Færsluflokkur: Bloggar
30.11.2006 | 12:48
Dilana
Í gær hitti ég fyrir einskæra tilviljun rokkstjörnuna hana Dilönu og auðvitað Magna líka, þið munið eftir þeim úr Rockstar Supernova. Dilana kann aðeins bandarískt táknmál (ASL) og fékk hún gott tækifæri til að rifja ASL aðeins upp í samræðum sínum við mig. Það getur verið að þar hafi Magni séð nýja hlið á Dilönu. Hún virkaði mjög afslöppuð og ljúf kona á mig ólíkt litlu ljónynjunni á sviðinu. Ég varð nú ekkert smá uppi með mér að hitta þessa konu en eiginlega átti dóttir mín mestu gleðistundina. Þær náðu vel saman og tók Dilana mynd af þeim stöllunum í símanum mínum eins og þið sjáið á myndinni hérna. Nú þarf ég að gera mér aðra ferð í IKEA að kaupa lítinn ramma undir myndina og eiginhandaráritunina með fallegu orðunum sem Dilana skrifaði á lítinn miða handa litlu og sú litla var ekkert að gleyma bróður sínum og bað um eiginhandarskrif handa honum líka og var það vel. Merkileg stund sem sagt skal það segjast.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2006 | 12:21
...sitt sýnist nú hverjum?
Sitt sýnist nú hverjum um mistökin við setja Ísland á lista yfir hinar staðföstu þjóðir og þar með styðja innrásina á Írak hérna um árið. Framsóknarformanninum finnst ákvörðunin á sínum tíma vera röng og mikil mistök. Framsóknarutanríkisráðherranum finnst það svo ekki vera, því viku fyrir orð formannsins sagði hún einmitt við þingheim að ákvörðunin hefði verið óumdeilananlega rétt og þingheimur sérstaklega stjórnarandstaðan yrði bara að láta af þessari þráhyggju sinni og horfa fram á veginn. Það er hægt að segja margt til að hala sér inn nokkur atkvæði fyrir flokkinn sinn en orð framsóknarformannsins eru aðeins í tíma töluð og ekkert spés að vera að spá í þau núna sem eitthvað frambærileg til atkvæða. Það sem upp stendur er yfirgangurinn sem þessi ríkisstjórn hefur sýnt í þessu máli hingað til og það gildir. Kjósendur láta ekki blekkja sig svo auðveldlega þó formaðurinn sýni iðrun fyrir tæknileg mistök sem hann kom ekki einu sinni að sjálfur.
Mér sýnist fjármálaútreiknimeistarar fjármálaráðuneytsins séu byrjaðir að reyna að finna einhvern flöt í lækkun virðisaukaskattsins sem kemur til framkvæmda 1. mars nk. Búið er ákveða að áfengi verður 7% vsk. Áfengi er munaðarvara og ætti því að vera 24,5% vsk finnst mér en sitt sýnist hverjum. Hvað annars um frumlyf, þau eru með 24,5% vsk og teljast varla til munaðarvöru. Þau eru dýr og lífsnauðsynleg mönnum, jafnvel miklu meira en áfengið og finnst mér vera óumdeilanlegt að þau eigi að bera 7% vsk eða jafnvel engan. Var ekki einhver að tala um að lyfjakostnaður væri að sliga heilbrigðiskerfið?
Annað sem ekki hefur fengið umræðu í allri þessari vsk umræðu er barnaföt. Mér finnst þau eigi að taka með í lækkun virðisaukans jafnvel afnema allan virðisauka af þeim. Það er með öllu óþolandi að sjá það sem gerist víða erlendis eins og tildæmis í Skotlandi að barnafatnaður þar sé þrisvar sinnum ódýrari þar en hérlendis eins og Víkverji kemst að orði eða verður orðlaus í Mogganum í dag og hann biðlar til þingmanna að taka þetta barnafatnaðarmál upp og er ég honum þar fullkomnlega sammála. Ég myndi taka þetta barnafatnaðarmál upp, enda finnst mér það forkastanlegt að vera að láta foreldra og forráðamenn barna borga formúgu fyrir barnafatnað sem notaður er í mjög stuttan tíma og sífellt þarf að kaupa nýjan. Hvaða rök verða viðhöfð við að áfengi beri aðeins 7% vsk. Stoppar stutt í flöskunni? Eða hvað? en hvað með það að börnin stoppa stutt í fötunum? er það ekki jafnborðleggjandi í lækkun virðisaukans?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2006 | 12:10
Garðabær 30 ára
Á þessu ári er bærinn minn Garðabær að fagna 30 ára afmæli sínu. 30 ár eru síðan bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Garðabær er ört vaxandi bæjarfélag og hefur á síðustu 10-20 árum verið afar hröð uppbygging hverskonar. Byggð hafa verið mörg hús og íbúum hefur fjölgað hratt. Atvinnulífið hefur einnig tekið örum vexti og má þar nefna landsvæðið Kauptún, en þar mun á næstu árum rísa hverfi fyrir stórar þjónustu- hátækni og iðnaðarbyggingar. Nú þegar er IKEA staðsett þar og Max.
Garðabær er nú í dag sjötta stærsta bæjarfélagið á landinu með um 9000 íbúa og ört vaxandi, metnaðarfullur bær sem ætlar sér stóra hluti því áætlað er að árið 2036 verði íbúarnir orðnir 20.000. Mér finnst mjög gott að búa í Garðabæ allavega þau 12 ár sem ég hef búið þar og er stolt af allri þeirri uppbyggingu sem hefur orðið í bænum og það vel. Ég hef stundum látið til mín taka ef eitthvað finnst mér hægt að gera betur og til að mynda á ég einn stað í bænum þar sem komið var á þrengingu í götunni til að hægja á hraðanum eftir ábendingu frá mér. Þá götu sé útúr glugganum hjá mér og horfi oft á bílana fara um þrenginguna, stoppa með hægð leyfa öðrum bílum að fara í gegn og fara svo sjálfir í geng. Vegfarendur yfir götuna eru þar með miklu öruggari en var. Hér er mikið af útivistarsvæðum með góðum gönguleiðum, ég hef gengið þær flestar, hrifnust er ég hinsvegar af gönguleiðinni við Vífilstaðavatnið og hef ég oft gengið þann hringinn, jafnvel einu sinni tvisvar í sama rúntinum. Á þeim göngum hafa oft orðið til ansi margir pistlarnir eða greinar, einn rösklegur göngutúr er góður brain-stormari.
Íþróttafélag bæjarins ber flott og mikið nafn; Stjarnan. Sonur minn æfir þar handbolta og núna um helgina er hann að keppa á móti. Seinnipartinn í dag og fram á kvöld mun ég eitthvað vinna í foreldrastarfinu í tenglsum við mótið í Mýrinni. Það er gaman að sjá þessa ungu pilta keppast um boltann, sinna honum og eiga sínar góðu og slæmu stundir með honum, allir keppast að því sama að gera miklu miklu betur en síðast og vera bestir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 23:14
Ó, afsakið!
Mér sýnist allt vera í klessu og klúðri í utanríkisráðuneytinu, það er hægt að afsaka vatnsleka af völdum frosts, enginn dó þó, aðeins skemmdir á húsnæði sem liggur ónotað og enginn veit í hvorn fótinn á að stíga varðandi allan þennan húsnæðiskost sem hefur staðið auður síðan varnarliðið fór af landi brott. Það sem hinsvegar kemur ekki til mála fyrir utanríkisráðuneytið að afsaka er þegar tugir hundruða jafnvel þúsunda saklausra borgara féllu í innrásum Bandaríkjanna á Írak og íslensk stjórnvöld studdu það af alhug sem frægt er. Það er ekki á borðinu hjá utanríkisráðherra að afsaka þann gjörning sem stjórnliðar ákváðu í sameiningu án þess svo nokkuð mikið að bera stuðninginn upp við Alþingi. Það er ekki heldur á kortinu að draga þann stuðing til baka vegna tæknilegra mistaka af hálfu stjórnliða. Utanríkisráðherra finnst heldur ekki við hæfi að afsaka að hún hafi tekið á móti sendiherra Ísrels og setið að snakki undir kaffibolla sennilega drykklanga stund og fyrir utan stóðu mótmælendur sem ekki stóð á sama um stríðsbrölt Ísraela gagnvart Palestínumönnum og Líbanona. Í þeim hildarleik hafa líka hundruð og ef ekki þúsundir saklausra borgara látið lífið og enn aðrir misst allt sem þeir eiga undir sér til að lifa daglegu lífi, land, húsnæði, atvinnu og ástvini. Utanríkisráðherra fann heldur ekki að sér að afsaka slakan enskuframburð þegar hún hélt ræðu sína um góðfúslega ósk Íslands um aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Vatnsleki og skemmdir á auðu íbúðarhúsnæði er það eina sem er afsökunarvert að mati utanríkisráðherra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 18:33
Alvöru í málin!
Það var mjög vetrarlegt að litast um í morgun. Því verður ekki neitað að ég hef ansi flott og víðfermt útsýni eins og sést á þessari mynd.
Mér finnst einstaklega gaman að lesa vel skrifaðar greinar. Það er einstaklega hollt fyrir alla að lesa greinar sem þeir sjálfir vildu hafa skrifað. Í grein sem Þorvaldur Geirsson kerfisfræðingur skrifaði í Morgunblaðinu í gær (18.11.2006) kemur allt fram sem ég vildi sagt hafa um innflytjendamálin og er ég honum þar sammála í einu og öllu. Hann kemur vel að efninu og vill meina það að við íslendingar verðum að vera betur í stakk búin til að taka á móti útlendingum sem og það að útlendingar sem hér vilja setjast að verða að aðlaga sig daglegu íslensku lífi og vera þar með virkir þátttakendur eins og allir sem í samfélaginu búa. Þetta er ekkert hjal um Ísland fyrir íslendinga bara raunhæf sjónarmið í málefnin sem hefur undanfarna daga fengið mikla og þarfa umfjöllun. Skólar hér á landi reikna bara með fæddum börnum á Íslandi, húsakostur, starfslið og fjármagn gera ráð fyrir þeim fjölda en gera lítil ráð fyrir börnum af erlendum uppruna sem flust hafa til landsins á grunnskólaaldri. Á meðan svona ástand varir verður að stoppa flæðið og vinna að því að geta tekið vel á móti erlendum börnum og bjóða þeim þá íslenskukennslu sem til þarf í skólanum svo hægt er að nema námsefnið til jafns við aðra nemendur. Þetta sem ég nefni er bara eitt lítið dæmi sem sýnir að skólakerfið er ekki alveg tilbúið að meðtaka grunnskólanemendur af erlendum uppruna þó stefnan sé að öll börn eigi rétt á grunnskólamenntun og eigi að vera í skóla. Hér þarf víst aðeins að staldra við og koma lagi á hlutina.
Undanfarna mánuði hafa hingað til landsins flust 12 heyrnarlausir einstaklingar af erlendum uppruna. Þeir hafa allir fengið vinnu að mér skilist og finnst gott að búa hér. Þeir þurfa að læra íslenskt táknmál og líka íslenskuna. Þetta er nýtt fyrir öllum og nú er í undirbúningi þróunarvinna sem miðar að því að kenna heyrnarlausum af erlendum uppruna íslenskt táknmál og kenna þeim að aðlagast íslenskri menningu, samfélagi og daglegu lífi hérna. Sýna þeim lífsmynstur okkar, menningu og gildi. Hvernig sem það verður er spennandi að fylgjast með þeirri vinnu. Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um þetta þróunarverkefni er bent á Félag heyrnarlausra.
Í gær var Kjördæmafélag Frjálslynda flokksins í Suðvesturkjördæmi stofnað og stjórn skipuð. Þar hélt ég smáræðu og fjallaði meðal annars um innflytjandamálið og þá stöðu sem málið er núna sem og vinnu mína í stýrishópi Örykjabandalagsins að koma með tillögur að betri hag fyrir öryrkja. Eins reifaði ég að göllum eftirlaunafrumvarpsins sem ég hef minnst á hérna áður.
Mér sýnist ekki vera mikið mál að manna sætin á framboðslista Frjálslynda flokksins hérna í Kraganum, fólk er mjög áhugasamt og 1. sætið sérlega vinsælt. 2. sætið líka og það þriðja meira segja líka. Hvað mig sjálfa varðar þá stefni ég á 1-2 sætið og nefndi í ræðu minni að ég sæktist eftir forystusæti þar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 23:11
Bíó, aðgengi og bætt kjör
Í kvöld fór ég í bíó, svo sem ekki frásögu færandi nema þessi bíósýning fyrir mig var ekki með þennan made in USA stimpil, heldur íslensk, alíslensk snilld og ekki nóg með það heldur var snilldarverkið líka með íslenskum texta. Það er það sem dreif mig að fara á íslenska bíómynd. Snilldarverkið var myndin Börn, framleidd af Vesturporti. Frábært framtak hjá þeim að sýna hana með íslenskum texta. Söguefnið íslenskur veruleiki, en gæti samt allt eins gerst í hvaða landi sem er, blákaldur veruleikinn í mannflórunni hvernig sem það nú er. Það er þakkarvert og stórt skref fyrir mig að sjá íslenska bíómynd textaða sér í lagi á því ári sem hún var frumsýnd. Síðasta íslenska bíómynd sem ég sá textaða var Djöflaeyjan, en þá sýningu sá ég meira en ári, held tveim árum eða meira eftir frumsýningu hennar. Nú finnst mér að framleiðendur Mýrinnar verði að fara að setja sig í næstu textastellingar og ég mæti þá, helst að það verði jólamyndin mín í ár og það er stutt til jóla og myndin hefur slegið öll aðsóknarmet, er þá ekki komin tími á að ég fari að sjá það sem dregur meginþorra landsmanna að.
Í vikunni hélt ég fyrirlestur á ráðstefnu sem haldin var um aðgengi á Netinu. Ég fjallaði um aðgengi heyrnarlausra á Netinu, hver staðan er og hverjar væntingar heyrnarlausra séu í þessum málum. Það sem við viljum sjá í framtíðinni á heimasíðum fyrirtækja er meira af Netspjallsviðmóti og táknmálsviðmótum. Táknmálsviðmót er það að texti er færður í myndskeið á heimasíðu. Getið séð dæmi á www.shh.is og www.frontrunners2.dk eftir áhorfið vitið þið hvað táknmálsviðmót er. Sniðugt ekki satt?
Ráðstefnan var haldin á vegum Öryrkjabandalagsins, forsætisráðuneytsins og Sjá ehf. sjá www.sja.is Fyrirlestra á ráðstefnunni og þar á meðal minn til dæmis er að finna á www.sja.is
Það er vissulega fagnaðarefni í alla staði að ríkisstjórnin hafi ákveðið að lögleiða 25 þúsund króna frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna lífeyrisþega frá 1. janúar 2007. Það er vel og nú er kannski komin eitt tilefnið fyrir ríkisstjórnina að hrista fram úr erminni góðgjörðir korteri fyrir kosningar. Stjórnarandstaðan lagði fram þingsályktunartillögu þar sem fyrir þetta er kveðið á um 75 þúsund króna frítekjumark á mánuði en 25 þúsund er kannski bara byrjun og þessi umfram 25 þúsund sem eldri borgara mega vinna fyrir kostar það ríkissjóð 6,400 , segir hagfræðingur eldri borgara, þannig að vel er hægt að gera betur og hækka frítekjumarkið meira. Talandi um lífeyrismál þá finnst mér aðeins rétt að minnast á eftirlaunafrumvarpið fræga, það er ekkert búið að laga það, síðasti forsætisráðherra ætlaði að gera það en þorði engu og fór án þess svo mikið að hreyfa við því. Þingmenn hafa komið sínum málum þannig fyrir ásamt þess hjá nokkrum hluta opinberra starfsmanna að það skiptir engu hvort þeirra lífeyrissjóður eigi fyrir skuldbindingum, það sem upp á vantar er einfaldlega sótt í ríkissjóð. Það voru einnig sett lög að ef almennir lífeyrissjóðir eigi ekki fyrir skuldbindingum verði þeir að skerða réttindi. Almennir launamenn hafa margoft bent á það sé ekki réttlátt að þingmenn og sumir opinberir starfsmenn geti sótt vaxandi örorkubyrði í ríkissjóð, sem við hin verðum svo að greiða með sköttum. Misbýður ykkur ekki svolítið? Þetta er bara eitt lítið dæmi sem er að finna í þessu óréttláta eftirlaunafrumvarpi sem stundum er kallaður ósóminn. Ósjálfrátt fær maður hroll við lesturinn og ekki er það frostinu um að kenna.
Á morgun verður stofnað kjördæmafélag Frjálslynda flokksins hér í Suðvesturkjördæmi. Auglýsingu um það getið þið séð á www.xf.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2006 | 22:28
Íslenska hér og íslenska þar!
Mikið lifandis ósköp getur maður dáðst að Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra nú í dag. Hún vill halda íslenskunni á lofti og kemur með þetta núna loksins í þessu, hefur haft allan þennan tíma til þess og það allt á þessari einni viku. Fyrst var það stóraukið fjárframlag til íslenskukennslu fyrir útlendinga, flott mál og hefði alveg mátt koma fyrr en rétti tíminn var bara einmitt núna og svo það nýjasta, heiti á erlendum bíómyndum og þáttaröðum skulu vera íslenskuð fínt mál líka, dagur íslenskrar tungu óðum að nálgast og sá síðasti fyrir kosningar. Hún á eftir að gera betur og er aðeins komin á sporið í átt að því að skilja hversu mikið gildi textun á innlendu sjónvarpsefni hefur fyrir allavega meira en 10 % þjóðarinnar sem ekki getur fylgst með íslensku efni í sjónvarpi og þá er ég að tala um allar sjónvarpstöðvarnar. Hún getur tekið á honum stóra sínum og reynt að finna leið til þess að skylda allar sjónvarstöðvar til að texta innlent sjónvarpsefni, jafnvel gera það mál að skilyrði við veitingu sjónvarsleyfis. Textun á innlendu efni er í mínum huga núna þjónusta í almannaþágu og þjónusta í almannaþágu s.s. hljóð og íslenskt mál er háð skilyrðum við veitingu sjónvarpleyfis nú þegar. Textun þarf að komast í lög, það er mikið mannréttindamál fyrir stóran hóp fólks sem ekki er alveg að nema hljóðið úr sjónvarpi. Jafnvel útlendingar læra íslenskuna betur ef þeir heyra hana talaða og sjá hvernig hún er skrifuð samtímis. Semsagt tvöfalt notagildi fyrir þá sem textans njóta.
Ef hún sinnir þessu máli ekki, þá fer ég að hugsa svona sitt á hvað hún sé hrædd við einkasjónvarpsstjórana? Er verið að hlífa þeim eitthvað? Er það að textun á innlendu sjónvarsefni verði sett í lög það versta sem gæti komið fyrir einkasjónvarstöðvarnar? Allir dagar eru nefnilega dagar íslenskrar tungu. Fyrir liggur á þessu löggjafarþingi frumvarp um textun á innlendu sjónvarpsefni flutt af Guðjóni Arnari Kristjánsyni Frjálslynda flokkinum.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2006 | 19:53
Fimmföldun á fylgi FF
Fimmfalt fylgi er ansi gott fyrir stjórnmálaflokk sem þorir að taka málin föstum tökum og standa við sína sannfæringu hvað sem á dynur. Þó svo flokkur minn fékk nú í dag í skoðanakönnun Fréttablaðsins 11 prósenta fylgi þá hef ég ekkert ofmetast neitt. Ég hef enn sömu trú á flokkinum og fyrir var þegar hann hafði 2-3 prósenta fylgi. Svo einfalt er það. Þetta eru hörkuduglegir þingmenn sem flokkurinn á, sennilega með álíka mörg þingmál í sinni könnu og stærsti flokkurinn með margfalt fleiri þingmenn, bara gróf ágiskun hjá mér og ég verð að segja eins og er og þið eflaust vitið, þá vildi ég að ég væri þarna í ólgusjó þingsins á þessum síðasta þingvetri fyrir kosningar, en hmmm ekkert má víst.
Fylgisaukningin skýrir sig sjálf; fólk er ánægt með þann málflutning flokkurinn hefur staðið fyrir og fólk vill hreyfingu á málin. Fólk vill ekki að flæði frjáls vinnuafls frá Evrópulöndum sé ótakmarkað. Við vorum og erum í engan veginn stakk búin til að taka á móti þessum fjölda miðað við íbúastærð okkar þó vissulega stöndum við í miklum framkvæmdum sem þýðir kannski að skortur geti orðið á vinnuafli en við íslendingar höfum nú alltaf sýnt í gegnum árin að við séum ótrúlega úrræðagóð þegar á harðbakkann slær. En það verður samt að passa að þessir hlutir falli ekki í sömu gryfju og var að gerast fyrir málflutninginn. Verið viss um að flokkurinn mun fylgjast með þeirri þróun á næstunni.
Það er alveg ótrúlegt hve mikil umferð hefur verið hérna á síðunni minni undanfarna daga og enginn hefur enn sem komið er boðist til að koma með borvélina sína hingað og klambra saman IKEA skápnum með mér. Svo ég sé bara framá að ég verð að hóa í einhverja af þessum fimm bræðrum sem ég á. Góðu fréttirnar eru hinsvegar að skápurinn verður komin upp fyrir jól. Já, það er fer að styttast í blessuð jólin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 22:25
Öngvir rasistar!
Það sem eftir stendur í atburðum síðustu daga þ.e. innflytjendamálin/frjálst flæði vinnuafls frá Evrópu situr það enn í mér að aðrir flokkar, stjórnmálaspéklúantar og einhverjir aðrir séu að kalla stefnu Frjálslynda flokksins rasisma. Það er alls ekki rétt og er bara útúrsnúningur og verið að reyna að veiða fólk í skoðanavillu á stjórnmálaflokki. Væri Frjálslyndi flokkurinn hinsvegar hreinræktaður rasistaflokkur í ætt við hægri öfgasinnaðan þjóðernisflokks af verstu sort þá væri ég ekki þar og hefði aldrei fengið að stíga fæti inn þar með baráttumál mín og minnihlutahóps míns. Þá hefði flokkurinn aldrei staðið fyrir því að berjast fyrir því að viðurkenna íslenska táknmálið eða þá að vilja texta innlent sjónvarspefni fyrir heyrnarlausa/heyrnarskerta og ÚTLENDINGA að svo þeir geti lært íslenskuna af textanum (að heyra hvernig orðin eru borin fram og skrifuð samtímis) og lærðu þar með líka um íslenska menningu og myndu því aðlagast lífinu hérna á þessari sérstöku eyju í Norður-Atlantshafi. Og svo ekki sé minnst á öryrkja og lífeyrismálin sem flokkurinn hefur staðið fyrir á þingi. Í venjulegum rasistaflokkum eru fatlaðir nefnilega útskúfaðir og baráttumál þeirra ná ekki upp á pallborðið hjá rasistum. Því er hér með alfarið vísað til föðurhúsana að Frjálslyndi flokkurinn sé litaður rasisma og í honum her rasista. Svo ekki sé nú meira sagt um þetta mál meir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.11.2006 | 21:42
Pottþétt réttlætanlegt
Þetta var pottþétt réttlætanleg ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)