Blessuð!

Vifilstaðavatn08 005... takk fyrir veturinn!  Alltaf gaman að kíkja á ykkur.  Skrifa eitthvað á næstunni, ætli það sé ekki frá einhverju að segjam, hver veit?


Smáfrétt...

Mig langaði bara að segja ykkur svona í tilefni þess að Alþingi hóf störf í gær.  Táknmálsfrumvarpið mitt verður meðal mála þessa löggjafarþings og mér er heiður að segja ykkur þær fréttir að Katrín Júlíusdóttir þingkona Samfylkingarinnar verður flutningsmaður þess.  Fríður hópur meðflutningsmanna úr öllum flokkum mun fylgja frumvarpinu.  Frumvarpið er að finna hér.


Dagur táknmálsins!

Nú um helgina er víðsvegar um heim haldið upp á Dag heyrnarlausra.   Meginþema þessa dags er táknmálið, að sjálfsögðu.  Í dag á milli kl.14-16 eru allir hvattir til að klæðast svörtu til að minnast  hvað táknmálið mátti þola á tímum táknmálsbannsins sem varði í 100 ár, frá 1880- 1980.  Það er til að mynda hægt að lesa hérna hugleiðingar um hvort táknmálsbannið sé aftur skollið á í Danmörku.

Eftir kl.16 fara allir úr svörtu og sýna hvaða lit sem er til heilla táknmálinu í framtíðinni. 

Í París er skipulögð 3 tíma ganga, ekki mótmælaganga heldur bara gengið fyrir táknmálið.  Um gönguna er hægt að lesa hérna.


Galli í gjöf .....

Þá er það komið á hreint að Síminn vissi fyrirfram af þessum möguleika eða ætti ég að segja gróðamöguleika Motorola sem fylgdi gjöfinni, það kemur allavega fram í svari Hjálmars Gíslasonar starfsmanns Símans í athugasemdakerfinu við síðustu færslu.  Ég vil taka það skýrt fram að þessi gjöf er góðra gjalda verð en það kemur nú fyrir á bestu bæjum að galli fylgi gjöfum svona rétt eins og gjöf hins fræga Njarðar hver sem hann nú var eða er.

Mér er hinsvegar spurn hvar  fulltrúi Póst-og fjarskiptastofnunar hafi verið staddur þegar gjöfin kom til tals fyrst á skrifstofum Símans.  Í lögum um Póst og fjarskiptastofnun 2003 nr.69 í 3.gr. um verkefni stofnunnar lið 4.e segir:  "tryggja hag notenda, þ.m.t. einstakra þjóðfélagshópa, svo sem öryrkja, sem best að því er varðar val, verð og gæði".  Eða kom þetta þeim ekkert við þar sem einkafyrirtæki var bara að gefa gjöf?  Gjöf sem fyrirtækið átti eftir að innheimta gjöld af þegar fram liðu stundir?

Eftir sem áður finnst mér svolítið súrt í broti að fyrirtæki eins og Síminn sem hefur meðal annars styrkt íslenskt mál skuli gefa íslenskum táknmálsnotendum síma með erlendri valmynd. Mitt sjónarhorn á þessu er að táknmálsnotendur eru enn og aftur látnir greiða íslenskuna dýru verði.  Fyrst í menntunarsögu þeirra þar sem íslenskan var þeim þungur baggi að eiga við þegar táknmálið var bannað og margir bera sár þessa tímabils enn í dag. Og nú þurfa þeir að borga tvöfalt fyrir sms-skeyti með íslenskum stöfum ella bara sleppa íslenskum stöfum til að spara og hafa íslenskuna bjagaða.  

Íslensk valmynd hefði því átt að eitt af aðalmálinu þegar gjöfin kom til tals fyrst.  Mér er sagt að markmið Símans með gjöfinni hafi aðallega verið að táknmálsnotendur geti talað á sínu máli sín á milli í myndsímtali.  Það var hugurinn að baki gjöfinni en samt sem áður og þrátt fyrir það munu táknmálsnotendur halda áfram að senda jafnmörg sms-skilaboð og áður.  

Íslenskir táknmálsnotendur hafa í mörg ár barist fyrir því að stjórnvöld viðurkenni táknmálið og að táknmálinu verði gerður sá heiður að njóta sama jafnræðis og íslenskan er nú í þjóðfélaginu. Bæði málin hefðu þá átt að vera með í gjöfinni.

 


Vissuð þið...

... að ef þið sendið sms skilaboð með íslenskum stöfum úr farsíma sem hefur enska/erlenda valmynd, þá borgið þið tvöfalt fyrir sms-skeytið?

Þetta vissi ég ekki, enda alltaf haldið mig við íslenska valmynd.  Þetta kom upp á yfirborðið núna þegar Síminn gaf heyrnarlausum Motorola 3G síma með enskri valmynd. 

Fjöldi skeytasendinga tvöfaldaðist hjá mörgum og þegar þeir fóru á stúfana og þá kom þetta í ljós. Þá vitum við það.

 


3G

Þó ekki hafi nú heyrst í mér hérna í svolítinn tíma þá bara er varla hægt að sleppa því að skrifa um það sem er mest inni núna hjá táknmáli götunnar.  3G símarnir er það sem stendur uppúr þessa dagana.  Fyrir málminnihluthóp sem hefur verið einangraður sitt og hvað frá umheiminum í aldanna rás er þetta toppurinn á tilveru dagsins í dag.  Táknmálið fær að njóta sín og það að fá að tala í síma á sínu máli er ekkert smá svo framarlega sem viðmælandinn kann táknmál er myndsímtalinu allir vegir færir. Snilld hjá tæknigeiranum og vissulega á Síminn sínar þakkir skyldar að gera heilu málsamfélagi þetta mögulegt.  Ég hef fengið nokkur myndsímtöl og öll full af brosi og gleði. 

Heyrnarlausum þykir mikið til þess koma að fá að segja hvað þeir vilja á sínu máli sem og að vilja nema upplýsingar á táknmálinu.  Á það mál treysta þeir eiginlega mest, svona rétt eins og allt fólk treystir á sitt fyrsta mál svo einfalt er það.

En að öðru hjá mér sem er að gerast þessa dagana og hefur verið í mótun svolítið lengi, reyndar lengur en menn vilja muna.  Ég stofnaði fyrirtæki, það heitir Táknmál ehf. heitir það. Endilega kynnið ykkur málið og hafið samband ef eitthvað snýst um táknmál eða táknmálsviðmót sem ætlað er að bæta aðgengi á heimasíðum og kynnt eru á síðunni. Það er mjög gaman að stússast í kringum þetta og að kynna fyrir öðrum, sjálfri finnst mér þetta spennandi og þegar maður hugsar kannski svolítið lengra þá eru möguleikar táknmálsins alltaf jafn miklir og allra tungumála.  Sumt er ókannaður heimur meðan annað lifir góðu lífi og þarf alltaf sitt.

 


Textun og 202 þúsundin

Ég gat nú vart orða bundist þegar ég las frétt á visir.is í gær um að afborgun af bíl útvarsstjóra RUV ohf væri 202 þúsund á mánuði. Hvað ætlar hin hagsýna húsmóðir sjálf menntamálaráðherra að gera í þessu?  Ætlar hún að láta sem ekkert sé og textun á innlent sjónvarpsefni sem hún vildi að yrði aukin og er getið um í samstarfsamningi milli ráðuneytis hennar og RÚV hefur ekki verið sinnt sem skyldi, allavega er ég ekki að finna fyrir aukingu.

Kastljósið ber ekki enn sem komið neinn texta eða fréttir, nema umfjöllun sé á erlendu máli.  Eina breytingin sem ég get séð er að erlendir fræðsluþættir með íslenskum þul eru komnir í textun, en ekki alltaf gulltryggt að svo sé í öllum tilfellum.  Gat ekki hitt betur á að gefa mér tilefni til að þrýsta enn einu sinni á textun á innlent sjónvarpsefni svona rétt nýkomna frá Bandaríkjunum þar sem upplýsingaraðgengið er ótakmarkað og ég búin að horfa á sjónvarpið þar í mestu makindum með texta, fréttir í beinni, engum takmörkum háð hvaða fréttastöð það var, beinar útsendingar af íþróttakappleikjum, Discovery Health hafði mest áhorf í húsinu á Heaterside Ave og tveggja þátta umtöluðu heimildarmyndin um Díönu prinsessu, sem og margt annað fróðlegt og svo bara eitthvað sem ekkert var varið í.  Barnaefnið á Disney stöðvunum og Nickeldon var allt textað, reyndar bara allt sem og allar auglýsingarnar.  Fólk getur valið hvort það vilji nota texta eða ekki á skjánum hjá sér. 

Öll sjónvörp sem seld eru í Bandaríkjunum hafa sérstakan búnað í sér til að kalla fram textann.  Hann er hægt að kalla fram með því að ýta á Menu á fjarstýringunni og smella svo á Set upp og finna Caption og setja það á ON ef valið er að fá texta annars OFF. Ég valdi ON og texti fyrir allar stöðvar sem ég horfði á kom. 

Textinn er líka með bakgrunnshljóðum s.s. (doorbell rings), (ring, ring), (shot) o.s.frv. sem við á.  Þegar þulur er að tala þá kemur alltaf (Narrator) í upphafi.  Textinn er ýmist uppi eða niðri á skjánum eða bara þar sem aðstæður þurfa og skyggir aldrei á myndina eða efnið sem sýna er verið á nokkurn hátt.   Þannig að maður veit nákvæmlega alltaf hver er að tala og hvaða bakgrunnshljóð séu, þannig nemur maður myndina alla.  Séu tveir í mynd eins og stundum kemur fram í fréttatengdum viðtölum þá á einn texta reit í sinni mynd og hinn annan, þannig sér maður alltaf hver er að tala og missir ekki af neinu þó heitar umræður séu og báðir kannski að tala á sama tíma og grípa fram í fyrir hver öðrum. 

Ég held að nú sé svo komið að vert sé að minna menntamálaráðuneytið og stjórnvöld á Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og í grein 21 er kveðið á um aðgang að því að að nema upplýsingar, liðir a., c., og d. eiga einnig vel við í þessu hvað varðar sinnuleysið í textunarmálum hérlendis. Hér er fréttatilkynning um undirritun íslenskara stjórnvalda á samninginum. Ætli það sé ekki orðið að vana hérlendis að það þurfi alþjóðlega tilskipun til að sikka íslensk stjórnvöld til að koma sér á labbirnar þegar málefnið varðar sjálfsögð mannréttindi.  Í Mannréttindasáttmálanum er líka kveðið á um að viðurkenna táknmálið.  Nú hefur Alþingi störf eftir tæpan mánuð og þá verður fróðlegt að sjá hvernig farið verður fyrir mikilvægum réttindamálum landans á  kjörtímabilinu.

En að öðru, það eru komnar fullt af myndum úr Floridaferðinni í myndaalbúmið hér á síðunni.  Ég hef ekki gefið mér almennilegan tíma til að skrifa niður ferðasöguna en held að myndirnar segi sjálfar söguna.  Ætli ég muni samt ekki koma eitthvað að því á næstunni sem fyrir augum bar í ferðinni hvað varðar aðgengismál hverskonar sem mér finnst ábótavant hérlendis miðað við Bandaríkin og þá alveg sér í lagi aðgengi fyrir hjólastóla en meira um það næst.

 


Ráðstefna um tvítyngi

Eins og ég sagði þá er yndislegu fríi lokið og við tekur víst venjubundið líf.  Ferðasagan er í mótum og myndirnar sem eiga að fara í albúmið í vinnslu. Það kemur á næstunni.

Já, maður er sem sagt komin í venjubundið líf hér á skerinu, hefðbundin rútínuvinna byrjuð, börnin í skóla og ég að sinna mínu verki og núna er ég að undirbúa mig fyrir setu á pallborði í lok norrænar ráðstefnu sem fjallar um tvítyngi - táknmál og heyrnarskert börn. Mér var boðið að sitja umræðurnar með öðrum norrænum pólitíkusum. Vigdís Finnbogadóttur fyrrum forseta okkar er einnig boðið en hún er einmitt verndari táknmála á Norðurlöndum. Hún verður með erindi á ráðstefnunni.  Spennandi að fara og sjá hvað aðrir eru að gera í þessum málum og hugmyndir þeirra um tvítyngi barna -  tvítyngda kennsluaðferð heyrnarlausra/heyrnarskertra barna.  Einnig verður sér í lagi fróðlegt að heyra sjónarhorn norræna pólitíkusa um tvítyngi.

Ráðstefnan er haldin í Gautaborg 3.-4. september og ber heitið:  Döva og hörselskadede barns tvåspråkighed - Nordisk konferens.  Aðalumræðuefnið er:  "Teckenspråk eller talat språk? Ja, tack,"  Ráðstefnan er haldin með styrk frá Norræna menningarsjóðinum (Nordisk Kulturfonden).

Víða á Norðurlöndum er tvítyngisstefna í kennsluaðferð heyrnarlausra/heyrnarskertra barna, eins hérlendis.  Til að kennsluaðferðin eigi að heppnast fullkomlega verður barnið að búa við kjöraðstæður í þjóðfélaginu þar sem bæði málin eru metin til jafns þ.e táknmálið og talað mál.  Því miður eru hér á landi ekki fullkomnar kjöraðstæður fyrir því þannig að gloppur kunna að verða í aðferðinni.  Þetta segi ég af því að táknmálið er ekki viðurkennt og enn hömlur eða hindranir í að barnið geti fengið alltaf túlk við allar aðstæður og en stærsta málið er að innlent sjónvarpsefni er ekki textað þannig að barn í tvítyngisnámi finnur fyrir hömlum í að nema talað/skrifað mál í gegnum fjölmiðli og kynnast þar með innlendri menningu/atburðum til að vera virkt í tvítyngisnámi sínu.  Það er því líka stór ástæða fyrir því að aðgengismál hérlendis þarf mikið að laga sér í lagi ef stefna stjórnvalda "Aðgengi fyrir alla" á að standa undir sér.  

Sem sagt í stuttu máli svo tvítyngiskennsla eigi að heppnast fullkomlega og nýtast barninu alla lífsleið þess þá verður barnið verður að finna fyrir báðum málunum almennt í þjóðfélaginu þannig verður það jafnvígt á bæði málin, táknmál og skrifað/talað mál/lesmál.  Hvað mína skoðun á tvítyngdri kennsluaðferð varðar þá styð ég hana fullkomnlega.


Komin..

Florida 2007 096Yndislegu fríi í Florida er lokið, þessar 3 vikur þar voru stórkostlegar í einu og öllu.  Við þrjár mömmurnar staðráðnar að gera ferðina eftirminnilega og skemmtilega fyrir börnin okkar fimm sem voru á aldrinum 3-12 ára og okkur sjálfar og tókst það heldur betur vel.  Veðrið lék við okkur allan tímann, hvað annað enda vorum við öll stödd í Sunshine State.   Tókum 10 skemmtigarða á 14 dögum og áttum góða daga inn á milli sem notaðir voru í verslunarferðir eða bara slakað á á sundlaugarbakkanum í húsinu sem við leigðum. 

Eftir allar rússibanaferðirnar vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða grenja þegar ég frétti að hreyfilinn í flugvélinni bilaði og lent var á einni vél í stað tveggja rétt fyrir lendingu í Keflavík í morgun. Allt fór vel að lokum og get alveg sagt að það var ekkert smá brosað þegar maður labbaði niður landganginn. 


Frí...

Þá er stóri dagurinn loks runninn.  Eftir honum hérna á heimilinu hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu.  Við erum farin í frí til Florida.  Ég á víst eftir að þræða alla þessa ótalmörgu skemmtigarða þarna milli þess sem flatmagað verður við strönd Mexicoflóa sem og eitthvað verður kíkt í mollin þarna. Væntanlega verður bara líka legið í leti á sundlaugarbakkanum sem fylgir húsinu okkar.  Kannski ég bloggi þaðan, hver veit nema ég kíki inn á netið í nýja 3G símanum mínum og komi með eitthvað sniðugt eins og til dæmis myndir og skemmtilegar sögur af ferðinni okkar. En á meðan hafið það gott og vona ég að veðrið hérna leiki um ykkur eins það á að gera við mig þarna úti.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband