Færsluflokkur: Bloggar

Tossalistinn

Hann er orðin svakalangur tossalisti ríkisstjórnarinnar í málefnum fatlaðara og minnihlutahópa í samfélaginu.  

Við skulum líta aðeins yfir farin veg eða öllu heldur ófarin veg í þessum málum:

  1. Haustið 2003 tilkynnti Árni Magnússon þáverandi félagsmálaðráðherra að lögin um málefni fatlaðara væru í endurskoðun.  Nú á þessu síðasta þingi kjörtímabilisins hefur enn ekkert bólað á þessari endurskoðun.
  2. Engin lög um fullkomið upplýsingaraðgengi allra hafa verið samþykkt eins og til dæmis lög um textun á innlent sjónvarpsefni eða hvað þá aðgengi allra á heimasíðum opinberra stofnanna. 
  3. Táknmál þrífist á forsendum bráðabirgðalausna og geðþóttaákvarðanna og skapar óöryggi fyrir notendur í samskiptum sínum í daglegu lífi.   Erlendar rannsóknir hafa sýnt að táknmálsnotendur sem búa við svona óöryggi hafa allt að þrefalt meiri hausverk heldur en almenningur sem hefur óheft aðgengi að daglegu amstri sínu sem leiðir af sér að lífslíkur táknmálsnotenda eru styttri en almenns viðmiðunarhóps.
  4. Í haust var enginn blindrakennari starfandi hérlendis og 3 blind börn hafa flust búferlum með fjölskyldu sinni til annars lands til að fá þá skólagöngu sem þau eiga rétt á.  Slíkt er víst ekki í boði hérlendis.
  5. Engin lög eða reglugerðir segja til um að fatlaðir eigi að vera í bílbeltum í bifreiðum á vegum ferðaþjónustu fatlaðra!
  6. Starfsfólki í umönnunarstörfum fyrir fatlaða er greidd smánarlega lág laun fyrir störf sín sem gerir það fyrir verkum að erfitt er að manna í stöðurnar og þar með fá fatlaðir enga þjónustu sem þeir eiga rétt á, allt lagt á herðar stórfjölskyldunnar ef hún er til.  
  7. Sambýlum fyrir fatlaða hefur ekki fjölgað neitt og lítið borið á litlum sambýlum fyrir þá sem geta búið einir en þurfa aðstoð.  Hvernig er annars komið með biðlista eftir sambýlum? 
  8. Ekkert hefur borið á því að komið sé á fót fullri liðveislu fyrir mikið fatlaða einstaklinga og daufblinda.
  9. Hvað vinna margir fatlaðir hjá hinu opinbera að koma málum sem þessum í réttan farveg?
  10. Maður getur ekki sleppt að tala um heilbrigðisþjónustuna í þessu samhengi því hún er sífellt að verða kostnaðarmeiri fyrir fatlaða.
  11. Er ekki eitthvað minnisblað til í félagsmálaráðuneytinu sem ber yfirskriftina “Samfélag fyrir alla”  hvernig væri nú að dusta rykið og kaffisletturnar af því?
  12. Atvinnuleit fyrir fatlaða? 
  13. Lítið gert í því að bæta hag öryrkja fjárhagslega svo hægt sé að lifa mannsæmandi lífi.
  14. Af hverju tekur almennt vinnuferli í málefnum fatlaðra alltaf svo langan tíma frá hugmynd til framkvæmdar?

Jæja, bara svona nokkrar hugleiðingar á sama tíma og sjávarútvegsráðherra er að vinna að opnum huga að efla hag stórútgerða um hvort auka eigi veiðiskyldu þeirra sem ráða yfir aflaheimildum.  Þessi “opni hugur” þýðir í stuttu máli meiri ójöfnuð og enn einu sjávarþorpinu verður rústað.   


...í amstri dagsins

Það hefur ekki mikið verið skrifað hérna síðan síðast.  Maður hefur haft nóg fyrir stafni að koma sér í reglubundna rútínu aftur eftir jólafríið.

 

Ég verð að segja eitt í sambandi við Kaupþings-auglýsinguna.  Eina auglýsingin sem hægt er að ná nokkurn veginn frá þeim er með texta og auðvitað er útlendingur að tala.  Mikið mál að koma textanum fyrir?  Varla virðist svo ekki vera í þessu tilfelli.  Fleiri ættu að taka Kaupþingsmenn sér til fyrirmyndar og gera allar auglýsingar á erlendu máli þá yrði upplýsingaraðgenginu fullnægt til allra. 

Já og ef einhverjum langar að grenja hressilega eða jafnvel hafa grátinn eitthvað svo voðalega angurværan  þá mæli ég með síðustu blaðsíðum í bókinni Allt hold er hey eftir Þorgrím Þráinsson.  Ég er enn að jafna mig eftir lesturinn. 

 

Í dag gekk ég í fallegu veðri hringinn í kringum Vífilstaðavatn.  Mæli alveg með góðum göngutúr þarna í bland við heilsuræktina sem þið eruð byrjuð á. 

Talandi um heilsurækt, þá er víst ekki hægt að stunda hana af alvöru nema athuga hvað maður lætur sér til munns.  Ég rakst á þessa uppskrift af brauði í síðustu viku, bjó það til og leist bara vel á. Aldeilis auðvelt að búa þetta brauð til, þarf ekkert að hnoða eða svoleiðis, svo er það bara hollustan uppmáluð – en annars svona eftir því sem ykkur dettur í hug að setja í það.

Uppskriftin er svona og brauðið heitir “Brauð með öllu mögulegu í” Heiðurinn á brauðinu á Sigrún Þorsteinsdóttir sem heldur út hinum ágæta vef www.cafesigrun.com og kom mér á sporið að elda góðan og hollan mat úr góðu hráefni.

 

5 dl speltmjöl

1 dl sólblóma og sesamfræ (eða bara það korn sem ykkur dettur í hug, jafnvel má rífa gulrætur í brauðið)

3 tsk lyftiduft 

½ - 1 tsk sjávarsalt

2 dl ab-mjólk eða sojamjólk

2 dl soðið vatn

 

Blandið þurrefnum saman í skál.  Hellið vökvanum og blandið varlega saman með sleif.  Setjið í form sem er klætt bökunarpappír eða notið silconform (ég nota svoleiðis ílangt form og mæli með því).  Bakið í u.þ.b. 25-30 mínútur við 200°C.

Verði ykkur að góðu fram að næsta bloggi!

 

Hver?

Ég er ekki vön að blogga eftir fréttum en núna get ég bara ekki setið á mér að gefnu tilefni og finnst nóg um og spyr ykkur því sem mögulega eigið í hlut, hvort þið kannist nokkuð við að hafa gert gamla fólkinu þennan grikk um miðnætti og laust eftir það?

 p.s. annars fékk ég voða súrsætt sms rétt fyrir kl. 23 í gærkvöldi það var á þessa leið:   "Veit að þetta er svolítið snemmt en vildi bara segja Gleðilegt nýtt ár svona áður en aðalstundin nálgast.  Ég á marga vini, svona um 80 þúsund sumir hverjir mjög leiðinlegir og síkvartandi ef maður sendir þeim sms en aðrir mjög venjulegir.  Þannig að ég byrja að senda þeim sem mér finnst mjög SEXY, ÆÐISLEGIR, FRÁBÆRIR, HEITIR, FALLEGIR og VINSÆLIR og taktu svo eftir einu, ég fékk þetta sms nefnilega á undan þér, samt ert þú sú eina sem ég áframsendi og vil endilega sjá þig í viðskiptum á nýja árinu!  Nýárskveðja Dominos"

Fengu fleiri svona???


Nýárskveðja

Gleðilegt nýtt ár, megi nýja árið færa ykkur öllum nær og fjær gæfu og farsæld.Áramót 2006-07 022

Annáll 2006

Nú er víst næstsíðasti dagur ársins.  Á þeim degi leggjast kannski einhverjir í að hugsa út í hvað árið sem í senn fer að líða hefur gefið þeim.

Ýmsar 065Árið 2006 var gott fyrir mig og mín börn, það er þó ekki þar með sagt að það hafi farið neinum mildum höndum um mig.  Maður fékk sín högg eins og allir aðrir, þó voru þó ekki nein stór sem betur fer en þegar upp er staðið tel ég mig bara hafa skakklappast nokkuð heilleg frá þeim. 

Hvað heilsu mína varðar var stærsti skellurinn að fá sykursýkina, lungnabólgan sem ég er með núna er algjört peð miðað við sykursýkina.  Það var nokkuð sem maður þurfti að taka á honum stóra sínum og get ég ekki bara annað sagt nú þegar heill fjórðungur af eigin líkamsþyngd hafa verið kvödd þá er þetta kannski meira happ en helvíti á jörðu. Það var gaman í ræktinni og er enn, get varla beðið eftir að byrja á nýja árinu og þá ætla ég að leggja meiri rækt í hlaupin frekar en rösklega göngu þegar vorar á nýju ári.  Ýmsar 045

Mér finnst hins vegar agalegt að hafa ekkert fengið að setjast á þing á þessu ári, ég hef sagt það áður og segi enn að mér finnst Alþingi vera að missa af miklu að hafa mig ekki þarna inni þó ekki sé nema í nokkra daga, en það koma önnur kjörtímabil eftir þetta svo maður skal ekki leggja árar alveg í bát . 

Ég og mín börn eigum fallegt heimili með stórkostlegasta útsýni sem um getur. Við leggjum mikla rækt í að hafa fínt í kringum okkur, þó börnum mínum finnst ég vera heilmikil pjattrófa núna þá er ég nokkurn veginn viss um einhvern daginn líta þau upp og sjá að það er alveg rétt hjá mér að hlutir sem við missum óvart á gólfið og tökum ekki upp strax eiga sér einhvern annan stað en á gólfinu. 

Ég las nokkrar bækur á árinu og nú er ég að lesa bókina Allt hold er hey eftir Þorgrím Þráinsson og satt best að segja hreif hún mig strax frá fyrstu línu, hún fjallar um konu sem heitir Guðbjörg og var uppi í kringum Skaftáreldana um 1783.  Það merkilega við bókina er að aðeins er sagt frá heyrnarlausri konu í henni, reyndar er hún sögð mállaus sem kannski er réttnefni því hún hafði ekkert mál eða hvað þá táknmál til að tjá sig annað en tilfinningar sínar og lét þær óspart í ljós þegar henni fannst illa að sér vegið eins og allir heyrnarlausir gera við svipaðar ástæður og þessi kona, sem kölluð er Halla, þurfti að búa við og hún leið mikið fyrir þær. Því miður heyrir maður af táknmáli götunnar enn sögur af fólki í sama ástandi og umrædd Halla var í og þá í vanþróaðri löndum eins og t.d. löndum Suður-Ameríku

Ég hélt mínu striki á árinu og barðist áfram fyrir textun á innlent efni og mun halda því áfram uns þessi sjálfsögðu mannréttindi um aðgengi að upplýsingum í  fjölmiðlum verður fullnægt og fest í lagabókstaf.  Í þeim efnum var sérstakt ánægjuefni á árinu að menntmálaráðherra og útvarpsstjóri skrifuðu undir samkomulag um aukið fé til RÚV vegna innlends efni og í sama samkomulagi er getið að textun á innlent sjónvarpspefni hjá stofnunni verði aukið.  Þetta samkomulag var gert nú á haustmánuðum en ég hef því miður ekki orðið vör við mikla  aukingu, ef til hefur það verið gert og þá farið framhjá mér en ég sé enn sem komið er enga textun á efni líðandi stundar eins og til dæmis Kastljósið.  

Sama má segja um táknmálið sem er mér að sjálfsögðu jafnhugleikið og textunin.  Ég er stolt af greinarskrifum mínum um það mál og að ég haldi því á lofti þó vissulega væri akkur í að fleiri gerðu það því það er svo mikill samhljómur á milli allra sem láta sér þessi málefni mikið varða og þekkja þau og skilja mikilvægi þess að réttindi heyrnarlausra á forsendum táknmálsins verði komið fyrir í lagabókstafnum og þau þar með tryggð þeim frá vöggu til grafar. Síðast en ekki síst það að stjórnvöld viðurkenni táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblinda.  Það er ótalmargt hægt að segja um hvaða þýðingu slík viðurkenning hefði fyrirþennan hóp en það er vitað hvaða þýðingu það hefur fyrir sjálfsmynd manna að vera viðurkenndur. Segi bara enn og aftur að ég hefði svo gjarnan vilja setjast á þing á árinu.

Ýmsar 131Sumarið var flott verð ég að segja, jafnvel þó sólbaðsdagarnir hafi bara verið þrír almennilegir hjá mér en hvað um það. Ég skrapp í viku til Akureyrar á Norræna Menningarhátíð heyrnarlausra. Þar voru komnir margir góðir gestir frá Norðurlöndum og öðrum löndum.  Akureyri varð í viku að táknmálsbæ og gott betur því var þarna líka Alþjóðleg leiklistarhátíð heyrnarlausra – þar fékk ég mínum leiklistaráhuga fullnægt á forsendum táknmálsins. Það var gaman þarna. 

Svo kom haustið og ég hóf nám í nýjum skóla og útskrifaðist sem bókari, ekki löggiltur en líka þómeð plagg upp á tölvuþekkingu mína. Það var gaman í skólanum og ég lenti í bekk með yndislegum konum sem gaman var að kynnast og vinna með.  Útskrift NTV 2006 014

Af pólitísku flokkstarfi er það helsta að segja að starfið þar er alltaf jafnskemmtilegt. Í Frjálslynda flokknum vinnur maður með fjölbreyttu fólki sem hefur fjölbreyttar skoðanir og lætur þær óspart í ljós, alltaf lærir maður eitthvað nýtt eða kynnist einhverju nýju og sei ef ég nefni ekki fylgisaukninguna hjá flokkinum mínum á árinu, hún var flott. Það er það góða og sýnir að hann er vel hæfur til að taka á viðkvæmum málum og er enginn “eins málefnaflokkur” eins og sumir vilja halda fram. 

Deilur skyggðu smá á flokkstarfið en hver segir að flokkar eigi að vera lausir við innanbúðadeilur þegar í þeim starfar svona fjölbreytt fólk og er duglegt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þau sjónarmið eru kannski ekki allra en það verður að segjast eins og er að fólk á skilið rós í hnappagatið að geta komist að ásættanlegri málamiðlun um ágreiningsefnin jafnvel þó þau séu fleiri en eitt. 

Af öðru félagsstarfi en pólitísku er það að segja að ég lét af stjórnarstarfi mínu í Félagi heyrnarlausra, náði eiginlega ekki að komast inn það því það er víst orðið svo vinsælt að vera í stjórninni miðað við sem áður var og svo er maður orðin hitt og þetta gamall og ungt fólk vill fá að virkja sína krafta þarna og er það góð þróun því við eigum einmitt svo mikið af duglegu ungu fólki og ansi hugmyndaríku.

Bættur hagur öryrkja fékk notið starfskrafta mína á árinu er ég var skipuð fulltrúi flokks míns í nefnd á vegum Örykjabandalags Íslands. Það starf var að mörgu leyti fróðlegt og trúi ég að það muni skila sér í baráttunni fyrir bættum hag öryrkja og aldraðra sem orðin er ansi löng. Þó skal það segjast að nokkur góð skref hafa verið stigin, sumir sáttir við þau en aðrir ekki svo maður getur bara ekki sagt annað en að alltaf megi gera betur sérstaklega þegar við búum í landi sem sagt er hafa besta velferðarkerfi heims, spurning hvort það sé alltaf rétt, væri svo væri ég sennilega þá að skrifa um krosssaum og annað bróderí. 

Jæja, þetta er víst orðin ansi löng lesning fyrir þig kæri blogglesari, það er ekki á allra færi að lesa löng blogg  og vona ég innilega fyrir þína hönd lesandi góður að þú náir að líta yfir þinn veg á árinu.  

Árið var í heild sinni bara fjandi gott skal það segjast.  Fyrir það þakka ég og er alveg til í að taka á móti nýju ári eins og það mun leggjast á mig, þig og alla aðra.  Okkur leggst eitthvað til að vöðla úr því, hvort sem það er nú skellur eða þá eitthvað sem maður verður ógurlega stoltur af það sem morgunljóst er með nýja árið er að það verður kosningarár og mjög spennandi ár fyrir alla.  Allar stundir hafa sín augnablik, það er það góða.

Hafið gleðileg áramót og bestu óskir um farsælt nýtt ár.

   

Sitt og hvað um heilbrigði landans

Heilbrigiðskerfið er víst dýrasti pakkinn sem ríkissjóður greiðir í.   Maður skyldi ekki ætla að láta eins og það komi manni ekkert við, því maður getur hæglega fundið fyrir því þegar vélin í okkur vinnur ekki eins og á að vera.  Allar vélar geta einhverntímann bilað.  Stór spurning er um hvort vélin í okkur fái réttu greininguna við fyrsta kík hjá lækni, sé svo held ég að það yrði ódýrara fyrir báða aðila sem málið varðar. Mér finnst ég alltaf lenda á einhverju hægfara færibandi í vélarbilunargreiningu hjá mér.  Reyndar fer ég alltaf einu sinni á viku í blóðsykurmælingu á Heilsugæsluna hérna í Garðabæ. Það gengur snuðrulaust fyrir sig fyrir utan smásting sem ég ætla aldrei að venjast og kostar 350,- í hvert skipti að láta pikka í puttann á sér og kreysta út blóðdropa í mælinn. Það þarf ég að gera af því ég fæ ekki að hafa blóðsykurmæli hjá mér af því að einhver reglugerð þar að lútandi var felld úr gildi nánast sama dag og ég fékk mína sykursýkisgreiningu.  Þeir sem eru á töflum (eins og ég) fá nefnilega ekki lengur mæli, aðeins þeir sem eru á insúlínsprautum er mér sagt.  Sem sagt í heimsókn þarna fyrir 3 vikum, varð mér á orði við lækninn að ég væri eitthvað slöpp og greinilega að fá flensu eða eitthvað, hann skoðaði mig og hlustaði og sagði þetta vera einhver flensa, ég ætti sem sagt bara að vera heima og drekka vatn.   Viku síðar kem ég aftur og finnst mér hafa versnað.  Annar læknir skoðaði mig og hlustaði og fannst hann greina smábyrjunareinkenni lungnabólgu á vinstri síðu og lét mig hafa vægan pensilínskammt.  Þá byrjaði þetta alltsaman, eins og þið vitið kannski eru sýklalyf sem þetta ekki niðurgreidd og því þurfti ég að borga tæplegar 2.200,- kr fyrir lyfið sem reyndar kom ekki neitt rosalega að miklu gangi nema því að blóðsykurinn hækkaði og þá verð ég ör og get með litlu móti náð að festa svefn á kristlegum tíma og maður vaknar svo eftir því sem við á.  Og þar sem ég var komin með þessa byrjunareinkennislungabólgugreiningu og komin á lyf hélt ég að mér væru allir vegir færir og fór út í einhver skipti, þá fárveik án þess að það skipti einhverju voðalega mikilu máli. Nú í vikunni fór ég aftur og nefndi við vakthafandi lækni að mér væri eitthvað að versna og blóðsykurinn hefði aldrei mælst svona hátt 9,1.  Hann skoðaði mig og sendi mig í röntgenmyndatöku sem ég greiddi 1.004,- krónur fyrir.   Ríkissjóður greiddi reyndar fimm þúsund og eitthvað fyrir, bestu þakkir fyrir það Árni M. !  Niðurstaðan úr röntgenmyndinni leiddi ljós að um var að ræða lungnabólgu, það sagði læknirinn mér þegar hann opnaði umslagið sem ég var send með til baka (þarf ég að rukka fyrir boðsendinguna?)  Þá var víst bara eitt sem hann þurfti að gera, nefnilega skrifa nýjan lyfjaseðil og sem ég fór með í apótekið og greiddi 2.848,- fyrir (ég fékk þó 276 krónur í afslátt út á græna kortið mitt).  En áður en ég kvaddi lækninn og óskaði honum gleðilegra áramóta spurði ég hann hvað ég ætti að gera við hitt lyfið sem ég fékk viku áður?  Henda því sagði hann bara.  Heilmikið mál fyrir heilbrigðiskerfið að greina einfalt lungnabólgutilfelli og kostnaðurinn á bakvið hvert einstaka tilfelli hleypur á tugum þúsunda, ekki bara fyrir ríkissjóð heldur líka fyrir heimilin.  Við eigum besta heilbrigðiskerfi í heiminum er sagt, við megum ekki vanmeta það.  Við þökkum fyrir okkur í hljóði í hvert sinn sem við þurfum að nota það og fáum bót meina okkar í því.  Saga Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur sem er íslendingur ársins sem ég nefndi í síðustu bloggfærslu væri kannski öðrvísi en hún er ef hún byggi í öðru landi þar sem heilbrigðiskerfið væri í molum og hún fengi ekki þá góðu þjónustu sem hún fær hérna.  Við öll treystum mikið á þetta kerfi það er okkar öryggisventill þegar eitthvað er ekki eins og á að vera í okkur.  Það eru því sjálfsögð mannréttindi fyrir okkur að hafa svona góðan öryggisventill gagnvart heilsu okkar.   Það eru ráðamenn og aðrir sem sjá um að halda þessum öryggisventill gangandi og forgangsraða honum, stundum bara finnst okkur forgangsröðin ekki vera á réttu róli og alltaf er eitthvað sem við verðum að borga fyrir sjálf, sem kannski er rétt að við gerum en ekki alltaf þó.  Til dæmis finnst mér að það þurfi að endurskoða samanburðinn á greiðslum á kuðungsígræðslu og tannlækningum-og tannréttingum, eins og ég hef komið að í skrifum hérna.   En annars eru líka alltaf einhverjar raddir uppi um að vel þurfi að stokka í heilbrigðiskerfinu hérna.   Það er heilmargt í okkar neyslusamfélagi sem vel mætti skoða þegar kemur að forvörnum eins og til dæmis það að lækka virðisaukann af frumlyfjum og afnema vörugjöld og virðisaukaskatt af hollustuvörum t.d. sykurlausum vörum, því 500 grömm af gervisykri kosta 698 krónur út úr búð á meðan 2 kíló af óhollum sykri kosta hundrað og eitthvað krónur út úr Bónusbúðinni.   Einnig finnst mér að vel við hæfi að ríkið kæmi að einhverjum hluta með mótgreiðslu til þeirra sem stunda virka líkamsrækt á fullorðinsárum.   Bara svona að nefna þetta aðeins því til langstíma litið er ég nokkurn veginn viss um að þetta allt muni skila sér síðar í líkamlegu heilbrigði okkar og þar með minnka útgjöldin í dýrasta pakkann sem ríkissjóður greiðir í núna. Við erum svo lítið land og því auðvelt að sjá mælanlegan árangur innan nokkra ára.


Íslendingur ársins

Þegar velja á íslending ársins verður valið vandasamt. Margir koma eflaust til greina en enginn er þó betur að titlinum komin í ár en hin unga Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir, en hana völdu Ísafoldarmenn íslending ársins.  Hún er líka hetjan okkar, berst hetjulega við krabbamein og reynir eftir fremsta mætti að líta jákvætt á lífið eins grimmt og það getur verið.  Hún getur leyft sér að vera mannleg þegar við á, grátið sorgartárum fyrir okkur öll og jafnvel gleðitárum þegar sigurskref í baráttunni er stigið. Hún kemur hreinskilningslega fram við alla.  Ég hef fylgst með bloggsíðu hennar og get ekki annað en dáðst að henni eins og allir sem síðuna skoða dagsdaglega gera. Hún er íslendingur ársins, börn hennar og hennar nánustu eru það líka.  Flestir ef ekki allir sem kynnst hafa krabbameini í einhverri mynd og vita nokkurn veginn hvernig þessi skæði sjúkdómur getur leikið fólk grátt, bæði líkamlega og tilfinningalega.  Oft erfitt að horfa upp á staðreynd að krabbamein leggist á þá sem eru okkur nákomin, hvað þá að hann leggist á mann sjálfan.  Það er ekki á allra færi að taka þessu af jafnmiklu æðruleysi og Ásta Lovísa gerir.

 

Home Alone 2

Þá er fyrsta og æðsta stigi jólanna lokið.  Ég vona að þið hafið notið þeirra jafnvel og ég.  Ég eyddi þeim við einhverjar mestu lúxusaðstæður sem hver heilög húsmóðir gæti hugsað sér, nefnilega undir sænginni minni og ef ég var þar ekki þá fyrir framan sjónvarpið og er víst búin að vera í góðu vinfengi við fjarstýringuna þessa þrjá daga. Á aðfangadag laumaðist ég aðeins út í jólamat og kom heim dulítið máttfarin eftir átökin við jólasteikina á skikkanlegum tíma til að opna pakkana mína.   Þetta byrjaði allt á aðfangadag, var reyndar búin að finna aðeins fyrir því fyrr og jafnvel láta líta á mig þegar ég fór í blóðsykurmælinguna tveim dögum fyrir jól og fékk þá úr því skorið að ég væri með smásnert af lungnabólgu og send heim með lyf.   Nú er ég aðeins betri, börnin komin heim og fjarstýringin skilin við mig.  Eitt er skemmtilegt að segja frá sjónvarpsáhorfi mínu þessa daganna.  Ég horfði alein heima á Home Alone 2, svo sem ekkert frásögu færandi nema hvað að það glittir aðeins í mig þarna í lok myndarinnar.  Ég nefnilega var ein á rölti þarna í New York á þessum tíma og fyrir einhverja einskæra tilviljun var ég allt í einu komin í upptöku á Home Alone 2 fyrir utan Plaza hótelið.   Skrýtið að horfa á þetta allt saman, jólatréð í Rockfellerinum var eins og ég sá það á þessum tíma. Jafnvel ég gat fundið fyrir kuldanum þarna.  Eftir upptökuna gekk ég inn á Plaza hótelið bara til að skoða, gólfið þar var allt í leiðslum og snúrum og menn voru í óða önn að taka saman eftir sig, ég hlýt að hafa verið mjög “aðstoðarmannaleg” þarna á rölti mínu því einn karlinn benti á mig og snúru þarna rétt hjá og gaf bendingu að ég ætti að taka hana saman, sem ég og gerði og rétti honum og hélt bara leiðar minnar áfram í skoðunarferðinni.  Ég tók myndir af aðstæðum þarna en mátti ekki taka myndir inni á Plaza hótelinu, ég náði smámynd af aðalleikararnum Culkin, þær eru á góðum stað í órafrænu albúminu mínu.  Þetta var mjög fyndið á sínum tíma.   Svo mörgum árum seinna kem ég í heimsókn til systur minnar, hún er að horfa á þessa mynd með veikan son sinn. Yngsti bróðir minn er líka þarna.  Ég sest niður hjá þeim horfi með og segi svo á réttu augnabliki: “þarna er ég!”  hva, hva og hvaða? Já þú ert þarna…  nei þarna sko segi ég og bendi á sjónvarpið.. sko ég er í myndinni, þarna *spól til baka*   mynd sett á stillimynd.. “Þarna!”  geðveikt augnablik, fyrst þögn og svo skellihlátur.

En jæja, maður man þetta alltaf þegar maður rekst á þessa mynd, hún er sígild og alltaf hægt að hlæja að henni aftur og aftur.  

 

Ég rétt aðeins skrapp í kirkju á annan í jólum.  Fór í árlegu jólatáknmálsmessuna hjá Kirkju heyrnarlausra.  Kirkja heyrnarlausra er 25 ára um þessar mundir. Gestir voru fjölmargir og verð ég að segja að kirkjusóknin var með mjög alþjóðlegum blæ því þarna meðal okkar voru komnir margir heyrnarlausir nýbúar sem sest hafa að hérna á árinu.  Það var því margt og mikið rætt með jólakaffinu eftir messuna.

 

Bara smá skrif núna, fleira á eftir að koma á næstu dögum.


Jólakveðja

  wls_121304_santa_st

Mínar bestu óskir til ykkar allra um gleðilega jólahátíð, nær og fjær!


Jólaísinn

Nú er maður víst á síðustu fetum í jólaundirbúninginum.  Sem sagt er ég búin að næstum öllu nema skúra og bóna gólfið vel hérna.   Matarvenjur hjá mér breytast eitthvað í ár, þó ekki neinar róttækar breytingar verð ég að segja það að ég er engan veginn tilbúin að sleppa heimagerðum jólaísnum mínum.  Í gærkvöldi dundaði ég mér svo við að staðfæra uppskriftina í sykurlausan jólaís og við fyrsta smakk get ég sagt það að mér hafi bara tekist vel til og vona hann verði enn betri þegar hann kemur úr frystinum.  Þið sem eigið í vandræðum með sykurinn eða viljið vera laus við hann megið alveg fá að prófa.  Uppskriftina fáið þið hérna.

Tvílitur sykurlaus heimagerður jólaís 

Dökki ísinn

3 stk egg

2 msk sykursæta Xylo Sweet

85 gr Bel Arte Noir sykurlaust súkklaði (fæst í Heilsuhúsinu)

4 dl rjómi

20 gr Bel Arte Blanc sykurlaust súkklaði (fæst í Heilsuhúsinu) saxið það smátt. 

 

Aðskiljið eggin.  Hrærið rauðurnar með sykrinum þangað til stífnar og verður ljóst.

Bræðið súkklaðið yfir vatnsbaði.  Setjið súkklaðið svo saman við eggjarauðu hræruna. Hrærið þar til orðið er samfellt.

Stífþeytið eggjahvíturnar.  

Stífþeytið rjómann.

Blandið eggjarauðuhrærunni varlega saman við stífþeyttu hvíturnar, blandið svo rjómanum líka varlega saman við með sleikju.   

Saxið hvíta súkklaðið smátt og setjið í ísinn.  

Setjið í form, hafið skurð í miðjunni og frystið. Passið upp á að ekki verið loft í ísnum.  Farið svo að búa til hvítan ís.

Hvíti ísinn

2 egg

1 msk sykursæta (Xylo Sweet)

40 gr Bel Arte Blanc sykurlaust súkklaði (fæst í Heilsuhúsinu)

1,5 dl rjómi

20 gr Bel Arte Noir eða Lait sykurlaust súkklaði (fæst í Heilsuhúsinu) saxið það smátt.

 

Notið sömu aðferð og með dökka ísinn.

Takið dökka ísinn úr frystinum og setjið hvíta ísinn í skurðinn.  Sléttið, setjið plastfilmu yfir og álpappír yfir eða lok ef þið eigið til lok á formið. Ég frysti þennan í silconformi.  Setjið í fyrsti og frystið fram að framreiðslu. Látið ísinn á fat og dreifið t.d. rifsberjum, bláberjum og jarðaberjum í kring.

 

Þó ísinn sé laus við sykurinn er þar með ekki sagt að hann sé fitulaus því rjóminn sér honum alveg fyrir nægjanlegri fitu.  Ekkert sem kemur í stað rjóma svo mikið er víst.  Þetta eru nú einu sinni jól. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband