Færsluflokkur: Bloggar
15.2.2007 | 16:41
Á þing!
Jæja, það er búið að vera ansi rólegt og þegjandalegt hérna í skrifum mínum. Það skal alveg segjast að það er búið að vera svo rólegt, samt hefur maður alltaf nóg að gera og það bættist heldur betur um í morgun þegar ég var að koma mér á lappirnar. Mér var sent sms-skilaboð um leið og ég tók fyrsta kaffisopann, kaffið var vel heitt, ekkert helltist niður, enda ég yfirveguð kona og afar fátt slær mig útaf laginu. Skoðaði það og það var frá Gunnari Örlygssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins, síðan eftir það hefur dagurinn verið eitt ævintýri og er enn. Ég á sem sagt að setjast á þing á mánudaginn. Það er nefnilega það. Á mánudag verð ég þingkona. Ég satt best að segja átta mig ekki alveg á þessu enn og miljón frumvörp, þingályktunartillögur og fyrirspurnir skjótast fram í kollinum á mér á þessum síðustu metrum Alþingis þessa kjörtímabils.
En eitt verður sett á oddinn, það er táknmálsfrumvarpið, enginn spurning, það skal fá að verða flutt og snerta borðplötuna fyrir framan formann menntamálanefndar og passa vel upp á að það detti ekki niður í ruslafötuna. Það ríður eiginlega mest á núna að heyrnarlausir/heyrnarskertir og daufblindir fái réttindum sínum á forsendum táknmálsins fullnægt í þessu landi. Það er ekki lengur hægt að vera að múlbinda þá í einangrun, nóg hafa þeir þurft að þola.
Nú er árið 2007 og staðan núna í dag er að sé miðað við 100 virka notendur af félagslega táknmálstúlkunarsjóðinum þá mega þessir 100 notendur aðeins fá 18 tíma túlkaða á ári í félagslegar þarfir sínar. Það er illmögulegt að lifa við svona aðstæður, mjög einangrandi og gefa af sér mikið óöryggi, eins og það sé ekki nóg að heyra ekki heldur þarf þetta að bætast við. Hvernig þætti ykkur til dæmis ef sagt yrði við ykkur eitthvað þessu líkt þú mátt bara fara 18 tíma á stjórnmálafundi á ári? Þið mynduð hrópa orð eins og jafnræðisreglan brotin, aðstöðumunur, jafnréttisbrot og síðast en ekki síst mannréttindabrot og það í einhverju besta velferðarsamfélagi heims, landi sem sagt er að hagvöxtur sé einna mestur, svo þegar maður er með þessar staðreyndir á borðinu hjá sér þá spyr maður sig ósjálfrátt; hvað eiginlega sé að gerast? Þetta ætla ég að laga og svo er auðvitað margt annað sem ég vildi láta ljós mitt skína en þetta eru bara tvær vikur og þetta þarf að vinna vel á stuttum tíma. Þannig að það þýðir lítið núna að vera í einhverjum sjálfskiptum gír þetta verður unnið á fimmta gír.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.2.2007 | 20:16
Undirskriftarsöfnun
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.2.2007 | 12:59
Eftirmálin
Mér hefur verið hugsað til hryllings um hvernig meðferðarúrræði fyrir Breiðuvíkurdrengina voru viðhöfð. Ljótleikinn sem þeir urðu fyrir í allri sinni mynd sem birts hefur okkur undanfarna daga í fjölmiðlum hryllir mig eins og marga aðra í þjóðfélaginu. Svo mikill er hryllingurinn að mál þetta hefur verið rætt á ríkisstjónarfundi og borgarstjórinn í Reykjavík hefur óskað eftir upplýsingum frá félagsmálayfirvöldum.
Undirtónninn í þessum málum á þessum tíma hvað varðar stjórnvöld hefur verið eitthvað á þessa leið: Við borgum þér fyrir að sinna þeim, okkur kemur ekkert við hvernig þú gerir það, notaðu bara þínar aðferðir og kenningar sem þú telur best tilfallnar. Eitthvað svona í þá áttina kemur mér til að hugsa um hvaða viðhorf stjórnvalda var við líði á þessum tíma gagnvart svona börnum sem enginn vissi hvað gera átti almennilega við. Eftirmáli þessara viðhorfa kemur núna í bakið á okkur og það er alveg greinilegt að eitthvað verður að gera í svona málum þegar svona illa tókst til og kenningar og meðferðir sem drengirnir í Breiðuvík þurftu að þola voru með öllu tilgangslausar.
Nokkuð svipað viðhorf virðist líka hafa verið ríkjandi með Byrgið. Einhver var bara svo góður að vilja sjá um nokkra erfiða einstaklinga, en það brást eins og við vitum núna.
Heyrnarlausu börnin í heimavistinni þurftu líka að þola sitt og hvað, kynferðisofbeldi og niðurlægingu við að þeim var ekki trúað á raunastundu. Til viðbótar þessu fengu þau grunnskólaskyldu sinni ekki fullnægt og við tók strjált og stopult framhaldsnáms sem í raun skilaði þeim engu því enginn var grunnurinn fyrir framhaldsnám og táknmáli hafði verið útihýst í grunnskólamenntun þeirra . Táknmáli sem var þeirra bjargvættur í grunn- og framhaldsnámi. En svo var ekki því á þessum tíma var uppi sú kenning sem í daglegu tali er nefnd oralstefnan (talmálsstefnan) og hún byggðist á að kenna þeim að tala og talmál var aðalkennslumálið sem auðvitað gekk ekkert. Sem betur fer er allt annað viðhorf í þessum málum ríkjandi í dag en eftir situr stór hópur heyrnarlausra sem á sér enga viðreisnar von um að vera samkeppnisfær á atvinnumarkaði vegna lélegrar menntunar. Þeim líður líka illa og í hjörtum þeirra og huga er sár sem aldrei mun gróa að fullu.
Í umræðum á Alþingi í gær þegar fjallað var um Breiðuvíkurmálið kom fram að við ættum að líta til annarra landa í svona málum til dæmis Noregs og Svíþjóðar, fórnarlömbum þarlendis í álíka svipuðum sporum og Breiðuvíkurdrengirnir höfðu verið greiddar skaðabætur fyrir meðferðina á sér sem í öllum tilfellum var óréttlát. Ég get ekki annað en fagnað að nú sé komið inn í þessa umræðu að samfélagið ætti að þessum einstaklingum skuld að gjalda. Ég vona að unnið verði að heillindum og festu að finna viðunnandi lausn á þessu máli.
Í morgun fékk ég sent sms-skilaboð frá þolanda kynferðisofbeldis í heimavist heyrnarlausra, það snart mig og auðvitað átti það fullan rétt á sér að munað verði eftir þeim þegar málefni Breiðuvíkurdrengana verða leyst. Það var svona með leiðréttri íslensku og stöfun: Hæ, þeir fá góð og jákvæð viðbrögð Breiðuvíkurstrákarnir með fyrirheit um fébætur og allt en hvað um mig og aðra úr heimavistarmartröðinni? Kv .. ;-(
Ég lofaði að koma þessu á framfæri og finnst rétt að gera það hérna því heyrnarlausir virðast eiginlega svo oft gleymast í hringiðu annara stærri mála sem í raun eru ekkert stærri en þeirra þegar upp er staðið. Ég get líka alveg bætt við þetta að mér finnst að samfélagið skuldi heyrnarlausum líka sitt vegna ónýttrar grunnskólamenntunar og stopullar framhaldsmenntunar. Um það fjallaði ég hérna í þessum pistilli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.2.2007 | 13:33
Á hvert nef!
Ég las frétt á ruv.is að setja eigi nefskatt á hvert nef að borga fyrir RÚV. Enginn verður undanþeginn frá greiðslu, en áður var miðað við að bara þeir sem greiddu tekjuskatt greiddu nefskattinn. En nú eiga allir að borga hann. Sem sagt allir borga allir fá aðgengi sínu að fjölmiðlinum fullnægt. Verður það svona? Sé svo þá er vissulega tími fyrir mig og aðra heyrnarlausa/heyrnarskerta að hlakka til framundan. Textun verður stórefld og þeir þættir sem nú eru ekki textaðir verða textaðir. Mér finnst það liggja morgunljóst fyrir að fullt upplýsingaraðgengi verður að þessum fjölmiðli þar sem hvert einasta nef á að borga. Ef ekki, þá er þetta bara klóríhaus dæmi sem byggist á ójöfnuði og kallar enn meiri nauðsyn þess að lög verði sett á alla fjölmiðla að texta allt innlent sjónvarpsefni sitt.
Í dag er 5. febrúar, ég staldraði við eitt augnabliki þegar ég sá hvaða dagsetning var. Þessi dagur hleypur stundum frá mér en núna í morgun mundi ég hann. Það eru nákvæmlega 35 ár síðan ég missti heyrnina. Þennan dag árið 1972 gerðist það. Ég var 7 ára og átti um 2 mánuði í að verða 8 ára. Ég man vel eftir honum, jafnvel þó ég hafi verið í svolitlu móki og með háan hita. Minningarbrotin byggjast aðeins á hljóðum, þeim síðustu og svo mest á sjónminninu. Veðrið á þessum degi var svipað og í dag, sól, stilla, frost og mikill snjór yfir öllu. Miklu meiri snjór en er núna, alvöru skaflar sem hægt var að búa til almennileg snjóhús úr, hafa þau í nokkra daga og ylja sér inní þeim með kerti. Ég man eftir komunni á spítalann, man eftir þegar ég var sett á bekk í læknaherbergi og þögn yfir öllu, samt var mikið af fólki í kringum mig sem var mikið að stússast og varirnar á öllum hreyfðust ótt og títt. Mamma mín og pabbi sátu frammi á gangi og biðu átekta hvað læknarnir gerðu. Það var bara svona á þessum tíma. Sem betur fer er allt annar bragur á öllu svona í dag þegar barn veikist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.2.2007 | 10:43
HM handboltinn
Það er búið að vera gaman að fylgjast með HM handboltanum og þá sérstaklega gengi okkar íslendinga. Strákarnir okkar eru enn strákarnir okkar finnst mér allavega, þeir stóðu sig frábærlega vel (Danir voru bara "heppnir"). Við litla þjóðin látum eftir okkur taka og erum núna á topp tíu lista yfir markaskor. Mikið erum við dugleg.
HM: Fimm Íslendingar á meðal tíu markahæstu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2007 | 16:00
Þvottagemsar!
Mitt í síðustu viku þegar maður var enn að jafna sig eftir Landsþingsátökin frægu var ég einn morgunin að týna spjarnar af mér sjálfri og krökkum í þvottinn. Maður er orðin furðu vanur að gera þetta, veit sko nokkurn veginn án þess að hugsa hvað á ekki að fara í vélina til dæmis svart ekki með hvítu og svo framvegis. Viti menn þegar þvottavélin var búin að sinna sínu og maður opnar vélin enn hugsunarlaus og ætlar að setja þetta í þurrkarann, en þarna greip ég ekki í mjúkan þvottinn heldur eitthvað hart og lítið með hnút í maganum dró ég hendina rólega úr vélinni og sá hverskyns var í lófanum á mér, nefnilega gemsi dóttur minnar. Annað eins gat nú gerst og það auðvitað ég sem ábyrgðina bar, þá var bara aðeins að sparka í þröskuldinn og vonast til að hitta á vitlausa tábeinið, finna hvað þetta var sárt, þetta var alveg hrikalega sárt og enn sárara var að segja þeirri litlu frá þegar heim kom, eftir smágrátur og gnýst urðum við sammála um að hún fengi minn gemsa enda hafði hún rennt til hans hýru auga þar sem hann var með myndavél. Í gær fór ég svo á stúfana að finna handa mér mögulegan gemsa. Hann fannst í Símanum, tveir komu til greina einn sem kostaði eitthvað 24 þúsund og í honum var mp3 spilari, hinn var eins nema ekki með mp3 spilara sem kostaði tíu þúsund krónum minna. Ég þarf víst ekki að segja ykkur hvern ég valdi, hef lítið að gera við mp3 spilara í símanum mínum og enda nýbúin að vinna í happadrætti handboltadeildar ÍR mp3 spilara á bara eftir að sækja hann og prófa hann ;) En já, þessi sími var flottur, sagður nýrri útgáfa af mínum gamla. Ég glöð að bragði keypti hann og fór heim með hann í hleðslu svo var bara að prófa, en þá kemur í ljós að þó sagt að hann sé með íslenska valmynd þá koma engir íslenskir stafir nema bjagaðir séu og þetta fór í mínar fínustu. Ég fór því með símann í Símann og krafðist þess að þeir létu mig fá Þ, Ð, Æ og Ö eins og það ætti að vera. Það tók nú ekki langan tíma fyrir sérlegan aðstoðarmann minn þarna, þessi sími er það sérlegur að það þarf að smella á sérstafir til að kalla þá sérstaklega fram og hafa sérstaklega kveikt á þeim. Já, svona er það nú bara og mér var eftir að rétta stillingin komin strax farið að þykja afar vænt um hann og eins og ég segi stundum þá bara get ég ekki lifað án hans, bara einn galli í honum; hann hefur minni kraft í hristingi en sá fyrri hafði en það er víst varla ekki hægt að laga.
Hvað er ég að skrifa um gemsalífið, varla það sem þið viljið heyra en maður má nú stundum láta eitthvað úr daglega lífinu sínu flakka. En annars af pólitíkinni þá er það bara frasinn still going strong. Og svona hérna svo einhver mynd sé sett hérna þá læt ég fylgja eina flotta af okkur vinkonum hérna nokkurskonar before mynd . Verið þolinmóð ég mun lofa ykkur after mynd. ...en á meðan verður bloggið hérna á léttum nótum og horft fram á veginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2007 | 09:16
...þá er það af!
Líklega best að fara að koma sér að skrifa hérna núna. Að fyrstu vil ég þakka öllum góð orð í athugasemdakerfinu, þið meirihlutinn þarna vitið alveg nokkurn veginn hvar þið hafið mig og mínar hugsjónir.
Ég get alveg sagt eins og Margrét Sverrisdóttir að flokkurinn hafi yfirgefið mig, ekki ég hann. Ég sá hann fjarlægjast mig smám saman í fjandsamlegu augnráði nýrra félaga úr NA til mín á Landsþinginu. Fjandsamlegt augnráð var þó ekki það eina sem hrakti mig í burtu heldur það að formaðurinn stóð við kjörkassann. Þið getið ímyndað ykkur hvað gerist í svonalöguðu, formaðurinn sem var tvisvar búinn að gefa út stuðningsyfirlýsingu á Magnús Þór og ef einhverjir vissu ekki hvað ætti að skrifa á varaformannskjörseðilinn þá örugglega hefði hann einfaldlega sagt hátt og snjallt: Magnús Þór og sennilega sama þegar spurt var um hver ætti að vera ritari, þá hefði hann sagt Kolbrún. Þarna á þessu augnabliki var mér nóg boðið. Formanninum sem ég veit að er eða öllu heldur var í þessum orðum skrifuðum annt um lýðræðislega kosningu hefði þarna átt að vita betur að svona gera formenn ekki. Þeir eiga að halda sig sem lengst frá kjörkassanum og gefa fólki færi á að kjósa á sínum lýðræðislegum forsendum í friði. Þeir höfðu alltaf sagt að NA væri ekkert að yfirtaka flokkinn og reiknuðu alltaf með að um 50 manns úr NA kæmu á Landsþingið, sossum ekkert til að hafa áhyggjur af. Og hvað gerðist? Í áhyggjuleysinu létu þeir prenta 1200 kosningarseðla. Það skal alveg segjast að báðir aðilar stóðu í smölun til að afla sér fylgis. En hverjir voru kræfastir í þeirri smölun? Magnús Þór hafði miklu meiri og betri aðstöðu en Margrét til að ná inn nýjum félögum og skrá þá, hann var á skrifstofunni á fullu. Á meðan var Margréti veittur stopull aðgangur að félagsskrá flokksins. Þetta Landsþing Frjálslynda flokksins gaf okkur nasasjón hvernig kommúnistaríkin standa fyrir kosningum sínum sem við höfum alltaf fyrirlitið.
Ég ætla ekki að segja neitt sem hljómar eitthvað svona gott að vera vitur eftir á Ég kom í flokkinn þegar allt var í góðu og kjarni félagsmanna samheldinn með einsdæmum og allir sáttir út á eitt og ég hreifst með. Margt er búið að gerast síðan 2003 og ætla ég ekki að rekja það upp hérna. Ég held ég geti alveg sagt að ég hafi séð allan þverskurðinn af því sem getur gerst í stjórnmálum. Frá því besta þangað til allt fer á versta veg í formi yfirtöku og að inn í flokkinn kemur fólk sem svífist einkis og er tilbúið að gera hvað sem er fyrir eitt stykki þingsæti. Allar aðferðir til þess atarna eru notaðar hjá þessu fólki, ein er sú að sölsa undir sig heila útvarpsstöð og hafa það að markmiði að ryðja úr vegi verðugum andstæðingum með persónuníð á honum og hans fólki. Hin aðferðin er að láta fólk kjósa sig án þess að segja því til hvers það ætti að gera það. Þriðja aðferðin er að hafa uppi hróp að andstæðinginum í miðri framboðsræðu. Fjórða aðferðin er að borga sig inn og segja það styrk til flokksins sem er svo í formi félagsgjalda fyrir fólk sem veit ekkert upp og niður til hvers það eigi að mæta og skrifa nokkra stafi á atkvæðaseðil. Sem sagt öllu tjaldað til og örugglega á fleira misjafnt eftir að týnast fram þegar fram líða stundir.
Nú er Eiríkur Stefánsson þagnaður á Útvarp Sögu, það er loksins búið að binda hann og það þurfti bara að gerast með setu í miðstjórn, þá fyrst fer hann að þegja og á samviskunni hefur hann pólitískt líf tveggja frambærilegra kvenna og fleira fólks sem engan veginn getur samsamað sig núverandi valdhöfum.
Þá er þetta af það sem ég vildi sagt hafa um Landsþingið og ákvörðun mína að segja mig úr flokkinum. Ég geri það ekki með neinum gleðisvip.
Á næstunni verða pistlar hérna litaðir hugsjónum mínum um öll þau þörfu málefni sem mér finnst eiga að fá að njóta sín og vera framkvæmd.
Mér finnst ég, Margrét Sverrisdóttir og allt það fólk sem nú flýr flokkin vera sigurvegarar Landsþingsins. Það trúir á sína sannfæringu og hugsjónir og svífist ekki jafneinkis og það fólk sem nú hefur tekið flokkinn af okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.1.2007 | 22:09
Yfirlýsing
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
24.1.2007 | 18:16
Flottur handbolti
Þeir eru indælir strákarnir okkar í landsliðinu sem sjá okkur fyrir sætum sigrum nú á dögum. Horfði á leikinn með syni mínum og hann er orðin hjátrúfullur með einsdæmum, hann trúir því núna að Ísland sigri ef hann er í úlpunni minni að horfa á leikinn. Ég ætlaði að taka mynd af honum úlpuklæddum í sófanum horfandi á leikinn, en á svona ögurstundum eins og þessari fann ég ekki myndavélina á rétta augnablikinu og það verður því smá bið að mynd af honum úlpuklæddum birtist hérna. Hann er meira segja farin að suða um að fá að fara til Þýskalands að horfa á restina og vonandi úrslitin líka. Það kemur nú varla til mála, mamma þarf að fara á Landsþingið. Það er gaman að handboltanum núna og sendum við hérna strákunum okkar hlýjar stuðningskveðjur
Pólland - Ísland
Leikurinn var mjög góður framan af, allt gekk svo vel en svo tvíefldust pólverjarnir í lokin það mikið að það dró smá úr okkar mönnum. Gat alveg gerst og strákarnir okkar eru enn strákarnir okkar. Hér kemur svo myndin eins og ég lofaði... skyldi það hafa verið að hann fór úr úlpunni á ögurstundu, segi ekkert um það.
Bloggar | Breytt 25.1.2007 kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.1.2007 | 12:50
Kapp er best með forsjá!
Ég þakka öllum í athugasemdakerfinu hlýleg hvatningarorð til mín.
Mér þótti alveg full ástæða til að koma þessum hugleiðingum mínum og óskum um 1. sætið frá mér núna. Það myndi ég kalla forsjálni eða öllu heldur baktryggingu, sérstaklega á svona óveðurstímum í flokkinum þegar allra veðra er von og algert umsáturs-og óvissuástand ríkir í röðun á framboðslistunum, ekki öllum þó en flestum. Það var nú annað upp á teninginn fyrir fjórum árum. Það er rosalega vinsælt að vera á framboðslista í flokkinum núna og margar bollaleggingar hef ég séð skrifaðar um það mál.
Ég veit alveg að Valdimar Leó hefur ekki nefnt neitt hvaða sæti hann hyggist taka en ég er ekki svo græn að halda að hann muni sætta sig við 4. sætið eða eitthvað þar um bil. Þessi maður stefnir hátt og hef ég sannarlega ekkert á móti innkomu hans í flokkinn. Maður segir bara svona allir eru velkomnir í flokkinn svo framarlega sem stefnuskrá flokksins er aðdráttaraflið. Allir hafa sinn metnað þó, rétt eins og ég og sennilega þú lesandi góður. Valdimar Leó hefur látið gott af sér leiða á yfirstandandi þingi og hefur verið afkastamikill í ræðustól þingsins. Hann er líka frá Akranesi eins og ég. Ég man vel eftir foreldrum hans. Pabbi hans hefur víst verið dýrlingur á sínum tíma en það var hann sem kom sjónvarpstækjum inn í stofu bæjarbúa þegar Sjónvarpið hóf göngu sína og sá um að gera við þau. Ég man eftir þegar hann kom með sjónvarpið heim til mín, þá var ég örugglega svona um 5-6 ára gömul. Mamma hans sá um að sokka allt skagaliðið, flottir sokkar og átti ég mína hvítu háu sokka eins og allar stúlkur frá þessum tímum hljóta að muna. Mamma mín þurfti nefnilega að sjá til þess að sjö börn fengu hlýja sokka, og hún valdi þá bestu. Enn er leit að jafngóðum sokkum og mamma hans gerði.
En já, ég hlýt að vera með hálfan Skagann á herðum í kappinu um 1. sætið, jafnvel ofurtröllið Magnús Þór hefur haft uppi áætlanir um að fá líka 1. sætið hérna í kraganum. Já, svo kapp er best með forsjá eins og þið væntanlega skiljið.
Skundum svo öll á Landsþingið og kjósum Margréti Sverrisdóttur í varaformanninn og Sólborg Öldu í ritarann. Guðjón verður áfram formaður. Svo bara komum við þessari uppröðun á framboðslistann einhvern tímann á hreint eftir átakasama landsþingshelgi og það með kynjajafnréttisásýnd í fyrstu sætunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)