Færsluflokkur: Bloggar
23.4.2007 | 10:42
að hvetja frekar en að letja
Sumardagurinn fyrsti er liðinn, mér finnst íslendingar svo lukkulegir að hafa svona dag, það eru ekki margar þjóðir sem hafa þennan dag sérstakan. Gleðilegt sumar og takk fyrir skemmtilegan vetur. Rauður dagur á dagatalinu og velflestir fá sumargjöf.
Fyrir 43 árum fengu fjórir bræður mínir litla systur í sumargjöf á þessum degi og í dag fyllir árfjöldatala mín fjörutíu og þrjú ár, snilld! Börnin mín fengu hinsvegar nýja íþróttaskó í sumargjöf. Ég fékk frumsamið ljóð frá börnum mínum í sumargjöf og ansi lukkuleg með það.
En að öðru og því nýjasta sem sagt því að nú sé verið að vinna að rannsókn á afleiðingum tekjutengingar ellilífeyris þar sem afleiðingar þess að afnema tekjutengingu ellilífeyris og bóta til öryrkja eru skoðaðar í nýrri rannsókn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kynnt er í dag. Hún ber heitið "Framleiðnimæling og ávinningur af aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja." Í rannsókninni er gerð greining á starfsmannaskorti í atvinnulífinu, með sérstakri áherslu á verslun. Einnig eru hugsanlegar lausnir skoðaðar. Dr. Sveinn Agnarsson hagfræðingur Hagfræðistofnunar gerði samanburð á framleiðni í íslensku atvinnulífi á undanförnum árum. Bæði miðað við fyrri tímabil og þróun í öðrum löndum. Þá skoðaði Dr. Sigurður Jóhannesson hvort hagkvæmara væri fyrir ríkið að skerða ekki ellilífeyri og aðrar bætur. Sérstaklega í þeim tilfellum þar sem fólk kýs að vinna og fær í staðinn auknar skatttekjur.
Þetta segir í frétt á visir.is og ég er ansi spennt að sjá niðurstöðurnar því ég hef alltaf haft þá skoðun að almannatryggingarkerfið eigi að vera hvetjandi fyrir notendur þess að fara út í atvinnulífið og í stefnu Íslandshreyfingarinnar lifandi land er meðal annars að finna að sveigjanlegt velferðarkerfi eykur samfélagsþáttöku og lífsgæði. Sé þetta virkt skilar það meira í ríkiskassann. Ég hef því fulla trú að ávinngurinn sé það ásættanlegur að vel sé hægt að gera almannatryggingarkerfið þannig úr garði að afnám tekjutenginu sé hvati frekar en að letja eins og nú er við lýði í dag. En annars þarf að einfalda allt almannatryggingarkerfið svo skilningur á frumskógi þess sé auðskilinn. Sem sagt komin tími að grysja í skóginum ekki satt? Mér hefur verið sagt að jafnvel starfsfólk kerfisins skilur það ekki svo maður spyr bara hverra hagur það sé að hafa kerfið of flókið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2007 | 07:16
Upplýsingaraðgengi
Jæja, það er víst komin tími á skrif hérna, búið að vera ansi þegjandalegt. Engin sérstök ástæða fyrir því, mörgu öðru hefur maður verið að sinna og ég verð víst með í kosningarslaginum og er staðsett í 3. sæti í Reykjavík-norður fyrir Íslandshreyfinguna - lifandi land.
En að öðru sem sagt upplýsingaraðgengi landans. Ég hef víst oftar en einu sinni minnst á það mál og hef þá helst komið að tvennu til að bæta upplýsingaraðgengið, þ.e. textun á innlent sjónvarpsefni og svo það að réttindi táknmálsnotenda á forsendum táknmálsins verði tryggð. Þetta tvennt stendur nú sem er í algeru lamasessi hérlendis og má jafnvel segja að íslensk stjórnvöld standi sig verr í þeim efnum en fyrrum kommúnistaríkin. Svör stjórnvalda hafa alltaf verið á þann veg eitthvað svona að þetta sé vissulega góðra gjalda vert EN þetta kostar nú peninga, með þessum svörum er sífellt er verið að klína á táknmálsnotendur og þá sem búa við skerta heyrn að þeir séu fjárhagsleg byrði samfélagsins og því miður að illómögulegt sé að framkvæma bættu upplýsingaraðgengi sökum þess að ríkiskassinn sé tómur í einhverju besta velferðarsamfélagi heims, landi sem stjórnvöld hafa löngum stært sig af að hafa besta hagvöxtinn og blómstrandi efnahagslíf. Þrátt fyrir það geta þeir ekki komist að því að sjálfsögð mannréttindi eins og upplýsingaraðgengi hefur aldrei verið ókeypis. Í stað þess að tuða sífellt um að ekki sé til peningar er ekkert kapp lagt í að leita þeirra. Það hefur nú oftar en einu sinni gerst að stjórnvöld hafa ráðist í framkvæmdir á kostnað ríkisins án þess svo mikið að gera sér grein fyrir kostnaðinum, má þar til dæmis nefna hið margumrædda rannsóknar/dóms/áfrýjunar/rannsóknar/dóms/áfrýjunar/rannsóknar/dóms .o.s.frv.- semsagt Baugsmálið svokallaða. Engan óraði fyrir kostnaðinum sem vínberjamúkk með dulbúnni smjörklípuaðferð þáverandi forsætisráðherra myndi kosta þjóðina og á meðan peningum er sperðað í þetta er fyrirfinnst varla blindrakennari til að kenna blindum börnum á grunnskólaaldri sína lögboðnu grunnskólaskyldu, svo mikið er lagt í kapp að eltast við menn sem hafa greitt mörg hundruð miljónir í ríkiskassan og stutt við mörg samfélagsmálefni, að foreldar blindu barnanna sjá ekki annan í stöðunni en að flýja land svo barnið þeirra geti lært blindraletur, sem yrði því sjálfasagt aðgengistæki að lögbundinni menntun sinni til framtíðar litið.
En aftur að bættu upplýsingaraðgengi. Í Bandaríkjunum eru til lög sem varða aðgengi, þessi umræddu lög eru í daglegu tali nefnd ADA (American with Disabilities of Act), markmið þeirra er meðal annars að skylda öll fjölmiðlafyrirtæki á sviði sjónvarps að texta innlent efni sitt, þau skylda líka að táknmálsnotendur fái upplýsingaraðgengi sitt á forsendum táknmálsins, þau skylda líka fjarskiptafyrirtæki að hafa í boði þjónustu í textaformi fyrir heyrnarlausa/heyrnarskerta sem og líka á táknmáli svokallaðar táknmáls/textasímamiðstöðar. Einnig ná þau líka yfir marga þætti aðgengis hjá öðrum fötlunarflokkum, s.s. hjólastólaaðgengi og aðgengi fyrir blinda svo fátt eitt sé nefnt. Þessi lög kosta líka sitt og svo hægt sé fyrir fyrirtæki hvort sem um er að ræða opinbert eða einkafyrirtæki þá er til staðar sjóður sem er nokkurskonar Aðgengissjóður. Í hann rennur til dæmis ákveðin upphæð af hverju einasta símtali bandaríkjamanna. Í hvert sinn sem bandaríkjamaður tekur upp símtólið og svarað er renna 10 cent í þennan sjóð. Þið getið ímyndað ykkur hve stór þessi sjóður er. Í hann geta fyrirtæki sótt fjármagn til að koma sér upp bættu upplýsingaraðgengi og aðgengi fatlaðra. Mér finnst þetta merkilegt, hér á landi er ekkert svona. Póst og fjarskiptastofnunin lætur sér fátt um fatlaða notendur finnast þó allt annar gangur sé í þeim málum á Norðurlöndum. Það sá ég bersýnilega þegar ég var viðstödd norrænt málþing póst og fjarskiptastofnanna á Norðurlöndum. Eftir að hafa hlustað á erindi fulltrúa frá öðrum Norðurlöndum þá var innlegg fulltrúa Íslands ansi klént og vissu þeir ekkert hvernig þeir ættu að koma þessu frá sér sem þeir höfðu ekkert verið að vinna í, svo þeir bara ákváðu að þegja. Þeirra hlutverk þarna var bara að undirbúa málþingið og sjá til þess að réttu tækin yrðu til staðar fyrir norrænu fulltrúana að miðla efninu sem og kaffi handa þáttökugestum sem voru ansi fáir því þetta var nú sossum ekkert auglýst. Þetta var fyrir ári síðan. Lýsandi ástand fyrir þessa stofnun.
Og að öðru sem brennur ansi við og mér finnst nú vera vegið að upplýsingaraðgengi táknmálsnotenda. Frá og með fimmtudeginum fram á sunnudagskvöld eða öllu heldur til mánudagsmorguns verður túlkalaust á Íslandi, vegna þess að túlkarnir á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra eru að fara til Kaupmannahafnar í starfstengda ferð og aðeins einn túlkur verður starfandi og hann aðeins nýttur vegna neyðartilvika s.s. hjá sjúkrahúsum og lögreglu. Það er bara ein stofun sem sinnir túlkaþjónustu hérlendis og er það Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og hefur verið þannig í um ár eða allt frá því einkarekna túlkaþjónustan Hraðar hendur varð að leggja upp laupana vegna þess að einkarekin túlkaþjónusta gat ekki starfað á svo lágum töxtum sem gjaldskrá fyrir túlkaþjónustu útgefna af menntamálaráðuneytinu var. Mér finnst þetta hálfvandræðalegt, jafnvel þó vitað var af þessu ástandi fyrirfram. Ég get ekki pantað túlk í kosningarbaráttu þennan tíma. Og svo þar sem táknmál er ekki viðurkennt eða allavega réttindi mín á forsendum táknmálsins þá er það þannig að ef fjölmiðlar til dæmis vilja viðtal þá verða þeir að borga fyrir túlkinn, skýrt dæmi um aðstöðumuninn sem er hérlendis hvað varðar þessi mál. Það er ekki sama hver pantar þjónustuna og fær greitt úr félagslega sjóðinum, einföld regla er í gildi: panti heyrnarlaus/táknmálsnotandi fæst greitt úr sjóðinum, en panti heyrandi þarf hann/fyrirtæki hans að borga. Er þetta brot á jafnræðisreglunni? Hvaða aðra frambjóðendur þurfa fjölmiðlar að borga fyrir að ræða við?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2007 | 12:29
Páskar
Páskar eru á næsta leyti. Börnin komin í sitt páskafrí.
Páskar eru góðir, og góður tími fyrir smáfrí frá erill dagsins. Mér hefur alltaf fundist sjarmi yfir þeim þegar kemur að pólverjum og páskahefðum þeirra. Pólverjar leggja meira úr páskum en jólum. Þeir senda páskakveðjukort, rétt eins og við gerum með jólakortin. Á páskadagsmorgun skunda þeir í páskamessuna og hafa með sér svokallaða páskakörfu, í hana er búið að setja margskonar góðgæti og skreyta með fallegum páskalitum og skrauti. Góðgætið er allskonar matarkyns en egg eru undirstaðan, þar gæti einnig verið að finna brauð og pólskar pylsur líka, jafnvel mola af góðgæti og páskaskreytingu. Þegar í kirkjuna er komið að morgni þá er karfan sett á borð í anddyri kirkjunnar og eftir messuna tekur maður einhverja körfu með sér heim og ber það sem í henni var til viðbótar á páskaborðið þegar fólk sest er að snæðingi eftri kirkjuferðina. Það skemmtilega við þetta er að maður veit ekkert hvað er í páskakörfunni sem maður tók með sér heim, oftast eru það börnin sem hafa veg og vanda að því að skreyta körfuna.
Einn pólskur páskaréttur er í uppáhaldi hjá mér og er hann borin fram á páskadagsmorgun, eiginlega nokkurskonar brunchréttur.
Undirstaðan í honum er egg og piparrót. Ég ætla að gefa ykkur uppskrifitina hérna:
Pólskur eggjaréttur (ég veit ekki nafnið á þessum rétti en ég er viss um að hann ber eitthvað nafn)
Uppskriftin er fyrir 4.
6 harðsoðin egg
1 dós hrein jógurt
1 dós 18% sýrður rjómi
Piparrótarmauk (fæst í kjörbúðum og er í rauðum umbúðum)
½ gul papirka
2 stiklar vorlaukar (græni hlutinn)
Kælið eggin og skerið í tvennt, raðið þeim á fat eða djúpan disk með guluna uppi, dreifið smásalti yfir eggin og látið liggja á meðan sósan er útbúin.
Hrærið saman jógurtina og sýrðan rjómann, bætið saman við piparrótarmaukinu (smekks atriði hve mikið og hve sterkt, ég set frekar meira en minna mmmm)
Hellið blöndunni yfir eggin, látið líta fallega út.
Skerið gulu papirkuna mjög smátt og græna hlutann af vorlaukinn líka. Dreifið þessu yfir sem skaut á egginn og sósuna. Berið fram á borðið og hafið heitar pólskar pylsur með, Kielbaza heita þær, þær eru soðnar í vatni, ein og hálf pylsa á mann er hæfilegt. (Jafnvel hægt að nota aðrar pylsur með t.d. Chorzo sem eru ítalskar og þær eru steiktar á pönnu). Hafið brauð við höndina og drekkið te með. Verði ykkur að góðu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.4.2007 | 12:25
Skynsemin ræður
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2007 | 23:05
www.islandshreyfingin.is
Heimasíða Íslandshreyfingarinnar lifandi land er nú komin upp. Á henni er að finna stefnuyfirlýsingu og aðgerðaráætlun. Fleiri þættir munu bætast við á næstu dögum. Verði ykkur að góðu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2007 | 09:55
Nei við stækkun!
Það er mikið fjör hjá nágrönnum mínum í Hafnarfirði þessa dagana. Á herðar þeirra er lögð mikil ábyrgð sem hefur skapað hina líflegustu umræðu síðustu daga. Staðarblöðin hérna eru uppfull af greinum og viðtölum um hagkvæmni og óhagkvæmni þess að álverið skuli stækkað. Ég hef lesið vel flestar greinarnar og í Víkurfréttum er viðtal við konu eina, meðlim samtakanna Sól í Straumi. Kristín Pétursdóttir heitir hún og fyrirsögnin á viðtalinu snart mig verulega: Glórulaust að ætla að reisa stærsta álver í Evrópu í miðjum bænum okkar Hafnfirðingar eru sem sagt um helgina að taka ákvörðun sem á eftir að hafa áhrif á hvernig bærinn þeirra þróast næstu 50 árin. Þessi kona veit hvað hún syngur þegar hún talar um áhrifin af stóriðju og þeim risaframkvæmdum sem henni tengjast, hún er hagfræðingur um það mál segir hún hafa áhrif á þenslu í landinu sem veldur því að verðbólgan verður há, vextir hækka og íslenska krónan styrkist gagnvart erlendum gjaldmiðlum sem kemur sér afar illa fyrir íslensk fyrirtæki í útflutningi og ferðaþjónustu. Í viðtalinu gefur hún ekki mikið í útskýringar Alcan á mengunarviðmum sem Alcan hefur fengið starfsleyfi fyrir hjá Umhverfisstofnun. Þessi mengunarviðmið eru á engan hátt bindandi í lögum og aðeins tölur á blaði og því geta mögulegir nýjir eigendur að Alcan í framtíðinni ekki verið á neinn hátt bundnir þeim tölum, þannig er útséð að margt getur breyst og mengun orðið allt hvað meiri en mengunarviðmið sem skráð eru á starfsleyfið í dag fyrir stækkunni. Það er hárrétt hjá henni sagt í viðtalinu að með áframhaldandi byggingu álvera og tilheyrandi stóriðjuframkvæmdum stjórnvalda ekki annað en vantraust á íslensktatvinnulíf og getu þess til að standa undir framtíðinni í hagvexti. Það eru mýmörg önnur tækifæri sem felast í atvinnurekstri í Hafnarfirði og á Íslandi segir meðal annars í viðtalinu við Kristínu. Viðtalið er hægt að sjá hérna.
Í Fjarðarpóstinum í vikunni var grein eftir Ástu Þorleifsdóttur jarðfræðing sem vakti einnig athygli mína, hún fjallaði um Eldfjalla-og auðlindagarð á Reykjanesskaga. Ég las greinina og get ekki annað en sagt að þetta sé einn valkostur umfram stóriðjuframkvæmd sem stækkun Alcan felst í. Þessi hugmynd myndi skapa af sér meiri arð en stækkunin álversins gefur af sér núna til langstíma litið og helsti kosturinn við þetta er að verkefnið gefur ekki frá sér neina mengun. Þarna á svæðinu eru bestu aðstæður, lifandi jörð sem mun skapa af sér fjölmörg áhugaverð atvinnutækifæri. Byggi ég hinsvegar í Hafnarfirði og fengi að kjósa myndi ég krossa við Nei á kjörseðilinn. Því ég sé að það eru til miklu fleiri áhættuminni tækifæri og þau ber að skoða vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.3.2007 | 20:52
Blessuð blíðan!
Það er bara búin að vera blessuð blíðan undanfarna daga. Svolítið kalt og rúðuskaf á morgnana en það er bara gleymt þegar að hádegi er komið. Það er virkilega tilhlökkunarefni að stutt sé í vorið, en fyrst verður maður að taka páskana svo allt sé á réttu róli.
Það hafa nokkrir verið að hafa samband við mig í tölvupósti og spyrja um heimasíðuna. Það skal bara segjast eins og er hún er á leiðinni í loftið á allra næstu dögum. Einnig hefur fólk viljað hafa samband og skrá sig í flokkinn. Maður finnur góðan byr með öllum þeim ótalmörgu stuðningsmönnum sem bæst hafa í hópinn á síðustu dögum. Þeim áhugasömustu er hér með bent á að hægt er að senda tölvupóst á islandshreyfingin@simnet.is
Eins hefur verið stofnað blogg http://islandshreyfingin.blog.is
Horfði áðan á fyrsta kosningarþátt Stöðvar 2 sem verður sýndur á miðvikudagskvöldum fram að kosningum. Nú var tekið fyrir Norðvesturkjördæmið. Íslandshreyfingin var ekki með og er það miður, því reglan hjá stjórnendum þáttarins er víst sú að aðeins þeir sem hafa kynnt framboðslista sína komast að í þáttinn. Í könnun þáttarins á fylgi flokkana í kjördæminu fær Íslandshreyfingin 2,9% sem er bara ekki neitt slæmt af sex daga gömlum flokki að vera. Norðvesturkjördæmið telur 21.093 kjósendur, Akranes er fjölmennast og Ásneshreppur minnst. Þetta var það sem kom fram í textaformi í þættinum, skömm aðð ekki skuli vera hægt að texta þættina. Segi enn og aftur að það er vel hægt að texta beinar útsendingar og eru íslenskir sjónvarpsfjölmiðlar aftarlegast á merinni hvað þetta mikilvæga atriði varðar svo allir sitji við sama borð að fá að vita hvað þessir oddvitar allt karlar sögðu. Á meðan þetta ástand varir vafra ég bara um bloggheima og fæ síðbúnar fréttir af aðalskúbbum í kosningum. Sum hver verða nefnilega orðin grámygluleg og útrædd þegar ég er að sjá þau fyrst.. bráðabirgðalausn af verstu sort skal það bara segjast.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2007 | 20:51
Lögbrot eða ekki!
Ég ætlaði að skrifa hérna um svolítið sem ég varð vitni af á föstudagskvöldið og mun seint gleyma. Það var nefnilega þegar ég var stödd á ljóðakvöldi í Félagi heyrnarlausra. Merkilegt kvöld það má segja. Þarna voru sýnd nokkur vel valin í slensk ættjarðarljóð í táknmálsþýðingu. Meðal ljóða sem voru þýdd voru Hótel Jörð, Íslandsvísur, Sprettur og Konan sem kyndir ofninn minn. Hápunkturinn af öllu var þjóðsöngurinn. Það var alveg ótrúleg upplifun að horfa á hann í táknmálsþýðingunni. Sennilega í eina sinnið sem ég hef orðið vitni að því að þjóðsöngurinn var klappaður upp á svið að öðru sinni. Mjög flott hjá flytjendum og stendur til að hafa tvö ljóðakvöld af sömu flytjendum á næstunni. Þá verður söngkona með og píanisti eins og á að vera. Flytjendur eru þrjár ungar heyrnarlausar stúlkur, sem höfðu lagt ótrúlega mikla vinnu í táknmálsþýðingarnar. Ég skal koma á framfæri hérna í blogginu stund og stað svo áhugasamir geti farið og séð og heyrt, já líka það.
Það merkilega við þetta allt saman er að aðeins sólarhring seinna eru Spaugstofumenn sakaðir um lögbrot við að rústa þjóðsönginum. Næsta dag voru uppi spurningar hjá þeim sem urðu vitni að táknmálsþýddum þjóðsönginum hvort það hefði líka verið að fremja lögbrot því táknmálið er ekki viðurkennt og því kolólöglegt. Það er mér allavega tilhlökkunarefni að fá að sjá þjóðsönginn aftur fluttan á táknmáli, og þannig ætla ég að hafa það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2007 | 16:33
Glæsileg byrjun!
Íslandshreyfingin lifandi land kom svo sannarlega vel úr fyrstu skoðanakönnunn í gær. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins fengi Íslandshreyfingin þrjá þingmenn kjörna. Þegar ég sá þetta þá sagði ég ósjálfrátt við mig í huganum: jæja, ef við náum 8 þingmönnum inn þá skal ég labba eins og Steingrímur gerði þvert yfir hálendið í sumar Núna á mánudegi finnst mér það ekki svo vitlaust. Satt best að segja ekki svo afleitt þar sem undirbúningur að stofnun Íslandshreyfingarinnar hefur verið vandaður og vel komið fram með aðaláherslumálin.
Verið er nú í þessu að leggja lokahönd á heimasíðuna sem fer að öllum líkindum í loftið á allra næstu dögum, ég lofa fyrir lok þessarar viku. Þar geta menn og konur kynnt sér meginefni stefnu Íslandshreyfingarinnar í einu og öllu. Þar verður einnig möguleiki að skrá sig í Íslandshreyfinguna. Á meðan bið ég fólk að sýna smá þolinmæði því þetta er óðum að koma og fyrir íbúa á Snæfellsnesi þá verða Jakob, Margrét, Ósk og Ómar á ferð á morgun (þriðjudag 27/3) sem hér segir:
Súpu-og hádegisspjallfundur Hótel Ólafsvík kl. 12Kaffifundur Arnarbæ Arnarstapa kl. 15
Fundur Narfeyrarstofu Stykkishólmi kl. 18
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2007 | 16:23
Hávaðamengun
Áðan í kjörbúðinni sá ég að DV var með forsíðufrétt um hávaðamengun á leikskólum. Börnin þar hafa mjög hátt og það er gríðarleg hávaðamengun í gangi á leikskólum. Eyru barna og hljóðhimnur eru einmitt á leikskólaaldri viðkvæmar fyrir hverskyns hávaðaáreitni. Það hefur verið rætt um hve mikið hávaðaáreitni er mikið hjá unglingum sem og börnum almennt. Þau virðast ekki skorta neitt sem heldur þessu sífelldu hávaðaáreitni endalaust við eyru þeirra daginn út og daginn inn. Ipod spilarar, Mp3 spilarar, Playstation leikjatölvurnar með sínum hávaða, svo má ekki gleyma öllum heyrnartólum sem hægt er að tengja við tölvurnar, að ógleymdu tuðinu í forráðamönnum að lækka í hljóðinu í græjunum og sjónvarpinu. Sem sagt er hægt að sjá á þessu öllu að á næstu árum muni tíðni heyrnarskerðingu hækka hjá heilum kynslóðum. Mér hefur verið sagt að nú megi sjá merki þess að hljóðstyrkurinn hækki eftir því sem barnið eldist, það er fyrsta merki um að heyrnarskerðing sé farin að segja til sín og komin tími á að fara með barnið/unglinginn í heyrnarmælingu. Það er því enn meiri ástæða fyrir sjónvarpsfjölmiðla að texta innlent efni sitt. Fyrir nokkrum árum kom hingað yfirmaður textunardeildar BBC og hélt fyrirlestur um textun á innlendu sjónvarpsefni en BBC stendur mjög framralega í allri textun í Bretlandi, eitt atriði nefndi hann sem vert er að nefna hér um gagnsemi textunar í þessu samhengi, það er hægt að lækka í hljóðinu og horfa á sjónvarpsefnið hljóðlaust með texta, það dregur úr hávaðaáreitni á heimilinu og er viss forvörn til að verjast skaðsemi hávaðamengunar. Það er því ekki bara heyrnarskertir og nýbúar sem geta notið góðs af textun á innlendu sjónvarpsefni heldur líka heimilin almennt, skapar afslappandi andrúmsloft í stofunni, bara horfa ekki hlusta og skerpir líka einbeitinguna. Það er því rétt að segja að svo sannarlega gegnir textun almannaþjónustuhlutverki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)