Færsluflokkur: Bloggar

Rússnesk rúlletta?

c_documents_and_settings_sigurlin_margret_my_documents_my_pictures_blom_blom_005.jpg

Ólafur Hannibalsson hefur skrifað merkilega grein um tekjutengingar í þjóðfélaginu sem eru að leggja velferðarkerfið í rúst.  Mæli með að þið lesið hana, hún er öllum holl lesning og hana er að finna á www.visir.is undir skoðanir.

 

Mikið hefur verið rætt um hátt lyfjaverð undanfarið, ég hef aðeins fengið að finna fyrir þessu og var núna í þessu að klára lyfjaskammtinn minn og þurfti að byrgja mig upp af þeim á dögum.  Það er engu líkara að ég hafi lent í rússneskri rúllettu, enda finnst mér lyfjamarkaðurinn vera orðin það.  Ég hef aldrei þurft á neinum lyfjum að halda fyrr en ég fékk sykursýkina og tek því töflur en sprauta mig ekki.  Læknirinn minn sagði mér að öll lyf tengd sykursýkinni væru niðurgreidd og þyrfti ég ekkert að borga, það reyndist alveg rétt hjá honum allavega þangað til í gær.  Þegar ég fór í apótekið með fjölnotalyfjaseðilinn þá var komin upp ný staða, mér var gert að fá samheitalyf því ég yrði að borga fyrir frumlyfið sem ég hef verið að taka.  Sami kostnaður er á báðum lyfjunum fyrir ríkissjóð en bara spurning um að ég borgi fyrir frumlyfið eða taki samheitalyfið ókeypis. Hverju er eiginlega verið að ná fram með þessari ráðstöfun? Ég er jafnlitlu nær og þið.   Maður getur eiginlega sagt líka að tekjutengarnar sem ÓH nefnir í greininni sinni séu líka rússnesk rúlletta.


Róleg helgi

Mér finnst ótrúlegt að Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur fái ekki gögn um símahleranir á tímum kalda stríðsins hjá dómsmálaráðuneytinu og Þjóðskjalasafninu þar sem gögnin eru núna. Hvað er verið að fela? Einkamál dómsmálaráðherrans?  Þetta eru gömul skjöl og flestir þeir sem þetta mál snertir eru víst horfnir handan móðuna miklu.  Stundum hefur læðst að mér hugsun að meira vert er um að skoða af hverju heyrnarlausir hérna voru sviptir framhaldskólamenntun með lögum nr. 4 frá 1962, en þessi lög voru afnumin 1991.  Þess vegna hefur meginþorri heyrnaralusra sem er á svipuðum aldri og ég með litla framhaldskólamenntun eða einhverja iðnmenntun en þessi lög heimluðu heyrnarlausum að fara í iðnmenntun sem þeir tók með einhverjum undanþágum og eru svo ekkert að vinna við það fag í dag nema í einstaka tilfellum.  Nú hefur þetta vissulega breyst eins og allt annað.  En samt sem áður háir þetta nokkrum heyrnarlausum mjög mikið og þetta fólk er á lífi.

 

Helgin búin að vera full af lífi hérna þó maður hafi nú ekkert verið að skríða á fjórum fótum í hundblautu tjaldi eða svoleiðis nokkuð.  Við höfum farið í hjólaferð, í sund,  í matarboð, á Stuðmannatónleikana, haft það huggulegt hérna heima og boðið fólki í mat. 

 

Það var virkilega gaman á Stuðmannatónleikunum, stemmningin var mjög góð og þau lifðu sig alveg í tónlistina þeirra, sungu með og klöppuðu, ég lagði mig í líma að reyna að halda klappi í takt og gekk það bara vel, gat jafnvel raulað aðeins með.   Það voru sagðir yfir fimm þúsund manns þarna. 


Í miðju sprengigabbi

Verslunarmannahelgin er víst að skella á og þá fer víst landinn meira og minna á stjá og kemur sér þægilega fyrir í tjaldi, fellihýsi og hvað þetta allt nú heitir.   Fjölmargar útihátíðir setja sinn svip á helgina og úr mörgu að moða.   Ég verð nú lítið á faraldsfæti um helgina, því ég þarf að mæta alla helgina í Efstaleitið og fara með táknmálsfréttirnar.  Reyndar finnst mér þessi helgi alltaf lenda á mér, en það er auðvitað ekki rétt, stundum hef ég verið það heppin að eiga ekki vakt.   Ég held ég geti samt alveg fullyrt að ég sé ekki mikil verslunarmannahelgarmanneskja og hef ekki svo mikið lagt einhverja útihátíðina undir fót um þessa helgi.  Ég hef þó farið í Þórsmörkina fyrir eitthvað svona tuttugu og eitthvað árum eða svo og Þingvellina líka.  Annars ætlum við krakkarnir bara að hafa það fínt hérna í bænum um helgina og gera okkur eitthvað til dundurs, fara í sund, bíó og fá okkur gott að borða, jafnvel stutta ferð úr bænum og auðvitað að hjóla á nýja hjólinu eitthvað líka gefist veðurfæri til slíks.

 

Táknmálsfréttir hafa verið lengi í RÚV.  Reyndar er rétt að fræða ykkur aðeins um þennan mikilvæga þátt sem sendur er út á hverjum degi, stundvíslega kl. 17.50 og gegnir miklu lykilhlutverki í lífi margra heyrnarlausra táknmálsnotenda í landinu, jafnvel þeirra sem búa eða eru einhverra hluta staddir erlendis þeir horfa á á netinu. Þannig að það eykur þægindin til muna að sjá táknmálsfréttirnar á netinu missi maður af þeim fyrir framan sófann. Ísland var reyndar fyrsta landið á Norðurlöndum sem byrjaði með táknmálsfréttir árið 1981.  Nú eru táknmálsfréttir á ríkissjónvarsstöðvunum á Norðurlöndum og er það bara vel.  Ég byrjaði þarna 1984 minnir mig, hef unnið þarna frá þeim tíma með tveim smáhléum á milli sem voru vegna þess að ég bjó á Akranesi og svo þegar ég eignaðist börnin.   Þetta hefur verið bara góður tími og maður hefur fengið þarna tækifæri til að vera með í allri þeirri þróun sem gerð hefur verið á þessum tíma.  Þetta hefur alla tíð verið sent út í beinni. 

Einstaka sinnum hafa minnisstæð atvik komið fyrir, sum kannski frekar skondin.  Hjá mér gerðist það þegar ég var svona tiltölulega nýbyrjuð að vinna þarna og það vildi svo til að ég þurfti að mæta á 21s eða 22 ára afmælisdaginn minn. Þá var RÚV á Laugaveginum.  Ég vann mína forvinnu eins og vanalega og fór inn í stúdióið 5 mínútum fyrir útsendingu, gerði allt klárt á borðinu með blöðin (á þessum tíma var textavélin ekki komin) útsending á þessum tíma var 19.50.  Svo var ég alveg tilbúin og mínúta í útsendingu, beið alveg róleg og fylgdist með klukkunni fyrir framan mig.  Hún tifaði áfram og ég gerði mig alveg klára til að birtast alþjóð á mínútunni. En vísirinn tifaði og tifaði svo yfir útsendingartímann, ein mínúta, svo tvær og þrjár, ég var orðin fullfrosinn í stöðu minni og þorði mig hvergi að hæra. Þótti þetta mjög skrýtið en beið bara áfram og hugsaði svo sem að þeir hlytu að fara að ýta á útsendingarhnappinn eða í það minnsta að koma og láta mig vita af einhverri ófyrirséðri bilun.  En ekkert gerðist og nú voru komnar hreinar 7 mínútur í biðinni.  Mér var farið að verða um og ó þarna einni inni og svo var hitinn frá ljósunum að gera útaf við mig líka og hjartað var farið að taka nokkur aukaslög líka. Að lokum þegar komið var yfir minn tíma þá reiknaði ég bara með að táknmálsfréttir þetta kvöld hefðu verið felldar niður án þess að ég hafi verið látin vita og ég stóð upp þegar um 2 mínútur voru að aðalfréttatíminn hæfist.  Ég kom inn í útsendingarherbergið og þar var enginn, ég prufaði að kalla en enginn kom, á tækjunum var kveikt og bara hið furðulegasta mál, ég gekk fram á gang og þar var heldur ekki hræðu að sjá. Ég fór inn í sminkherbergið og þar var heldur enginn. Fór aftur á ganginn og þar brá mér illilega þegar ég sá lögreglumann koma hlaupandi með hund í bandi niður stigann.   Hann sá mig þarna og gaf mér harkalegt merki að koma mér út, ég fór og þreif í jakkann minn og hljóp út og þá voru allir úti á bílaplaninu og lögreglubílar að auki með blikkandi sírenurnar.  Ég varð hissa á þessu öllu saman og þá sá fólkið mig koma út, ég fór til föðrunarkvennana og spurði hvað væri að gerast.  Já, það hafði verið hringt inn og sagt að til stæði að sprengja Sjónvarpshúsið stundvíslega klukkan 20. En svo var þetta víst sprengigabb, sem frægt varð og ég gleymdist þarna innilokuð í studíóinu.  Já svona lá þá að þessu og gerði bara afmælisdaginn minni eftirminnilegan. Það er gaman að rifja upp þessa sögu og skjalfesta hana hérna ykkur til upprifjunar á sprengigabbinu en þó aðallega til að kitla aðeins í brosviprunar í þessu roki og rigningu sem er úti núna.  

Esjuganga

Esjuganga

Í gær keypti ég mér hjól svo á næstunni verður eitthvað hjólað.   Ætlaði reyndar að byrja í gærkvöldi en vinkonurnar ákváðu að ganga upp á Esjuna og ég kaus að fara með þeim.  Flott veður og gangan tókst mjög vel. Þega við vorum búnar og keyrðum heim í gegnum Mosfellsbæ sáum við að hitastigið var 21°C.  Það var mikil um fólk þarna, annað hvort á leiðinni upp eða þá á niðurleið.  Nokkrir unglingar voru þarna og sáum við að þau voru með mat til að borða þarna efst uppi. Sniðugt að fara með eitthvað picknikk þangað. 

 

Enn eina ferðina enn er verið að gera atlögu að örorkulífeyrisþegum í þetta sinn 20% þeirra sem fá greiðslur frá lífeyrissjóði sínum. Lækkunin er í flestum tilfellum það mikil að slíkt dugar engum manni til að fæða sig og klæða eða hvað þá taka aðra með inn í dæmið séu þeir á framfæri manns. Ég segi eins og formaðurinn að þetta hljóti að vera mistök sem verði leiðrétt.  Nýverið var gert samkomulag í ríkisstjórninni um að bæta hag öryrkja og ellilífeyrisþega svo þessi skerðing og niðurfelling er sem hnífur í bakið hjá mörgum.  Þetta er eitthvað "svona gera menn ekki".

 

Ofsaakstur mótorhjólakappa á gangstétt

Í gærkvöldi fór ég með nokkrum vinum mínum á pöbbarölt.  Við fórum fyrst á Oliver á Laugaveginum og stoppuðum þar dágóða stund.  Þegar við komum þaðan út, var ég eitthvað að bíða eftir öðrum og leit í búðarglugga við hliðina á staðnum.  Bara svona í rólegheitum.  Snéri mér svo við og gekk þvert yfir gangstéttina eða ætlaði mér allavega að gera það, en þá bara brá mér hressilega því alveg við nefið á mér brunaði mótorhjólagengi framhjá mér.  Það mátti ekki muna nema um 25 sentimetrum að þeir hefðu klesst mig illilega niður með akstri sínum á gangstéttinni og ég hefði bara verið skröpuð af gangstéttinni það sem eftir lifði kvöldsins.  Þeir settu mig og aðra gangandi vegfarendur á gangstéttinni í lífshættu.  Þeir voru ekkert á neinum Laugavegshraða heldur fóru mjög hratt yfir og stýrðu afar glannalega, ég horfði á eftir þeim alveg forundran og mátti greinilega sjá að þarna voru fleiri í lífshættu en ég.  Þarna mátti afar litlu muna, þessir mótorhjólakappar hafa greinilega ekkert átt von á því eða hvað þá hugsað að um gangstéttina færi manneskja sem ekkert heyrði í þeim eins og meginþorri fólks á gangstéttinni og gat þar með gefið færi á forða sér, en ég hef ekkert svoleiðis og get ekki keppt við svonalagað en það er eitt alveg víst það er stranglega bannað að stunda mótorhjólaakstur á gangstéttum borgarinnar sem og annarstaðar á landinu.

 

Annars var ég að lesa góða frétt sem styður mjög framgöngu textunar á innlent sjónvarpsefni hjá RÚV í mogganum í gær.  Finnst mér ég þarna sjá dágóðan vott af skilningi í þetta mál og er það alveg frábært.   Það sama vil ég sjá hjá einkareknu sjónvarpstöðvunum.

 

Nú er ég að fara til Keflavíkur að sækja vinkonu mína sem fór til Afríku í þróunarhjálp svo þið megið vera viss að bútar af því athygilsverða í ferðasögu hennar birtist hérna á síðunni á næstunni. 


Textun, bakstur og blóm

Alýsur, Stjúpur og Morgunfrúr

Ég las flott viðtal við Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra í Blaðinu í dag.  Henni finnst frelsið skipta sig öllu máli. Ég geri það nefnilega líka.  Ég vil hafa frelsi til að velja, frelsi til að fylgjast með innlendu sjónvarpsefni til dæmis og þá verður það að vera textað sé það mér nýtilegt.  Þorgerður Katrín er fyrsta konan að gegna starfi forsætisráðherra þessa daga og hún segir um það henni finnst gaman að brjóta múra eins og þennan og gera það þar með táknrænt fyrir breytingar í íslenskum stjórnmálum.  Fyrst henni finnst gaman að brjóta múra þá tel ég hana afar hæfa til þess að brjóta þann múr sem heyrnarlausir og heyrnarskertir hafa búið við hérlendis vegna þess að engin lagaleg skylda hvílir á herðum sjónavarpsstöðvanna að texta innlent sjónvarpsefni hverskonar.  Fólk er orðið ansi langteygt eftir þeim breytingum. Heyrnarlausir hafa barist fyrir þessu lengi, ég sennilega um meira en helming af ævi minni og á þessum tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið um stjórnartaumana.  Ég skora hér með á Þorgerði Katrínu að koma þessum textunarmálum í viðunnandi horf svo upplýsingaraðgengi heyrnarlausra og heyrnarskertra verði hindrunarlaust í sjónvarpsmiðlunum.   Þetta er mikið mannréttindamál og sjálfsögð réttindi hjá velflestum þjóðum heims. Sama má segja um táknmálið, það þarfnast þeirrar viðurkenningar sem það þarf til, en um það skal ég skrifa seinna.

 

Annars er það bara hérna að mér datt í hug í morgun að baka eina köku bara svona til að fá bökunarilm í húsið og svo að því að krakkarnir mínir voru farin að suða um eitthvert almennilegt bakkelsi og vildu fá skúffuköku.   Ég hef ekki bakað í háa herrans tíð og ákvað að gera gott um betur, skúffukaka er of einföld.  Ég vildi frekar gera rúllutertu, gerði það mjög vel í den.  En í morgun gekk eitthvað mjög illa, ég er alveg greinilega komin úr æfingu.  Mjög erfitt reyndist að rúlla blessaðri kökunni upp en mér tókst með naumindum að klambra henni saman á disk, svona skammlaust og flýtti mér að setja hana í ísskápinn svo kremið myndi harðna aðeins.  En það tókst ekki svo vel til heldur var diskurinn líka of lítill og datt helmingurinn niður á gólf og þar með fór rúllutertan góða í ruslafötuna.  Krakkarnir hneyksluðust og sögðu að skúffukaka hefði alveg nægt, svo þau eiga inni hjá mér eina skúffuköku sem sennilega verður bökuð í dag, svona þegar ég er búin að jafna mig eftir rúllutertuófarirnar.

 

Hérna fáið þið að sjá tvær myndir af blómum.  Myndirnar eru teknar úr garði föðurbróðurs míns á Akranesi.  En hann ræktar sumarblómin sjálfur og einmitt svona blóm, bústin og falleg gerðu foreldar mínir og seldu í garðyrkjustöð sinni í Klapparholti á Akranesi þegar ég var að alast upp. 


Fleiri myndir

Fordæming vopnavaldsins

Einhver var að segja á malefnum.com að enginn þingmaður hefði fordæmt ísraela fyrir árásir þeirra á Líbanon.  Ég get ekki staðhæft í þessum skrifuðum orðum að svo sé rétt, en mér er það ljúft að fordæma ísraela fyrir árásir þeirra á Líbanon og geri gott um betur og fordæmi jafnvel líka Hizabollah fyrir árásir þeirra á Ísrael.  Eyðileggingin í Líbanon er alger, það eitt að sjá fréttamyndir af atburðum þarna nægir mér til að hugsa til hryllings fyrir fólkið sem á heima þarna, eða átti heima þarna.  Væri hinsvegar um náttúruhamfarir að ræða þá væru allar þjóðir heims núna að leggja sitt af mörkum að aðstoða landið í þeim raunum, en það virðiðst vera annað upp á botninn hvolft þegar stríðandi fylkingum er um að kenna. Það þarf nefnilega tvo til að deila og þetta er satt best að segja farið að ganga út í mestu öfgar sem fyrirfinnast.  Man einhver lengur eftir því hvert raunverulega deiluefnið er?  Þetta sýnst ekki lengur um búsetu eða landsgæði.  Þetta snýst um að sýna hvert raunverulegt vopnavald annars hvors stríðsaðilans er. Þeir sem eiginlega verða mest fyrir barðinu á stríðinu eru fatlaðir, upplýsingarheftingin á svona stundum verður alger svo mikil að þeir glata eigin sjálfstæði, því forræðishyggja annara yfir þeim verður það mikil að þeir geta engar ákvarðanir um eigið líf tekið á svona stundum. Jafnvel hinn almenni borgari sem er þó ekki fatlaður upplifir sennilega það sama.  Fólk missir eignir sínar, jafnvel fjölskyldumeðlimi og vini sem og eigið sjálfstæði. Það er lítil vernd gefin fyrir almennan borgara í svona stríði. Hvað mun svo hinsvegar uppbyggingin kosta alþjóðasamfélagið þegar að stríðslokum kemur? Hvað mun þetta hinsvegar kosta saklaust fólkið sem varð að fórnarlambi vopnavalds annarar þjóðar. Þetta er okkur öllum umhugsunarefni.


ÖBÍ deilurnar

Ég hef verið að velta þessu máli með Öryrkjabandalagið sem hefur verið í fjölmiðlum fyrir mér undanfarna daga, Mér finnst ég verði að koma þessum vangaveltum frá mér því þær eru farnar að trufla prjónaskapinn minn nokkuð og mér liggur svolítið á að klára peysuna.   Málið sem um ræðir er í stuttu máli það að tveir aðalstjórnarmenn ÖBÍ hafa kært formann ÖBÍ fyrir ólýðræðisleg vinnubrögð á aðalstjórnarfundi ÖBÍ.  En á þeim fundi var samþykktur ráðningarsamningur við núverandi framkvæmdarstjóra og á þeim fundi var líka samþykkt að lögfræðingi ÖBÍ yrði falið að ganga frá starfslokum brottrekins framkvæmdarstjóra bandalagsins.

Ég er ekki að skrifa þetta til þess að lýsa yfir stuðningi yfir öðrum hvorum tveggja þeirra manna sem málið snýst að mestu um, þá Sigurstein Másson formann ÖBÍ og Arnþór Helgason fyrrum framkvæmdarstjóra ÖBÍ heldur vegna þess að mér finnst að allir hlutir eigi að vera upp á borðinu, það er nú eða aldrei eða bara þá allt eða ekkert. Ég veit ekkert hvað stendur í ráðningarsamningi nýja framkvæmdarstjórans sem samþykktur var á þessum umrædda fundi.  Satt best að segja og ef ég skil málflutninginn rétt þá finnst mér málið hljóða upp á þannig mynd að það sé eins og formaðurinn  hafi alveg eins getað veifað hvítu lokuðu umslagi sem innhéldi ráðningarsamninginn og beðið aðalstjórnarmenn að samþykkja það sem í því væri. Aðalstjórnarmenn fengu ekki að sjá samninginn nema þeir undirrituðu þagnareiðsyfirlýsingu.  Þeir sem það gerðu voru aðeins þrír og þeir máttu á engan hátt ræða innhald ráðningarsamningssins við félag sitt sem þeir eru kjörnir fulltrúar fyrir til setu í aðalstjórn ÖBÍ.  Þarna var samþykktur samningur sem meginþorri aðalstjórnarmanna vissi ekkert hvað gekk út á.  Það var svo sem samþykkt plagg sem enginn vissi hvað stóð í nema formaðurinn og nýji framkvæmdarstjórinn og ég ætla rétt og slétt að vona að framkvæmdarstjórnin viti það líka.  Ólýðræðislegt.  Ef svona lagaði hefði nú gerst í einhverri bæjarstjórn á landinu yrði fjandinn víst laus.  Enn hefur ekki verið gengið frá starfslokum við fyrrum framkvæmdarstjóra, ég hef ekki séð neinar tölur í tengslum við það mál sem fram hefur komið í fjölmiðlunum.  Það hefur oft sinnis verið sagt frá í fjölmiðlum tölur af starfslokasamningum sem þjóðinn hefur gubbað yfir eða þagaðir í hel.  Af hverju hvílir svo mikil leynd yfir þessum samningi?  Er það vegna þess að hann er lægstur allra starfslokasamninga sem gerðir hafa verið vegna þess að maðurinn er fatlaður eða er það gert vegna þess að mönnum gæti blöskrað sú upphæð sem stór heildarsamtök fatlaðra eru að greiða?  Það væri fróðlegt að vita það.   

Annað deiluefni sem vekur upp spurningar hjá mér er að enn hefur ekki komið á yfirborðið hin raunverulega skýring á skyndilegri uppsögn fyrrum framkvæmdarstjóra sem nefnilega kallast brottvikning.  Formaður hefur gefið þá ástæðu fyrir því að hann geti ómögulega ekki skýrt hana því þá væri hann að eyðileggja möguleika Arnþórs að fá aðra vinnu.  Enn hefur umræddur Arnþór ekki fengið neina vinnu og síðast þegar ég frétti af atvinnuleit hans fyrir nokkrum vikum þá hafði maðurinn ekki fengið neina vinnu þrátt fyrir að hann sækti um hvert starfið á fætur öðru.  

Því miður fyrir Örykjabandalagið í heild eru þessar deilur að sliga bandalagið og engum til góðs.  Fyrrum framkvæmdarstjóri hefur ekki samþykkt starfslok sín og formaðurinn hefur ekki náð að verða það sameiningartákn sem bandalagið þarf á að halda, það mætti e.t.v. segja að bandalagið séu klofið í með- og á móti liði.  Það er engum til góðs.  Bandalagið þarf öflugan formann sem allir aðalstjórnarmenn treysta og allt þarf að leggja á borðið og formaðurinn þarf að treysta aðildarsamtökunum fyrir val sitt á aðalstjórnarfulltrúa sínum. Það skiptir engu máli hvort fyrir sé ótti að einhver aðalstjórnamanna leki upplýsingum í fjölmiðla, það þarf nefnilega að taka áhættu svo allir geti unað sáttir við þær upplýsingar sem komnar eru.  Jafnvel þjóðin öll á rétt á að vita hvað sé að gerast.   Öryrkjabandalagið er hagsmunabandalag sem snertir marga landsmenn í hverskyns baráttu, það hefur unnið í þeirri baráttu af miklum heillindum  og áunnið sér traust landsmanna og þannig vil ég hafa það áfram.  Þessari deilu verður því sem sagt að ljúka svo ekkert flækist fyrir bandalaginu í því góða starfi sem það sinnir.

  

Afmæli og huldufólk

Guðmunda Freyja, 3 ára

Afmælisveisla þriggja ára prinsessunar var mjög vel heppnuð.  Sú litla söng “Hún á afmæli í dag” og bætti svo hátt og snjallt við “Ég” oft og öllum til mikillar ánægju.  Það er gaman að eiga afmæli, sérstaklega þegar maður er á þessum aldri, eða er allur aldur annars ekki bara gleðiefni.  Eitt ár til og frá, hvaða máli skiptir það eiginlega?

Myndavélin var höfð með og fáið þið að sjá veisluna.  Við spiluðum krokket og náði ég tækninni núna loksins og gerði svo gott betur og vann börnin mín og bróður afmælisbarnsins í því.

 

Eftir veisluna fórum við svo á Akranes og heimsóttum ættingjana þar.  Komum við á Steinstöðum, alltaf gaman að koma þangað.  Einu sinni voru Steinstaðir og Klapparholt (þar sem ég ólst upp) reyndar sveitabæjir á Akranesi en núna er þetta allt komið undir malbik og hús hafa verið byggð á túnfætinum.  Það er meira segja komið raðhús á túnblettinn á Steinstöðum og risastór blokk þar sem hænsnahúsin í Klapparholti voru og svo heitir gatan núna Tindaflöt.  Tindaflöt? Hverjum datt þetta nafn í hug, það er ekkert þarna sem minnir á einhverja tinda.  Steinstaðaflöt er til en svolítið langt frá upprunalega staðnum.  Sá sem hefur ákveðið nöfnin þekkir enga staðhætti þarna.  Þarna rétt við eitt raðhúsið er hóll með steini og hefur verið látin óhreyfður af vinnuvélunum.  Í steininum í den og sennilega núna býr nefnilega huldufólk.  Þegar ég var lítil hlustuðum við á steinana og heyrðum stundum að sópað var inn í þeim eða þá að glösum raðað saman.  Stundum heyrðum við smjattið í huldufólkinu.  Heyrðum eða trúðum að við heyrðum það skiptir engu máli.  Það er alveg á hreinu að þarna í holtinu við Steinstaði er huldufólksbyggð.  Á gamlárskvöldum þegar myrkrið var svartast var haft ljós í hverju herbergi á Steinstöðum og Klapparholti sem átti að lýsa huldufólkinu því það var að flytja eða allavega skipta um búsetu í steinunum.  Það var ævintýri líkjast að alast upp þarna og margar sögur til sem stundum eru rifjaðar upp í fjölskylduboðum.

 

Fleiri myndir

Sól, sól...

c_documents_and_settings_sigurlin_margret_my_documents_my_pictures_nautholsvik_nautholsvik_005.jpg

Sólin hefur aldeilis verið að leika við okkur í dag og í gær.  Ég og börnin mín létum það eftir okkur að láta sólina bara skína á okkur.  Í gær var það Salasundlaugin í Kópavogi og í dag fórum við í Nauthólsvíkina og þar voru þessar myndir einmitt teknar. 

 

Annars er bara voða rólegt hérna þessa dagana og á morgun förum við í Borgarnes í afmæli einnar prinsessunnar í fjölskyldunni sem heldur upp á þriggja ára afmælið sitt og ætlar bara að hafa afmælið veglegt og halda upp á það í sumarbústað.  Gott hjá prinsessunni.

 

Öll pólitíkin greinilega í fríi hérna heima, samt alltaf eitthvað að gerast eins og til dæmis það að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra undirrituðu samkomulag við einkaaðila að annast meðferðarúrræði fyrir unglinga með geðraskanir og áhættubundna hegðun. Hið besta mál og verkefnið heitir Lífslist og er að erlendri fyrirmynd.

 

Stríðið í Líbanon er óhuganlegt.  Mér finnst ekki vera mjög mörg ár síðan Ísraelar fóru þaðan, sex ár eða svo.  Nú eru þeir komnir aftur og það af meira ofsa en fyrr.  Landið eyðileggst og ekki bara landið heldur fólkið, allt kerfið og þar með öll uppbyggingin sem hefur átt sér í stað.  Sorglegt er ekki annað hægt að segja.  Er það ekki bara sagt um öll stríð svona almennt.

 

Fleiri myndir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband