Færsluflokkur: Bloggar

1. sætið fokið?

Landsþing Frjálslynda flokksins verður næstu helgi.  Þar verður að öllum líkindum mikil harka og sennilega verður mikið tekist á, sérstaklega þegar kemur að kosningum í formanns-, varaformanns- og ritara embætti flokksins.  Það er víst aðalmálið þessa dagana, enginn málefnaágreiningur hefur ratað á síður fjölmiðla nema bara þetta með kosningarnar og snýst mikið um hver sé víst bestur eða best í embættið.  Um leið og það er komið á hreint þá fyrst er hægt að snúa sér að uppröðun manna og væntanlega kvenna á framboðslista flokksins í öllum kjördæmum.

Það nýjasta sem komið hefur upp er að Valdimar Leó fyrrum Samfylkingarþingmaður, svo utan flokka þingmaður, er nú skráður þingmaður Frjálslynda flokksins.  Sem sagt einn fór og annar kom.  Munurinn er að hann fór úr einum stjórnarandstöðuflokk í annan stjórnarandstöðuflokk meðan hinn fór yfir í stjórnarliðaflokk og ég þurfti og þarf enn að líða stórkostlega fyrir það, sem varaþingmaður hans. Sett í gíslingu af stjórnarliðaflokk og um það ætla ég aðeins að ræða í lokin, en aftur að Landsþinginu og þeirri kreppu sem varir út þessa vikuna. 

Framboðslistar verða víst litaðir af þeirri forystu sem skipuð verður af kosningarbærum mönnum og konum á Landsþinginu.  Ég hef áður komið að því hér á síðunni að 1. sætið á framboðslista hérna í Kraganum er sérlega vinsælt og eftir því sækist ég, en mér hefur verið sagt að það sé öllu heldur mun hagkvæmara fyrir mig að vera í 2. sætinu vegna aðstöðumunarins á aðgenginu að upplýsingum.  Semsagt á lélegt upplýsingaraðgengi hérlendis að veikja stöðu mína og vilja að vera í 1. sætinu.  Ég þarf vitanlega á túlkum að halda og get nokkurn veginn eftir bestu getu útvegað mér þá. Tölvutæknin nú á dögum gerir mér kleift að fylgjast með því helsta sem er að gerast í þjóðfélaginu en samt hef ég ekki nægt forskot að fylgjast með því sem er á öldum ljósvakans þ.e. útvarpinu.

En hafa aðrir frambjóðendur alltaf tíma til að ná öllu sem sagt er þar? Ég á þokkalegan góðan gemsa sem sér til að ég sé sítengd, en ég treysti mér varla að ætlast sé til að svarað sé jafnt að nóttu sem degi, ég tapa ef ég þarf að svara símtali eða sms- skilaboðum að nóttu, en þarf virkilega að hringja eða senda sms-skilaboð að nóttu til? Það munar svo fáum tímum og ég iðulega vöknuð um og fyrir sjö. Þannig séð á þetta ekki að vera mjög mikið mál fyrir ja tja skulum segja heyrnarlausa konu að sækjast eftir 1. sætinu hér í Kraganum af því að henni finnst hún vera jafnframbærileg og aðrir á listum hinna flokkana.  

Nú er Valdimar Leo mættur á svæðið og ég horfði á hann setja upp xF merkið í beinni í Silfrinu án þess svo mikið að skilja hvað fram fór á milli manna þarna. Ég auðvitað reis aðeins upp úr stólnum til að sjá aðeins betur hvað fram fór með þennan merkisgjörning. Ég sá reyndar líka annað í þessum gjörningi – ég sá möguleika mína á 1. sætinu fjúka þarna fyrir karl.  Taki hann sætið verður hann maðurinn sem hrinti fötluðu konunni úr því sæti.  Hann sem er mikill talsmaður fatlaðra og hefur mikið unnið með þeim að mér skilst. Eftir Landsþingið þá fyrst geri ég mér grein fyrir hvar ég stend gagnvart 1. sætinu á framboðslista Frjálslynda flokksins. 

 

En nú aftur að því sem ég lofaði að tala meira um, þ.e. varaþingmannsstöðu minni.  Ég hef ekkert fengið að fara inn vegna þess að Gunnar Örlygsson hefur verið með einsdæmum “vinnusamur” og ekkert “frí” tekið svo ég komist inn.  Þessi “vinnusami” þingmaður hefur nú lítið mætt í “vinnuna” sem hann þiggur ríkislaun fyrir, allir vita hver þau eru svo ég þarf ekkert að nefna neinar tölur og nú er að mér skilist frjáls mæting í “vinnuna” hjá honum á Alþingi.  Er almenn sátt um þetta?  Hvað segja sjallar?  Sennilega segja þeir hann vera í “sérverkefni” fyrir þá sem ekki kalli mikið á að hann stígi í þingsal. 

    

Óráðssían

Mér finnst ömurlegt að fylgjast með óráðssíunni í meðferð ríkisfjármuna eins og núna hefur komið í ljós með Byrgið.  Það mál þarf ég ekki að tíunda neitt frekar hérna, það er víst flest komið upp á yfirborðið.  Úthlutun þessa fjárs hefur komið frá félagsmálaráðuneytinu og á sama tíma hafa ýmsir hópar fatlaðra búið við rýrt fjármagn jafnvel þó þörf hafi verið fyrir meira hafi sagt til um.  Öryrkjar og aldraðir hafa að sama skapi reynt hvað eftir annað að fá samfélagslaun sín bætt um betur til aukina lífskjara hvað eftir annað og ýmist komið að lokuðum dyrum eða þá þeim hefur verið rétt smáölmusa rétt undir þröskuldinn. Þeir hafa jafnvel þurft að fara lengri leiðina til þess, til dæmis til dómsvaldsins. Svo fær karl sem býður upp á syndaaflausn fyrir mikið veikt fólk allt og ekki nóg með það heldur notar hann það í annarlegum tilgangi, sem nú hefur birst fyrir landsmönnum við misjafnar undirtektir þó en flestar fullar viðbjóði og hneykslan.  Hverjir eru nú hinir raunverulegur tossar stjórnvalda? 

Þetta vekur upp sömu tilfinningar jafnvel núna mun sterkari hjá mér en þegar upp komst um þjófnaðinn hjá Árna Johnssen sem frægur var og hann gisti hvítflibbafangelsið í nokkrun tíma.  Hann virtist alveg getað kafað oní vasa oní vasa ríkissjóðs án þess svo mikið að gera grein fyrir því fé sem hann komst yfir eða þá til hvers það væri notað.   Á sama tíma var maður að berjast fyrir því að textun á innlendu sjónvarpsefni yrði að veruleika svo upplýsingaraðgengi allra yrði fullnægt og er enn að.  Aðrir virðast víst bara trekkja að sér ríkisfjármagn án frekari skýringa eða rökstuðnings meðan aðrir þurfa að hafa mikið fyrir því án þess svo mikið að fá neitt, nema kannski eitthvað undir þröskuldinn til að hafa mann góðan í örlitla stund.  

Núverandi stjórnvöld hafa gert ýmislegt í því að koma  svörtum blettum víða að í ferilskrá sinni undanfarin ár.


Ég styð Margréti

Mig langar að fjalla um fyrirhugað framboð Margrétar Sverrisdóttur til embættis varaformanns í Frjálsynda flokknum.  Ég hef ekkert farið leynt með það að ég styð hana, enda er hún vinkona mín og góð samstarfskona.  Ég hef ritað hér á síðunni nokkur orð um mannkosti hennar, dugnað og elju í starfi sínu fyrir flokkinn.  Hún hefur sinnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn af heilindum.  Ég hef að sama skapi haldið uppi góðum orðum fyrir þingflokkinn í störfum sínum á Alþingi og dáðst að þeim fyrir vinnu sína þar.  Magnús Þór sem nú er varaformaður er ágætur maður og hef ég persónulega ekkert á móti honum, svo eru afar okkar Magnúsar nú líka hálfbræður.  Við Magnús höfum átt gott samstarf og gerum enn.  Ég er líka nokkuð viss um að við Magnús munum eiga eftir að vinna saman í komandi kosningum og met ég það mikils.  Mér þætti því mjög vænt um að öllum deilum á milli þeirra tveggja lægði.  Væri Margrét ekki í framboði styddi ég hann sennilega.  

Það hefur verið mér harmur að sjá þingflokkinn ekki lyfta litla fingri í því að halda uppi vörnum fyrir Margréti þegar hún er rægð niður hvað eftir annað á Útvarpi Sögu af körlum sem nánast hafa það eitt að markmiði að ryðja henni úr vegi.

Þegar umræðan um að Frjálslyndi flokkurinn væri rasistaflokkur fór fram, hélt ég uppi vörnum fyrir hann, vegna þess að það var verið að klína á hann ósanngjörnum stimpli sem átti sér enga stoð í raunveruleikanum. Umræðan um innflytjendamálin snérist aðallega um vinnumarkaðinn í þeirri mynd sem hann var orðinn og hafði ekkert með trú, kynþátt og annað sem heyrði undir mismunun að gera. Það voru aðrir sem komu þeirri umræðu af stað og voru þá ekkert að tala í nafni Frjálslynda flokksins þá.

Frjálslyndi flokkurinn hefur líka oft fengið orð á sig fyrir að vera eins málefnis flokkur eða kvótaflokkurinn og þar af leiðandi orðið nokkurs konar einkynjaflokkur eða karlaflokkur. Það skal þó segjast að flokkurinn hefur tekið á mörgum málum sem varða samfélagsmál, heilbrigðismál eða önnur mál sem stundum kallast mjúk mál.  Með fullri virðingu fyrir körlum í flokkinum þá finnst mér mikið vanta konur í flokkinn eða öllu heldur kynjajafnréttisásýnd.  Það er líka ástæða þess að ég styð Margréti í varaformanninn og mun jafnvel styðja hana í framboði til formanns taki hún stefnuna á það embætti.

Mér finnst því orð núverandi formanns Guðjóns Arnars Kristjánssonar mega sín lítills þegar hann segir að hann styðji Magnús Þór Hafsteinsson í varaformannsembættið.  Mér finnst núna vera meira spurning um að flokkurinn nái að sýna jafnréttisásýnd í komandi kosningum og ég veit að hann mun ná þeirri ásýnd með Margréti í fremstu forystunni.  Ég harma að karlarnir í flokkinum sjái ekki það sem ég sé út frá jafnréttislegu sjónarmiði.  Stuðningur Guðjóns við Magnús er líka til þess gerður að sýna engan vilja að ná sáttum. Skynsemissjónarmið að ná fram jafnréttisásýnd og sáttum eru því ekki á dagskrá hjá þeim.  Þannig að ég hvet sem flesta að sýna Margréti það traust sem hún á skilið og styðja hana í varaformannsembættið eða formannsembættið.



Að gefnu tilefni...

...vegna færslna sem komið hafa í athugasemdakerfið vil ég biðja alla að virða minningu látinna.  Mér er um og ó að sjá svona og ég leiði líkum að við hverja sé átt við, sannleikurinn er sá að umrædd stúlka dó í hræðilegu bílslysi.  Við söknum hennar öll sem hana þekktum.


Hann var laminn

Í kjölfar frétta af nýútkomnum grunnniðurstöðum um kynferðismisnotkun á heyrnarlausum hafa verið tekin viðtöl við fórnarlömb kynferðisofbeldsins.  Til að mynda var tekið viðtal við heyrnarlausan mann á Stöð 2 í laugardagskvöldfréttunum.  Umræddur maður talaði um kynferðisofbeldi á sér, einnig talaði hann um líkamlegt ofbeldi á sér af hálfu starfsmanns skólans á þessum tíma.  Maður verður að staldra hérna aðeins við og hugsa hvort líkamlegt ofbeldi á börnunum sé ekki tilefni til þess að lögregla taki við sér og hefji rannsókn, jafnvel þó svo langt sé liðið frá brotinu.  Saksóknari myndi svo skoða málið og kæra sjái hann færi á því. Ég er líka nokkuð viss að þessi umræddi maður sé ekki sá eini sem var lamin af opinberum starfsmanni á þessum tíma.

 

Sjálf var ég nemandi í skólanum á þessum tíma og þegar ég lít til baka til veru minnar þarna í heimavistinni og skólanum, þá verður það að segjast eins og er að starfsfólk hafði mjög lítið álit á viðfangsefnum sínum sem þeim var treyst fyrir í opinbera starfi sínu.  Börnin voru óþekk og illa alandi, hlustuðu ekkert á leiðbeiningar kennara og starfsfólks! Svo til að kóróna þetta allt var þeim ekki trúað á raunastundum, þau sögð dónaleg eða eitthvað í þá veru, eins og komið hefur fram í viðtölum við fórnarlömb.  Á þessum tíma var líka ekkert farið að taka upp umræðu um kynferðisofbeldi hérlendis.  Svona mál áttu bara heima undir teppinu fræga eða í lokaða kústaskápnum.  Ég man eftir einu tilfelli þar sem ég var beðin af öðrum nemenda að ganga á fund skólastjórenda og kvarta yfir ákveðnu máli sem ég ætla ekki að tíunda hérna.  Ég gerði það og uppskar háð og langan fyrirlestur fyrir að vera svona vitlaus að trúa þeim.  Já, það hefði raunar verið kraftverk ef skólastjórinn hefði staðið upp og tekið á málinu eins og gert er í dag.  Þetta umrædda atvik situr svolítið í mér enn í dag. Hefði ég barist um að eitthvað yrði gert þá hefði ég verið sögð óþekk og mögulega send heim, það hafði nú gerst af minna tilefni en þessu.  Ég hef líka rifjað eitt og annað upp með sjálfri mér, ekki bara núna þegar þetta er til umræðu.  Eitt af því er að í skólann kom nefnilega læknir í hverri viku, það var fastur punktur í skipulagi heimavistarinnar að börnin færu til hans á fimmtudögum kl. 18, fóru þá í röð og eyrnamergur sem heyrnartækin ollu skafaður úr.  Þessi læknir hafði líka umsjón með líkamlegu heilbrigði nemenda. Var þarna í opinberum erindagjörðum. Tók hann ekki eftir neinu?  Hann kunni ekkert táknmál heldur og gat ekkert talað við börnin.   Maður spyr kannski stórra spurninga núna, stóra spurningin er hinsvegar hvort maður fái svör.


Mikilvægi viðurkenningar

Í vikunni var viðtal við mig í Morgunblaðinu um greiningarsögu mína á sykursýkinni og horfnu kílóin mín, 9. jan.  Viðtalið vakt mikla athygli og rataði í penna ritstjóra Morgunblaðsins þegar skrifaði leiðarann sinn sl. Fimmtudag.  Þar fór hann hörðum orðum yfir framkomu heilbrigðiskerfsins. 

Morgunblaðið gerði frétt í tengslum við viðtalið og talaði við þá aðila sem voru nefndir í viðtalinu.  Svör þeirra voru flest í góðu lagi nema eitt skar í mínar fínustu hjartataugar. Það var svar stjórnarformanns Læknavaktarinnar og sá ágæti maður er líka læknir sjálfur. Orðrétt segir í fréttinni:  “hann kvaðst telja að réttindi sjúklinga til túlkaþjónustu mjög mikilvæg en jafnframt væri nauðsynlegt að sú þjónusta væri rétt notuð.”   Þessi orð “að sú þjónusta væri rétt notuð”, hvaða viðhorfi er verið að koma á framfæri?  Er ég að misnota rétt minn til túlkaþjónstu sem sjúklings sem hefur þau réttindi skráð í lög?  Lög um réttindi sjúklinga er svo til næstum einu lögin hér á Íslandi þar sem réttindi heyrnarlausra á forsendum táknmálsins eru skráð.

Misnotar fólk þennan mikilvæga lagabálk virkilega?  Það væri gaman að sjá dæmi þess sem möguleg misnotkun á túlkaþjónustu í heilbrigðiskerfinu hefur komið upp svo tilefni sé til að láta hafa svona eftir sér.   Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu.  Ég held ég þurfi ekkert að útlista neitt frekar til hvers heyrnarlausir þurfa á túlki að halda þegar þeir fara til læknis.  Mikilvægi þess vita víst flestir nú þegar.  

Tvisvar hef ég flutt á Alþingi frumvarp um viðurkenningu á táknmáli heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Því miður eins og mörg önnur góð málefni frá stjórnarandstöðunni kom það ekkert til umræðu í menntamálanefnd, fór sennilega bara í ruslafötuna í nefndarherberginu.  Í greinargerðum með frumvarpinu er stiklað á stóru um það að táknmál var bannað í 100 ár og mörgu fleiru. 

Fyrir ári síðan hitti ég einn þingmann meirihlutans.  Hann kom að orði við mig að hann hefði verið viðstaddur þegar einhver annar (heyrandi persóna)  var að segja honum frá því að táknmál var bannað í 100 ár og afleiðingar þess.  Hann sagðist hafa tárast og þetta væri svo hræðilegt og greip fyrir brjóstið til að undirstrika orð sín og líðan.  Ég horfði stundarkorn á manneskjuna og leyfði henni að jafna sig aðeins, sagði svo að ég hefði sagt frá þessu tvisvar sinnum í flutningi táknmálsfrumvarpsins. Var mér ekki trúað í þingsölum Alþingis?  Voru orð mín þarna of fagurlega skreytt svo ljótleiki afleiðinganna sást ekki? Ég veit að ég minntist ekkert á kynferðislega misnotkun á heyrnarlausum. Trúir einhver núna að full þörf sé á því að táknmálið sé viðurkennt og heyrnarlausum þar með greidd skuld samfélagsins fyrir rangar ákvarðanir á fyrri tímum?  Trúir einhver núna á mikilvægi þess að textun á innlendu sjónvarpsefni sé fest í lög?  Sér einhver stjórnarþingmaður eða ráðherra núna að heyrnarlausir voru ekki að viðra sig þegar þeir stóðu í mótmælum að minna á sig og réttindi sín á forsendum táknmálsins fyrir utan Alþingi og blésu í flautur og þreyttu trommur.  Þeir voru ekki að skemmta sér þá, þeir voru að gera þetta af mikilvægi þess að vera viðurkenndir í samfélaginu. Það er því við hæfi að enda þessi skrif mín hérna, öllum til umhugsunar. Þessi orð sem ég læt fylgja hérna er líka að finna í táknmálsfrumvarpinu sem ég nefndi.

 Ef ég viðurkenni mál annars manns hef ég þar með viðurkennt manninn ...en ef ég viðurkenni ekki mál hans hef ég þar með hafnað honum,vegna þess að málið er hluti af okkur sjálfum.

Terje Basilier (norskur málvísindamaður)


4-18

Hvernig áttu stjórnvöld annars að veita heyrnarlausum framhaldsmenntun þegar þau voru búin að svipta þá grunnskólamenntun á þessum tíma?  En annars um þetta mál var fjallað í tímaritinu Mannlíf í október/nóvember 2004.

 

Það var rætt við heyrnarlaust fórnarlamb kynferðismisnotkunar í fréttatíma RÚV í gær, þar sagði fórnarlambið að það hefði ekki getað haft eðlileg samskipti við foreldra sína.  Þannig að nokkuð er ljóst hvernig ástand var við líði í samskiptum heyrnarlausra við aðra en foreldra sína til dæmis kennara og annað fagfólk sem vann í skólanum á þessum tíma.  

Og svo voru börnin þetta ung þegar þau voru send í heimavist, fjöggra ára gömul, grunnskólaskólaskylduð samkvæmt lögum fjöggra ára gömul.  Foreldar stóðu því  berskjaldaðir gegn þessu lagaboði, gátu ekkert gert.   Þessi grunnskólaskylda varði til 18 ára aldurs.  Mjög löng grunnskólaskylda semsagt.  Græddu heyrnarlausir meira en almenningur á þessari löngu grunnskólaskyldu?  Nei, varla er hægt að segja það,  þeir stórtöpuðu á henni.  

Skrapp á myndina Children of Men.  Þung og drungaleg mynd, dró mig svolítið niður.  Barnsfæðingin hafði sennilega mikil áhrif á alla.  Í myndinni fékk eitt mig aðeins til að pæla í einu atriði.  Ef þið eruð búin að sjá myndina þá sjáið þið eflaust hvaða atriði ég er að meina.  Það er það þegar litla barnið þarna í örmum móður sinnar og allt í kring eru hávær  byssuhljóð, skriðadrekar, hermenn og mikill hávaði.  Konan hleypur um með barnið hágrátandi og reynir að skýla sér.   Þegar ég horfði á þetta varð mér að hugsi að hávær byssu og skriðdrekahljóðin væru örugglega búin að sprengja allar hljóðhimnur barnsins.  Ímyndaður veruleiki hjá mér, reyndar bara eins og allt annað í myndinni, en samt það skyldi þó ekk vera?

Já, bara komin helgi.   Falleg hvít snjódrífa yfir öllu sé ég útum gluggann minn. 


...og fleira

Það er nú fleira sem þjóðin mætti alveg skammast sín fyrir að hafa gert á hlut heyrnarlausra en þetta.  Taka má alveg með í dæmið að heyrnarlausir voru sviptir framhaldskólamenntun í formi bóknáms með lögum nr. 4 sem samþykkt voru á Alþingi árið 1962 og afnumin árið 1991.!  Þetta gerði þjóðin af vanmættinum einum, því ekkert táknmál var til staðar að kenna heyrnarlausum bóknám, og heyrnarlausir sagðir í greinargerð sem fylgdi með lögunum að þeir væru hinir bestu starfsmenn í iðngreinum og væru ekkert að masa eða tefja vinnuna með masi eins og aðrir heyrandi starfsmenn. Iðnnám hentað þeim því fullkomnlega og þeir fengu afslátt af bóknáminu með lagaboði.  Þeim væri það eðlislægt að sitja bara þegjandi og einbeita sér að vinnunni. Það sem skín í gegn af þessu finnst mér og vona að fleiri taki undir með mér að þarna var verið að meina einum hópi fötlunar um menntun og slíkt myndi skilyrðislaust vera kallað hrein og klár mismunun, ég leyfi mér að vísa í stjórnarskrá. Nú í dag eru margir heyrnarlausir að kljást við afleiðingar þessarar lagasetningar, þeir eru í flestum tilfellum menntunarlausir og eru að kannski að sækja sér menntun nú á dögum sem er miklu dýrari fyrir þá en hefði verið fengu þeir hana á réttum og við eðlilegar aðstæður.  Það má líka ekki gleyma því að þetta varðar mjög stóran hóp, því árið 1964 fæddust um 36 heyrnarlausir og framhaldsmenntun þeirra var bara dustað undir teppið.  Talmálsstefnan lék marga grátt og ekkert var tekið mark á orðum heyrnarlausra að táknmálið væri lykillinn að því að þeir gætu tjáð sig og fengið menntun fyrr en um seinan var.  Þeir lifðu í þögn og einangruðst á þann hátt sem er að koma fram í dag. 

Þess vegna er svo núna á dögum upplýsingaraldar svo mikilvægt að þeir fái sem mest úr því að upplýsingaraðgengi þeirra sé fullnægt og því er ég ekki að gamni mínu að berjast fyrir textun og táknmáli hér á landi.

Jæja, þá er best að skunda í skólann og ná í mína seinteknu framhaldsmenntun.


Þá er það komið fram...

Þið kannski sáuð Kastljósið núna í kvöld þar sem Berglind Stefánsdóttir fyrrum formaður Félags heyrnarlausra sat fyrir svörum hjá Jóhönnu Vilhjálmsdóttur um grunnniðurstöður úr könnun um kynferðislega misnotkun á heyrnarlausum hérlendis.  Ég verð bara að segja að nú er þetta loksins komið á borðið.  Eftir þessum niðurstöðum hefur verið beðið í samfélagi heyrnarlausra, reyndar var talað um að þetta ætti að opinbera í sumar en einhverra hluta vegna komst þetta á borð fjölmiðla fyrr en áætlað var, er mér sagt og kom öllum að óvörum upp á yfirborðið.  En það skiptir kannski litlu máli hvenær þetta átti að koma fram, það liggur nú fyrir staðreynd sem hefur gengið um samfélag heyrnarlausra eða öllu heldur táknmál götunnar í mörg ár og í þögn táknmálsins hafa verið sagðar sögur af kynferðisofbeldi meðal heyrnarlausra sem að lokum rötuðu á réttan stað og tekið var á þeim.  Staðreyndirnar vitið þið núna í þessum grunnniðurstöðum.  Það er mikið sem samfélag heyrnarlausra hefur þurft að líða fyrir, ekki bara hérlendis heldur líka erlendis því í fréttinni og Kastljósviðtalinu komu fram upplýsingar að sambærilegar rannsóknir erlendis sýna svipaða niðurstöðu og þessi sem nú er verið að tala um. 

Þetta þreifst í skjóli þess að táknmál var bannað og talmálsstefna við líði.  Foreldrum ungra barna sem greinst höfuð heyrnarlaus var bannað að læra táknmál á forsendum þess að það væri börnunum ekkert til góðs, þá lærðu þau síður að tala, en hvernig læra börn að tala annars ef þau heyra ekki hvernig orðin hljóma?  Þessu var haldið fram fyrir mörgum árum síðan og í 100 ár var táknmál bannað, það var ákveðið á svokölluðum Mílanófundi árið 1880 þegar kennarar heyrnarlausra hittust og ákváðu að vera samstíga í því að kenna heyrnarlausum að tala og því yrði ekkert táknmál viðhaft við kennslu heyrnarlausra framar.  Þann dag sem þetta var ákveðið upphófst svokallað einangrunartímabil og talmálsstefnan hafði yfirhöndina í allri kennslu heyrnarlausra um gjörvalla Evrópu og íslendingar aðhylltust henni líka. Og afleiðingarnar blasa við nú.  Ég ætla nú varla að fara að rekja upp söguna hérna, en sem betur fer vita menn betur í dag og táknmál er fullgilt mál.   

Samfélag heyrnarlausra segir við þessu “jæja, þá er þetta komið fram og það með tölugildum”. 

Félag heyrnarlausra hefur unnið stórt verk í samvinnu við félagsmálaráðuneytið að koma þessari rannsókn í framkvæmd og fá niðurstöðurnar. Eins hefur Félag heyrnarlausra líka gert tillögur sem eru nokkurskonar eftirmál og varða mikið forvarnir. 


Umbi tossanna

Eftir að ég hafði sett tossalistann á síðuna, þá skreið sú hugsun að mér að fatlaðir væru nokkurskonar tossar stjórnvalda í bókstaflegri merkingu.  Það skal þó samt segjast eins og er að nokkuð hefur verið gert til að bæta hag og lífskjör fatlaðra en samt eins og oft hefur komið fram eru þeir sjálfir lítið hafðir með í ráðum og oftar en ekki situr einhver óánægja í kringum málefni þeirra eftir á. Betur má en duga skal á hér eflaust við. Kannski einmitt þess vegna tekur svo langan tíma að koma einhverju í verk frá hugmynd til framkvæmda, jafnvel þó þörfin sé brýn.  Málefni fatlaðra hversu brýn sem þau eru oft látin gerjast lengi í nefndum og lítið sem ekkert gert þannig að úr verði einhver sérstök ánægja með afraksturinn, mig grunar hinsvegar að margar af nefndum sem komið hefur verið á fót um málefni fatlaða enda oftast sem “skúffunefndir” og ferill málsins eftir því, fastur í skúffunni. 

Af þessu langar mig að koma hingað að hugmynd sem lengi hefur setið í mér, það er að það embætti umboðsmanns fatlaðara verði komið á fót.   Ekki svo hæpið að setja á fót svoleiðis embætti þegar maður sér hve illa er komið fram við ýmsa fötlunarhópa af stjórnvöldum. 

Umboðsmaður Alþingis hefur unnið ærið starf og bent á varnagla í lögum sem gengið hefur verið eftir og lagað í sumum tilfellum. 

Hér er starfandi Umboðsmaður barna og hefur komið mörgu góðu til leiðar í hagsmunum barna og komið á framfæri viðhorfi barna til stjórnvalda.

Umdeildasti umboðsmaðurinn er eflaust Umboðsmaður hestsins, enn er ég ekki alveg að ná hvaða rök voru viðhöfð að baki ákvörðunnarinnar, nema að einn karlinn var atvinnulaus og þótti vænt um hesta og var tilvalin til starfsins, svo var hann líka jafnhár(-fax)prúður og fax hestsins er, þannig að betri auglýsing fyrir íslenska hestinn á erlendri grund var ekki hægt að fá.   Spurning núna hvort íslenskir fjárfestar og viðskiptamenn í útrás þyrftu á sérlegum umboðsmanni að halda í viðskiptum sínum en þeir virðast vera sífellt rakkaðir niður af afbrýðsömum dönum ef marka má umfjöllun Ekstrabladet á síðasta ári eitthvað.  

En já, aftur að fötluðum, sem sagt eru þeir sniðgengnir af stjórnvöldum verð ég bara að segja.  Í Svíþjóð til að mynda er sérlegur umboðsmaður heyrnarlausra.  Þeir starfa á vegum sveitafélagana, og eru þrír eða fjórir á öllu landinu þar rekur mig í minni.   Ekki veit ég hvort aðrir fötlunarhópar hafa sérlegan umboðsmann á vegum stjórnvalda eða sveitarfélaga líka en get mér til að svo er, því umboðsmaðurinn vinnur í samvinnu við samtök heyrnarlausra á því svæði sem hann er umboðsmaður fyrir. Ég er ekki frá því að í Bretlandi sé líka sérlegur umboðsmaður fatlaðra en allavega vann aðili frá þarlendum stjórnvöldum mikið í að semja og koma til samþykktar Réttindaskrá heyrnarlausra með bresku samtökum heyrnarlausra sem síðar var svo samþykkt á breska þinginu í  mars 2003. 

Það er erfitt að setja einhvern fötlunarhóp hérna í fyrsta sæti yfir sniðgengnustu tossa stjórnvalda, en ef einhver fer að hugsa svona eins og ég er að gera núna má alveg að líkum láta að full þörf sé á umboðsmanni fatlaðra hérlendis, hesturinn fékk sinn umboðsmann sér til vegs og vegsemdar á erlendri grund. Því ættu fatlaðir ekki að eiga einn slíkan þó ekki til vegs og vegsemdar á erlendri grundu heldur hér í sínu eigin landi.

Þennan pistil ætla ég að enda á að bæta við lið nr. 15 á tossalistann sem varðar málefni geðfatlara, en það hafa reyndar of oft komið upp tilfelli sem sýnt hafa að geðfatlaðir fá ekki þá þjónstu sem þeir þurfa, þjónustan skert eða illa sinnt af stjórnvöldum hvað varðar fjármagn, heilbrigðisþjónustu eða húsnæðismál.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband