Færsluflokkur: Bloggar
20.12.2006 | 11:10
Er einhver munur á?
Margrét Sverrisdóttir gerði kostnað við tannlækningar og tannréttingar barna og unglinga að umtalsefni í pistli sínum á bloggsíðu sinni. Ég hugsaði þetta mál aðeins og hef oft heyrt svimandi háar upphæðir í þessu samhengi og reikna með að sennilega gæti ég líka þurft að greiða fyrir tannréttingar á börnum mínum og punga þar með út heilu eða hálfu bílverði í það verk og orðið þar með öreigi eftir heimsókn á tannlæknistofu eins og einn bloggarinn komst að orði.
En já, það er eitt sem ég hef velt svolítið lengi fyrir mér í þessu sambandi. Það er kostnaðurinn við kuðungsígræðslur. Kuðungsígræðsla er gerð til að nýta heyrnaleifar sem fyrir er betur. Sem sagt innbyggt heyrnartæki knúð elktróðum til að vekja heyrnarfrumur til að heyra. Eitthvað í þá áttina. Kuðungsígræðsla er gerð með skurðaðgerð erlendis. Tryggingarstofnun Ríkisins greiðir allan kostnað við kuðungsígræðslu hjá þeim sem þurfa á henni að halda óháð aldri. Ein kuðungsígræðsla kostar samkv. svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um það mál árið 2004, fjórar miljónir íslenskra króna. Kuðungsígræðslu fylgir mikil eftirmeðferð hjá heyrnarfræðingi og talmeinafræðingi, í flestum tilfellum þarf að mæta nokkrum sinnum á viku til þjálfunar að láta kuðungsígræðsluna virka. Sú þjálfun er einnig greidd af ríkisfé og tekur í flestum tilfellum ef um barn væri að ræða öll grunnskólamenntunarár þess. Bili eða komi upp gallar í kuðungsígræðslutækinu er hægt að fá nýtt og fá greitt af sömu stofnun sem fyrr. Þið getið sjálf reiknað út kostnaðinn. Ég er nokkuð viss um að hann er svimandi hár og gæti jafnvel orðið nærri kostnaði við tannréttingar. Árið 2004 fóru um 7 einstaklingar í kuðungsígræðslu minnir mig og samkvæmt táknmáli götunnar fer þeim fjölgandi sérstaklega börnum, þannig að ég hef ekki á takteinum tölur yfir fjölda. En fjármagn í kuðungsígræðslu virðist vera ótakmarkað. Það ótrúlega við þetta er að heyrnarlausir sjálfir og raunar allt alþjóðasamfélag heyrnarlausra mæla ekkert með þessari leið til að "heyra aðeins betur". Þetta er í raun og veru heyrnartæki bara miklu umfangsmeira við uppsetningu þar sem segli er komið fyrir bak við beinið og á milli heilabörks. Það hafa komið upp tifelli erlendis að aðgerðin sé áhættusöm og get mögulega lamað andlitstaugar. Það er hægt að telja upp aðra ókosti fyrir þessu líka eins og til dæmis það að öll þjálfun tekur mikinn tíma og skyggir þar með á allt tómstundar og félagslíf hjá barni svo dæmi sé tekið. Og svo er táknmálið sagt óþarft. Útrymingarleið? Ég ætla ekki að skrifa mikið meira um þetta en ég var bara að velta fyrir mér kostnaðinum í þessu samhengi. Hver er munurinn á að hafa aðeins betri heyrn eða aðeins fallegra bros og betri tennur? Eitt eiga þessir gjörningar hinsvegar sameiginlegt, það er það að læknar segja nauðsynlegt að gera þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.12.2006 | 09:10
Mannréttindasáttmáli SÞ
Ég hef oft komið hér inn að málefnum táknmálsins sem og bættu upplýsingaraðgengi heyrnarlausra. Nú hefur Allsherjarþing Sameinuðu Þjóðanna samþykkt mannréttindasáttmála nýrrar aldar. Sáttmálinn nær til 650 miljón manna með fötlun um allan heim og þar á meðal um réttindi heyrnarlausra á forsendum táknmálsins. Til að mynda segir í honum að heyrnarlausir eigi rétt á að fá menntun og upplýsingar á táknmáli, þeir eiga að fá táknmálstúlkun svo nokkuð sé nefnt en stærsta innleggið er að táknmál er flokkað sem tungumál og er jafngilt talandi tungumálum. Risastórt framfararskref en síðasta skrefið er þó tekið í hverju landi fyrir sig þegar þing landsins staðfestir sáttmálann. Hér á landi kemur það víst til kasta Alþingis. Það er mín von að Alþingi staðfesti sáttmálann, annað finnst mér bara ekki hægt og væri það ekki bara sætt af þeim að gera það?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2006 | 09:26
...ljóta málið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2006 | 14:01
...samkeppni hvað?
Ég minntist aðeins hérna í skrifum á að Samkeppniseftirlitið hefði ekki komið með niðurstöðu frá Hröðum Höndum í máli þess að skoðað verði hvort Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefði brotið á 14. grein samkeppnislaganna. Málið hefur legið á borði þeirra síðan í febrúar 2005. HH fannst sem sagt SHH sem er ríkisstofnun einoka alla túlkaþjónustu. Hvað sem kom til að þeir þarna í Samkeppniseftirlitinu tóku við sér þá er úrskurðurinn komin og það þó löngu sé komið yfir þann tíma sem þeir taka sér í svona málum. Í stuttu mál sagt hljóðar úrskurðurinn við fyrstu sýn að SHH ein megi aðeins annast túlkaþjónustu og sú eina sem megi taka við sérstöku fjárframlagi frá ríkinu fyrir þá þjónustu sem hún veitir. Önnur fyrirtæki á þessu sviði verða sem sagt að gera sér að góðu að fá ekkert fyrir vinnu sína og eiga ekkert að vera að hafa fyrir því að vera í einhverri samkeppni við ríkisbankið sem eitt hefur einkarétt á veitingu þjónustunnar. SHH eitt og sér hefur og á yfirburðarstöðuna á þessum markaði og enga frjálsa samkeppni við ríkisbankið sem sagt er víst niðurstaðan. Það er merkilegt að skoða þetta en Samkeppiseftirlitinu finnst ekkert meira þurfi að skoða þetta mál frekar og ætlar ekkert að aðhafast meira í málinu eru sem sagt lokaorðin. Til hvers er Samkeppniseftirlitið annars? Hvað segði fólk ef aðeins ein sjúkraþjálfunarstöð mætti ein taka við greiðslum frá ríki fyrir þjónustu sína? Önnur sambærileg fyrirtæki á sviði sjúkraþjálfunar ættu bara að gera sér að góðu að fá ekki neitt fyrir þjónustu sína úr ríkissjóði þó svo notendur eigi rétt á velja hvar þeir sæki þá þjónustu. Með þessari niðurstöðu er Samkeppniseftirlitið líka að hunsa vilja og val notenda táknmálstúlka, setja þeim skorður að fá sér bara túlk hjá SHH og hvergi annarsstaðar. Má þetta? Hvað heitir nú aftur orð yfir þetta mismunun? Ljótt ef satt er. Annars er lesningin svo ruglingsleg að það sé eins og það skipti einhverju máli hver hafi komið á undan, samkeppnislögin, stofnun SHH og lagasetning þess eða þá HH. Ég er bara ekki alveg að skilja þetta, það vefst greinilega fyrir öllum hvor hafi komið á undan hænan eða eggið.
En sko, ég útskrifast í kvöld úr NTV skólanum, skrifstofu og tölvunámi. Ég fór í þetta nám til að verða mér út um prófskirteini að ég kunni að fara með tölvur svo ég gæti sýnt atvinnurekendum að ég myndi standa mig vel við tölvurnar þeirra og vera voða góð við þær. Svo er þetta nám líka metið til 13 eininga og er það bara mikill kostur. Og þegar upp er staðið útskrifast ég núna sem bókari, er það ekki bara sniðugt. Ekki löggiltur en þó eitthvað, allavega á ég að vera fær á Navision og þá vitið þið það ef ykkur skildi kannski detta í hug að vilja ráða bókara. Ég er víst líka ansi talnaglögg og fyrir tíma debetkortana vann ég í Landsbankanum, taldi alla formúguna sem kom í næturhólfið þar í bæ, skráði allt samviskulega og lét stemma debet og kredit alveg á núlli. Einu sinni gerðist það að 20 krónur vantaði og alltaf munaði 20 krónum, ég get svarið að þessar 20 krónur hafa eitthvað dottið af borðinu og endað hjá skúringarkonunni eða eru jafnvel enn einhverstaðar undir gólffjölunum þarna, en hjartað í mér var alltaf lafmótt við þessar 20 krónur sem vantaði og að lokum til að losna við frekari óþægindi þá bara tók ég úr mínu veski 20 krónur og lét þetta stemma á núlli það sem eftir var. En þegar maður hugsar í dag og meira en 20 árum síðar hvað ætli þessar 20 krónur séu mikið að raunvirði núna og þetta var fyrir tíma einkavæðingarinnar, bankinn hefur vaxið með einsdæmum sem frægt er og um það hafa verið skrifað mikið um svo maður tali nú ekki um einkavæðingu bankanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2006 | 11:21
...allir vinir á jólunum
Tíu dagar til jóla. Maður getur verið stoltur af sjálfum sér að vera búin með tvo þriðju af undirbúningi jólanna. Maður getur því án samviskubits setið hérna og bloggað fárveik. Ég á bara eftir að þrífa hérna rækilega vel, skreyta jólatréð (get ekki beðið eftir því og er ekki ein um það, það er segin saga með fyrsta jólartréð hérna sem var í fyrra) og svo á ég eftir að kaupa jólagjafir handa viðhengjum mínum tveim. Ég baka sko minnst þessi jól, aðalega eitthvað flott að bíta í um jólin helst sykurlaust án þess að viðhengin mín verði þess vör. Hef látið Mylluna eða Kökumeistarann sjá krökkunum mínum fyrir jólasmákökunarti. Ég hef staðið mig eins og hetja þegar ég fer á stórmarkaðina og ekkert smakk fengið mér af konfektinu eða smákökunum sem er í boði, en stóðst ekki mátið að fá mér að smakka paté um daginn sleppti sko alveg rifsberjasultunni (ógisslega sykrað). Maður vill nú varla fá þennan fjórðung sem horfin er af manni þetta ár aftur. Nei, sko aldeilis ekki. Ég er semsagt alveg í fríi og ætlaði að vera svo voðalega dugleg í ræktinni að bæta upp það sem ég sleppti að fara vegna anna við lokaverkefnið í skólanum, en nei, þá fæ ég þessa flensu. Hún byrjaði um það leyti sem ég var að taka mig til að fara í ræktina á þriðjudagseftirmiðdaginn, byrjaði með kuldakasti sem breyttist í hroðalegan hausverk og engar pillur dugðu til. Miðvikudagurinn var bara notaður að sofa og sofa, reyna að rífa þetta af sér til að geta mætt á miðstjórnarfundinn en það brást rosalega illa og núna í þessum skrifuðum orðum er hausverkurinn enn viðloðandi.
Ég get ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægð með niðurstöðuna á miðstjórnarfundi Frjálslynda flokksins sem ég missti af í gærkvöldi. Mér finnst þetta skynsamleg lending, nokkurskonar sátt milli allra og er það vel. Um upphaf deilanna ætla ég sem minnst að tjá mig um en það skiptir í raun engu hvert deiluefnið er, menn og konur í svona stöðu eiga bara ekkert að vera að deila með blaðamenn hangandi fyrir sér sem skrumskæla hvert orð. Ég hef oft verið spurð á meðan þessu stóð með hverjum ég stæði, manni var stundum eins og stillt upp á vegg og krafist svara af manni. Ég er ekkert mikið fyrir að skipa mér í eitthvað horn með hinum og þessum. Það er málefnastefna flokks míns sem gildir og hún er í fullu gildi hvað öllum deilum líður. En hér get ég alveg sagt að Margrét Sverrisdóttir er mín kona, hún er minn mentor í þátttöku minni í stjórnmálastarfi. Það er hún sem prófarkarles allar greinar mínar og ræður án þess svo mikið að breyta efninu á nokkurn hátt, hugsun mín í efnið er það sem gildir. Margréti Sverris kynntist ég fyrst fyrir alvöru þegar ég fékk boð frá félagsmálaráðuneytinu um að taka þátt í námskeiði fyrir konur í stjórnmálastarfi árið 2003. Ég mátti velja mér leiðbeinanda og ég valdi Margréti Sverrisdóttur af þeirri ástæðu að mér fannst og finnst hún enn vera mikill leiðtogi, framsýn með einsdæmum og stendur fast á sínu. Eftir því sem ég kynntist henni betur sá ég að ég hafði rétt fyrir mér. Það er gott að vinna með henni. Hún ver málefnastefnu flokks síns af heillindum og veit alveg hvað hún er að tala um þegar hún þylur yfir stefnuskránna sem og veit nákvæmlega fyrir hvort málefni falla inn í stefnu flokksins eða ekki. Margt í stefnuskrá flokksins lýtur að sjálfsögðum mannréttindum. Hún er líka trú sínu fólki. Þingmenn flokksins hafa verið mjög heppnir að hafa hana sem framkvæmdastjóra sinn þetta kjörtímabil, hún hefur reynst þeim vel og það veit ég. Það hefur mikið mætt á svona litlum þingflokki í öllum þeim málum sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur og farið í ræðustól með. Þeir eru þungaviktarmenn á þingi, þeir eru með þeim afkastamestu í ræðupúlti þingsins og hafa látið mörg mál til sín taka. Frjálslyndi flokkurinn er því engan veginn verður að fá á sig stimpill að vera eins málefna flokkur. Dugnaðarforkar allir þrír til samans. Og já, allir eru vinir á jólunum, ekki satt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.12.2006 | 10:21
...launajafnrétti?
Frábært að það sé komin laugardagur, enginn heimalærdómur um helgina. Búin með stóra lokaverekfnið mitt í skólanum og einu áhyggjurnar eru í hverju ég á að klæðast við flutninginn á mánudagsmorgun. Það eru nefnilega líka gefin punktur fyrir það.
Ég fór með son minn í Smáralind aðeins í gær, og hann sá þennan legstein sem sýnir launamun karla og kvenna í. Það er VR sem stendur fyrir þessari sýningu. Sá litli fór að spyrja mig hvort legsteinn karla væri margfalt dýrari en kvenna. Ég sagði honum hver ástæðan væri, sem er að karlar fá hærri laun en konur. Hver haldið þið að viðbrögð sonar míns hafi verið. Hann stökk hæð sína á loft eins og hann væri að mynda að skjóta skot beint úr miðju í markið í handbolta og sagði svo, sennilega mjög hátt: YYYYeeeeeessssss..........
Það má sennilega við þessi viðbrögð spyrja hver sé eiginlega jafnréttisumræðan eða fræðslan hér á heimilinu. Ég hef engin svör en spyr aftur á móti hver sé staðið að jafnréttisumræðu og fræðslu í grunnskólanum. Væri ekki nær fyrir skólann að ráða jafnréttisráðgjafa í stað trúboðsins?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.12.2006 | 13:39
...lítils metið eða ekki?
Það er ýmislegt sem vert er að skoða í sambandi við túlkaþjónustumálin hérlendis.
Fyrst mætti tildæmis skoða af hverju gjaldskránni sé haldið svona niðri og illa sinnt af menntamálaráðherra. Samkvæmt gjaldskrá SHH kostar 4.550,- að fá túlk í klst. Samsvarndi gjaldskrá í Alþjóðahúsi er þrisvar sinnum hærri. Ekki veit ég um menntun túlka í Alþjóðahúsi en túlkar hjá SHH hafa þriggja ára háskólanám í táknmáls og túlkafræðum.
Samkeppniseftirlitið hefur haft síðan í febrúar 2005 erindi frá einkarekinni túlkaþjónustu Hröðum höndum og það kom við forathugun að SHH ríkisrekin túlkaþjónusta braut 14. gr. Samkeppnislaga og kom því mjög illa niður á rekstri Hraðra handa að þær urðu að leggja starfsemina niður. Enn er ekki komin endaleg niðurstaða frá Samkeppniseftirliti og eru þeir löngu komnir yfir þau tímamörk sem þeir taka sér til að fara yfir mál sem þeim berast.
Eru ekki bara með þessum tveim dæmum hægt að sjá að störf táknmálstúlka eru mjög lítils metin af stjórnvöldum miðað við það starf sem þeir þjónusta og gefa þar með heyrnarlausum kost á sjálfsögðum mannréttindum eins og þeim að vera virkir þátttakendur í samfélaginu eins og aðrir landsmenn í námi, starfi, leik og daglegu lífi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2006 | 17:23
...skuld samfélagsins?
"Það er ljóst að túlkaþjónusta heyrnarlausra er aftarlega í forgangsröðinni ef hún er þá á forgangslista."
"Íslenskt samfélag skuldar heyrnarlausu fólki mikið."
Tvær merkilegar málsgreinar sem vert er að staldra aðeins við og íhuga tilefnið. Fyrri setningin var sögð í grein Valdísar Ingibjörgu Jónsdóttur fyrir ári síðan. En þá gerði hún rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu að umtalsefni sem vissulega var full ástæða til því félagslegi túlkasjóðurinn var tómur í fyrra.
Seinni málsgreinin er sögð í grein hennar sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Enn og aftur kemur hún að óréttlæti í túlkaþjónustu heyrnarlausra og í þetta sinn ekki af því sjóðurinn er tómur heldur vegna þess að ráðherra hefur lítið sinnt um beiðni ríkisstofnunar um gjaldskrárhækkun og þar af leiðandi ber eina túlkaþjónustan á landinu sig ekki og getur engan veginn annað eftirspurn.
Báðar greinarnar skrifaðar í desembermánuði, maður spyr sig ósjálfrátt hvort tilefni að minna á heyrnarlausa séu að verða hluti af árlegum jólaundirbúningi hjá fólki sem lætur sér annt um réttindi heyrnarlausra á forsendum táknmálsins.
Valdís Ingibjörg er móðir heyrnarlausrar konu. Hún veit hvað hún er að tala um þegar hún nefnir í grein sinni að íslenskt samfélag skuldi heyrnarlausu fólki mikið. Um þetta segir hún Það var tekinn frá heyrnarlausum börnum möguleikinn á grunnskólanámi allt þar til fyrir fáum árum síðan, margir af fullorðna fólkinu eru enn ólæsir og hafa enn engan aðgang að grunnmenntun eða símenntun þar sem slíkt er ekki á boðstólum á táknmáli fyrir þennan hóp. Fáir af þeim sem eru á starfsaldri hafa nokkra starfsmenntun. Í stuttu máli segir þessi setning mér að íslensk stjórnvöld sviptu heyrnarlausa grunnskólamenntun sinni og stórum hluta af framhaldsskólamenntun í langan tíma. Mig hefur lengi langað að segja þessi kaldrifjuðu orð vegna þess að það er heilmikill sannleikur að baki þeirra. Sögur sem ekki verða sagðar á öðru máli en táknmáli. Sögur þar sem ónotalegar tilfinningar brjótast fram þegar maður ber sjálfan sig saman við jafnaldra sinn sem hefur fengið grunnskólaréttindum sínum og framhaldskólarétti sínum fullnægt og er núna kannski í stórkostlega flottri vinnu. Um leið og maður hefur hugsað þetta samanburðardæmi upp endar maður á því að maður geti svo sem verið glaður að vita til þess að heyrnarlaus börn nú til dags þurfi ekki að upplifa þetta. Táknmálið er ekki lengur bannað eins og það var á þessum tíma þegar heilu kynslóðirnar af heyrnarlausum voru sviptar þeim sjálfsagða rétti sem grunnskóla-og framhaldsskólamenntun er. En samt staldrar maður líka við og spyr sig ósjálfrátt hver stefna stjórnvalda sé varðandi táknmálið ef aðstaðendur heyrnarlausra eins og Valdísi Ingibjörgu er þurfi sífellt að vera að skrifa opin bréf til menntamálaráðherra á síðum fjölmiðla. Hver er hin eiginlega málpólitíska stefna stjórnvalda gagnvart táknmálinu? Það væri gott og gagnlegt fyrir alla að heyra ráðherra svara þeirri spurningu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2006 | 16:53
...á forsendum hvers?
Í fyrra gerði ég slæmt ástand í félagslegum táknmálstúlkunarmálum að umtalsefni á gamla blogginu mínu, þá var tilefnið að félagslegi táknmálstúlkunarsjóðurinn var tómur um miðjan nóvember í fyrra þannig að ansi fátt var um að heyrnarlausir fengi einhverjum pöntunum sínum á félaglegum grundvelli annað í desember mánuði í fyrra.
Nú er aftur komin desember og ágætt er að skoða aðeins hvernig málin standa. Enn er til eitthvað eftir af þeim tíu miljónum sem úthlutað er til félagslegrar túlkunar, allavega svona gróflega áætlað er til eftir svona í kringum miljón. Það eru góðu fréttirnar, en það segir mér þó ekki að allt sé í sómanum.
Nú er komin annarskonar vandi sem stafar því miður hefur sinnuleysi eða öllu heldur aðgerðarleysi menntamálaráðherra í beiðni Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra um gjaldskrárhækkun á hverri unninni táknmálstúlkaðri klukkustund. Þetta sinnuleysi hefur verið þvílíkur áhrifavaldur að einkarekin túlkaþjónusta treysti sér ekki til að sinna þessari þjónustu á svona lágum taxta því kostnaður við þjónustuna stæði engan veginn undir sér og var einkafyrirtækinu Hraðar Hendur lokað í sumar. Sérmenntaðir túlkar sem þar unnu fóru í aðra vinnu.
Kom þá til kasta Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (skammst: SHH) sem er ríkisrekin stofnun að annast alla túlkaþjónustu héðan af. Því miður hefur SHH ekki getað annað öllum pöntunum og síðustu mánuði hafa verið uppi tölur að fjöldi neitana við túlkapöntnum slagi hátt upp í 40%. Það er ekki allt því nú er að sjá að lítið berst af pöntunum því notendur sjá engan hag í að senda pöntun sem þeir fyrirfram reikna með að fái neitun, frekar sitja þeir heima og einangra sig og eru þar með komnir í sama ástand og var fyrir tíma félagslega túlkunarsjóðsins. Í fyrra störfuðu þar sjö túlkar í fullu starfi en núna eru þeir fimm og engan veginn er hægt að anna öllum pöntunum. Túlkaþjónsta SHH er rekin með bullandi tapi og fyrir löngu byrjuð að soga til sín fjármagn sem ætti að fara í önnur verkefni SHH eins og segir í lögum til dæmis; rannsóknir á táknmáli, táknmálsnámskeið og þróunarverkefni svo eitthvað sé nefnt.
Á sínum tíma, í byrjun þessa árs þegar gjaldskrárhækkun kom til umræðu í stjórn SHH en þar sat ég sem fulltrúi Félags heyrnarlausra og kom sjónarmiðum Félags heyrnarlausra á framfæri sem vildi mótmæla gjaldskrárhækkunni, því Félag heyrnarlausra sá fram á að með hækkunni myndi félagslegi túlkunarsjóðurinn klárast miklu fyrr en í fyrra. Fulltrúar Félags heyrnarlausra fóru á fund menntamálaráðherra og útskýrðu rök fyrir neitun sinni að hækka gjaldskránna. Forstöðumaður SHH fór líka á fund menntamálaráðherra og útskýrði fyrir henni nauðsyn þess að hækkun gjaldkrárnar næði fram að ganga.
Nú tæpum 11 mánuðum eftir þessa heimsóknir til ráðherra hefur SHH enn barist að fá gjaldskrárhækkun í gegn. Ekkert hefur heyrst frá ráðherra. Nú þegar ég hugsa hvort hækkunin á sínum tíma hefði átt að vera gerð og réttlætanleg í alla staði þá sé ég að það hefði ekki skipt neinu máli. Þessi mál eru hvort sem er enn í sömu hjólförunum og voru fyrir tilkomu félagslega túlkunarsjóðsins sem menntamálaráðherra töfraði svo yndislega vel fram úr rassvasanum öllum að óvörum í þingsal í nóvember 2004. Mig minnir að ég hafi verið sú eina sem ekki brosti við þessu snilldarbragði menntamálaráðherra en afar fáir tóku eftir því og þeir fáu sem tóku eftir því slógu á puttana á mér ef mér vogaðist eitthvað að vera að hallmæla þessari rausnarlegu ákvörðun ráðherra.
Góðæri þessarar bráðabirgðalausnar er lokið og nú sést glöggt að það er ómögulegt að láta sjálfsögð réttindi heyrnarlausra hvíla á forsendum reksturs ríkisstofnunar. Rétt heyrnarlausra á forsendum táknmálsins verður að koma fyrir í lagabókstafnum og þar með viðurkenna táknmáið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Annað eins öryggisleysi og nú ríkir er ekki lengur hægt að bjóða upp á ár eftir ár. Nú verður menntamálaráðherra að taka sig saman og sinna þessu að einhverju ráði svo að heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum verði tryggð réttindi sín á forsendum táknmálsins í lagalegum skilningi.
Ég skrifaði haustbyrjun grein sem birtist í Morgunblaðinu og bar fyrirsögnina Réttindi og skyldur táknmálsins Mæli ég með að menn lesi hana vilji þeir kynna sér málið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2006 | 21:23
Bættur hagur öryrkja?
Í vikunni fór ég á fund stýrishóps Öryrkjabandalags Íslands, en stýrishópurinn samanstendur af fulltrúum allra stjórnmálaflokka og hefur hist nokkrum sinnum nú á þessu misseri. Mér sjálfri hefur fundist tilgangurinn og starfið í hópinum spennandi. Til hliðsjónar í þessu starfi hefur verið notast skýrslu sem nefnist Hugmynd að betra samfélagi en sú skýrsla var unninn af 5 mismunandi vinnuhópum sem um 60 manns komu að, fólk sem mikla þekkingu hefur á öryrkjum og öldruðum hvort sem er af eigin reynslu eða þá annarstaðar að. Skýrsla þessi Hugmynd að betra samfélagi var gefin út af ÖBÍ í apríl 2006. Öðrum til fróðleiks er hægt að nálgast skýrsluna á heimasíðu ÖBÍ.
Stýrishópinum sem ég nefndi í upphafi og hef verið að vinna í er ætlað að koma með tillögur að bættum hag öryrkja og eldri borgar og nota þær sem innlegg í kosningarbaráttuna í vor sem og vera leiðandi fyrir það starf sem stjórnmálaflokkar vilja almennt gera í að bæta hag öryrkja. Því miður verð ég að segja það að stjórnarflokkar hafa sýnt þessu góða starfi stýrishópsins mikla lítilsvirðingu, mætt illa, seint og stundum bara ekkert mætt. Ekki ætla ég að fara út í það nánar en mig langar hinsvegar að segja frá síðasta fundi sem nú var í vikunni. Sá fundur var nánast undantekning af hinum fundum en þá mætti fulltrúi sjálfstæðismanna og það enginn annar en Pétur Blöndal þingmaður. Fulltrúi framsóknar gat setið fundinn til enda en á síðasta fundi þurfti hann að fara eftir hálftíma setu. Fulltrú framsóknar í nefndinni er aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Á þessum fundi áttum við að fá að heyra hverjar tillögur og/eða stefnur þessara tveggja stjórnarflokka væru í að bæta hag öryrkja og eldri borgara.
Það ríkti ákveðin tilhlökkun hjá mér sem og sennilega öðrum fundarmönnum líka að heyra yfirlýstar stefnur þeirra í þessum málum. En því miður um leið og fulltrúi sjálfstæðismanna opnaði munni eða alla vega hélt ég það hingað til þá var það ekki sá fulltrúi sem var að tala heldur var það Pétur Blöndal þingmaður að segja okkur að þar sem stefna sjálfstæðisflokksins um þetta mál væri í vinnslu og væri því ekki á takteinum núna ætlaði hann sem sagt að segja sína persónulega stefnu eða skoðun á þessu máli. Fyrst hann getur leyft sér þetta þá get ég sjálfsagt leyft mér að koma með mína persónulega upplifun á hans persónulegu stefnu til að bæta hag öryrkja. Honum finnst að það sé með öllu ómögulegt að afnema tekjutengingu af því gift/sambúðarfólk er svo tengt mörgu öðru eins og samsköttun, vaxtabótum, húsleigubótum, lánum og öllu öðru. Honum finnst líka að það sé með öllu ólíðandi að maki öryrkja sem er með segjum 1 miljón í laun getur ekki framfleytt maka sínum og ríkið verði að sjá um það. Hann vill meina að tekjutenging er tilkomin svo ríkið sleppi sínum ábyrgðarhluta á fjárhagslegri afkomu fatlaðs einstaklings og færa þá ábyrgð yfir á makann. Mér finnst þetta vera einum of stór athugasemd því að þingmaðurinn verður að hafa í huga að hér er verið að tala um persónubundinn rétt hvers einstaklings sem heitir eignaréttur. Einstaklingurinn er af einhverjum örsokum fatlaður skiptir engu hvaða fötlun sé um að ræða getur þar með ekki verið jafn samkeppnisfær og ófatlaður einstaklingur hvorki í námi né vinnu. Fötlun hverskonar kostar því sitt. Fötluð manneskja hefur stolt og vill ekki vera upp á aðra komin en getur ekki gert að því og þar kemur til kasta samfélagsins að styðja við bak þessarar manneskju til að viðhalda sínum eignarétti og geta lifað við mannsæmandi kjör án þess svo mikið að vera upp á aðra komin fjárhagslega. Það er greinilega mjög erfitt fyrir þingmanninn að skilja svona einfalda hluti. Það er því auðséð hvort sem er á stefnu Péturs Blöndal þingmanns Sjálfstæðisflokksins eða þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að það að afneming tekjutenginu við maka mun ekki vera að finna í stefnu þeirra í komandi kosningum. Þegar ég hlustaði athugul á þingmanninn fara yfir skoðanir sínar á þessum málum reikaði hugur minn til viðtals sem ég las í einu vikublaðana hér á landi við ungan öryrkja sem hafði komist í gegnum iðnnám með dugnaði og elju, var svo að stofna heimili með maka sínum og barni. Öryrkjinn var spurður hvort hann hefði mætt fordómum á líflseið sinni, það kvað hann ekki vera fyrr en hann fór að taka eftir að samfélagslaun hans fóru að lækka ískyggilega mikið og fékk þau svör að hann sé komin með maka og því lækka samfélagslaun hans í takt við það. Það eina sem kom í huga unga öryrkjans við þessa tilkynningu frá þeirri stofnun sem hafði séð fyrir honum og hans fötlun alla ævi var orðið fordómar.
Já og hvað haldið þið svo að fulltrúi framsóknar hafi sagt um stefnu síns flokks að bæta hag öryrkja. Því er auðsvarað, ekki neitt, sú stefna er í málefnavinnslu í flokkstarfinu. Næsti fundur stýrishópsins verður eftir áramótin.
En um eitt eru allir í stýrishópinum sammála um og það er að einfalda almannatryggingarkerfið. Kerfið nú í dag er frumskógur sem afar fáir geta lagt fullan skilning í, það hefur undið á sig eitt og svo annað og er nú orðið að einni risastórri flækju sem fáir komast að skilja alveg til fulls. Þetta verður að laga, svo mikið er víst og með einföldun þess á hagur öryrkja að bætast verulega til hins betra vonandi og á því byggist einmitt hugmynd að betra samfélagi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)