Færsluflokkur: Bloggar
7.11.2006 | 12:48
Réttlætanlegt?
Innflytjendamál eru víst ofarlega á baugi núna. Einhver varð að upphefja þessa umræðu og sá sem gerði það Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins býr yfir miklu þori til þess. Hann á ekki skilið að vera kallaður rasisti eða annað verra, heldur er ekki klausu að finna í stefnuskrá flokks míns sem segir eitthvað á þessa leið burt með útlendingana. Stefna flokks míns til þessara mála miðast við frjálslyndi og umburðarlyndi. Magnús Þór var aðeins að benda á að það hafi verið mikil mistök að Alþingi skuli hafa samþykkt að heimla frjálst flæði vinnuafls hingað nú í vor, þó fyrir hafi legið heimild til þess að það hafi verið stöðvað til ársins 2011 sem hefði verið gott fyrir okkur og gefið okkur tækifæri til að bregðast við því. En það fór sem fór og hingað streymir erlent vinnuafl og tekur störfin af fólkinu sem á meiri rétt á þeim heldur en ódýrt vinnuafl frá Evrópu.
Ég get með engu móti sætt mig við ályktun sem ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkana sendu frá sér um þetta mál þa r sem þeir lýsa yfir " vonbrigðum með þá ákvörðun nokkurra forystumanna í Frjálslynda flokknum að ala á trúarbragðafordómum og tortryggni í garð útlendinga í tilraunum sínum til að auka fylgi flokks síns,.." Þetta á alls ekki við núna og trúi ég ekki öðru en að ályktunin hafi verið samin í mikilli fljótfærni. Það sem ungliðahreyfingar stjórnamálaflokkana ættu að sjá í málflutninginum er að það er verið að reyna að vernda störf sem ungt fólk nú í dag ætti að fá þegar fram líða stundir, haldi frjáls flæði vinnuafls hinsvegar áfram með sama móti og nú er þá einmitt munu það bitna eiginlega mest á unga fólkinu þegar það er komið á síðari árin.
Margrét Sverrisdóttir framkvæmdarstjóri Frjálslynda flokksins skrifaði grein sem er í Morgunblaðinu í dag og hvet ég alla til að lesa hana, þar stendur svart á hvítu um hvað málið snýst.
Ég verð seint talin til flokks rasista. Ég hef oft komið til Austur- Evrópu, bæði fyrir og eftir að múrarnir hrundu. Ég veit nákvæmlega hvað er verið að tala um, fólk þar rennir hýru auga til starfa iðnaðarmanna hérna og er tilbúið að koma, jafnvel þó í boði séu 50 þúsund fyrir 60 stunda vinnu og sofa á 60 centimetra hörðum bedda í lélegu húsnæði, borða ódýrustu núðlurnar í öll mál jafnvel drýgja tedrykkju sína svo um munar. Jafnvel tilbúið að leggja sjálfsvirðingu sína til hliðar. Það vinnur þessi 50 þúsund sem verða að 600 þúsundum á einu ári, það gæti jafngilt 3 ára launum í heimalandinu og þetta gerðu þeir bara á einu ári hérna. Svo fer þetta fólk heim notar peninginn í eitthvað fyrir sig og sína og peningurinn er þá búin og hvað gerir fólk þá leikur sama leikinn aftur og í þetta sinn hefur það kannski hækkað aðeins og nú orðið 70 þúsund fyrir 65 stundir á viku. Þeim sem réðu iðnaðarmanninn munar ekkert um þetta hann var svo duglegur síðast og átti skilið pínulitla hækkun svo kom erlendi iðnaðarmaðurinn líka með bróður sinn með sér í seinna skiptið en hann fær 50 þúsund fyrir 65 stunda vinnuviku af því hann er hérna í fyrsta skiptið og á byrjunarlaunum. Þetta er bara lítið dæmi um hvernig þessu er fyrirkomið og hugsunarhátturinn í þessu. Það er alveg á hreinu frá mínum munni tekið að það voru mistök af ríkisstjórninni að stöðva ekki frjálst flæði vinnuafls hingað þegar tækifæri gafst til þess. Getur einhver talið upp minnst fimm atriði sem fullkomnlega réttlæta frjálst flæði vinnuafls hingað til landsins?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2006 | 19:47
Texta fyrir útlendinga, takk!
Best að blogga smá á meðan kjötið og kartöfurnar eru í ofninum. Er ekki alltaf eitthvað skrýtið þegar maður reynir að koma viðkvæmu efni upp á yfirborðið í umræðuna eins og til dæmis innflytjendamálin að maður sé kallaður rasisti eða þá trúleysingi ef maður fer nú að vera á móti kristlegum boðskap í skólum. En jæja, það skal segjast eins og er að við íslendingar kunnum ekkert að taka á móti útlendingum og öllu því sem þeim fylgir. Við segjum þeim að gjöra svo vel að læra íslenskuna vel ætli þeir sér á annað borð að búa hérna áfram og sækja um íslenskan ríkisborgararétt þegar fram líða stundir, þetta með íslenskukunnáttuna er eitt af skilyrðum fyrir veitingu íslensk ríkisborgarréttar sem er vel. Fólk þarf jú að geta verið samræðuhæft við kaupmanninn á horninu eða jafnvel þegar kona eins og ég mæti á kaffihúsið og bið um gerfisykur, þá vill konan fá gerfisykur án þess að þurfa að fara með útlenska vertinum á bak við borðið og leita að gerfisykri. En það er önnur saga. Við bjóðum útlendingunum sem reyna af bestu getu að leggja sig fram að læra íslenskuna dýr íslenskunámskeið og misjafnt eftir sveitafélögum hvað þau styðja mikið í bakið á útlendingunum okkar að fara á námskeiðið og stéttarfélög líka. Gott og vel, en einhverstaðar verða þeir að læra íslenskuna þeir geta aukið íslenskuna með því að horfa á innlent sjónvarpsefni textað með íslenskum texta. Frændur okkar svíar voru reyndar svolítið sniðugur hérna í den, fyrir eitthvað um þrjátíu árum síðan þá byrjuðu þeir að texta allt innlent sjónvarpsefni sitt og ákvæði um það var jafnvel sett í lög. Forsendur textunar á innlendu sjónvarsefni hjá svíum voru reyndar þeir að útlendingar lærðu sænskuna. Ekki vegna þess að heyrnarlausir/heyrnarskertir gætu notið innlends sjónvarsefnis með sama mæli og aðrir svíar. Heyrnarlausir/ heyrnarskertir í Svíþjóð græddi á þessu og njóta þess vel, því núna er allt sænskt (innlent) sjónvarsefni í Svíþjóð textað og hefur verið í mörg ár. Nú er víst lag fyrir þessa stjórnliða að drattast úr sporum og gjöra svo vel að kom með eitthvað frambærilegt í textunarmálum og helst setja það í lög svo þessu almannaþjónustuhlutverki sé fullnægt, útlendingum okkar og heyrnarlausum/heyrnarskertum íbúum landsins til heilla.
Ég er barasta búin að vera ansi dugleg um helgina. Risastóru rússaperunum sem fyrri eigendur settu samviskulega upp hérna útum alla íbúð var hent út og ný halógen æðiflott ljós komin upp, allavega fimm komin upp og bara þrjú eftir. Svo keypti ég loksins fataskáp sem til stendur að setja í herbergi sonarins. Hann fékk að velja skápinn meir að segja og valdi bara þann flottasta, meira segja þann sem mömmu fannst líka flottastur. Og mamman ætlaði að fara að setja hann samviskulega upp með leiðbeiningum frá IKEA en mamma á ekki borvél. Svo ef einhver á borvél og langar ógeðslega mikið að nota hana, þá má sú eða sá sami koma og láta reyna á borvélina hérna og skápurinn fær að njóta sín.
Og ekki nóg með það að skápurinn var keyptur heldur lét ég loksins vaða og keypti þetta fína IKEA kökukefli úr sænsku tré. Fyrra kökukeflið er tapaðist í lygilegum aðstæðum, það var úr marmara og kostaði eitthvað fyrir 10 árum eða svo um þrjúþúsundkrónur. Þetta tré er bara fínt enda ekki jafnmikill metnaður og var í mér að standa í bakstri nú til dags. Reyndar ef rétt skal segja þá passar þetta kökukefli ekki í skúffuna, það er ekki neitt voðalega stórt en vekur upp spurningu hvernig þessi einfalda eldhúsinnrétting sem fyrri eigendur lofuðu í hástert þegar ég keypti íbúðina er. Kökukefli passar ekki í hana, þetta skyldi þó ekki þýða að nú sé komin borðleggjandi ástæða fyrir því að ég helli mér í að fá nýtt eldhús sem hæfir kökukeflinu mínu, svo keðjuverkandi áhrif séu notuð þá þýðir þetta víst að ég verði að nú að drífa í því að kaupa mér borvél en á meðan er fólki frjálst að mæta hingað með borvél og jafnvel fá kaffibolla og meðí úr flotta nýja Ikea bollastellinu. En annars mætti Ásgeir Kolbeins í Innlit/Útlit alveg mæta hingað og segja mér hvað eldhúsið mitt væri viðbjóðslega hrikalega ljótt, ég myndi bara segja honum að kaupa handa mér nýtt ef það væri eitthvað að trufla hann. Sanngjörn skipti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2006 | 10:17
Forvarnarræktun
Í morgun þegar ég var að æfa í Sporthúsinu sá ég að ein kona á svipuðum aldri og ég var að æfa þarna með syni sínum á unglingsaldri. Hún leiðbeindi honum með tækin. Mér fannst þetta sniðugt og ósjálfrátt fór ég að hugsa um gagnsemi þess að foreldara myndu taka unglinga sína með sér þegar færi gæfist. Ekki væri svo vitlaust reyndar að Sporthúsið tæki kannski einn laugardag í svokallaðan unglingadag. Þar gæfist færi á að sýna unglingum okkar hvað við fullorðna fólkið erum að gera í ræktinni og til hvers. Unglingar í dag eru sjálfsagt sumir hverjir að æfa einhverja íþróttir dagsdaglega og þá sennilega að öllum líkindum keppnisíþrótt sem er vel. En þau verða ekki endalaust í þessu, við tekur annað þegar þau eldast, hafa þá menntast og komin í vinnu eins og ekkert sé sjálfsagðara og þá munu kannski koma einhver ár sem engar íþróttir eru stundaðar og þá einmitt er gott að stunda tækjasalinn til að halda sér í formi og sinna forvörnum að heilsunni fyrir næstu árin. Það er því viss forvörn fyrir Sporthúsið og okkur foreldra að koma unglinginum á sporið hvað muni bíða hans þegar hann stendur á þessum tímamótum. Og ef við foreldarnir eru dugleg að æfa svona á þessum aldri eins og ég er núna þá er það líka hluti af því að við erum að vinna að því að börn okkar þurfi ekki að sitja undir því að vera sífellt að sinna okkur vegna veikinda eða þá standa í þjarki við yfirvöld hvernær pláss losni fyrir okkur á hjúkrunarheimilinu þegar við erum komin á efri árin. Væri það ekki bara alveg yndislegt? Yndislegast af öllu væri víst að barn manns sem væri orðið fertugt segði frekar við mann þegar maður er orðin sjötugur hittumst í ræktinni frekar en ég kem og heimsæki þig í næstu viku ef ég hef tíma þegar það kveður mann við rúmbríkina á hjúkrunarheimilinu.
Og talandi um ræktina þá varð ég ekkert smá glöð þegar ég steig á viktina í morgun. Loksins fór þetta eina kíló sem ég hef verið að bíða eftir síðustu fimm vikurnar. En þó ekkert kíló hafi farið á þessum tíma þá er það góða við þetta allt saman að ekkert kíló hafi komið á mig og það segir mér að vöðvarnir eru farnir að þyngjast þannig að líkaminn er í einhverri jafnvægisstillingu og svo er það að segja að á síðustu 2 mánuðum hafa 12 sentimetrar horfið af mittinu. Bara hið besta mál, ekki satt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2006 | 14:39
Kvennablogg!
Ef hægt væri að segja á sem einfaldastan hátt um aukingu ójafnaðar í landinu þá á eiga orð Stefán Ólafsson prófessor í félagsvísinum afar vel við, en hann líkti hraða ójafnaðarins hérna í efnahagslegu tilliti við sama ástand og var á einræðistíma Pinochets einræðisherra í Chile. Hrikaleg samlíking að þetta sé að gerast. Ójöfnuðurinn er svo mikill að hluti af stjórnliðum verður hissa þegar þeir eru beðnir að koma með tillögur til að bæta kjör öryrkja. Þeir halda að allt sé í sómanum. Bætt kjör öryrkja koma til með að verða hitamál í kosningabaráttunni í vor sem og ójöfnuðurinn sem stjórnliðar síðustu ára hafa skapað.
Ég er ekki búin að vera mesti bloggarinn hérna undanfarna viku. Skítt að maður sé að afsaka sig á því. Ég á nokkra góða uppáhaldsbloggara sem ég les svona dagsdaglega og viti menn! þegar ég var að skoða aðeins nánar þá eru þetta allt karlmenn. Þeir hafa ærinn tíma til að skrifa og færa inn nýtt efni, eins og þeir þurfi kannski lítið að vera að sinna börnum, þrifum, þvotti, heimanámi sínu og barnanna svo ekki sé minnst á prófin sín og barnanna líka. Ný færsla frá þeim kemur reyndar oftast seinnipartinn, einmitt þegar konan er á fullu í eldhúsinu og börnin að læra. Sennilega gróf alhæfing hjá mér, en þeir koma líka með nýjar færslur í vinnutímanum og hvar skyldu þeir vinna? Ég get sagt ykkur að meginþorri þeirra vinnur hjá hinu opinbera. Getur einhver bent mér á konu sem skrifar kjarngott blogg um pólitík og vangaveltur bak við tjöldin í stuttu og hnitmiðuðu máli og ekkert bull eða dagabókarfærslur.
Það eru einhverjar vangaveltur núna í loftinu um að konur verði ekki nógu margar á listum stjórnmálaflokkana í kosningunum nú í vor. Satt best að segja er það á ljótan. Skil ekki alveg hvað fyrrum fjármálaráðherra er að hrósa úrslitum prófkjörs síðustu helgar þegar aðeins 3 konur af 10 prófkjörsframbjóðendum eru í efstu sætunum. Mér finnst þetta ekki mjög sniðugt. En sjáum þá bara til hvað aðrir flokkar koma til með að bjóða í kosningum í vor. Er lífið svona dagsdaglega og séð út frá pólitískum vettvangi allt saman bara á forsendum karlanna? Bara vegna þess að þeir geta leyft sér að hafa rýmri tíma, fjármuni og meiri metnað en konur? Maður bara spyr sig ósjálfrátt.
Frá síðustu skrifum er það helsta að segja að mér tókst ekki að vera foreldri númer tvö að gera athugsemd við skólastjórann í skóla barna minna um Vinaleiðina sem ég skrifaði hérna neðarlega á síðunni. Það er samt mikið búið að skrifa um þessa Vinaleið í fjölmiðlum síðan þá og mér finnst ég ekki vera að ná öðru en að þetta hreint og klárt trúboð í skólanum.
Svo ein dagabókarfærsla hérna fái að fylgja með í lokin þá er það helsta að ég er búin að vera á fullu að halda afmæli sonarins, vera í prófum (ekki prófkjöri) og náði þeim öllum. Bara þrjú eftir núna og risastórt lokaverkefni. Skemmt mér smávegis (það má ekki gleymast), farið á kvöldnámskeið (og er enn), verið dugleg í ræktinni, skrifað þrjár greinar, sú fjórða í burðarliðum og er að vinna að einum fyrirlestri og þess inn á milli hef ég sofið, eldað, borðað, þvegið, þrifið og gert sem sagt allt sem karlkynsuppáhaldsbloggarnir mínir hafa ekki fyrir að sinna af því þeir eru að blogga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 21:12
Aðstöðumunur
Fræðslumyndir sýndar í sjónvarpi eru margar hverjar vandaðar og gaman að horfa á þær, eitt er þó alveg hvimleitt við þær, þær eru nánast alltaf talsettar á íslensku. Nú í þessu er verið að sýna á RÚV fræðslumyndina Lífið og eiga fleiri eftir að birtast á næstunni í þessum flokki. Mér finnst það mega alveg texta þessar myndir rétt eins og gert er með aðrar erlendar myndir, skiptir þá engu hvort um sé að ræða bíómyndir, þáttasyrpur eða fræðslumyndir. Í þessari fræðslumynd kom myndatexti á skjáinn á ensku t.d. 1 day og þá kemur íslenskur texti sem segir Fyrsti dagur svo One week og þá birtist texti Ein vika. Mér finnst þetta móðgun við 10% þjóðarinnar sem þarf á textanum að halda til að geta fylgst með allri fræðslumyndinni, ekki bara eina og eina setningu sem kemur fram á ensku, eða þá þegar viðtöl eru við fólk þá kemur texti. Þetta er eins og að lesa fræðslubók þar sem úr hafa verið rifnar blaðsíður og maður fær ekki neitt samhengi í því sem myndin á að miðla. Skulum segja að maður finni illalega fyrir aðstöðumuni á almannaþjónstu hlutverki RÚV í þessu dæmi.
Annars verð ég að segja frá því að fram hefur komið frá skólastjóra skóla barna minna að aðeins eitt foreldri af fjögurhundruð nemendum hafi kvartað yfir Vinaleiðinni í skólanum sem ég gat um í síðastu skrifum hér á síðunni. Það er nú ekkert skrýtið að aðeins eitt foreldri hafi kvartað því ef maður fer eitthvað að verða á móti svona þá er maður sagður vera á móti trúnni eða ofstækisfullur. Hver vill fá þannig skammir á sig ef maður er að reyna að vera svolítið faglegur í því að vilja hlutlausan skóla. Á morgun verð ég foreldri númer tvö sem geri athugasemd við þetta kirkjulega starf sem Vinaleiðin er að gera í skólanum og ætla að segja líka að mér finnst kristin trú falleg, bænirnar og sálmarnir sem henni fylgja líka og eigi fullan rétt á sér en hana á að stunda í kirkjunni, í huganum og í hjartanu. Er eitthvað búið að sanna að börnum í grunnskólum í Garðabæ líði eitthvað verr en öðrum börnum að þau þurfi á sálgæslu og bænahaldi að halda á skólatímanum? Maður bara spyr sig svona ósjálfrátt. Lagist þetta ekki þá geta bæjaryfirvöld farið að undirbúa sig að stækka skólann því á næstu misserum mun kannski vanta pláss fyrir skrifstofu handa múslimaklerkinum, rabbínann, búddamunkinn o.fl. Því öll trúarbrögð verða að fá aðstöðu í skólanum, það þarf að tryggja trúarbrögðum landsins jafnræði. Það yrði hrikalega illa útlítandi ef þarna yrði gerður aðstöðumunur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2006 | 21:45
Sóknarfæri ...
Hér í Garðabæ var borið í hús bréf eitt. Svo sem ekkert merkilegt að bréf berist hingað en þetta fékk mann aðeins til að staldra við og huga að því hvað sé eiginlega að gerast í skólunum hérna á svæðinu, sem sagt skóla barna minna. Bréfið bar yfirskriftina Hlutlausa skóla, takk! Bréfið byrjaði á að bera saman tvær leiðir sem heita Félagaleiðin og Vinaleiðin. Félagaleiðinni stjórnar komminn og er tengiliður á milli uppeldis, menntunar og stjórnmálalífs. Vinaleiðinni stjórnar djákni og er tengiliður milli uppeldis, menntunar og trúarlífs. Í stuttu máli sagt er það einmitt Vinaleiðin sem er umdeild hér í skólalífinu í Garðabæ og orðin staðreynd. Þessi Vinaleið er á vegum þjóðkirkjunnar og hefur nú verið hleypt inn í grunnskólana og þar er djákni og prestur með skrifstofu og viðveru einn dag í viku.
Samkvæmt lögum um grunnskóla segir að markmið náms og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúbragða eða fötlunar. (VI. Kafli, 29. gr.).
Í aðalnámskrá grunnskóla segir meðal annars að mikilvægt sé að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar og lífsskoðanir (bls.51). Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun (bls 9).
Í siðareglum kennara segir að kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða. (nr. 3).
Álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna:
Norsk stjórnvöld brjóta trúfrelsi almennra borgara með því að stunda trúboð í skólum, svo sem með því að láta börn læra og fara með bænir, syngja sálma og trúarleg lög, taka þátt í trúarathöfnum, fara í skoðunarferðir í kirkjur, vera með trúarlegar yfirlýsingar, lita eða teikna trúarlegar myndir, taka þátt í helgileikjum og láta þau taka á móti trúarlegu efni s.s. Biblíu eða Nýja testamentinu (15. nóv 2004).
Biskup Íslands Karl Sigurbjörnssson hefur lýst Vinaleiðinni sem stórkostlegu sóknarfæri kirkjunnar. Vegna kvörtunnar um að hér væri trúboð aftók hann það í Fréttablaðinu 10. okt. sl. Það er þá í fyrsta skipti í sögunni sem vígðir menn kirkjunnar eiga ekki að boða fagnaðarerindið í störfum sínum.
Skólastjórar, kennarar og skólanefnd bera ábyrgð á því að mörgum, sem aðhyllast ekki kristna trú, sárnar og er misboðið vegna trúarstarfs í grunnskólum.
Á Íslandi er lögboðið trúfrelsi en trú manna er einkamál, rétt eins og stjórnmálaskoðanir. Almennur skóli á að vera hlutlaus í slíku annað er óréttlæti og mismunun óháð því hversu stór hluti aðhyllist þá hugmyndafræði sem yfirvöld eða skólinn hefur kosið að hleypa að.
Ég get ekki annað en verið sammála því sem stendur í bréfinu að Vinaleiðin á ekkert erindi í grunnskóla barna minna eða annara. Skólinn á að vera hlutlaus fræðandi barnanna og kenna þeim á gagnrýna hugsun, en ekki boða rétttrúnað, hvorki í trúmálum né stjórnmálum.
Mér finnst kristin trú að mörgu leyti hafa fallegan boðskap og í aðalnámskrá er kveðið á um fjölda kennslustunda í kristinfræði (trúbragðafræði) en Vinaleiðin er greinilega viðbót við það og tel ég hana ekki eiga að vera á skólatíma. Vilji foreldar á annað borð að börn þeirra fái meiri trúarlega fræðslu þá er það á ábyrgð þeirra að fylgja þeim í kirkju og taka þátt í kristnu kirkjulegu starfi í sinni heimakirkju.
Þess vegna vil ég hafa hlutlausan skóla fyrir börnin mín.
Þetta mál þarf því að skoða vel af nærgætni.
Það er líka umhugsunarefni hve íslenskt samfélag er breytt og nú búa hér margir nýbúar sem hafa aðra trú en meginþorri fólks almennt hefur hérna. Þá er ég að tala um múslimatrú, gyðingatrú, kaþólska trú og önnur trúarbrögð sem til eru og komin til að vera hérna. Skólarnir halda Litlu jólin hátíðleg síðasta dag fyrir jólafrí og allur desembermánuður fer í að undirbúa jólin, leika Jesú og Maríu, búa til marga hluti sem tengjast jólunum á einn og annan hátt. Það eru nefnilega ekki öll börn í skólanum sem aðhyllast sömu trú, jólavenjur og siði sem við íslendingar höfum haft í mörg ár og myndað okkur hefð um. Það á ekki að skipta neinu máli hvort þau börn séu í minnihluta, þeim sárnar kannski og finnst sér misboðið. Nú er komin tími til að staldra aðeins við og íhuga hvort ekki eigi að breyta þessu aðeins og hafa til dæmis almenna hátíð þar sem allir geta tekið þátt í áður en haldið er í jólafrí. Mörgum finnst þetta kannski svolítið viðkvæmt og erfitt að breyta útaf venjunni en ég held að allir verða að sýna öðrum trúarbrögðum umburðarlyndi og ekki má gleyma því að trú er einkamál hvers og eins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2006 | 18:14
Skrif í gúrkutíð
Það er ekki mikið sem mig langar til að skrifa um. Stundum hellist yfir mann einhver gúrkutíð sem maður er eiginlega sjálfur valdur að og við því lítið annað að gera en bara að reyna að koma á einhverju skipulagi í kringum sig.
Það skal bara segja það að þetta með hvalveiðarnar er bara hið besta mál að hefja þær, verð þó að segja að kvótinn er lítill miðað við umfangið sem áætlað er með hvalaafurðirnar. En það hlýtur að lagast á næstunni og kvótinn verður aukinn. Þessar veiðar sem síðar verða að afurðum eru vissulega kærkomin viðbót við þann margbreytilega sem er á kjötborðinu hjá kaupmanninum.
Í dag þegar ég kom heim úr skólanum þá greip ég í tómt í kaffikrukkunni. Kaffið barasta allt búið og hvað gerir maður þá, maður svindlar og fær sér instant capuccino, samt var tepoki á borðinu þetta var ekki mjög sniðugt af mér. Eftir þennan bolla (sem var nú ekkert spés) ákvað ég bara að hjóla út í búð og kaupa mér kaffipakka. Og þar sem veðrið var svo fallegt flýtti ég mér af stað og þegar ég var næstum komin úr Garðabæ þá fannst mér vera voðalega kalt á hausnum, ég fattaði þá að ég hafði gleymt hjálminum. Það var bara snúið við og hjálmurinn sóttur og haldið áfram, en þá var eins og ég hefði gleymt hvað ég ætlaði að gera og áður en ég vissi af var ég komin upp í Arnarnesið, eiginlega alveg lengst niður í fjöruna. Ég geymdi því þetta kaffipakkavesen bara bakvið eyrað og hjólaði að Sjálandinu og fór svo sömu leið til baka og yfir Arnarnesbrúnna og tók stefnuna á Smáralindina, þar kíkti ég smávegis í búðir og á endanum keypti ég hinn langþráða kaffapakka og hjólaði heim eða öllu heldur gekk ég með hjólið síðasta spölinn þar sem mesti brattinn var.
Annars þar sem kosningarvetur-og vor eru í nánd það er víst best að nefna það að það stendur til að stofna kjördæmafélag Frjálslynda flokksins hérna á svæðinu í nóvember og svo er stefnan tekin á að halda Kjördæmaþing í janúar allavega vera búin að þessu fyrir landsfundinn. Það er góður kjarni sem vinnur að þessu, en samt er alltaf gott þegar fleiri drifkraftar bætast við og er það ekkert verra að þeir láti vita af sér, svo þeim sem finnst þeir eigi samleið með okkur þá er bara um að gera að hafa samband. Alltaf er hægt að kíkja á heimasíðu flokksins www.xf.is og kynna sér málin. Áhugasömum er velkomið að senda mér línu á netfangið smaggas@simnet.is
Núna í þessum Alþingiskosningum fær SV-kjördæmið 12 þingmenn í stað 11 áður, það er vegna þess að kjördæmið hefur stækkað frá síðustu kosningum og NV-kjördæmið hefur minnkað þannig að einn þingmaður færist á Kragann í kosningum núna. Þetta er miðað við atkvæðafjölda á baki hvers þingmann í síðustu kosningum. Það verða sem sagt tíu kjördæmissæti og tvö jöfnunarsæti.
Þessi skrif hérna eru ekkert upp á sitt besta, en annars skulum við láta þetta gott heita engu að síður það er þó skrifað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2006 | 15:47
Berskjölduð
Nokkuð liðið síðan hérna var párað síðast. Ég skrapp í sumarbústað um helgina, rólegt í rigningunni þar skulum við segja, það stytti þó stundum upp. Ein rjúpa var á vappi við bústaðinn, hún var eiginlega komin í snjófelubúninginn sinn. Nú er hún sennilega alveg berskjölduð fyrir veiðimönnum með byssur upp á heiði og getur sig hvergi varið því snjórinn hefur ekki látið sjá sig á hennar slóðum. Hún var líka ansi spök og smellti sonur minn mynd af henni sem þið fáið að sjá hérna.
Annars var umræðuefni þarna í bústaðinum meðal annars boðaðar matvörulækkanir sem ríkisstjórnin ætlar að framkvæma í mars á næsta ári og sennilega allir í óðaönn að undirbúa sig fyrir það fyrirbæri sem í raun á að vera gleðiefni á flestum heimilum. Það fóru hinsvegar að renna á okkur tvær grímur þegar við fórum að pæla aðeins betur í þessu. Málið er að matvörur sem eru sykraðar og/eða stimplaðar sem óhollusta lækka ekki. Matur í niðursuðudósum er niðursoðin og oftast er notaður sykur við niðursuðuna, þannig að álítum að til dæmis maískorn í dós muni ekki lækka neitt að ráði. Mjólkurvörur innhalda vel flestar mjólkursykur spurning um lækkun en þetta er nú allavega landbúnaðarvara. Kartöfluflögur, munu þær lækka? Eru reyndar stimplaðar óhollusta á hæsta en þær eru búnar til úr kartöflum sem eru landbúnaðarvara. Líka spurning mun sykurlaust kók lækka en ekki kók með sykri? En við höldum að þessi vinsæli drykkur muni ekki lækka neitt og er það svo sem ekki mikill missir. Mikið af kexi er reyndar sykrað, sú kextegund sem er alveg sykurlaus er vandfundinn jafnvel hægt að finna hrökkbrauð með sykri. Þannig að kexið mun ekkert lækka enda líka óhollusta. Er ekki komin tími á West-Ham sykurlaust kex? Verði það að veruleika mun það án efa samt sem áður verða flokkað til óhollustu, enda kex alltaf kolvetnisprengja með afbrigðum. Jafnvel morgunkornið lætur mann verða kjaftastopp þegar kemur að lækkun á þeim vöruflokki. Mörg hver morgunkornin eru sögð holl og góð en í þeim er sykur að finna, meira segja þessu K sem sagt er að komi línunum í lag. Þannig að tilhlökkunin í matvöruverðslækkunina liggur í því hvernig ríkisstjórninni tekst að útfæra lækkunina þannig að hún skili sér til neytenda. Hún hefur allavega rúma fimm mánuði til stefnu að útfæra matvörulækkunina- spennandi verður að sjá þá útkomu. Þetta er dæmigert klór-í-haus dæmi. Maður er eiginlega alveg jafnberskjaldaður og blessuð rjúpan fyrir svona bombum hjá þessari ríkisstjórn. Fáum við raunverulega lækkun í matarkörfuna eða ekki?
Þar sem ný færsla er komin hingað, verið svo væn að rifja upp síðustu færslu um Leikritið Viðtalið og endilega fara ef þið hafið ekkert betra að gera á fimmtudagskvöldið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2006 | 16:32
Leikritið Viðtalið
Mér var treyst fyrir því að þessi auglýsing yrði sett upp hérna og geri það hér með. Mæli með að þeir sem ætluðu að fara þegar sýningar stóðu sem hæst en fóru ekki, endilega gerið það núna, síðasta tækifærið að sjá þessu stórkostlegu fræðandi sýningu byggða á raunverulegum dæmum úr daglegu lífi heyrnarlauss fólks.
Falleg sýning í alíslenskri umgjörð Elísabet Brekkan, DV.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2006 | 12:07
Að túlka eða ekki túlka
Fólki hefur orðið eitthvað tíðrætt um flutning Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra á ræðu hennar á ensku á Alsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna nú á dögum. Sagt var af enskuframburður hennar hafi verið ekki alveg upp á það besta og þar með fór efni og innhald ræðunnar fyrir lítið í flutninginum.
Þetta eru Sameinuðu Þjóðirnar United Nations. Þar úir og grúir af allskyns tungumálum, þar er fullkomnasta túlkunarkerfi í heimi. Þar eru öll tungumál jafnréttahá, þó enskan sé aðalmálið. Það sem ég er ekki alveg að skilja og þekki ekki vel til reglna sem lúta að flutningi á ræðu eins og hennar á Alsherjarþinginu verð ég að segja það að hún hefði átt að vita betur og notfæra sér túlkunarkerfi stofnunnar. Flytja ræðuna á íslensku- og láta túlkunarkerfið koma henni til skila til áheyranda á því tungumáli sem þeir eiga eða á ensku bara og þá flutta af fagmanni. Hvers vegna var þessu ekki komið þannig? Minnimáttarkennd? Finnst henni hún vera að fara skörinni neðar að flytja ræðuna á íslensku og nota túlk? Er það þannig sem ríkisstjórnin lítur á túlka?
Auðvitað viljum við vera best í öllu við viljum að tekið verið mark á okkur því við íslendingar erum að sækja um setu í Öryggisráðinu, gera okkur stærri og betri en við erum-viljum vera áhrifamikil á alþjóðavettvangi, þannig er sú hugsun sem liggur á bak við umsókninni. Til þess að þetta geti orðið verðum við að vanda málflutning okkar í málinu, hafa hann lýtalausan svo málstaðurinn týnist ekki í einhverju fumbulfambri af því að hæstvirtur utanríkisráðherra okkur talar ekki alveg fullkomna ræðuensku. Ég horfði á hana flytja ræðuna í fréttatíma Sjónvarpsins og get ekki sagt annað en að ég vorkenndi konunni hræðilega. Ég sá hana rembast við að einbeita sér að reyna að koma þessu rétt frá sér, það var erfitt fyrir hana. Það vantaði allt fas og áherslulátbragð í flutninginum sem hefði verið til staðar hefði hún á annað borð flutt hana á lýtalausri íslensku sem er hennar fyrsta mál og henni tamast af öllum öðrum tungumálum. Ég heyrði ekki flutninginn sjálfan en þegar ræðumaður fer að beygja sig niður í ræðuna þá er eitthvað að. Það er ekkert að því að nota túlk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)