Færsluflokkur: Bloggar
13.9.2006 | 07:39
Mögnuð verðbólga!
Ég vona innilega að Magni okkar hafi það af í rokkinu þarna vestra. Ég nefnilega ætlaði auðvitað að kjósa hann snemma í morgun, en hrikalega leiðinlegt að segja þetta ég vaknaði þrem mínútum yfir sex og búið að loka fyrir kosninguna. Vona þessi svefndrukknu atkvæði mín sem aldrei fóru verði ekki þau sem koma honum heim. Annars er þetta búið að vera glæsilegt hjá piltinum. Það verður því bara spennandi að sjá útkomuna.
Fyrst ekkert var kosið þá las ég fréttirnar á visir.is og sá þar eina góða um að verðbólguskotið okkar sé yfirstaðið. Jafnframt er þess getið að þjóðin verði að halda sér höndum í eyðslu, það ætti ekki að vera neitt mál hérna ég er nefnilega að hugsa um að sleppa að kaupa flotta Chayenne jeppalinginn aðrir ættu að taka mig til fyrirmyndar. Ég ákvað þetta þegar mér var hugsað til manns nokkurs sem var nýbúin að fá sér glæsilegan jeppa, alveg nýjan með öllu og kostaði einhverjar miljónir, svona langt umfram venjulegan fólksbíl. Ég hrósaði manninum fyrir þennan flotta jeppa og hann var ekki alveg að taka hrósinu mínu en sagði að hann hefði fengið jeppa með vitlausum lit og væri að bíða eftir að sá nýji með rétta litinum kæmi til landsins alveg svipbrigðalaust eins og ekkert væri sjálfsagðara. Viku síðar var svo komin alveg eins jeppi í rétta litinum á planið hjá honum. Þarna hljóp verðbólgan sennilega upp um eitt stig bara af því liturinn á nýja jeppanum var vitlaus og pælið í því þetta var karlmaður sem gerði veður út af litinum á bílnum, ekki kona, því karlinn sem vildi ákveðin lit á jeppanum átti nefnilega enga.
Dagurinn í dag verður þannig að unnið verður í stýrishópinum um öryrkjamálin. Vinna í þeim hópi er komin á fullt skrið og margt fróðlegt sem varðar hagsmuni öryrkja mun líta dagsins ljós á næstunni eftir þá vinnu. Ég trúi að þessi vinna eigi eftir að umbylta mörgu í þessum málum, ný viðhorf eru komin í málin með nýjum áherslum en að þetta komist í framkvæmd er víst undir næstu ríkisstjórn komið þ.e. að segja ef það verður sú hugdjarfasta sem vinnur ekki sama gamla sukkið sem við erum búin að hafa í sextán ár eða hvað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2006 | 11:34
Bettý hættir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.9.2006 | 16:04
Nýr sáttmáli til verndar réttindum fatlaðra
Nú var á dögum að koma út á vef félagsmálaráðuneytsins frétt um nýjan sáttmála til verndar réttindum fatlaðra, hann var samþykktur í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna 25. ágúst síðastliðin af 100 þátttökuþjóðum.
Ég hef aðeins verið að skoða meginatriði þessa sáttmála og í stuttum orðum má kannski segja að íslensk stjórnvöld þurfi að taka sig á í að laga svolítið sem ég myndi vilja sjá meira af hérna eins og til dæmis textun á innlent sjónvarpsefni hverskonar. Því í meginatriðum sáttmálans er mikið kveðið á tryggt verði jafnrétti fatlaðra gagnvart öðrum þjóðfélagshópum sem og það að fatlaðir fái fullt aðgengi að upplýsingum, jafnan rétt til fræðslu og lögð áhersla á full lífsgæði hjá fötluðum. Það að ekki séu lög hér sem kveða á um að texta skuli innlent sjónvarpsefni rýrir hlut heyrnarlausra/heyrnarskertra mikið til að fá sama jafnrétti, aðgengi að upplýsingum og full lífsgæði þar sem þeir sitja ekki við sama borð og aðrir sem geta numið hljóðið í sjónvarpinu án hindrunar. Meginatriði samningsins segja líka til um að fjarlægja eigi allar hindranir. Lagaleysið með textunina er stór hindrun og hana verður víst menntamálaráðherra að fjarlægja. Sem og það mætti kannski líka kalla þann ráðherra sem hefur með sjónvarpsleyfi að gera til ábyrgðar því mér finnst það ætti að setja skyldu á rétthafa sjónvarpsleyfis að innlent sjónvarpsefni verði sent textað út í textavarpi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2006 | 21:26
Demantar í Köben
Kaupmannahafnarferðin sem nú var farin um helgi verður sennilega okkur öllum sem fórum mjög eftirminnileg. Það var mikið hlegið, verslað, slappað af, farið út að borða og bara skemmt sér þessa fjóra daga sem við vorum þarna. Hótelið fær fjórar stjörnur fyrir staðsetninguna og verðið. Veitingarstaðurinn St. Gertruds Kloster sem við fórum á á föstudagskvöldið var með einsdæmum frábær. Mér finnst ég verða að láta það flakka hérna með að ég pantaði mér eitt rauðvínsglas af víni hússins með matnum og skemmst frá því að segja að ég meira segja fékk að velja mér vínið og ekki nóg með það heldur var flaskan hjá mér allan tímann og hellt í glasið eftir þörfum og það sem ég borgaði fyrir var bara verð fyrir eitt glas af rauðvíni hússins sem var 80 danskar en flaskan sjálf kostaði samkvæmt vínseðlinum 498 danskar. Geri aðrir betur?
Svo var bara farið út að borða öll kvöldin, segja má að ferðin hafi byrjað á Peder Oxe, á fimmtudagkvöld í Cap Horn í Nyhavn og auðvitað var sest niður og drukkinir nokkrir bjórar á Hvidvinstuen, svo var endað á veitingarstað í Tívolínu í lok ferðarinnar. Strikið, Fields og Fisketrovet voru þrædd vel í verslunarleiðöngrunum, það sem verður gert hérna heima á næstunni er að farið verður í alsherjarskápahreingerningu. Þegar við sátum fyrir utan á Hvidvinstuen horfðum við á slökkvilið Kaupmannahafnar að störfum þarna fyrir framan okkur því húsið sem hýsir Den danske Amber Museum brann nefnilega eða öllu heldur efsta hæðin, safninu var alveg bjargað. Einu vonbrigði ferðarinnar var að við misstum af bátsferðinni. Við gerðumst líka svolítið forvitnar um þjóðararf dana og heimsóttum Þjóðminjasafn danans, svona fyrir kurteisisakir því það var reyndar alveg í næsta húsi við hótelið þannig að maður varð að stoppa smá á leiðinni í bæinn einn morgunin og svo heimsóttum við Nordentsbrygge hús eða öllu heldur Vestnorrænasetrið sem staðsett er í gömlu pakkhúsi sem eitt sinn hýsti vörur sem voru að koma til Danmerkur frá Íslandi eða þá vörur sem voru á leiðinni til Íslands með haust og vorskipunum í den. Helga Hjörvar forstöðukona tók á móti okkur og sýndi okkur allt húsið, fróðlegt að sjá það. Skemmtilegt er frá því að segja að á leiðinni að Vestnorrænasetrinu sem er við Strandvej hjólaði á móti okkur kona ein sem bara allt í einu veifaði og við horfðum gapandi á, þarna var komin Mæja mamma Sindra, sem þekkti okkur þarna og ætlaði varla að trúa þessu. Meiriháttar að hitta hana svona fyrir tilviljun, hún hjálpaði okkur aðeins að finna út úr hvað leið ætti að fara enda var hún með í fararteskinu götubiblíuna sína um Kaupmannahafnarborg og við fengum stuttu útgáfuna af fréttum af þeim mæðginum í Danmörku sem voru bara góðar og að góðum íslenskum sið báðum við hana fyrir kærri kveðju til Sindra. Hérna fáið þið að sjá nokkrar myndir úr ferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2006 | 00:16
Köben og fleira
Þá er víst loksins að renna upp hin margumtalaða og útúrhugsaða Kaupmannahafnarferð okkar stelpnanna í saumaklúbbinum mínum. Það er ekkert voða mikið saumað eða prjónað í þessum klúbbi, hvernig ættum við eiginlega að tala saman ef við gerðum það? Reyndar heitir saumaklúbburinn okkar Demantur eða við öllu heldur Demantínur, ekki veit ég hvernig þetta nafn er tilkomið en það bara kom einhvernveginn þegar við þurftum að stofna reikning fyrir ferðasjóðinn okkar fyrir mörgum árum síðan og Dematurinn á meira segja kennitölu líka. Við eigum meira segja bleikar húfur með nafni klúbbsins á og svo auðvitað eru nöfnin okkar líka saumuð í húfu hverrar og einnar. Það verður að öllum líkindum eitthvað sagt frá ferðinni hérna og svo auðvitað koma einhverjar myndir sem áhættulaust er að setja hérna inn.
Annars af öðru er það að segja að mér finnst reyndar alveg voðalegt að vita til þess að það sé möguleiki að stíflan stóra þarna við Kárahnjúka gæti brostið vegna jarðhræringa og ekki nóg með það heldur var ekki mikið voðalega verið að upplýsa þessi mál þegar það átti við eins og til dæmis þegar samþykkt var að ráðast í virkjunina sem kostar marga miljarðana. Það er hinsvegar eitt sem mig langar að vita, það er það hvað raunverulega gerist þegar stíflan brestur ef svo skyldi gerast að aðstæður yrðu þannig að brestir myndu hreinlega brjóta alla stífluvegginna. Hvert og hvaða leið fer allt vatnið sem hafði safnast í henni? Mig myndi langa til að Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður gerði sýndarveruleikamynd með afleiðingunum. Eða skyldi vera hægt að sprasla í sprungurnar? Þetta er ekki neitt til að gatnast með og ég er ekki að gera það. Mér finnst mjög alvarlegt mál að ráðherra skyldi hafa metið skýrsluna þannig að óþarfi væri að sýna þingheimi hana eða í það minnsta að nefna hana á nafni þegar það átti að gera það.
Þegar ég var að lesa Moggann og Fréttablaðið í morgun þá hugsaði ég þegar ég las hverja fréttina af fætur annari um eiturlyfjasmygl hingað til landsins og hugsaði það að fyrir nokkrum árum komu svona fréttir af eiturlyfjasmygli í grammatali en núna eru sagðar fréttir um eiturlyf í kílóum. Sem sagt eru eiturlyfin að flæða til landsins í kílóavís núna. Það er gott að hægt sé að stoppa svonalagað af öflugu tolllið þarna á flugvellinum sem fæst reyndar líka við að stoppa mann með einhvejrar umframbrigðir af rauðvíni eða öðru sterku víni svo maður tali nú ekki um sígaretturkartonin. Vissulega er öllu svonalöguðu takmörk sett og það er stranglega bannað að koma með eiturlyf til landsins en samt er til fólk sem finnst áhættan vel þess virði að taka sjensinn og komast í gegn því miklir peningar fást fyrir efnið á götunni ef markmiðinu er náð. Svo maður tali nú ekki um afleiðingarar; yfirfull fangelsi og fársjúkir eiturlyfjasjúklingar sem eiga þarf við.
Seinnipartinn í dag skrapp ég á kaffihús í miðbænum með nokkrum vinkonum mínum, það er svo sem ekki frásögu færandi en á kaffihúsinu var þjónustustúlkan af erlendu bergi brotin. Það að útlendingar séu farnir að vinna hérna í öllum starfsgreinum er bara hið besta mál og sýnir kannski að atvinnuástandið hérlendis sé bara gott, sem sagt allir geta fengið vinnu. Hún átti í svolitlum vandræðum með að skilja hvað ég vildi fá en á endanum tókst það alveg með ágætum. Eftir þetta hugsuðum við vinkonurnar aðeins um þetta og fannst það bara nýtt fyrir okkur að sjá útlendinga í vinnu þarna og sáum að fleiri útlendingar voru í vinnu þarna líka. Ég hugsaði svona svo sem; jæja fyrst byrjað er að ráða útlendinga sem kannski eiga í einhverjum samskiptaerfiðleikum við kúnnana af hverju ekki þá bara að ráða líka heyrnarlausa þjónustustúlku eða pilt til starfa þarna. Það ætti ekki að vera mikið mál fyrir staðinn allavega.
Jæja, nú þarf maður víst að vakna eldsnemma til að kjósa Magna. Af hverju er ekki búið að finna upp gemsa sem getur sent sms eftir tímastilli?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2006 | 16:54
Sykursýki
Ég hef víst aðeins komið að því að ég er með sykursýki hérna á síðunni. Ég hef ekkert verið voða mikið að opinbera þennan sjúkdóm minn sem nefnilega er lífshættulegur samkvæmt því sem góð vinkona mín komst að um daginn og sagði mér það alvarleg að bragði. Krabbamein er víst í fyrsta sæti svo sykursýki en hún mundi ekki hver þriðji sjúkdómurinn væri því henni varð svo mikið um þetta. Það var verið að ræða um sykursýki í fréttatíma RÚV nú á dögum og þá mest talað um sykursýki 1 en ég er með sykursýki 2. Fólk getur nefnilega orðið blint af sykursýki en bara ef það skulum segja sukkar með matarræðið og borðar það sem því lystir og sínir lítinn aga í mat. Þá geta æðar nefnilega skemmst og þar með sjónin farið. Ef ég hugsa til baka til þessa dags sem ég var greind nefnilega 1. apríl sl. þá held ég með sanni að segja að ég hefði átt að fá áfallahjálp, en það var ekkert boðið upp á neitt svoleiðis. Ég mældist svo hátt í blóðsykurinum að ég held í því ástandi að manneskjan gæti lagst í dá og var næstum búin að missa sjónina líka. Þannig að ég er víst með banvæna blöndu í mér sem sagt heyrnarlaus og sykursjúk. En sykursýki er einmitt af öllum sjúkdómum mesti óvinur heyrnarlausra, það hef ég alla vega lært um núna og er kannski meira tilbúnari að tala um þetta hérna. Þetta er nútímasjúkdómur sem kannski allt þjóðfélagið er ekki alveg tilbúið að meðtaka. Maður má fátt borða, því það er nefnilega sykur í velflestum mat og ef það er ekki sykur að finna, þá er sennilega að finna sýróp, hunang eða eitthvað álíka. Ég man þegar ég fór fyrst inn í búðina með körfu eftir að hafa verið greind. Þegar ég gekk á milli búðarekkana og skoðaði innhaldslýsingarnar þá hugsaði ég með mér hvað þetta allt dræpi mann nú. Grænmetis og ávaxtaborðið er það eina sem maður getur alveg verið óhultur með en samt sem áður er sumir ávextir varasamir vegna ávaxtasykurs í þeim. Þannig að ég borða bara 2-3 ávexti á dag og vilji ég fá vínber þá má ég bara fá 10 vínber því það er sama og einn ávöxtur. Grænmetið er allt hinsvegar leyfilegt og er það oftast í kvöldmatinn með öðrum mat sem er próteinríkur eins og kjöt, fiskur og kjúklingur. Pakkamatur og dósamatur eða öllu heldur allur unnin matur er á bannlista. Vilji ég fá mér súpu þá elda ég hana frá grunni og oftast er hún tær án rjóma. Ég sker líka niður allar mjólkurvörur og það var eldraun að setja Fjörmjólk í matarkörfuna en núna er þetta bara orðið að vana og vont getur vanist, spurning hvort ekki verði léttara á næstunni á láta Undanrennu í körfuna? Ég elda sem sagt allan mat frá grunni núna og það tekur ekkert lengri tíma en venjulega og er þar með bara miklu skemmtilegra. Börnin mín borða sama mat og ég nema þau fá kannski meira kolvetni en ég enda hreyfa þau sig miklu meira en ég samt er ég víst eitthvað að fara að ná þeim í því þó svo ég hafi nú ekki lagt í það að fara í fótbolta og handbolta. Frekar geng ég mikið og núna er ég aðeins byrjuð að hlaupa á hlaupabrettinu og það er bara gaman, kannski maður bara verði með í næsta marþoni, ekkert er það verra. Svo syndi ég líka og hjóla og núna var ég að byrja aftur eftir hlé hjá einkaþjálfara í Sporthúsinu. Ég er búin að missa 19 kíló síðan 1. apríl og verð gott eitt sátt þegar 10-15 eru farin til viðbótar, og þar með er ekki sagt að þessu er lokið. Ég þarf nefnilega að halda mér í kjörþyngd og að sneiða áfram hjá öllu sem heitir sykur. Þetta er eilífðarvinna og gott betur. Ég fékk mikla hjálp frá næringarfræðinginum á Landspítala til að byrja með og núna veit ég nákvæmlega hvað ég má og hvað ekki. Sömuleiðis líka frá læknunum. Einu sinni í viku fer ég á heilsugæsluna og læt mæla blóðsykurinn.
Eins og ég sagði áðan er sykur víst í velflestum mat. Skoðið bara nammibarinna sem eru í rekkum í sjoppunum, þar skófla börnin þessu í poka. Í þessu get ég trúað að sé mesti sykurinn og lítið verið að hugsa um magnið þegar komið er þangað. Svo er 50% afsláttur á laugardögum í velflestum sjoppum og þá fæst tvöfalt meira magn fyrir peninginn. Þetta er í raun og veru stórhættulegt að vera að bjóða börnum uppá þetta og segið svo ekki að það sé á ábyrgð foreldrana að sjá til þess hvað þau fái í pokann. Það sem ég óttast í þessu er að innan fárra ára verði tvöfalt fleiri sykursjúkir vegna þessa mikla sykursmagns sem líkaminn innbyrðir á nammibörunum. Það kostar líka heilbrigðiskerfið peninginn að annast sykursýkissjúklinga og lyfjakostnaðinn. Það gæti líka kostað mörg börn sjónina síðar og það er enginn blindrakennari til á landinu núna. Þetta er svolítið fjarstæðukennt núna en mig minnir að mér hafi verið sagt að 70% blindra í USA eru blindir vegna sykursýki. Það þarf því svolítið að spá í hlutina sem verið er að bjóða uppá, hvað munu þeir kosta þjóðfélagið síðar meir? Ég ætla nú ekki að fara að predika neitt um þetta en samt sem áður verður nú alltaf að sýna einhverja forsjálni eða fyrirhyggju þegar kemur að svona lífshættulegum sjúkdómi, jafnvel huga að forvörnum fyrir næstu kynslóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2006 | 10:14
Skólinn er byrjaður!
Börnin mín eru byrjuð í skólanum sínum. Það ríkti ákveðin tilhlökkun hjá þeim þegar við þrjú skunduðum á skólasetninguna í gær. Sonurinn búin að fá nýjan kennara og aðspurður eftir fyrsta reynslutímann hjá henni komst bara eitt orð að hjá honum um þá reynslu ströng. Það lá að ég sýndi púkaglottið en passaði vel upp á að það sæist ekki. Dóttirin hefur enn sama kennarann sem er alveg ágætt og henni fannst fyrsti dagurinn bara mjög skemmtilegur og er full tilhlökkunar fyrir það sem framundan er. Hvað skólamálum mömmunar líður þá byrjar hún ekki í sínum skóla fyrr en 4. september og ætlar í Nýja Tölvu og Viðskiptaskólann. Ansi tvísýnt var að hún kæmist í skólann vegna þess að erfitt reyndist að fá túlka í verkið en það hafðist að lokum og var hún bara ansi lukkuleg með það.
Haustið er bara komið sýnist mér, allavega var mjög haustlegt veður í morgun. Öll lognmola sumarsins fokin fyrir veður og vind. Nóg verður að gera í vetur. Ég er fulltrúi Frjálslynda flokksins í starfshópi á vegum Öryrkjabandalags Íslands og vinna okkar í þeim hópi í vetur felst í að koma með tillögur jafnvel stefnur til að bæta hag öryrkja og hvernig stjórnmálaflokkar vilja vinna að þeim málum í kosningarbaráttu sinni. Fulltrúar frá öllum flokkum verða í starfshópinum og munum við funda nokkrum sinnum á næstunni. Öryrkjabandalagið mun stýra vinnu starfshópsins. Til hliðsjónar með þessu starfi verður stuðst við skýrslur sem hafa komið út um málefni öryrkja til dæmis skýrslu Dr. Stefáns Ólafssonar og svo ályktanir Öryrkjabandalagsins um þessi málefni. Ég trúi að þessi vinna muni skila miklu enda er það trú mín að allir flokkar vilja gera vel í þeim málum sem koma til með að bæta hag öryrkja sem mest. Það verður sennilega eitt af aðalmálunum í kosningarbaráttu flokkana í vor.
En áður en þessi mikla vinna skellur á fer ég með saumaklúbbinum mínum til Kaupmannahafnar í lok ágúst. Það verður örugglega gaman. Meðal dagskrárliða er að fara í heimsókn í Brygghuset, stofnun sem Frú Vigdís Finnbogadóttir stýrir og svo munum við líka kíkja í kaffi eða smástaup til Svavars Gestsonar sendiherra. Eitthvað verður verslað, skroppið á eitthvert safn sem mig rekur ekki alveg í minni hvað er um í augnablikinu, jafnvel farið í bátsferð, rölt um Nyhavn og svo verður farið út að borða öll kvöld en hápunkturinn er þegar límónsía sækir okkur á föstudagskvöldið og fer með okkur á fínan veitingarstað sem er eitthvað út fyrir miðbæinn og er í gömlu klaustri. Ég ætla nú að vona að mér hafi tekist að finna kjól á Strikinu eða þá í Field´s áður en lagt verður í hann. Við förum 12 saman og höfum verið svolítið duglegar að fara út, söfnum fyrir þessum ferðum samviskulega. Þar áður höfum við farið til Dublin og svo fyrir tveim árum fórum við í eftirminnilega ferð til Bracelona.
Að lokum verð ég að segja það að ég get ekki annað en dáðst að ótrúlegum árangri Magna okkar í Rockstar. Ég horfi eftir því sem mögulegt er, og finnst þetta bara aldeilis flott.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2006 | 21:31
Lítil saga frá Líbanon
Á þessari slóð má sjá í nágrenni við heimilis hennar:
http://fromisrael2lebanon.info/pa/thumbnails.php?album=13Á þessari slóð má sjá hvernig umhorfs er á götunni sem vinnustaður hennar er við: http://fromisrael2lebanon.info/pa/displayimage.php?album=6&pos=8
Þetta er fyrirtækið þar sem hún vinnur: http://www.spinneys.com/Index.htm
Það að tala við hana þarna fékk svolítið á okkur. Í svona tilfellum hugsar maður kannski hvað maður hefur það gott hérna heima á Íslandi miðað við marga aðra sem búa við ótryggt ástand, sérstaklega það sem er núna fyrir botni Miðjarðarhafsins. En samt skal það segjast með sanni að hér á landi er ekkert almannavarnarkerfi í gangi sem beinir upplýsingum til heyrnarlausra ef vá ber fyrirvaralaust að.
Bloggar | Breytt 19.8.2006 kl. 07:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2006 | 15:38
Sól, formannskjör og Guðs útvalda þjóð
Mér reiknast svo til að þetta sé þriðji sólbaðsdagurinn minn á þessi sumri, hafi þeir verið fleiri hafa þeir sólbaðsdagar gersamlega farið framhjá mér. Tók reyndar eftir því í sundinu í morgun hvernig dagurinn yrði, hitamælirinn þar klukkan tíu í morgun sýndi tuttugu gráður. Svo sýnir hitamælirinn á visir.is núna 15 gráður, hérna á svölunum hjá mér uppi á fjórðu hæð er steikjandi hiti og gott betur.
Það verður að segjast að sumarið hefur ekkert verið spennandi hérna á þessu ári.
Nú er eitthvað fjör að fara að færast í pólitíkina, þó ég sé langt frá því að vera einhver framsóknarmanneskja er ég spennt að sjá hvernig úrslitin fara í formannskjörinu hjá Framsókn núna um helgina. Ekki hef ég neitt persónulega á móti frambjóðendum heldur finnst mér félagsmenn í framsók hafa mjög vítt svið til að kjósa um. Sömu sögu má segja um varaformannsembættið og ritaraembættið. Ég veðja eitthvað á að úrslitin verða svona: Jón formaður, Jónína varaformaður og Sæunn ritari.
Norski rithöfundurinn og heimsspekingurinn Josten Gaarder hefur skrifað kröftuga grein sem ber fyrirsögnina "Guðs útvalda þjóð" í norska blaðinu Aftonposten um stríð Ísrela í Líbanon. Hún hefur sett allt á annan endann. Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður hefur þýtt hana. Hún hefur mjög verið gagnrýnd og líka hlotið lof. Það er hægt að lesa greinina á íslensku á heimasíðu Magnúsar Þórs hér er slóðin: http://www.magnusthor.is/default.asp?sid_id=23965&tId=2&fre_id=35637&meira=1&Tre_Rod=006|&qsr
Endilega lesa hana við tækifæri og hugleiða innhald hennar aðeins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2006 | 21:21
Gay Pride
Maður skellti sér auðvitað í bæinn að sjá litskrúðugustu göngu ársins Gay Pride. Alltaf gaman að horfa á gönguna dansa niður Laugaveginn. Ég var alveg við sviðið og fékk allan titringinn af tónlistinni beint í æð þegar aðaldagskráin fór fram og ekki skemmdi fyrir að táknmálstúlkur var þarna á sviðinu líka.
Það verður að segjast eins og er að mér fannst gangan vera í frekar styttra laginu en síðasta ár. Kannski einmitt vegna þess að svo mikið hefur áunnist í baráttu samkynhneigðra þetta árið en engu að síður var ansi mikið um að vera og fullt tilefni til að fagna með þeim stórum skrefum sem stigin hafa verið í lagasetningu í því að samkynhneigðir hafi sömu réttindi og aðrir.
Sonur minn týndi gemsanum sínum í göngunni og var það honum mikið áfall, enda bara tvær vikur síðan síminn var keyptur. Ég lét símann minn hringja aftur og aftur í hans síma og að lokum var svarað og var það víst lögreglan að tilkynna honum að sækja símann sinn á lögreglustöðina, einhver afar góðviljaður hefur því komið símanum á réttan stað og var þá mikil gleði hjá okkur. Ekki vitum við hver það var en færum samt þeim sem það gerði bestu þakkir fyrir velvildina. Gemsinn er mikilvægur hlekkur í samskiptum okkar því ekki getum við notað venjulegan talsíma hvar sem er.
Við hérna vorum ekkert að því að hanga heima í dag og skunduðum bara á Þingvelli og á leiðinni þangað komum við á Gljúfrastein og skoðuðum Halldór Laxness safnið. Það var bara gaman, þau fengu heyrnartæki sem leiddi þau í gegnum söguna en ég fékk bara blöðin og las mig inn í söguna með þeim. Svo fórum við á Fræðslumiðstöðina á Þingvöllum og stoppuðum þar dágóða stund að skoða allan þann fróðleik um Þingvelli í tölvutæku formi. Og það var meira segja hægt að kalla fram texta til að lesa sig inn í fræðsluna, mjög flott og góð lausn á aðgengi fyrir alla.
Við löbbuðum langt niður í Almannagjánni stoppuðum og fengum okkur nesti og gengum til baka. Keyrðum svo til Hveragerðis og á heimleiðinni lentum við í mikilli þoku á Hellisheiðinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)