Færsluflokkur: Bloggar

Frétt dagsins!

Það er þá loksins komið að því sem hefði nú heldur betur mátt tilkynna miklu fyrr.  Ríkisstjórnin tilkynnti lækkun á matvælaverðinu, vörugjöld hverfa og vaskurinn lækkar í 7%. Gott mál verð ég bara að segja en þetta tekur ekki gildi fyrr en 1. mars. Þannig að það verður því bið á að góðgjörðirnar fari að skila sér í buddu landans, hverju skiptir það nú svosem þegar við höfum beðið í 15 ár eftir þessu, nær allan valdatíma þessarar ríkisstjórnar. Segi ekki meira fyrr en á þetta hefur reynt og það gerist ekki fyrr en eftir 5 mánuði, hvað varð annars eiginlega um þetta “á morgun” eins og þingmaður Sjálfstæðisflokksins orðaði svo vel í sumar?

 

Ung fötluð stúlka Freyja Haraldsdóttir hefur hrint af stað merkilegu verkefni sem kallast “Það eru forréttindi að lifa með fötlun”.  Þetta er fyrirlestraverkefni og mun Freyja í vetur heimsækja framhaldskóla landsins og kynna fyrir nemendum veröld fatlaðs fólks.   Þið getið kíkt á vefsíðu verkefnisins www.forrettindi.is og fræðst meira um það.

Freyja gætti barna minna eitt sumar í leikskólanum þegar þau voru lítil og hef ég eftir það fylgst með dugnaði þessarar ungu konu úr fjarlægð og dáðst að elju hennar og baráttuþreki í gegnum árin.

 


Hjólaferð

Ég og hjólið góða...Í gær fór ég í nokkuð langan hjólatúr í góða veðrinu.  Ég hjólaði alla leið upp í Álftanes.  Ég hjólaði leiðina eftir göngu/hjólastígunum.  Svona göngustígar eru algjör nauðsyn í öllum sveitarfélögum og hér í Garðabæ er mikið af þeim í allar áttir.  Skulum segja að ég hafi hjólað þá flesta hérna eða gengið rösklega.   Ekki það að ég sé að hrósa þeim sem völdin hafa í Garðabæ fyrir þá því ég held að það skipti nú engu máli hvaða flokkar séu við stjórnvölinn þegar kemur að ákvörðunum í göngu/hjólastígum í framkvæmd bæjarfélagsins.  Svona stígar eru nauðsynlegir hverju bæjarfélagi og held að allir viti það hvar sem þeir nú standa í flokkapólitíkinni.  Svo eru stígarnir nú voðalega heilsusamlegir þegar umferðin er orðin svona gríðarlega mikill og hröð.  Þegar komið var í Álftanesið heimsótti ég góða vinkonu mína sem býr þar.  Hún tók mynd af mér á fararskjótanum leyfi henni að flakka með hérna.  Annars bara allt gott að frétta.


Linnulaus ójöfnuður

Stjórnliðar mala hátt þessa dagana um hve hagvöxtur landsins sé mikill og hrósa sjálfum sér í hástert fyrir þann mikla stöðugleika sem hefur skapast með því að fresta vegaframkvæmdum í nokkra mánuði og eru búnir að opna fyrir útboð og framkvæmdir í þeim efnum nú þegar.  Þeir reyna eftir besta mætti að sannfæra þjóðina um hvað þeir hafi gert “vel” fyrir hana þau ár sem þeir hafa haldið í stjórnartaumana.  Það eru því miður ekki margir að finna fyrir því, annars væri allt voða rólegt á Alþingi og enginn að hafa fyrir því að stíga í pontu og minna á ójöfnuðinn sem nú þegar er.   Þeir hampa sjálfum sér fyrir nýja varnarsamninginn og segja hann trúverðuglegan í alla staði, en enginn má sjá efnislegan hluta samningsins eða þá um hvað var samið.  Fullkomið varnaröryggi sem við búum við eða hvað?

 Nú ætla stjórnliðar að láta umhverfisvernd til sín taka, það sagði forsætisráðherra allavega í stefnuræðu sinni, svolítið seint í rassinn gripið þar sem umhverfistraðrak er á hæsta þarna uppi á Kárahnjúkum og eftir nokkra mánuði lýkur þeim framkvæmdum og vinna hefst í álverinu á Reyðarfirði.  Hálsalón er óðum að fyllast og borgarstjórnarflokkur Frjálslynda flokksins bað um að borgin sem er hluthafi að Landsvirkjun beindi sér að því að vatnshæð Hálsalóns yrði lækkuð um 20 metra til að auka öryggi mannvirkja, draga úr hættu á stíflurofi og minnka umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar.  En tillögu þessari í borgarráði var hrint burt af borðinu af forseta borgarstjórnar.  Bara strax farið að sjást að fögur fyrirheit um umhverfisvernd séu bara orðin tóm hjá stjórnliðum og skiptir þar engu hvort um sé að ræða sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn eða þá hvort þeir eru við stjórnvöllinn í borgarstjórn eða þá í æðsta embættinu, ríkinu sjálfu.  

Ég varð vitni að svolitlu merkilegu þegar forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína sl. þriðjudagskvöld.  Hann hafði rétt lokið eða átti kannski ólokið tveim eða þrem línum í ræðu sinni, þá var komin ítarleg frétt um ræðuinnhald hans á mbl.is og stuttu seinna var ræðan birt í heild í pfd. formi sem viðhengi við sömu frétt.  Tækniundur samtímans að verki?  Eða það skyldi þó ekki vera að hún hafi verið samin þarna á ritstjórnarskrifstofu eða bara svo vel viljað til þess að hún lá þarna þar sem kannski ritstjórinn prófarkarles allt sem frá forsætisráðherra kemur. Fréttin var komin á Morgunblaðsvefinn kl. 20.16, forsætisráðherra byrjaði flutning sinn á stefnuræðunnim kl. ca. 19.54.  Aðrir fjölmiðlar voru ekki svona full ítarlegir um þetta nokkrum mínútum eftir að ræðuflutningi hans lauk.  Mig setti svolítið hljóða við þetta og hugsaði svo sem af hverju stefnuræðan var ekki send líka til RÚV fyrirfram svo þeir hefðu getað smellt henni inn í textavarpið og þar með gert flutninginn aðgengilegan um 10% þjóðarinnar og fullkomnað þar með setningu sem getið er í stjórnarskrá að þingfundir eigi erindi til allra þjóðarinnar, um það snýst einmitt lýðræðið.  Spurning hvort ekki búi allir fjölmiðlar við sama traust og sá sem var svo snöggur að setja ítarlega frétt inn, alfyrstur af öllum.  Þarna er enn einn ójöfnuðurinn sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir, ég finn mjög áþreifanlega fyrir honum.  Mér er meinað að fá sama upplýsingaraðgengi um stefnuræðuna og aðrir fá. Það er svosem ekkert nýtt, á þessum stjórnskrárbundna rétti mínum er traðkað.


Alþingi sett

Barasta komin október.  Alþingi sett að venju og börnin mín bæði eiga afmæli í mánuðinum.

 

Ég horfði á setningu 133. löggjafarþings núna áðan í beinni útsendingu.  Horfði á forseta okkar fara með ræðuna sína og auðvitað hugsaði ég að það hefði alveg mátt smella texta inn í útsendinguna á textavarpið, ræðan var tilbúin fyrirfram. Mér finnst því alveg við hæfi að stefnuræða forsætisráðherra annað kvöld í beinni útsendingu verði sett í textavarpið, hún er allavega tilbúin og því alveg aðgengileg að henn sé smellt inn á textavarpið í útsendingunni.  Við erum ekki komin lengra en svo í þessum málum.  Beinar útsendingar frá þinghúsinu í Bretlandi eru textaðar, þar er mikið um að vera eins og kannski einhverjir hafa séð í fréttatímum, framíköll og hvaðaneina, allt er textað.  Þannig að þetta er vel hægt.   Nú í þessum skrifuðum orðum er sennilega verið að draga í sætin í þingsalnum. 

Ég get svona nokkurn veginn séð hvernig árferði þetta löggjafarþing verður fyrir mig þegar kemur að Gunnari Örlygsyni draga sitt sætisnúmer. Dragi hann sætisnúmer þá er víst nokkuð víst að ég fer ekkert inn á þessu löggjafarþingi.

Ekki það að ég segi þetta vegna þess að sætin þarna eru svo þægileg, heldur þvert á móti það að mér finnst Alþingi og kjósendur í SV-kjördæmi missa af miklu að hafa mig ekki þarna inni, atkvæði þeirra voru gerð að engu. En við erum svo heppin að búa við virkt lýðræði og höfum kosningar þær verða núna í vor.  Spennandi verður að fylgjast með þessu þingi núna í vetur.  Það verður bæði gefið og tekið, ég spái að umhverfismálin fái mikla umræðu, sér í lagi Kárahnjúkaævintýrið okkar sem núna stendur sem hæst.  Eitthvað verður tekist á um RÚV og fjölmiðlafrumvarpið og mitt í öllum frumvarpafjöldanum kemur auðvitað aftur textunarfrumvarpið ég spái að það fái enga umræðu frekar en á fyrri löggjafarþingum en stundum gerast ótrúlegustu hlutir korteri fyrir kosningar.  Málefni öryrkja/aldraðra og bætur þeirra munu einnig koma að einhverju leyti til umræðu, þau málefni eru reyndar orðin að vana á umræðuvettvangi þingsins, því stjórnarandstöðunni finnst litlu vera áorkað í þeim málum sem er eiginlega alveg rétt en stjórnliðar eru bara ekki að fatta það. 

Hátt matvöruverð verður einnig til umræðu mig minnir að í sumar hafi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagt að það væri alveg hægt að lækka matvöruverðið “á morgun”, nú kemur sennilega að stjórnliðum að láta þetta “á morgun” verða að veruleika.  En þegar upp er staðið verður þetta átakavetur á þingi, stjórnliðar verða sennilega í óða önn að útbýtta bitlingum og munu þurfa að svara fyrir það.  En annars held ég að best sé að segja sem minnst, ég er farin að hljóma eins og ég sé með einhverja spákúlu fyrir framan mig svo ég læt hér staðar numið og segi eins og þingmenn hafa sagt í lok ræðu sinnar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherrans; Góðar stundir.

 

Hið besta mál...

Get ekki annað en bara fagnað þessari frétt http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1226025

Sérstaklega ber mér víst að fagna að auking á textuðu innlendu efni verður 100%, þ.e. forunnu efni.    Hlakka bara til að njóta þess alls sem mun bjóðast með textunni.


Mesta furða...

Herinn á Miðnesheiðinni farinn, við komnir með nýjan varnarsamning – nýja vörn allavega fyrir okkur en hvað er nú vörn án hers.  Svo eru kakkalakkar komnir fram í dagsljósið og allt verður víst jafnað við jörðu og við eigum að borga sóðaskapinn sem herinn hefur valdið á svæðinu.  Undirlægjuháttur fyrir nýtt varnarsamkomulag?  Nokk viss um að það hefði alveg mátt gera betur, í það minnst sagt þeim að þrífa eftir sig og borga fyrir það.  Þetta eru tvö aðskilin mál reyndar finnst mér. Allavega er nýji varnarsamningurinnn sagður byggjast á nýjum grunni og forsendum.

Það er búið að vera að njósna um okkur í 70 ár.  Maður kúgast ósjálfrátt þegar maður heyrir svona lagað.  Það gerðist inn í einhverri kyrtu á Hverfisgötunni fyrir mörgum árum, byrjaði allt með einu bréfsnifsi, stól, borði og síma og karli (það gat auðvitað ekki verið kona!).  Að lokum urðu bréfasnifsin svo mörg að þau voru brennd í sumarbústað einhverstaðar í rok og rassgati.  Hefur dómsmálaráðherra virkilega "stalkera" í sinni þjónustu?  Er hann að reyna að koma þeim í lög með leyniþjónustunni?  

Merkileg Jökulsárgangan á Austurvelli í gær.  Greinilegt að þjóðinni stendur ekki á sama hvernig verið er að fara með hálendið.  Hálsalón fyllist af vatni og Ómar Ragnarsson segir að ekki sé of seint að grípa inn í og hætta öllum framkvæmdum.  Ég verð að segja það að mér finnst svolítið seint að hafa þennan fund, hann hefði mátt halda miklu fyrr en svo var ekki, kannski af því Ómar var “enn í skápnum” eða hvað?  Annars hvað er að lögreglunni núna, hún getur ekki giskað á mannfjöldann eins og hún hefur gert á allri mannfjöldasöfnun í miðbænum undanfarin ár.  Dæmalaust, beiðni að handan eða hvað?  

Ég er bara ekki alveg að skilja af hverju það er svona vonlaust, útlokað og nærri alveg ómögulegt að texta innlent sjónvarpsefni hér á landi, sér í lagi hjá einkastöðvum sem eru svo drífandi og framsæknar á sviði allra tækniframfara.  Ég neita að trúa að þetta sé gersamlega vonlaust. Mesta furða að menntamálaráðherra skuli ekki vera á minni línu í þessu máli, henni sem og flokkinum hennar er nefnilega svo annt um upplýsingaraðgengi landans. Svo er bara ekkert mál fyrir þessa ríkisstjórn að henda miljarði ef ekki miljörðum í kakkalakkaþrif frekar en að skikka einkasjónvarpsstöðvar að sinna almannaþjónustuhlutverki svo framarlega sem þær eru með sjónvarpsleyfi.

Segi ekki meira í dag, farin að ryksuga.  

Dagur heyrnarlausra

Svolítið langur tími frá síðustu skrifum en maður er búin að hafa nóg annað að gera en að setjast niður í rólegheitum og skrifa eitthvað að ráði hérna.

Ég hef ekkert svar fengið frá Jóni Ásgeiri.  Jafnuppteknir menn og Jón Ásgeir svara venjulega ekki því sem skrifað er um þá eða til þeirra í bloggi, þeir gera það bara ef þeir eiga ekkert annað eftir.  En annars er grein álíka svipuð bréfinu farin í moggann og birtist sennilega einhvern tímann á næstunni.  Ég las á heimasíðu Baugs að þeir láti mikið til sín taka í svolitlu sem heitir samfélagsábyrgð, hef líka fylgst með þeim í gegnum tíðina leggja samfélagsábyrgðinni lið og mér finnst því alveg við hæfi að maðurinn sem ræður sýni þessu mikilvæga máli sem textun á innlent sjónvarpsefni er einhvern áhuga.  Það á líka við um aðrar sjónvarpsstöðvar sem senda út innlent sjónvarpsefni. Meira um það á næstunni.

 

Dagur heyrnarlausra að baki þetta árið.  Það var flott málþing um samskiptatækni heyrnarlausra í Salnum á föstudaginn. Ég var fundarstjóri þar.   Það er nokkuð í boði hérlendis sem lítur að þessu málefni.  Þið vitið sjálfsagt að heyrnarlausir nota mikið sms-skilaboð, MSN sumir svo tæknivæddir að vera með vefmyndavél líka í tölvunni og er það bara vel.  Þá geta þeir talað táknmál við aðra sem er bara fínt mál svona rétt eins og heyrandi tjá sig í síma á talmáli.  Myndsímar voru mikið ræddir og vilja heyrnarlausir nota þá, það er margskonar möguleiki með þeim.  Til að mynda er hægt að nota þá í venjuleg símatöl þar sem túlkur er milliliður.  Þetta er mikið notað í Bandaríkjunum og myndsímatúlkamiðsttöðvar þar spretta upp eins og gorkúlur. Þetta er þannig að túlkur er staðsettur í þjónustumiðstöð, þú hefur myndsíma og hringir bara eins og venjulega (annaðhvort notar þú sjónvarpið eða tölvuna)  talar við milliliðinn á táknmáli og segir honum hvert eigi að hringja og svo bara hefst samtalið rétt eins og um venjulegt símatal er að ræða í gegnum túlk.  Í gegnum myndsímann er líka hægt að senda skrifuð skilaboð og tölvupóst.  Það er einnig hægt að nota myndsímana fyrir fjartúlkun. 

Það kom líka fram að það er hægt að senda sms-skilaboð í Neyðarlínuna 112. Það merkilega við þetta er að sms-ið fer beint í tölvu stjórnborðsins og er svarað strax.  Til að mynda hver virknin er þá stendur Ísland sig best í þessu.  Nokkrar Neyðarlínur  í Evrópu hafa sms-skilaboða þjónustu og meðal svartími frá fyrsta sms-i er um 5 mínútur en hérlendis er það minna en 30 sek.  Því miður ætla ég ekki að segja að ég sé spennt að prófa þessa þjónustu en það veitir mér vissa öryggistilfinningu að þessi mikilvæga þjónusta er til staðar.  Ég er með númerið í gemsanum mínum og jafnvel þó svo ég geti ekki komið boðum á framfæri þá er hægt að staðsetja mig nákvæmlega með búnaði sem rekur símtalið og staðsetur gemsann minn.  Snilld, ekki satt?

Svo kom maður frá Símanum og kynnti Blackberry og Quverty (vona þetta sé rétt stafsett) gemsa.  Þessi síðartaldi er mjög sniðugur, en hefur sinn galla að vera alger friðþjófur, menn verða bara að kunna sér hóf eða bara vera alltaf á online.  Og svo eftir 2-3 ár kemur svo Þriðja kynslóð farsíma eða G3 eða var það 3G.  Og þá er hægt að tala táknmál í gemsann svo framarlega að viðmælandinn er líka með 3G síma.  Það var líka margt annað fróðlegt sem kom fram á málþinginu.  

 

Aðalfundur Félags heyrnarlausra var svo á laugardaginn. Af honum er bara gott að segja og komin nýr formaður. Ung kona sem heitir Hjördís Anna Haraldsdóttir og á áreiðanlega mikið eftir að láta að sér kveða í framtíðinni.  Ég óska henni alls hins besta í þessu nýja hlutverki og veit hún mun fara vel með það sem hún tekur sér í hendur á næstunni sem formaður Félags heyrnarlausra.  Tvö ný andlit komu líka í stjórnina.  Ég hætti þar með í stjórninni og er það vel.  Það verður gaman að fylgjast með framvindu mála á næstunni jafnvel þó úr fjarlægð sé.  Svo er Bettý líka hætt sem formaður, það var hún í tíu ár.  Við tvær farnar í frí sem sagt, er ekki bara komin tími á það?

Svo fór ég ásamt Júlíu með hóp af félagsmönnum í óvissuferð um kvöldið.  Við fórum á Draugasetrið og borðuðum í Hafinu Bláa á Stokkseyri. Það var mikið fjör og allir fóru bara glaðir heim. 

 

Kæri Jón!

Nú liggur eitthvað í loftinu að uppsagnir séu yfirvofandi á NFS, hve mörgum er ekki vitað eða þá það hver framtíð NFS verður.  Maður klórar sér í hausnum og spyr hvort þetta sé virkilega að verða þannig að aðeins ein fréttastöð verður í vetur.  Ég held ég þurfi að fara að finna mér eitthvað annað að dundast milli hálf sjö og sjö.   Ótrúlegt hvað ég er búin að vera góð við þetta fréttalið, horfi á það á hverjum degi textalaust og hef  þróað með mér ágætis ágiskurnaraðferð til að greina fréttirnar, og svo ætla þeir að fara að leggja stöðina niður núna.  En hvernig verður þetta fréttadæmi okkar íslendinga ef við eigum bara að horfa á RÚV- fréttir?  Og svo eru víst kosningar í nánd og síðasta löggjafarþingið á þessu kjörtímabili.  Ég las opið bréf Róberts Marshalls til Jóns Ásgeirs aðaleiganda stöðvarinnar og rak svolítið í rogastans þar sem Róbert sagði blákalt að Jón ráði nú einn örlögum stöðvarinnar.  Þegar ég sá þetta þá var ég ekki bara að hugsa um hag fréttastofunnar heldur það að það er einmitt umræddur Jón sem ræður hvort fréttirnar verða sendar út textaðar sem og annað innlent efni á stöðinni. Spurning hvort ég ætti ekki bara að skrifa umræddum Jóni beiðni bréf um góðfúslega ósk um að fréttirnar og annað innlent sjónvarpsefni verði sent út með texta.  Bréfið mitt yrði kannski einhvern veginn svona:

 

Kæri Jón!

Sú sem þetta bréf til þín ritar hefur undanfarin tuttugu og fimm ár barist fyrir því að innlent efni hjá sjónvarpsstöðvum landsins skuli vera sent út textað.  Því miður hef ég víst talað fyrir daufum eyrum og stór spurning í þessu tilfelli hver sé heyrnarlausari. En það ætla ég ekki að kryfja í þessu bréf en ætla samt í stuttu máli að rifja upp það helsta sem gerst hefur í þessum málum á stöðinni þinni í gegnum árin.  Þetta byrjaði víst með honum Jóni Óttari sem stofnaði stöðina á sínum tíma nítján hundruð áttatíu og sex.  Ég skrifaði honum reyndar ekki alveg strax enda var maðurinn voða mikið upptekinn að koma stöðinni á fót og fullt var af erlendu efni sem sent var út textað en svo fór innlent efni að koma og þá fór ég að spyrjast fyrir.  Svör hans voru eitthvað á þá vegu að þegar 50 þúsundasta áskrifandanum yrði náð þá myndi hann texta.  Leið svo og beið og fímmtíuþúsundasti áskrifandinn lét í sér heyra en enginn kom textinn, svikið loforð, finnst þér það ekki?  Svo komu nýjir eigendur og þeim skrifaði ég líka fyrst ekkert gekk með þennan Jón Óttar.  Mig minnir að einhver Höskuldur eða Hafsteinn hafi svarað mér og sagt að þeir væru búnir að leggja svo miklar miljónir í að beturumbæta dreifikerfið sitt að þeir gætu ómögulega ekki ráðist í textann líka hann myndi alveg fara með dreifikerfið.  Maður varð nefnilega svolítið grænn við þessi svör en hvað getur maður nú gert þegar maður tilheyrir minnihlutahópi og er ekkert svo voðalega fjáður að geta keypt hlut í fyrirtækinu og fengið því framgengt að allt innlent efni skuli textað.  Þar með er enginn texti kominn.  Núna er víst komið að þér Jón Ásgeir minn, þú ert víst maðurinn sem ræður öllu í tengslum við þessa sjónvarpsstöð og ég er alveg nýorðin áskrifandi hjá þér, mér finnst ég eigi að fá að sitja við sama borð og aðrir áskrifendur þínir. Nefnilega það að njóta innlends sjónvarpsefnis sem þið gerið svo listilega vel, þ.e. það sem ég hef horft á textalaust, já textalaust sko, pæld í því að horfa á þættina þína hljóðlaust og vera að borga áskriftargjald.  Ég horfði meira að segja á þáttinn Örlagadagurinn þar sem hún Sirrý tók viðtal við pabba þinn.  Hann tók sig mjög vel út á myndinni, stórmannalegur en hvað hann sagði er mér sko alveg hulið en frétti daginn eftir að hann hefði sagt stóra hluti og þarna fannst mér ég nefnilega hafa misst af miklu. 

Ég hef nefnilega flutt tvisvar frumvarp til laga um textun á innlent sjónvarpsefni en því miður hefur árangur ekki verið voða mikill eins og raun ber vitni.  En hver veit nema menntamálaráðherra sjái að sér og komi lögum á ykkur sjónvarpsstöðvarnar að texta verði allt innlent efni, það væri draumastaða fyrir mig og reyndar 10% þjóðarinnar líka.  Jafnvel gæti það gerst að sá ráðherra sem hefur yfir sjónvarpsleyfum að úthluta gæti gerst svo strangur að skilyrði um að texta allt innlent efni yrði sett á sjónvarpsleyfin. Allt getur gerst, allavega er núna að skella á síðasta löggjafarþing á þessu kjörtímabili og kosningar í vor, maður veit aldrei hvað ráðherrar hrista framúr erminni þegar þeir eru komnir í kosningargírinn eða hvað heldur þú?

Jæja kæri Jón, ég ætlaði ekki að hafa þetta bréf svona voðalega langt en ég bara gat ekki á mér setið fyrst ég var byrjuð og þú maðurinn sem ræður öllu þarna eins og Róbert sagði í sínu bréfi.  Ég bið þig hér og nú að texta allt innlent efni sem sent er út á sjónvarpsstöðunum þínum og fréttir líka.  Ég verð líka að lokum að taka það fram að ég vona að þú takir orð Róberts í opna bréfinu hans til þín alvarlega og leyfir stöðinni að vinna áfram að því sem hún hefur verið að gera.

Með bestu kveðjum

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

 

Jæja, bara búin að skrifa Jóni, ég hef ekki netfangið hans en þið sem lesið þetta megið alveg koma því áleiðis til Jóns Ásgeirs.


Ein lítil saga

Mér barst þessi saga í tölvupósti nú á dögum.  Mig langað að birta hana hérna vegna þess hve mikið hún snart mig og mun eflaust snerta marga aðra, algjör skyldulesning eiginlega sér í lagi nú á dögum þegar 19 manns hafa látist í bílslysum á árinu. 

Við erum ekki ódauðleg..
Ég mun aldrei gleyma því, hversu svalur mér fannst þú vera, þegar þú þeyttist eftir Reykjanesbrautinni á 160.kílómetra hraða á klst, á nýja bílnum þínum, sem þú fékkst daginn áður, ásamt ökuskírteininu. Það var eins og brautin hefði verið sérsniðin fyrir þig. Það breytti engu þótt myrkrið væri skollið á og brautin rennisleip, eftir rigningu dagsins. Þú varst Sjúmakker Íslands og við fylgdumst með þér af aðdáun og áttum ekki orð yfir það, hversu fimur okkur fannst þú vera á bak við stýrið. Ég sem er vanur að nota öryggisbelti, lét ég bara hanga niður með sætinu. Mér fannst algjör óþarfi að spenna það á mig, því mér fannst ég svo öruggur með þér í bíl. Það átti við um okkur öll, sem vorum með þér í bílnum. Ljósastaurarnir þeyttumst framhjá og manni fannst eins og það væri bara einn langur ljósastaur á Reykjanesbrautinni, því þú ókst svo hratt. Ég man að stelpurnar skríktu af gleði, því þeim fannst þú svo svalur og ég fann það á mér, að þær ætluðu allar að “negla” þig í lok ferðar. Ég horfði á þig öfundsjúkur, því þú bjóst við svo mikla kvennhylli. Djöfull get ég ekki beðið eftir því að fá bílprófið, því þá skulu þær allar verða mínar.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég sá þig í dauðateygjunum, eftir að þú þeyttist út úr bílnum, eftir að hafa keyrt á bílinn, sem kom úr gagnstæðri átt. Eitt lítið augnablik misstir þú stjórn á bílnum og nýji bíllinn ónýtur og Reykjanesbrautin blóði drifin. Ég mun heldur aldrei gleyma stelpunni, sem sat frammí með þér. Fallega brúnhærða stelpan, sem skríkti og hló svo dátt, mun aldrei hlægja aftur. Þarna lá hún út um allt í bílnum. Hún var eins og kramin fluga, sem var búið að slíta af vængi og fætur. Ég mun aldrei gleyma stelpunum, sem sátu aftur í með mér. Þær lifðu af, en munu aldrei lifa aftur eðlilegu lífi, nema eðlilegt líf sé að liggja á sjúkrastofnun, það sem eftir er og vera grænmetishausar. Ég mun aldrei gleyma gömlu hjónunum, sem voru í bílnum, sem þú keyrðir á. Þau hefðu auðveldlega geta átt 10 - 15 góð ár í viðbót. Ég mun aldrei gleyma því, hvernig mér leið þarna aftur í. Ég gat mig hvergi hreyft og get það ekki ennþá, því ég er fastur í hjólastól og er algjörlega háður öðrum, því ég get hvorki fætt mig né klætt. Nú mun ég aldrei fá bílprófið, sem ég þráði svo heitt.... né kvennhyllina.

Ef þú heldur að þetta sé allt, þá er ég bara rétt að byrja. Hvað með móður þína og föður, sem elskuðu þig svo heitt? Hvað með systkini þín, sem dáðu þig og horfðu upp til þín? Hvað með ömmu þína og afa, sem voru svo stolt af barnabarninu sínu? Hvað með alla vini þína, sem gátu varla verið án þín? Ertu tilbúinn að steypa öllu þessu fólki í sorg, sem er jafnvel óyfirstíganleg? Hvað með ættingja allra hinna, sem þú stefndir í hættu og myrtir? Hvernig heldur þú að það sé að vera viðstaddur jarðaför síns eigins barns? Hvernig heldur þú að það sé að koma í heimsókn á sjúkrahúsið, þar sem barnið þitt liggur, með næringu í æð og í dái, og á aldrei möguleika aftur á eðlilegu lífi? Hvernig heldur þú að það sé að þurfa að fæða, klæða og skeina barninu sínu, langt fram á fullorðinsaldur?

Hefði ekki bara verið betra að keyra á löglegum hraða eða var “kúlið” alveg að drepa þig? Það gerði það reyndar á endanum.

Höf. Garðar Örn Hinriksson


Sitt og hvað!

Rosalega var þetta flott hjá Magna og það að íslendingar hafi náð fjórða sæti í einhverju á alþjóðavettvangi aldrei áður verið svona dásamað.  Mér finnst hann alveg furðulega vel verður að fjórða sætinu.  Hann hefði engan veginn passað inn í það mynstur sem hljómsveitin sjálf hefur skapað sér.  Mér fannst alltaf að Lukas sem vann eiga að vera þarna eða jafnvel Dilana.  Magni hefur áorkað miklu að komast svona langt í keppninni sem þessari að hann getur sjálfur valið hvað hann gerir í framtíðinni og mun örugglega fara vel með það.  Til hamingju Magni með fjórða sætið. Þetta sem þú gerðir þarna var magnað.

 

Ég fór í bíó á dögum á myndina United 93.  Myndin var í sjálfu sér alveg ágæt heimild um hvað gerðist á þessari ögurstundu sem 11. september 2001 var.  Ég býst við að flestir muni hvar þeir voru staddir þegar þeir fréttu fyrst af þessum voðaatburðum.  Sjálf var ég stödd í upptökustudíói með öðrum heyrnarlausum starfsmönnum þess, það var kveikt á sjónvarpinu og við vorum ekkert að horfa á, en fórum að horfa á og náðum ekkert að mynda okkur skoðun um hvað var að gerast því við vorum trufluð og okkur sagt að eitthvað væri að gerast í New York.  Svo horfðum við öll á sjónvarpið forundran og túlkur kom inn og túlkaði og þá gerðum við okkur fyrst grein fyrir hvað var að gerast.  Þetta var ekki atriði úr nýjustu bíómyndinni eins og maður myndi kannski ímynda sér svona hugsað eftir á.  Það var líka ekkert tekið upp af táknmálsefni þann daginn og maður fór heim hálfdasaður eftir ósköpin sem dunið höfðu yfir mann það sem eftir lifði dags.  Á næstunni verður svo önnur mynd um 11/9 sýnd og heitir hún World Trade Center.  Svo er líka búið að sýna heimildarmynd vestra um 11/9 þar sem sitt og hvað vafasamt við 11/9 dregið saman og vona ég að myndin verði sýnt í sjónvarpinu á næstunni.  Þar er líka spurt hvort Bandaríkin sjálf hafi staðið að baki hryðjuverkunum til þess að fá ástæðu til að ráðast á Mið-Austurlönd.  Svör ef til eru við þeirri spurningu væri fróðlegt að sjá en eru samt sem enn sem komið er bara á vangaveltustigi.    Annars eftir að hafa séð United 93 get ég alveg verið sammála þeirri gríðarlegu öryggisgæslu sem nú er víða um heim á flugvöllum.  Því mennirnir sem voðaverkin frömdu eru nefnilega útlitis bara eins og þú og ég og þeir voru með hnífa á sér, jafnvel eftirlíkingu af sprengju, þannig að á þessum tíma var nánast allt hægt.  Þetta er það eina sem eftir situr í mér eftir áhorfið á United 93 sem og ringlureiðin í flugumferðarstjórnarmiðstöðunum, enginn vissi neitt eða jafnvel enginn fattaði neitt eða vissi hvað átti að gera, vegna þess að ekkert sambærilegt þessu hafði gerst áður.

 

Og svo farið sé úr einu í annað þá er það að segja að enn hjá Tryggingarstofnun Ríkisins tíðkast að tengja saman laun makans við bætur.  Mér finnst þetta ekki mjög sniðugt en sagt er að það kosti ríkið 1,4 miljarða að afnema tekjutengingu við maka á bótunum.  Bæturnar sem greiddar eru öryrkjum er persónubundin réttur, eignarréttur hvers einstaklings.  Manni svíður undan að tekjutenging þessi skuli enn vera til staðar.  Það segir mér líka að ríkið tímir ekki þessum fórnarkostnaði sem þarf til þess að afnema þetta.  Viðurkenning á sjálfsögðum persónubundnum rétti hvers og eins kostar sitt. 

Það er líka ekki sanngjarnt að miða bótaupphæð við lægstu grunnlaunin á vinnumarkaðinum eins og núna er gert.  Því sá sem er ekki örykji og fær laun sem miðast við lægstu grunnlaunin á vinnumarkaðinum getur drýgt launin og þar með séð fyrir sjálfum sér án þess að eiga von á að laun hans skerðist.  En öryrkji á bótum sem miðast við lægstu grunnlaunin getur það ekki, því þá skerðast bætur hans.   Það vantar því ákveðna viðmiðunarupphæð hvað réttlátar bætur eigi að vera háar,  sem miðast við það að einstaklingur geti séð fyrir sér í fæði, húsnæði, fatnaði, daglegum þörfum og einhverstaðar út í bæ er nefnd að störfum sem ekki getur komið sér saman um hvað sé nauðsynlegur kostnaður til að geta lifað mannsæmandi líf í mánuð.  Nokkuð merkilegt umhugsunarefni, ekki satt?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband