.  Satt best að segja tók hjartað mitt aukaslag þegar ég las pistil Össurar um 150 þúsund króna styrkinn hans til aldraðra heyrnarlausra vegna farar þeirra á Norrænt mót aldraðra sem haldið er í Svíþjóð og er að vanda alltaf á 2 ára fresti.  Það var ég sem gaukaði þessu að Össuri og það var ríkuleg ástæða að baki.  Össur Skarphéðinsson alþingismaður hafði hjarta og innsýn inn í málefni aldraðra heyrnarlausra sem hafa lifað sitt líf hér eins og annar hver íslendingur og skilað sínu til landsins í einangrun ef svo má að orði komast. 

Nær allir aldraðir heyrnarlausir eru ómenntaðir og hafa unnið verkmannavinnu eða þá ólaunaða húsmæðravinnu og þar með uppskorið lítið sem ekkert í lífeyrissjóð og fá þar af leiðandi litlar bætur því þau hætta sjálfkrafa að vera öryrkjar eftir 67 ára aldur og missa þar með örorkubætur.  Þetta umrædda fólk telur ekki fjölmennan hóp en hefur þekkt hvort annað frá barnsaldri. 

Á tveggja ára fresti fara þau til Norðurlandanna og hitta þar með aðra aldraða heyrnarlausra á móti því sem þau fara núna.  Þau fara aldrei í neinar Spánarferðir eins og margir aldraðir heyrandi íslendingar gera.  Þau safna frekar fyrir þessu móti í tvö ár og mikil tilhlökkun ríkir hjá þeim fyrir hvert mót og þau koma hress og endurnærð af samskiptalegum mætti til baka.  Smálitur á lífið þeirra.   

Þau verða að hafa túlk með sér og það er eitt sem íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað gera þ.e það að greiða fyrir íslenskan táknmálstúlk í öðru landi.  En það gera hinsvegar aðrar norðurlandaþjóðir þ.e. Svíar greiða fyrir heyrnarlausra Svía sænskan táknmálstúlk á erlendir grundu og norðmenn líka o.s.frv.  Við íslendingar verðum að láta okkur það lynda að greiða sjálf úr eigin vasa eða betla hjá þeim t.d. hagsmunasamtökum okkar  fyrir túlkinn ellegar stelast í túlkana frá hinum sem er alls kostar ekki rétt að gera.  

En aftur að kjarna málsins, af hverju sagði ég Össur frá þessu af því að hann sýndi málefnum aldraðra heyrnarlausra einskæran áhuga og kom meðal annars með fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um hvað hafi verið gert til að styrkja stöðu aldraðra heyrnarlausra hérlendis. Fyrirspurnin var gerð vorið 2007.  Svarið var að ekkert hafði verið gert svo vitað væri að hálfu ráðuneytisins. 

Ég hafði frétt að 8 aldraðir heyrnarlausir færu á mótið í Svíþjóð og Félag heyrnarlausra ætlaði að borga túlkakostnaðinn. Ég kom þessu að Össur í þeirri von að hann gæti e.t.v. komið einhverju til leiðar í málinu og e.t.v. styrkt og ég gerði mér fullljóst að málefni þetta heyrði ekki undir ráðuneyti hans og lét hann vita það líka.  Hann tók vel í það og innan 10 daga frá þessu var búið að ákveða að styrkja túlkakostnaðinn um 150 þúsund frá iðnaðarráðuneytinu og 150 þúsund frá forsætisráðuneytinu.  Ég gladdist mjög við þessari ákvörðun og sendi póst á Össur og Geir forsætisráðherra og þakkaði þeim af alhug.  Ef einhverju bruðli á peningum iðnaðarráðuneytisins á að klína á Össur þá má alveg klína því á mig líka, það var ég sem byrjaði að suða fyrir einangraðan fámennan hóp íslendinga. Ég er því bullandi sek líka.

En til upplýsinga fyrir þá sem ekki vita þá borgar það land sem heyrnarlausir eru frá túlkinn fyrir þá til fara á ráðstefnur, mót eða fundi í öðru landi.  Allstaðar er það gert á Norðurlöndum og því sjálfsagt mál nema hér á Íslandi.  Þetta þarf að laga hérlendis. Hefði það verið gert, þá hefði ég ekki séð mig knúna að gera þetta og valda fréttastofu truflun í gúrkutíð.  

 

Kveðja

Ýmsar 073Gúrkutíð?  Nei , ég myndi ekki segja það.  Nóg í mínum sarpi sem þarf að sinna og enginn gúrkutíð þar, bara vænir hlutir eins og myndin lýsir með sér.  En annars talandi um að hafa skrifað lítið, þá held ég best að segja að ég er farin í frí frá skrifum hérna í bili. 

Bestu kveðjur og þakkir til ykkar allra, nær og fjær.  


Stefnuræðan: eink.: 9,7

Þingsetning í dag og ég órafjarri öllu í moldvörpuleiknum mínum.

Var að enda við að lesa stefnuræðu forsætisráðherra.  Merkileg lesning skal það bara segjast. Allt varð fagurblátt í kringum mig. Reyndar ef rétt skal vera rétt þá kætti þessi setning mig mest:   

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að raunverulegt jafnrétti verði að leiðarljósi í allri stefnumótun hennar sem skapi öllum landsmönnum jöfn tækifæri  

Þarna sé ég færi á að táknmálið sé e.t.v. komið á borð ríkisstjórnarinnar og  þar með ljúki þrautargöngu táknmálsnotenda að fá réttindi sín á forsendum táknmálsins tryggð í lög. Jafnvel get ég gert mér væntingar að texti á innlent sjónvarpsefni sé þar líka.  En hvort ríkisstjórnin sjái sömu sýn á þessa setningu og ég verður bara að koma í ljós. Hvað þýðir raunverulegt jafnrétt og jöfn tækifæri?  

Þetta er bara mín sýn á setninguna og auðvitað getur hún þýtt svo margt annað sem þarf að rétta hlut á í samfélaginu.   Það er líka ánægjulegt að sjá í stefnuræðu forsætisráðherrans að tekjutenging tryggingarbóta við laun maka verði afnumdar.  Sem og sköpuð verði skilyrði til að kerfið virki hvetjandi til að vinna.  Það verða sem sagt umtalsverðar breytingar gerðar á almannatryggingarkerfinu hjá nýrri ríkisstjórn og er það vel.  Góðir hlutir gerast hægt en þeir geta engu að síður líka gerst þegar full þörf er á.  Þörfin fyrir breytingar var komin fyrir löngu síðan.  Það er því verið að lyfta grettistaki ef allt kemst í framkvæmd.  

Það var rétt hjá honum að nefna að stríðsreksturinn í Írak sé harmaður.  Landið er ónýtt, samfélagskerfið er ónýtt, velferðin og efnahagslífið þar í rúst.  Nokkuð sem aldrei átti að eiga sér í stað.

Á heildina litið var ræðan prýðisvel gerð og Geir H. Haarde fær ansi háa einkunn fyrir stílinn sinn. Einhver skipulagðasta og skýrasta stefnuræða sem ég hef séð.   


mbl.is Meginmarkmið stjórnmála að skapa samfélag þar sem fólki líður vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minning um hetju

imagesÁsta Lovísa Vilhjálmsdóttir hetja okkar allra er farin.  Eins og segir er lífið ferðalag, áfangastaðurinn himininn, þangað er Ásta okkar allra komin.  Hún gaf okkur öllum sem með henni fylgdumst með innsýn í hetjulegri baráttusögu sína, við kættumst með henni þegar vel gekk og báðum fyrir henni þegar á reyndi.   Eftir stendur minning um hetju sem mun lengi lifa í huga okkar allra.  Börnum hennar og öllum aðstaðendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.


mbl.is Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullkorn

Ég á  lítið gullkorna dagatal, það er svotil tímalaust þ.e. það vísar ekkert í neitt ártal eða heiti vikudagana, bara mánaðardaginn.   Mér var gefið þetta í jólagjöf fyrstu jólin mín hérna á þessu heimili og hef ég þetta dagatal hjá kaffivélinni og flétti á hverjum degi um leið og ég geri kaffið mitt.  Stundum hitta gullkornin á rétt og stundum ekki.  Gullkornin flest eru þó full af kærleik og þó ég sé að fara í annað sinn yfir dagatalið þá er finnst mér ekkert vera eins og fyrra.  Hverju gullkorni fylgir falleg mynd sem oftast er tekin með aðdráttarlinsu í náttúrinni, hlutir í blómum sem við sjáum ekki dagsdaglega þegar við göngum framhjá þeim svo dæmi séu nefnd.  Í dag 30. maí stóð þetta:  Lífið er ferðalag!  Himininn er áfangastaður!  Þá vitum við það.

Í gær var:  Þótt rósirnar hafi þyrna halda þær samt fegurðinni.  Mestu ánægju- og gleðistundir lífsins eiga oft rætur að rekja til einhvers sársauka.  Það fyrsta sem kom í hugann þegar ég las þetta datt mér var Guðni Ágústsson og fyrirsögn viðtals við hann í DV um helgina: “Halldór vildi mig ekki”, sem er búin að blasa við mér hvert sem ég hef farið um helgina en þó ekki lesið allt viðtalið, stundum nægir bara að lesa fyrirsögnina.  Það er sárt að vita til þess að einhver vilji mann ekki en núna eru aðrir tímar og Guðni orðin eða verður að öllum líkindum formaður Framsóknarflokksins, úr sársauka í gleði sem sagt eða hvað?

 

Snilld þetta gullkorna dagatal mitt og þar hitti gefandinn á mjög sniðuga gjöf.  Hægt er að nálgast þetta dagatal hérna. Dreifingu annast Fjölskyldan-Líknarfélag ses.  Höfundur er María Fontaine og ritstjóri Guðbjörg Sigurðardóttir. Þetta var gefið út árið 2004.  Meira veit ég ekki.


Arðsemi dýralækninga

Talandi um gráðusnobb eins og ég sá á einni forsíðu Frjálsrar verslunar skilist mér að það þýði víst lítið að vera að tala um snobb hérna en fannst manninum menntun sín sem hann eyddi mörgum árum í ekkert áhugaverð þegar upp var staðið og fór að leika sér í tómstundum að tölum, hlutabréfum sem síðar varð þess valdandi eins og nú er komið að hann er orðin forstjóri banka sem ætlar sér að komast í fremstu röð fjárfestingarbanka Norðurlandanna.  

Er fjármálaráðherrann okkar ekki líka dýralæknir?  Merkilegt hvað dýralæknismenntun gefur mikið af sér, hlýtur að vera eitthvað svona að það eigi að koma af sömu varfærni og alúð við dýr og peninga.

Tek bara ofan af fyrir þessum tveim dýralæknum.


mbl.is Ráðning nýs forstjóra Straums-Burðaráss sögð marka tímamót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert döpur, sko

Að gefnu tilefni í athugasemdakerfinu þá skal það bara segjast að ég er EKKI neitt döpur. Myndi ekki blogga þá og setja mig í spor hans Hrólfs.  Til hvers að vera að eyða tímanum í dapurleika, nema kannski frjálslyndum vanti umræðuefni á miðstjórnarfundum sínum?  Maður þarf ekkert að vera dapur til að vera í smá moldvörpuleik. Maður er bara að grúska í svolitlu sem er skemmtilegt, hver veit nema ég kjafti frá því einhvern daginn hérna.

 

Ég var að lesa ljóðabók eftir Ara Trausta Guðmundsson, Krókaleiðir heitir hún.  Mjög góð. Ljóðin eru stundum skrifuð á þann hátt að maður getur auðveldlega sett fram mynd af ljóðinu eða jafnvel stuttmynd. Það finnst mér sniðugt form.

Annars er það bara Flugdrekahlauparinn sem ég er líka að lesa núna og svo er líka bara prjónað á kvöldin.  Á daginn er grúskað, eldað, þvegin þvottur o.s.frv.

 

Ég var að æfa reykingarbannið sem skellur á um næstu helgi í gærkvöldi, stóð mig bara vel og alveg nokkuð víst að ég heimsæki enn kaffihúsin og barina þrátt fyrir reykingarbannið. Það má heldur ekki reykja heima hjá mér, svo þetta er bara alveg fyrirtak sem reyndar hefði allt eins mátt setja á miklu fyrr. 

En hvernig er þetta nú annars með það að ekki megi tala í farsíma við akstur?  Er búið að afnema þau lög, allavega er handfrjáls búnaður mikið notaður.  Maður sér það þegar maður lítur kannski í baksýnisspegilinn á rauðu ljósi og sér bílstjórann aleinan í bílnum á fullu að tala við sjálfan sig eða þá mögulega í handfrjálsan búnað.  Svo lítur maður til beggja hliða og í næsta bíl er verið að tala í farsíma án handfrjálsbúnaðar og svo er ég kannski að pikka sms. Já, það gerist heilmargt á rauðu ljósi.   Gaman væri að vita hvort eitthvað sérstakt átak sé gert af lögreglunni að stoppa fólk sem talar í farsíma án handfrjáls búnaðar og sektar það.  Þá myndi eflaust eitthvað skila sér í krónum talið. Var sektin ekki 5000 kall?

c_documents_and_settings_sigurlin_margret_my_documents_my_pictures_blom_blom_005.jpg

 Svo hérna fáið þið eina mynd af því sem í vændum er á næstunni... það er að koma sumar og þá fer allt í blóma sko....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband