Færsluflokkur: Bloggar
19.7.2006 | 10:22
Ásjóna fyrir 52 miljónir
Sólin og það með bærilegum hita er bara loksins komin, tími til komin að krækja sér í smálit, þó fyrr hefði nú verið. En akkúrat í dag hef ég ekki svo voða mikinn tíma til að flatmaga á svölunum eða þá á sundlaugarbakkanum. Mér leiðist þó rigningin ekkert rosalega mikið, hún má koma svo framarlega sem hún er að víkja fyrir sólinni.
Ég fékk á dögum smátækifæri til að fikra aðeins fyrir mér í fjölmiðlaheiminum og var boðið að taka viðtöl eða koma með greinar í blaðið Hér og Nú. Í síðustu viku birtist svo fyrsta viðtalið mitt og það við Evu Þórdísi Ebzenerdóttur, fatlaða konu og með einsdæmum hressa. Á næstunni kemur svo annað viðtal við aðra konu. Þessar tvær ungu konur hafa mikið að segja um staðalímynd fatlaðra kvenna ef hún er þá til. Eins og til dæmis það af hverju ekki sé til fötluð Barbie dúkka og af hverju fatlað fólk sé aldrei haft sem fyrirsætur í víðlesnum bæklingum eins og til dæmis þessum frá Hagkaupi. Eva Þórdís kom með skemmtilegt innlegg um hjálpartæki. Þið verðið bara að kíkja í blaðið og sjá. Ég hef áður unnið sem ritstjóri við Döffblaðið, tímarit Félags heyrnarlausra og því ekki að feta mín fyrstu skref þarna í fjölmiðlaheiminum, það er gaman að þessu og gefur mikið af sér að kynnast nýju fólki. Viðtölin eru unnin með í tölvu, þægilegur samskiptamiðill það.
Ég verð að segja það að ég varð ekki mjög hress með fyrirsögn eina í Fréttablaðinu í morgun. Það var um að RÚV eigi listaverk að verðmæti 52 miljónir. Þið megið alveg ímynda ykkur í hvað ég vildi sjá þessa sömu upphæð fara í. Útvarpsstjóri segir listaverkin vera hluti af ásjónu RÚV. Merkilegt umhugsunarefni að hann skuli álíta það vera svo. Í sakleysi mínu hélt ég að aðalásjóna RÚV væri það að vera sá miðill sem sýnir og segir frá íslenskri menningu hvernig sem hún útleggst, allt frá því að vera frétt, umræðuþáttur eða þá umfjöllun um listir sem ætti erindi til allra landsmanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2006 | 12:37
Ferskt og fínt
Ég vil benda á að hægt er að sjá meira af menningarhátíðinni á heimasíðu Félags heyrnarlausra www.deaf.is Endilega að kíkja þangað.
Matvælanefnd forsætisráðherra hefur núna skilað af sér niðurstöðum sem ekki allir eru á eitt sáttir við. Tölur frá 50 til 150 þúsund er nefndar sem koma til með að lækka matvælakostnað vísitölufjölskyldunnar á ári. Það er gott mál en samt er eins og það muni hafa umtalsverð áhrif á verðbólguna. Fyrst maður er farin að tala um mat þá ætti ég kannski að luma því að ég stalst í Brynjuís á Akureyri, ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Hver getur annars sleppt því að koma við í Brynjuís þegar maður er nú komin alla leið til Akureyrar? Ekki einu sinni kona eins og ég sem hefur misst 16 kíló og er með sykursýki. Ég segi ykkur það satt að samviskan beit mig ansi mikið eftir hvern ísinn á fætur öðrum. Með þessu var ég víst búin með K-kvótann þá dagana sem stefnan var sett á ísinn. En annars gekk það alveg furðuvel að ferðast án þess að þurfa að kaupa skyndibita í þjóðvegasjoppunum. Skyrið eitt og sér með ávexti nægði mér alveg til að þurfa ekki að leggjast svo lágt að fá mér hamborgar með frönskum sem víst er vinsælasta fæðutegundin í þjóðvegasjoppunum, það er ekki bara fitan í þessu sem fælir mann frá heldur verðið líka, ekkert klinkverð eins og á makkanum, heldur verð sem hleypur á öðru eða þriðja þúsundi fyrir vísitölufjölskylduna, jafnvel fjórða ef drykkir og eftirréttur er tekin með í dæmið.
Annars er allur matur sem ég má borða mjög góður. Í kvöld verður hérna ferskt kjúklingasalat. Ætli sé ekki bara best að láta uppskriftina fljóta með hérna og hún er svona, þið bara ákveðið sjálf magnið.
Kjúklingabringur eða aðrir beinlausir hlutar kjúklingsins.
Salt og pipar.
Þetta er steikt á pönnu í olíu, salti og pipar stráð yfir.
Spínatblöð sett í skál
Dressing í sallatið:
Olía, sítrónusafi, salt, pipar, rifið sítrónuhýði, sætt sinnep og smávegis af rósmarín eða oregano
Dressingin er sett yfir spínat blöðin og svo er steiktum kjúklingabitum raðað yfir spínatblöðin og blandað saman.
Ferskara getur það ekki verið. Drekkið svo hvað sem er með þessu, ég held mig við vatnið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2006 | 00:30
Lok menningarhátíðarinnar
Þá er viðburðarrík vika búin. Satt best að segja rómuðu allir skipulag okkar íslendinga á hátíðinni og tókst hátíðin mjög vel í alla staði, meira segja veðrið var hátíðinni ansi hliðhollt, þegar farið var í ferðir þá bara skein sólin og þegar fyrirlestur var þá rigndi og blés úti.
Næsta norræna menningarhátíð heyrnarlausra verður haldin í Svíþjóð að fjórum árum liðinum. Hátíðar sem þessar eru mjög mikilvægar og snúast mikið um samskipti á milli landanna og sjá hvað aðrar þjóðir hafa fram að færa í heimsókninni.
Norðurlandaráð heyrnarlausra var stofnað árið 1907 í Tívolí í Kaupmannahöfn og verður því hundrað ára á næsta ári. Danir ætla að hafa sérstakt afmælishóf af tilefni þess.
Af því sem fyrir augum bar á hátíðinni frá því ég skrifaði síðast, þá fór ég á merkilegan fyrirlestur sem var með heimspekilegum hugleiðingum eins og það hvort náttúran eða öllu heldur samfélagið tekur heyrnarlausum. Hvernig verður staða táknmálsins til dæmis eftir einhvern langan tíma, verður búið að útrýma því eða ekki.
Það var til dæmis bent á að í samþykktum Sameinuðu þjóðanna um málminnihlutahópa segir að táknmál sé sjálfsagt mál sem eigi að vernda og hlúa að en í mótvægi við þetta er til dæmis að finna á stefnuskrá WHO að styrkja eigi tæknilegar framfarir í lækningum eins og kuðungsígræðsla er og í stefnuskrá UNESCO segir að allir eigi að vera í almennum skóla og engir sérskólar eigi að vera. Nokkuð sem ekki er beint alveg á stefnuskrá heyrnarlausra sjálfra og þeirra sem unna táknmálinu og vilja gera því jafnhátt yfir höfði og tungumáli síns lands. Það er því sjálfsagt mál að hugleiðingar sem þessar séu þess virði að ekki skuli litið framhjá þeim, því einhver regla segir: Ekkert um okkur án okkar.
Lokahófið var mjög skemmtilegt, fullt af gleði og ánægðum þáttakendum. Skemmtiatriðin voru samin af leikhópunum sem fyrir voru á Alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Draumur 2006. Maturinn var góður og ég skal alveg segja það að ég var mjög þreytt þegar ég kom inn og var búin að segja að ég væri sú fyrsta sem myndi fara heim á miðnætti en ég var víst með þeim síðustu sem fóru heim. Svo þið getið séð hvernig var þá eru hérna nokkrar myndir af lokahófinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2006 | 10:34
Af menningarhátíðinni
Það er búið að vera meiriháttar upplifun hérna fyrir norðan þessa dagana sem lítið hefur verið skrifað hérna. Opnunarhátíð menningarhátíðarinnar var flott, haldnar voru fínar ræður um ágæti hátíðar sem svona. Staðarval hátíðarinnar var rómað í ræðunum. Eftir það var svo boðið upp á smá snittur og drykki. Fólk kynntist þar aðeins og svona nokkurn veginn vissi enn betur hverju það átti von á á næstu dögum. Ég er allavega búin að fara á eitt glerbræðslunámskeið og bætti tveim hlutum í safnið mitt. Ég fór á pöbbinn í fyrrakvöld og líka í gærkvöldi. Fyrra kvöldið sem ég fór var ástralinn Rob Roy með uppistand, það var heilmikið hlegið það kvöld. Já, uppistand á táknmáli. Uppistand hans fólst í því að gera grín að samfélagi heyrnarlausra sem skiptist í tvo hópa, sem eru D og d, hópurinn með stóru D-i er reyndar sá hópur sem talin er reynslumestur, hefur inn í sér mest svona deaf-power en með hinn er öfugt farið. Svo var gert góðlátlegt grín að kostum og göllum kuðungsígræðslu. Kostirnir eru eitthvað fleiri ef móðir barnsins sem fer í ígræðsluna er einstæð móðir og hefur heilmikið að gera, þá getur hún einfaldlega bara smellt barninu á segulinn á ísskápnum og fest það þar meðan hún sinnir annasömu heimili sínu. Svo mörg voru þau orð en nokkuð er ég viss um að þetta sé ekki á listanum yfir ágæti kuðungísgræðslu almennt séð, en það er alltaf hægt að leika sér létt með þetta, til þess er einmitt uppistandið.
Merkilegur fyrirlestur var í gærmorgun, Hilde Haueland frá Noregi hefur gert margar markverðar rannsóknir á samfélagi heyrnarlausra í víðu samhengi. Hún sagði frá einni í fyrirlestri sem bar yfirskriftina Deaf People and Place/Space. Efni hennar spannaði notkun heyrnarlausra á tímarýminu samanborið við heyrandi, hvað varðar notkun á símanum. Hún rakti upp tímalínu símans og fjallaði um uppfinningamenn hans, það merkilega við þetta er að þeir sem komu að uppfinningunni eru allir tengdir heyrnarlausum á einn og annan hátt. Sá sem fann upp Morse var fátækur uppfinningarmaður sem tókst að komast í samband við Kendall nokkurn, sá átti peninga og leist honum vel á þetta. Gallaudet háskólinn er einmitt stofnaður fyrir fé frá Kendalli þessum, má þar nefna skólann þarna Kendall school for deaf. Bell sem fann upp talsímann, hann var giftur heyrnarlausri konu, jafnvel Edison var heyrnarskertur líka. Og svo var það hann Vinton Graf, sem fann upp tölvupóstinn, hann var heyrnarlaus. Já, sem sagt rót símans og tölvupóstsins sem við getum ekki verið án er einmitt frá heyrnarlausm komin - og það furðulegasta við þetta er að heyrnarlausir eru enn að leita að heppilegri lausn fyrir sig til samskipta, allt sem þeir finna upp í þesu samhengi verður til þæginda fyrir heyrandi samfélagið. Merkilegt, ekki satt?
Í gærkvöldi fór ég á leikritið Píkusögur, eftir Eve Ensler. Það var leikið af franska leikhópinum IVT. Þrjár leikkonur léku, já þær léku. Stóðu ekki bara á sviðinu og héldu ræðu. Ég hef sjálf tekið þátt í uppfærslu á Píkusögum hérna en sú sýning var bara orð, það að sjá þær þarna á sviðinu leika þetta allt svo lifandi létt var eins og orðin í bókinni bara dönsuðu fyrir framan mig. Þær komu þessu öllu til skila á mjög sannfærandi hátt. Franski leikhópurinn IVT er afar vinsæll í Frakklandi og í honum eru heyrnarlausir leikarar. Alls vinna 15 heyrnarlausir leikarar í leikhópinum sem sýnir verk sín víðsvegar um Frakkland á hverju ári og líka í öðrum löndum, svona rétt eins og þau eru hérna á Íslandi núna.
Eftir leikritið fór ég á barinn, og þar var fyrir finnska skífuþeytis teymið Signmark. Í teyminu er þrír menn, einn er heyrnarlaus og aðalgaurinn, annar er heyrnarskertur og aðstoðar við margt, hinn er heyrandi og sér um að hljóðbrellurnar koma fyrir á réttum stöðum. Þeir unnu með rap tónlist í gær og er núna búið að hóa til rap keppni milli norðurlandanna í kvöld og annað kvöld. Tónlist þeirra er kröftug og táknin sögð í takt við þau. Svo kemur hún frá Finnlandi, heimalandi Lordis sem unnu í Evrovision, þannig að það má segja það um landið að mikið sé að gerast hjá þeim.
Þetta var það helsta sem ég hef að segja núna en annars er það bara svona að bærinn er fullur af heyrnarlausum sem nota tímann til að kynnast og svo er setið á kaffihúsunum hérna á göngugötunni, því á svona hátíðum verður að passa upp á að nægur tími myndist til að fólk geti slakað á og spjallað. Annars hafa erlendu gestirnir verið voða duglegir að skoða sig um og fóru þeir í hvalskoðunarferð um daginn, fullt var í þá ferð. Sjórinn var spegilsléttur og fengu þau að sjá fjórar tegundir af hvölum í þeirri ferð sem er mjög sjaldgæft að gerist og veðrið var hið besta fyrir þau. Núna í þessum skrifuðum orðum eru flestir í ferð að Jarðarböðunum við Mývatn. Seinnipartinn í dag verður svo grillað í Kjarnaskógi og í kvöld fer ég með börnin mín á leikritið This side up með Ramesh Meyyappan frá Singapore. Það verða settar upp myndir hérna þegar ég kem heim, þá fáið þið að sjá herlegheitin.
Bloggar | Breytt 14.7.2006 kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2006 | 23:48
Lagt ´ann
Nú er víst allt sem við ætlum að hafa með norður komið í töskurnar og lagt verður af stað í fyrramálið. Tilhlökkunin er mikil, bæði hjá mér að því leyti að mikið verður gaman að vera á stað þar sem allt að 240 heyrnarlausir eru samankomnir og það hér á Íslandi, fjölbreytnilegt mannlíf og spennandi viðvangsefni að fást við. Börnin mín verða á útilífsnámskeiði hjá skátunum á Akureyri og munu skemmta sér vel þar á daginn. Ekki ætla ég að hafa þetta langan pistil í þessu þar sem ég er alveg að fara að halla mér, er víst ein af þessum konum sem vilja skilja heimilið eftir hreint og fínt, bara til þess eins að koma heim að því hreinu og fínu. Þannig að ég er búin að vera sitt hvað að í dag í útréttingum og þrifum á milli þess sem maður var að pakka og ekki nóg með að ég var að bjástra við saumaskap líka. Það er nú sitt og hvað sem þarf að laga eftir að kílóin fóru að hrynja af mér.
Ég ætla að reyna að skrifa eitthvað af hátíðinni hérna, en það fer nú allt eftir því hvað maður kemst mikið í tölvu, ekki það að tölvu skortir heldur hvort tími sé yfirhöfuð til að setjast niður og skrifa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2006 | 10:30
Bland í poka
Nú standa uppi áætlanir að stofna eigi stjórnamálaflokk innflytjenda, sem sagt innflytjendaflokk. Svo hafa aldraðir oft talað um að þeir ætli líka að stofna stjórnmálaflokk sem muni einbeita sér að því að leiðrétta kjör aldraða svo um munar. Jafnvel hefur komið til tals að stofna skuli öryrkjaflokk, því öryrkjar hafa einmitt hvað mest staðið í þjarki við stjórnliða um leiðréttingu á kjörum sínum og verið hvað mest sviknir af öllum landsmönnum. Hvað segja þessi skilaboð okkur flokkunum sem nú störfum á Alþingi. Greinilega það að ekki hafi verið nógu vel hlustað á vilja og væntingar þessara sérhagsmunahópa sem hyggjast bjóða sig fram á móti þeim í næstu alþingiskosningum. Ætli ekki svipað sé farið með heyrnarlausa, hverju var þeim lofað í síðustu alþingiskosningum og kosningum þar áður. Þeim var nefnilega lofað að táknmálið yrði viðurkennt sem móðurmál þeirra. Enn bólar ekkert á þeirri viðurkenningu þrátt fyrir að um það hafi verið flutt frumvarp á Alþingi og ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Góður rómur og vilji var líka fyrir að koma textun á innlendu efni í viðunnandi form, en það er ekkert komið.
Þrátt fyrir það að ekki bóli neitt á viðurkenningu á táknmáli skal það segjast að nokkuð annað hafi verið gert, en það kemur ekkert í staðinn fyrir viðurkenninguna sjálfa sem reyndar er toppurinn á öllu þessu. Það hefur verið stofnaður félagslegur táknmálstúlkunarsjóður, hann nefnist í daglegu tali Þorgerðarsjóðurinn. Úthlutun úr honum er 10 miljónir á ári. Á síðasta ári var sjóðurinn þurrausinn í nóvember þannig að um enga félagslega túlkun var að ræða síðasta mánuðinn á árinu, sem var desember. Á þessu ári er sama upphæð veitt úr sjóðinum og áætlanir segja að sú upphæð verði búin í síðasta lagi í október, mögulega jafnvel fyrr. Ástæðurnar fyrir þessu er þær að sjóðurinn er mikið notaður og heyrnarlausir hafa verið duglegir að nýta sér þann rétt sem þeir hafa í sjóðinn, t.d. farið á námskeið hverskonar, verið virkari á vinnustað sínum, íþrótta tómstundalífi hverskonar svo eitthvað mætti nefna og auk þess mun gjaldskrárbreyting á táknmálstúlkunarverði verða á tímabilinu þannig að hækkun á hverri túlkaðir stundu mun hafa veruleg áhrif á sjóðinn. Þess má geta að þetta er síðasta árið sem úthlutað verður úr sjóðnum. Hvernig verður með næsta árið veit ég ekki en það verður nú einmitt kosningarár. Eins og við vitum af reynslunni verða ýmsar góðgjörðir á borðum stjórnliða þá sérstaklega ráðherra svona korteri fyrir kosningar. Skyldi vera á borðinu eitt stykki viðurkenning á táknmáli eða þá verður enn ein bráðabirgðalausnin, bland í poka þar eins og aðrar geðþóttagóðgerðarbráðabirgðalausnir ráðherra hafa verið í þessum málaflokki undanfarina ára og sama sagan endurtekur sig næsta kjörtímabil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2006 | 23:58
Gúrkutíð og þróunarstarf
Hvað ætti maður að skrifa núna um? Það er einhver gúrkutíð í þjóðfélaginu. Sennilega er nóg af fréttum allstaðar en bara eitthvað ekki nógu spennandi fyrir mann að nema það. Verðbólgan heldur alla vega áfram að hlaða á sig fleiri prósentustigum, fasteignverð á niðurleið, bensínið sífellt að skipta um verð og heyrir alveg til undantekninga að það lækki. Bandaríski herinn á Miðnesinu að fara til síns heima, þoturnar meira segja líka og svo á að fara að stofna þjóðaröryggisdeild hér á landinu. Maður bara spyr sig hvort eitthvað svona sem heitir þessu formlega nafni Þjóðaröryggisdeild eða öllu heldur Leyniþjónusta hafi ekki bara alltaf verið til þá samtvinnuð lögreglunni. Núna er sagt vera að stofna þetta, mér finnst það nú miklu frekar í átt að vera bara formsatriði til að skilja starfsemina frá almennum lögreglustörfum. Svo var verið að tala um að við íslendingar séum hamingjusamastir í heimi.
En annars ætli aðalfréttin sé ekki bara rigningarsuddinn sem er að gera út af við okkur hérna á skerinu daginn út og daginn inn það sem hefur lifað af sumrinu, ef sumar skyldi nú kalla. Ég hef ekki farið í eitt einasta sólbað á svölunum núna og það er komin Júlí aldrei þessu vant. Ég er farin að hafa verulegar áhyggjur af hvernig veðrið verður fyrir norðan í næstu viku.
Vinkona mín ein er að fara alla leið til Nambíu í Afríku núna á næstunni. Hún er að fara að kenna Nambíumönnum og konum hvernig eigi að kenna táknmál, búa til táknmálsnámsefni og hvað eigi að gera þegar heyrnarlaust barn fæðist í fjölskyldunni. Nokkuð sem við íslendingar höfum þróað í gegnum árin og nú erum við að vinna að því að kenna öðrum þjóðum það. Þetta verkefni er stutt af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ég hef alltaf verið nokkuð viss um að við íslendingar getum kennt þróunarlöndum fleira en fiskiveiðar og borun eftir vatni, þó vissulega séu þessi tvö dæmi góðra gjalda verð. Menntun heyrnarlausra í þróunarlöndum er mjög ábótavant, jafnvel í Kína er talið að aðeins 6% heyrnarlausra þar útskrifist með einhverja framhaldsmenntun. Hlutfallið er sennilega minna í Afríku. Þessu þarf að breyta og bara byrja núna þó svo við vitum að við sjáum ekki verulegan árangur fyrr en eftir hálfan eða heilan mannsaldur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2006 | 20:54
Fótbolti, lyfjaverð og listapælingar
Helgin búin að vera róleg. Við, ég og mín tvö fórum í Landsbankaveisluna í miðbæinn á laugardaginn og skemmtum okkur bara vel. Myndavélin var í veskinu og þið fáið því nokkrar myndir að skoða. Sonurinn var reyndar allan tímann í fótboltanum þarna, með risastóran fótbolta að kljást við. Þetta var mjög vinsælt og fór hann aftur og aftur í röðina sem ekkert var mjög löng. Hann hafði þó smátíma til að fá sér afmælisköku. Að veislunni lokinni var svo veislugestum gefnir fótboltar, við fengum öll einn bolta að gjöf en á leiðinni að bílnum gáfum við litilli stúlku einn boltann, þannig að tveir boltar hérna er alveg nóg. Svo á heimleiðinni komum við hjá vinkonu minni og grilluðum þar góðan mat.
Ég var að horfa á Kastljósið áðan og sjá þarna talað um muninn á verði lyfjaseðilsskyldra lyfja á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð. Það vakti líka undrun mína að hægt sé að fá afgreidd lyf með íslenskum lyfjaseðili í apóteki í Danmörku. Merkilegt finnst mér en mér finnst verðið þó enn merkilegra og það meira segja að lyfin séu frá sama fyrirtækinu, nefnilega Actavis. Hvernig er þetta hægt? Það þætti mér fróðlegt að vita, kannski var spurningu minni svarað þarna í Kastljósinu en því miður var ég ekkert að nema það.
Svo hermt sé eftir í fréttum þá eru uppi bollaleggingar að Þorgerður Katrín muni skipa fyrsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum 2007. Svona fyrst menn eru núna á þessum tíma byrjaðir að þreifa fyrir sér hvernig listarnir hér í kjördæminu sem og annars staðar skuli koma til með að vera þegar upp er staðið. Þá finnst mér alveg sjálfsagt að ég fari að hugsa mér til í þeim efnum. En þegar upp er staðið er kannski bara langbest að segja sem minnst núna og láta útkomuna bara vera spennandi þegar á þessum málum verður tekið. Satt best að segja virkar það mjög spennandi á mig að vera áfram á sama lista og síðast. Frjálslyndi flokkurinn kom mjög vel útúr sveitastjórnarkosningunum nú í vor, þannig að vel er hægt að leyfa sér að vera bjartsýn og spá flokkinum mínum góðu gengi í kosningunum næsta vor.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2006 | 16:44
Norræn Menningarhátíð heyrnarlausra 2006
Föstudagssíðdegi hérna, rigning og rok úti og hvað betra er hægt að gera en að skrifa nokkrar svona smáhugleiðingar. Ég skrapp aðeins í bæinn í dag, kom við á Lágmúlanum og fékk óvænt skemmtilega gjöf sem mun án efa koma sér vel á næstunni. Mér var sem sagt gefin pakki af rauðu eðal ginsengi. Alltaf þörf fyrir svona vítamín, svo það er ekki annað að gera en að byrja að taka það inn í fyrramálið, því vikan eftir næstu viku þ.e. 10. -16. júlí verður upplögð af allskyns skemmtilegheitum hjá mér og bara öllum heyrnarlausum á Íslandi. Það verður nefnilega haldin hérna á Íslandi nánar tiltekið á Akureyri; Norræn Menningarhátíð heyrnarlausra. Nú þegar hafa skráð sig 170 manns sem verða alla vikunna og enn fleiri munu hafa dagpassa. Margt skemmtilegt verður gert og hef ég ákveðið að fara í kennslustund í stafrænni myndatöku og vinnslu mynda í tölvu. Eitt handverksnámskeið þar sem ég ætla að bæta einum hlut í glerbræðslusafnið mitt. Svo verður líka alþjóðleg leiklistarhátíð líka haldin meðfram menningarhátíðinni og ætla ég að sjá Píkusögur á táknmáli í uppfærslu franska leikhópsins IVT og með honum kemur Emmanuelle frönsk heyrnarlaus leikkona sem er nokkuð fræg í döffheiminum. Það merkilega við þessa uppfærslu er að leikhópurinn hefur fengið leyfi frá höfundi Píkusagna Eve Ensler að segja sögurnar út frá reynsluheimi heyrnarlausra. Einnig verða aðrir merkilegir leikhópar þarna líka. Svo verður líka sýnd stuttmynd sem hefur hlotið frægð og verið verðlaunuð, hún fjallar um mótmæli í Gallaudet háskólanum í USA. Þetta er bara lítið brot af því sem er í boði en annars getið þið endilega kíkt á heimasíðuna www.deaf.is og komist að öllu um hátíðina. En ég verð líka að segja frá því hérna að það kemur líka heimsfrægur plötusnúður skífuþeytari eða DJ, hann er heyrnarlaus og afar fær í að kalla fram heyrnarlaust fólk á dansgólfið er sagt. Svo verður auðvitað veglegt lokahóf í lokin. Þannig að rautt eðal ginseng kemur sér ótrúlega vel. Það er ekki oft sem maður getur hitt á svo marga heyrnarlausa samankomna á einn og sama staðinnm og það bara að þurfa ekki að fara lengra en til Akureyri. Það verður líka bloggað héðan af hátíðinni. Táknmálsfréttir í Sjónvarpinu verða sendar út beint frá Akureyri þessa vikuna.
Bloggar | Breytt 1.7.2006 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2006 | 16:42
Tryggingarstofnun ríkisins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)