Gjörningur

Á morgun laugardag 28. apríl kl. 13 verður haldin gjörningur við Tjörnina í Reykjavík “Tökum höndum saman, við þurfum á hvort öðru að halda”.  Hugmyndin að gjörningum á ung kona Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir og markmiðið er að mynda hring í kringum tjörnina í Reykjavík en til þess þarf um 1000 manns. Að taka höndum saman og mynda hring óháð stétt og stöðu, augnlit og útlitsgerð, krefst þess að við horfumst í augu við sjálf okkur, speglum okkur í vatninu og jafnframt horfumst við í augun á náunganum sem við höldumst í hendur við.Við erum jú öll manneskjur, gerð úr sama efninu. Mæli með að allir mæti, allavega ætla ég að mæta.  Þetta atriði er hluti af listahátíð fatlaðra List án landamæra.    

Mér var gefin svolítið merkileg bók nú á dögum.  Svolítið var ég lengi að fatta um hvað þessi bók var.  Bókin er ítölsk og heitir á frummálinu “Supplemento al dizionario italiano”  sem á ensku útleggst  “Supplement to the italian dictionary”  Í bókinni er að finna myndir á annarri hverri síðu af mismunandi handahreyfingum með útskýringum á hinni síðunni.  Miðað við myndirnar hélt ég að þetta væri nokkurskonar táknmálsorðabók en sló þeirri ágiskun fljótt frá því venjulega eru táknmálsorðabækur þykkir doðrantar en þessi er bara í vasabrotsútgáfu og í henni eru myndir af um 50 mismunandi handahreyfingum sem fylgja talaðri ítölsku. Í formála segir að fyrsta handhreyfingabókin í ítölsku máli hafi verið gefin út 1832. Þannig séð hafa handapöt og handahreyfingar ítala ákveðna merkingu hvert fyrir sig og hafa e.t.v. þróast eitthvað.  Ég var að spá aðeins í hvort ekki væri hægt að koma svipaðri bók um handahreyfingar í töluðu íslensku máli en snarhætti við því það yrði svo létt verk sem á endanum yrði kannski bara um fjórblöðungur því engin hefð er fyrir því að íslendingar noti hendurnar nema kannski þegar þeir eru í kosningarbaráttu þá ber hæst að vísifingursbending á þumal hinnar handar sé notuð til að leggja áherslu á hvað sé fyrst og fremst á forgangslista stefnunnar… þetta er það algengasta.  En að öðru leyti eru íslendingar ekki mikið fyrir að taka hendurnar upp dagsdaglega í einhverri umræðu nema kannski ef þörf er á að sýna fingurinn eða segja bless, þá fer lófinn allur á loft.  Íslendingar tala mikið með hendur í vösum, ég hef líka tekið eftir að þegar íslenskir karlmenn hafa drukkið mikið þá hafa þeir mikla tilhneigingu til að tala ofan í hálsmálið á sjálfum sér en það er önnur saga.  Svo nú er bara að sem flestir taki þátt í gjörningum, taki hendur upp úr vösum og haldist í hendur á morgun, tjörnina allt í kring, í einum stórum hring og í miðjunni verður hvað? Það fáið þið að sjá.  



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband