Færsluflokkur: Bloggar

Handa hverjum eru fjölmiðlarnir?

c_documents_and_settings_sigurlin_margret_my_documents_my_pictures_fotbolti_fotbolti_003.jpg

Seinnipartinn í gær fór ég með syni mínum á fótboltaleik.  Hann var að keppa með liði sínu Stjörnunni.  Hann spilaði einn leik á móti Þrótti og skemmst er frá því að segja að einn af mótspilurum var frændi hans Hávar.  Ég smellti mynd af þeim frændunum sem þið sjáið hérna.

 

Einn góður samherji minn Arnþór Helgason bloggar líka hérna og í bloggi sínu nú á dögum gerði hann svolítið að umfjöllunarefni sínu.  Hann varpaði fram spurningunni “Handa hverjum eru fjölmiðlarnir?” Góð spurning sem vert væri að fá svör við. Sem dæmi fyrir þessu skulum við skoða vinsælasta þátt um málefni líðandi stundar nefnilega Kastljósið og svo auðvitað þættina Ísland í bítið og Ísland í dag.  Þetta eru mjög vinsælir þættir svo vinsælir að ég þarf að segja það þrisvar sinnum hérna í innganginum.   Þegar útlendingar eru viðmælendur í þessum þáttum er texti, enda er þess vandlega getið í lögum að texta eigi erlent mál á íslensku.  Þegar kemur að málefnum heyrnarlausra í þessum þáttum þá er upptakan textuð og jafnvel komið með innslög á táknmáli. Flott mál skal það bara segjast.   En ég bara spyr af hverju er ekki hægt að texta allt sem fram fer í þessum þáttum svo allir gætu notið þessa fínu umræðna um margvísleg málefni líðandi stundar.  Af hverju þarf alltaf að texta efni sem varða heyrnarlausa og þeir þekkja vel inná?  Af hverju mega heyrnarlausir ekki fræðast um önnur málefni sem eru að gerast í þeirra landi í þáttunum?  Á meðan innlent sjónvarpsefni er óaðgengilegt 10% þjóðarinnar verður það að segjast eins og er að fjölmiðlar eru sko alls ekki fyrir alla. Er ekki komin tími til að bæta úr þessu enn frekar?  Hvað segja kostendur þáttana um þetta?  Það er alveg hægt að texta beinar útsendingar, og Kastljósið í heild sinni er ekki alveg sent út beint, mörg viðtöl eru tekin upp fyrirfram.  Ég spyr nú líka, hver er vilji stjórnenda sjónvarpstöðvanna að koma textunarmálum í viðunnandi horf eða öllu heldur áhorf. Loka þeir bara augunum við þessu og senda út sefni sem er ekki aðgengilegt öllum. Mér finnst nú að þeir ættu að horfa á þessa vinsælu þætti sína með eyrnartappa í nokkur skipti til að sjá það sem við sem látum þessi mál miklu varða sjáum.


Verðbólga, sumarbúðir og hugsjónir

c_documents_and_settings_sigurlin_margret_my_documents_my_pictures_paskar_2006_119.jpg

Ríkisstjórnin fundaði víst í gær og ákvað aðgerðir til að draga úr verðbólgu.  Svolítið seint í rassinn gripið finnst mér, hefði alveg mátt látið reyna á þetta fyrr áður en rauð ljós fóru að blikka frá erlendum matsfyrirtækjum.  Mér finnst líka alveg hægt að gera betur en þetta og sakna ég svolítið að sjá ekki “rauðu strikin” á lofti núna eins og var með ASÍ átakið hérna um árið.  Nefnd um hátt matvöruverð er enn að störfum, mér skilist að hún hafi verið það næstum allt þetta kjörtímabil ríkisstjórnarinnar, þarf virkilega svona langan tíma til að finna út hvar og hvenær matvöruverð er hátt.  Mér nægir einfaldlega að fara út í búð til þess að svitna aðeins yfir háu matvöruverði þegar að kassanum með vörurnar er komið. Ætli ég segi bara ekki eins og ein öldruð kona sagði á fundi um málefni aldraðra alls ekki fyrir löngu að hún þakkaði í hvert sinn fyrir að Baugsfeðgar væru til, þeir eru þeir einu sem gera henni kleift að hafa í sig og á fyrir lágt verð í Bónusi.

 

Svo vikið sé að öðru þá er víst bara rólegt hjá mér þessa dagana.   Dóttir mín fór í sumarbúðir í Kaldársel í gærmorgun.  Mikil spenningur og tilhlökkun hjá henni og vinkonu hennar að fara. Get ekki annað en bara birt mynd af þeim stöllunum hérna á síðunni. Þegar börn manns fara í svona ferðir þá rifjar maður ósjálfrátt upp þegar maður fór sjálfur í svona sumarbúðir.  Ég fór í Ölver, það er undir Hafnarfjalli rétt hjá Borgarnesi.  Ég og systir mín fórum þegar við vorum 10 og 11 ára gamlar.  Sú ferð var að mörgu leyti skemmtileg.  Svo heyrði ég af einum sem var samfellt í sumarbúðum tvö sumur, bara af því það var svo gaman.

 

Í gærkvöldi fór ég í matarboð og hitti þar fyrir tvo fransmenn. Þeir eru í heimsókn hér á landi og hafa verið duglegir að ferðast og kynnast landi, þjóð og menningu. Annar þeirra er hugsjónamaður af einlægni.  Hann lætur mikið til sín taka í málefnum heyrnarlausra í Frakklandi.  Sem dæmi um hverju hann hefur áorkað er tildæmis það að á upphafsárum eyðnifaraldursins í heiminum þegar allir voru fræddir hvers konar um það að stunda öruggt kynlíf og smokkum dreift víðsvegar þá stóð þessi franski hugsjónamaður upp og spurði hvort ekki hefði gleymst að taka heyrnarlausa með í dæmið og þeir yrðu líka fræddir á sama hátt og aðrir í gegnum táknmál.  Það var gert og vann hann ásamt öðrum að því.  Nú í dag hefur fræðslan skilað sér og starfa nokkrir heyrnarlausir í Frakklandi við kynningu á þessu fræðsluefni.  Annað hugðarefni hans sem ég hreifst af er kuðungsígræðsla.  Honum finnst eins og mér að ekkert sé athugavert við að fullorðið fólk með skerta heyrn fari í kuðungsígræðslu enda er fólkið hæft til að taka eigin ákvarðanir um sjálft sig, en öðru máli gegnir um börn, aðrir taka ákvarðarðanir fyrir þau og táknmálið oft á tíðum sett í annað sæti.  Stjórnvöld hérlendis telja að kuðungsígræðsla sé hagkvæmur kostur fyrir þjóðfélagði til langs tíma litið og er þessi stefna aðeins fengin frá læknum en ekki samfélagi heyrnarlausra.  Franski hugsjónamaðurinn vinnur nú að því að leggja fram kæru á hendur einum lækni í Frakklandi sem birti opinberlega á heimasíðu sinni grein sem sagði að táknmálið yrði útdautt að fimm árum liðnum og dásamaði kuðungsígræðslur í einu og öllu.  Þið sem þetta lesið sjáið kannski að svona á ekki að líðast í skrifum og er þarna augljós merki að finna sem bara heita fordómar og mismunun jafnvel beinn ásetningur að tungumálamorði.  Það verður spennandi að fylgjast með framvindu máls en annars er það að segja að frönsk stjórnvöld eru nú að vinna að stórri rannsókn um arðsemi kuðungsírgræðslur til langs tíma og er niðurstaða úr þeirri rannsókn að vænta í kringum árið 2009 og mun rannsóknin spanna allt að 10-12 ára tímabil.  Allt er tekið inn í rannsókina kostir og gallar kuðungsígræðslna.  Þetta verður því fyrsta langtíamrannsóknin þar sem báðir kostir og gallar koma fram og gerð af hlutlausum aðilum.

Þess má geta að syni mínum fannst heilmikið koma til þess franska hugsjónamanns líka af þeirr ástæðu að hann hefur hitt franska fótboltakappann Zidane, og ekki bara hitt heldur hefur Zidane kysst á ennið á þessum franska.


Miðnæturganga á Heklu

Hekla

Bílferðin upp að Hekluhlíðum gekk mjög vel í alla staði.  Veðrið sem best var kosið, sól, stilla og blankalogn þegar komið var á staðinn.  Lagt var af stað í gönguna kl 21, svona klukkutíma á eftir áætlun vegna umferðartafa í Reykjavík og á milli Hveragerðis og Selfoss. Í förinni var 70 manna gönguhópur frá Ferðafélagi Íslands og þrír fararstjórar.  Við vorum sex heyrnarlaus og svo var túlkur með í för, sem reyndar var alveg frábært að hafa.

 

Gönguleiðin upp að tind Heklu er 7 km, afar brött og oft snjóbreiður líka.  Sem sagt fram og til baka er þetta 14 km í allt segir reiknilistinn mér.  Áætlað er að gangan upp taki um 3-4 tíma og svipaður tími á niðurleið en þó aðeins styttri.   Eftir smákynningu á ferðinni frá fararstjóranum sem einnig fór yfir göngureglurnar var lagt af stað. 

Ég byrjaði hægt og rólega að feta upp á brattann. Ég er frekar skrefstutt og var göngumönnum einmitt ráðlagt að vera það, spara á stóru skrefin því umtalsverð orka fer í þau. Stundum var stoppað í mínútu á leiðinni, þá köstuðu menn mæðinni og  horfðu menn yfir landslagið sem þarna mátti sjá, stórbrotið í einu orði, róandi að horfa á að maður gleymir sér alveg í svona aðstæðum, bara horfa og njóta.  Snjóbreiðurnar voru stundum erfiðar yfirferðar, þó samt ekkert voðalega.  Flestir í hópinum voru með göngustafi þar á meðal ég líka.  Það hjálpaði mjög til að hafa þá, gerði gönguna sjálfa svolítið léttari og veitti jafnvæginu góða stoð.  Ég varð svolítið móð þarna á leiðinni upp og dróst talsvert úr hópinum en það var bara um að gera að fara rólega.  Við vinkona mín gengum semsagt hægar en aðrir og það var allt í lagi, við áttum líka kannski fleiri mínútu hvíldarstundir til að njóta landslagsins og fá okkur að drekka. 

 

Hekla er falleg sjón og merkilegt að komast í návígi við hana á þennan hátt.  Hún gaus fimm sinnum á síðustu öld.  Þeir sem voru fyrstir að ganga hana voru þekktir fræðimenn okkar þeir Eggert Ólafsson og Bjarni og skrifuðu þeir merkilega bók eða fræðirit um för sína þangað.   En hvort þeir voru þarna á sama tíma og við í kringum sumarsólstöðurnar veit ég ekki.  En það að upplifa jafntignarlega sjón og við sáum þarna á leið okkar verður ógleymanlegt í mínum minnum. Við fylgdum henni nokkuð vel og settist hún niður eftir miðnætti um hálf eitt og við sáum hana líka rísa upp aftur og var vel sýnileg okkur um klukkan hálf fjögur um nóttina eða væri ekki réttara að segja um morguninn.

 

Eins og ég sagði áðan var gönguhópurinn komin langt á undan okkur vinkonunum við horfðum á þau ganga hægum skrefum í snjónum upp snarbratta fjallshlíðina.  Við vinkona mín komumst mest þangað sem mesti brattinn byrjaði og þá reiknast okkur til að við höfðum gengið svona 5 km í allt.  Við ákváðum að snúa við, því við vildum eiga síðustu orkuna fyrir leiðina niður, þá var klukkan orðin um hálf tvö.  Við gengum niður í mestum rólegheitum og fórum á þessum tíma að finna fyrir kulda, jafnvel þó við vorum mjög vel klæddar. Létum það ekki mikið á okkur fá og gengum markvisst niður, það var ekki jafnauðvelt og það lítur út fyrir að vera að ganga niður.  Það var mest erfitt í snjóbreiðunum, en þá var stundum eins og maður stæði á bremsunni og rynni bara áfram.  Ekkert vorum við voðalega mikið að flýta okkur niður og vorum komnar að stæðinu rétt eftir klukkan þrjú, biðum í svona klukkustund þangað til allir göngumenn skiluðu sér niður.

Nokkrir fóru ekki alveg upp eins og við en frásögn þeirra sem fóru alveg upp var á þann hátt að brattinn upp hafi verið gríðarlegur og það mest allan tímann í snjó.  Sýnin sem þau sáu af tindinum var óskaplega falleg sögðu þau.  Þau stöldruðu þó ekki lengi þarna á tindinum og héldu svo niður á leið og gekk allt mjög vel. 

Ferðin til Reykjavíkur gekk svo eins og í sögu þó mikil þoka var fyrsta hluta ferðarinnar en þegar á Selfoss var komið rétt fyrir klukkan sex var þar glampandi sólskín. 

Þetta var meiriháttar ferð og upplifun fyrir mig jafnvel þó ég hafi ekki komist á tindinn verður sennilega bætt úr því seinna, hver segir annars að það eigi bara að fara einu sinni að heimsækja Heklu? Við vinkona mín gengum tæpa 10 km miðnæturgöngu og skal bara segja að það sé hið besta mál.

Ég lofaði ykkur myndum og mun standa við það.  Myndir af ferðinni koma á allra næstu dögum, smá tæknivandamál komu upp sem ekki verða útlistuð hérna.

 

Fleiri myndir

Blindir og fjöll

Á stuttum tíma núna hef ég rekist tvisvar sinnum á frétt sem mér finnst fullt tilefni til að segja frá hérna.  Það varðar grunnskólamenntun blindra og sjónskerta.  Af báðum fréttum að dæma virðist kennsla blindra og sjónskertra barna vera engin hérna eða gjörsamlega hrunin til grunna ef fyrir var einhver grunnur.  Í bland við þessa sorglegu staðreynd hafa foreldrar tveggja blindra og sjónskertra barna ákveðið að flýja land sitt vegna þessa úrræðaleysis af hálfu stjórnvalda í þessum málum.  Börnum þeirra og menntun þeirra er sem sagt betur sinnt í öðru landi en það fæddist í og er ríkisborgari í, í öðru landi sem annað tungumál er talað og jafnvel landi sem við íslendingar höfum tekið mið af að verða og að gera betur. Báðir foreldrarnir segja að þeir telji barnið sitt fá miklu meira út úr lífinu í öðru landi heldur en heimalandinu.  Sorglegt.  Maður spyr sig ósjálfrátt hvað sé eiginlega að gerast?  Í annarri hverri ræðu sem ráðherrar hér halda stilka þeir ýmist á stóru yfir hvað við íslendingar séum heppin að búa við besta velferðarkerfið í heiminum jafnvel líka besta menntakerfið. Falla blind og sjónskert börn ekki inn í þetta margumtalaða besta velferðar – og menntakerfi?  Sagt er að eini blindrakennarinn á landinu hafi hætt störfum og engin til að taka við af honum.  Sem sagt engin nýliðun í stéttinni, engin hvatning eða örvun í kennslu blindra af hálfu ráðuneytis menntamála. Var ekki alveg fyrirsjáanlegt að þetta myndi gerast þegar bara aðeins einn blindrakennari var á öllu landinu?  Ég vona innilega að verið sé að vinna að þessum málum í ráðuneyti menntamála sem og fræðslumiðstöðum hvar sem er á landinu þar sem blint eða sjónskert barn býr og á fullan rétt á skólagöngu til jafns við önnur börn. Ég vona líka að ég þurfi ekki að lesa aðra frétt um þriðja foreldri blinds eða sjónskerts barns eða jafnvel barns með aðra fötlun sem er að flýja land.  Fólk á nefnilega ekki að þurfa að flýja land vegna menntunarúrræðisleysis stjórnvalda sem stæra sig af að eiga besta velferðarkerfið í heiminum.  Fólk flýr land venjulega vegna ofsókna, stríðs og hamfara sem ekki voru fyrirsjáanlegar.  Slíkt ætti með öllu ekki að þurfa að líðast hér.

 

Já, þá er víst fyrsta alvöru færslan komin, svo þið hafið þá fengið svolitla nasasjón af því sem koma skal.  Í þessu núna er ég að undirbúa mig fyrir miðnæturgönguferð á Heklu, legg af stað eftir svona þrjá tíma. Vinkona mín ein góð fann upp á að fara í þessa ferð.  Þegar hún var að útlista fyrir mér hvað ég ætti að taka með í svona fyrstu alvöru fjallaferðina mína þá nefndi hún að öllu síðustu að það væri góð hugmynd að ég tæki með mér bók að lesa, ég hváði vitanlega, því bókalestur er nú víst ekki stundaður í miðnæturfjallagöngum.  Hún útskýrði þetta aðeins betur og sagði að ef ég kæmist ekki alla leið þá gæti ég bara snúið við niður og sest inn í bílinn og lesið á meðan ég bíð eftir hinum.  Virkilega umhyggjusamt af henni, en ég ætla sko ekki að fara í bókalestur, ég ætla að labba alveg alla leiðinna og niður líka.  Myndavélin verður tekin með svo þið fáið sennilega að rýna í myndir úr göngunni á næstunni, þá getið þið séð sönnun á því að ég sé alveg orðin fjallafær.  

Góða helgi!


Velkomin á bloggið mitt!

Til hamingju að hafa ratað inn á síðuna mína og vertu velkomin.  Það er ekki mikið komið inn á hana núna en því skal vera ráðin bragarbót á næstu dögum.  Hérna getur þú lesið um allt á milli himins og jarðar sem er allt frá því að vera einhæf dagabókarfærsla á gjörðum mínum dagsdaglega til þess að vera hápólitísk síða með ýmiskonar innskotum sem mér þætti betur mega fara í samfélaginu sem og það sem mér finnst vert að fái hrós frá mér.  Hver veit svo hvort einhverjar myndir fá að læðast með af og til, svona til að krydda enn betur upp á síðuna. 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband