25.3.2007 | 09:05
Íslandshreyfingin
Nú þegar nýr valmöguleiki Íslendinga á kjörseðlinum í vor hefur bæst við þá langar mig til að koma hérna fram með nokkra punkta sem afskrifa þær bollaleggingar margra að Íslandshreyfingin sé einsmálefnaflokkur. Ég hefði aldrei sett nafn mitt við stofnun á einsmálefnaflokki, því mér finnst þannig flokkur ekkert eiga erindi á Alþingi. Undirbúningstíminn að stofnun hans hefur verið góður og hæfileikaríkt fólk sem annt er um samfélag sitt og vill vera með í að móta það til framtíðarinnar hefur gefið sér rækilegan tíma til að láta þetta nýja stjórnmálaafl verða að veruleika. Það þarf mikinn dugnað, þor og áræðni til að vinna að svona og viðbrögðin sem ég hef fengið hafa verið góð og ég mjög ánægð með þau og er stolt að fyrir það tækifæri að hafa verið með að stofnun þess. Neikvæðar úrtöluraddir hafa vissulega fengið að sjást en hver sagði nú að allir myndu vera sammála því að það væri sjálfsagt að nýtt stjórnmálaafl kæmi ferskt og fínt í kosningarbaráttuna sem nú þegar er hafin og það svona vel undirbúið.
Meðal þess sem rætt hefur verið í gerð stefnulýsingar er meðal annars og ég sjálf tel að Íslandshreyfingin muni standa fyrir er:
Sveigjanlegt velferðarkerfi eykur samfélagsþátttöku og lífsgæði·
- Skattlagning skal miða að jafnvægi og jafnræði. Einfalda og lækka skal skattlagningu einstaklinga með því að afnema tekjutengingu bóta, með hækkun skattleysismarka og tengingu þeirra við launavísitölu. Þeir fjármagnseigendur sem eru hvorki launamenn eða einkahlutafélög skulu reikna sér launatekjur.
Húsnæðiskerfi sem hentar öllum
- Aðgangur að húsnæði á að vera tryggður öllum án tillits til efnahags. Íbúðalánasjóður skal einbeita sér að lánum til tekjulágra og byggingu leiguíbúða. Stimpilgjöld verði afnumin af húsnæislánum sem og öðrum lánum.
Auka þarf lífsgæði aldraðra og öryrkja
- Auka þarf lífsgæði aldraðra og öryrkja og sníða velferðarkerfið að þörfum þeirra sem þurfa á því að halda. Vinna, fjölskyldu- og félagslíf er kjarninn í tilveru fólks.
- Hækkun grunnlífeyris, aukið val um búsetu, atvinna með stuðningi og persónuleg liðveisla eru nokkrir þeirra þátta sem auka lífsgæði, samfélagslega þátttöku og hagkvæmni. Nærþjónusta (heimahjúkrun o.fl.) dregið úr stofnanavæðingu.
- Málefni fatlaðara verði á höndum sveitarfélaga og málaflokknum tryggt fjármagn.
Endurskipulagning velferðar- og heilbrigðiskerfis
- Hægt er að einfalda velferðarkerfið og gera það skilvirkara með endurskipulagningu Tryggingastofnunar og endurskoðun laga um almannatryggingar. Skilgreina þarf verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og aðkomu einkaaðila að kerfinu. Æskilegt er að ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála verði sameinuð og nýtt velferðarráðuneyti stofnað. Áhersla verði lögð á að færa þjónustuna í auknum mæli til sveitarfélaga og einkaaðila.
Í gærdag fór stóð Íslandshreyfingin fyrir fundum á Akranesi og í Borgarnesi. Hérna fylgja nokkrar myndir með. Mjög gaman var í ferðinni. Kosningarbaráttan er sem sagt hafin.
Bloggar | Breytt 26.3.2007 kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.3.2007 | 11:15
Loksins!
Kynna framboð Íslandshreyfingarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.3.2007 | 11:47
Spurning?
Ég las í Fréttablaðinum um helgina að Óperukórinn hefði fengið styrk úr framkvæmdasjóði aldraðra, einnig var minnst á einhverja fleiri aðila sem höfðu fengið styrki án þess að málefni þeirra hefði einhver tengsl við málefni aldraðra. Satt best að segja brosti ég þegar ég las þetta ekki í fyrsta sinn sem almannafé fer í vitlausar hendur.
Spurning hvort ég eða einkareknu sjónvarpstöðvarnar hefðum ekki bara átt að sækja um styrk fyrir textun á innlent sjónvarpefni í framkvæmdasjóð aldraðra allavega hefði sá styrkur tengsl við málefni aldraðra í rökréttu samhengi aldraðir eiga nefnilega til að missa heyrn og heyrnartæki virka stundum ekki við sjónvarpshljóð. Spurning sko.
Til að mynda var þannig háttað í mörg ár að Sinfónían fékk eitthvað hundruð miljónir á ári af peningum RÚV og það með lagaheimild. Einu sinni spurðist ég fyrir hverju þetta sætti jú til að tryggja að Sinfónían fengi að lifa áfram og geti sinnt klassískri tónlist með sínum hætti svo fólk geti farið og hlustað á klassíska tónlist. Þetta var líka gert til að tryggja að fólk gleymdi ekki sinfóníunni þegar RÚV hóf göngu sína. Allt tryggt til að klassísk tónlist kæmi fyrir í eyrum landsmanna. Á meðan ausið var fjármagni í Sinfónínuna mátti ekki heyrast neitt um textun á innlent sjónvarpsefni inni í RÚV.
Sem betur fer eru nú breyttir tímar og til stendur að auka textun á innlendu sjónvarpsefni í RÚV og gera sérstaklega aukingu á textun á forunnu innlendu sjónvarspefni. Kastljósið með Evu Maríu er forunnið efni hvað hamlar að það sé textað? Morgunblaðið tók viðtal við mig á vefvarpi sínu og textaði viðtalið. Vel gerlegt og tók enga stund. Því heldur Morgunblaðið textun ekki bara áfram í vefvarpi sínu og tryggir þar með öllum þeim sem heimsækja síðuna fullt upplýsingaraðgengi.
Og svo má alltaf spyrja um metnað hjá þáttagerðarstjórnendum að þættir þeirra séu aðgengilegir öllum sem á þá horfa? Spurning sko.
En að öðru mér finnst frábært að Alþingi tók að sér að samþykkja afnám á fyrningarfrests kynferðisafbrota. Samþykkt þessi er kærkomið skref í átt að réttarbætum fyrir kynferðisafbrotaþolendur. Það tók langan tíma að ná þessu fram, það sveimar því yfir landinu eitthvað svona -góðir hlutir gerast hægt slæmir hlutir gerast hratt. Eða hvað? Spurning sko.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2007 | 22:33
Án titils
Því miður verður táknmálsfrumvarpið ekki meðal rétta á hlaðborði málalista Alþingis þegar því verður slitið næsta sólarhring í síðasta sinn þetta kjörtímabil, það var of súrsætur réttur úr dýru hráefni fyrir ríkisstjórn en með annars fullt af hollum næringarefnum fyrir málminnihlutahóp þessa lands. Þetta góða holla fær sem sagt að fjúka.
Það fór eins og við var að búast að táknmálsfrumvarpið kæmist ekki í gegn, ég óttaðist einmitt að þessi staða kæmi upp. Þetta ber vissulega að harma og það letur mig ekkert í að ná þessu fram í fjórða skiptið á næsta kjörtímabili, það eflir mig frekar en letur.
Það er bara svona og var vitað fyrirfram að bætt aðgengi og velferðarmál í bland sem sögð eru sjálfsögð mannréttindi er ekki að finna í stjórnsáttmála þessarar ríkisstjórnar.
En mig klígjar samt við þeirri staðreynd að það sem fór mest í brjóstið á formanni mennamálanefndar var að kvöð skyldi sett á sjónvarpfjölmiðla að texta innlent sjónvarpsefni sitt. Þetta gaf hann í skyn í Morgunblaðsfrétt í dag og þar las ég einmitt fréttina um falleinkunn táknmálsfrumvarpsins fyrst. Það var ekkert verið að hafa fyrir því að láta mig vita þetta með neinum formlegum hætti, allavega er það sennilega engin skylda á formann menntamálanefndar að tilkynna mér þetta, væri svo hefði hann ekki undan að tilkynna öllum forsvarsmönnum góðu málefnana falleinkun sína. Hann nefndi líka í sömu frétt að þetta þyrfit að skoða betur, ég neita því ekki en samt sem áður er þetta í þriðja sinn sem frumvarpið er flutt og varðandi kostnaðinn þá sagði samflokksþingmaður hans Pétur Blöndal að kostnaður við frumvarpið væri aukaatriði og yxi mönnum ekki í augum þegar um svona sjálfsagt mannréttindamál væri að ræða.
Þess skal geta að formaður menntamálanefndar hafði fullt samskiptaaðgengi að mér og hafði þar með alveg tíma til að ræða málin eða allavega reifa það svona til að koma með lendingu að breytingartillögu, en hann ákvað að nota það tækifæri ekki. Hans val. Hann nefndi samúð sína við málstaðinn. Heyrnarlausum vantar ekki samúð, þeim vantar sjálfsögð mannréttindi og viðurkenningu á tilverurétti sínum.
Nú er svo komið að engin afsláttur verður lengur gefin af heyrnarlausum þegar kemur að réttindum þeirra á forsendum táknmálsins, útsalan er búin, nýtt kortatímabil er hafið eða öllu heldur nýtt framlegðarskeið þjóðarinnar í átt að enn frekari velsæld hagvaxtarins eins og forsætisráðherra þjóðarinnar orðaði eitthvað í þá áttina í eldhúsdagsumræðum á þingi í vikunni.
En á meðan eru réttindi heyrnarlausra án titils.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2007 | 13:14
Hlaðborð
Nú er á Alþingi víða mikið hlaðborð sem ekki sést í endann á að klárist fyrir þinglok. Á hlaðborðinu er einhver ótrúlegasti fjöldi rétta sem bera heiti eins og "kryddlegnir ferskir EES samningar", "beikonvafið trjáræktarsetur", "snöggsteikt stjórn fiskiveiða", "KHÍ og HÍ tríó" og í eftirrétt trónir svo "eldborið minningarstef Jóns Sigurðssonar á ís", svo fátt eitt sé nefnt af þessum áttatíu réttum sem á síðustu sentimetrum dagskrár Alþingis er í dag og enn hafa ekki náðst sættir um þinglok. Miðað við umfang málanna finnst mér raunhæft að þinglok ættu að vera svona síðustu daga fyrir páskafrí.
Í morgun voru til umfjöllunar málefni blindra og sjónskertra eða öllu heldur aðgerðarleysi stjórnvalda í málefnum þeirra, sérstaklega kennslumálum. Hugið að þessu; einn blindrakennari á 160 blind og sjónskert börn hér á landi eins og segir í skýrslunni um menntunarmál blindra og sjónskertra. Þrautarganga blindra og heyrnarlausra fyrir menntun sinni, aðgengi og lífsgæðum virðist engan endi ætla að taka. Táknmálsfrumvarpið er til umræðu í menntamálanefnd í dag og miðað við orð Kolbrúnar Halldórsdóttur í umræðunni um blinda og sjónskerta þá kom hún aðeins að því að stjórnvöld ætli sér líka að bregðast heyrnarlausum eins og blindum því táknmálsfrumvarpið situr fast í nefndinni. Ætla stjórnvöld að hafa það að engu rétt eins og þau hafa lokað augunum við málefnum blindra í áranna rás, svona rétt eins og heyrnarlausir hafa barist fyrir réttindum sínum og tilverurétt fyrir daufum eyrum. Nú er bara spurning hver er blindur og heyrnarlaus í þessu samhengi. Samkvæmt svari menntamálaráðherra á að skipa framkvæmdarnefnd um málefni blindra og sjónskertra. Hver hefur meiri reynslu af nefndarbrölti stjórnvalda undanfarin 13 árin eða lengur en heyrnarlausir? Óekkí, ekki eina nefndina enn, of dýrmætur tími fer til spillis og spurning hvort það sé of stórt mál fyrir þessa ríkisstjórn að hefja framkvæmdir. Hún hefur allavega ekki verið í vandræðum fyrir framkvæmdagleði á hálendinu. Það er auðlind í blindum og heyrnarlausum, jafnhæfileikaríkt fólk eins og allur meginþorri landsmanna. Hver veit nema stóriðja leynist í þessum fötlunarhópum sem og öðrum. Þingi er ekki lokið og enn er tími tækifæranna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2007 | 10:56
Almannaþjónustuhlutverk
Það er ánægjulegt að menntamálaráðherra skuli minnast á að textun verði stóraukin á forunnu innlendu sjónvarpsefni á RÚV ohf í framtíðinni. Um það er getið í þjónustusamningi sem gerður var á milli ráðuneytsins og RÚV ohf. Ég sé fyrir mér að velflest forunnið efni verið sent út textað. Margt af útsendu innlendu sjónvarpsefni RÚV ohf er forunnið. Til að mynda geri ég mér hugarlund að langþráð ósk rætist núna að Kastljósið verði sent út textað, mikið af efni þess er forunnið, þ.e. velflest viðtölin eru tekin upp fyrirfram. Allar fréttir í fréttatímunum kl. 19 og 22 eru forunnar þó sent sé út beint. Janfvel táknmálfréttir eru forunnar þó sendar séu út beint. Það yrði hrikalegt ef fréttaþulurinn færi nú að segja fréttir beint, alveg óundirbúið og óforunnið, kæmi ekkert vel út á köflum. Það eina sem er óundirbúið og óforunnið eru til að mynda kappleikir í beinni. Þannig séð er vissulega tilhlökkunarefni framundan hvað varðar áhorf mitt og 10% landsmanna á innlendu sjónvarpsefni RÚV ohf. Ég er kannski fullhógvær í væntingum mínum um textun að þora ekki að koma með kröfu um að beinar útsendingar af kappleikjum séu textaðar, satt best að segja er það vel hægt, tæknin er til, bara stundum vita menn ekki alveg hvar á að byrja. Það vantar líka ekkert tæknivitið hérlendis. En hvað með aðrar sjónvarpstöðvar, þessar einkareknu eiga þær ekkert að sinna almannaþjónustuhlutverki sem textun er núna orðin? Allavega sinna þær almannaþjónusthlutverki eins og til dæmis hljóðinu og skyldaðar að setja íslenskan texta á erlendar myndir sem sýndar eru. Allt innlent efni hjá þeim er líka forunnið því allar sjónvarpstöðvar hvort sem um eru að ræða einkareknar eða opinberar einkastöðvar hafa metnað í öllu útsendu innlendu sjónvarpsefni sínu. Mér finnst alveg fullt tilefni að skoða þetta mál þegar kemur að þeim að endurnýja sjónvarpsleyfi sitt. Almannþjónustuhlutverk sjónvarpstöðvana verður að endurskoða. Stóra spurningin er hvenær verður Kastljósið og fréttatíminn sendur út textaður? Stærsta spurningin er hvenær Ísland í dag og fréttatími Stöðvar 2 verði sent út textað? Jafnvel má skjóta hérna inn líka hádegisfréttum Stöðvar 2.
Táknmálfrumvarpið er núna á borðinu í menntamálanefnd. Nú standa yfir nefndardagar á Alþingi og þingfundir falla niður, aðeins er fundað í nefndum. Svo er líka vert að minna á að á borði sömu nefndar liggur líka frumvarp um textun á innlendu sjónvarpsefni. Þannig séð skortir nefndina ekkert umræðuefni og svo eru þar líka vissulega fleiri góð málefni hverskonar.
Það hefur ekki verið mikið skrifað hérna undanfarið, satt best að segja er ég ekkert hress með nýja lykilorðið sem mér var úthlutað þegar hitt var gert opinbert. Mér var úthlutað nýju sem hverjum manni er lífsins ómögulegt að muna, svo ósamsett. Ætli ég kippi þessu ekki bara í liðinn og set saman eitt lítið lykilorð sem er í stíl við eitthvað sem ég get munað.
Að öðru er bara annars gott að frétta. Ég er komin heim af Alþingi, orðin óbreytt skulum við segja. Sonurinn stiginn úr þessari skyndilegu flensu sem virðist vera að herja á suma og sendir ólíkilegustu menn og konur beina leið í rúmið. Sjálf er ég alveg alheil. Nýja framboðið fer að líta dagsins ljós á næstu dögum . Hvað oft ætli þið séuð búin að lesa þessa setningu einhverstaðar annarstaðar? Maður er sjálfur komin með hálfgert ógeð á þessari setningu en hvað getur maður sagt annað þegar kemur að því að vel sé vandað til verksins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2007 | 21:58
Táknmálsfrumvarpið
Þá er ég búin að flytja táknmálsfrumvarpið, ég er ánægð og get ekki annað en verið sátt við umræðuna sem fram fór. Þetta er þverpólitískt málefni og þannig séð geta menn ekki annað en verið sammála um mikilvægi þess að það nái fram að ganga. Stundir með svona upplifun á eru mikilvægar fyrir Alþingi og lýðræðið. Ég er mjög ánægð með það sem þingmenn höfðu til málanna að leggja í umræðunni og þakka þeim af alhug fyrir hvert sitt innlegg. Nú verður því verið vísað í menntamálanefnd með atkvæðagreiðslu á morgun og þar vænti ég þess að það fái umfjöllun sína sem það á skilið, framhaldið ræðst svo eftir hvernig afgreiðslu það fær þar. Ræðuna mína er hægt að nálgast hérna. Frumvarpið er hér að finna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.2.2007 | 23:14
Að áætluðu...
... mun ég flytja táknmálsfrumvarpið á morgun (þriðjudag) á tímabilinu kl. 16-19, veðja á kl. 16. Verði ykkur að góðu sem fylgist með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2007 | 22:39
Söngur eldsins
Ég skrapp eftir kvöldmat á Austurvöllinn að sjá hvað væri að gerast á þessu tilkomumikla sviði sem hefur eflt forvitni mína frá degi til dags sem ég hef gengið þar fram hjá. Það átti víst að vera eitthvert show með eldglæringum og tónlist las ég. Ég fór því með börnin mín og vin þeirra þangað. Þegar við komum var allt svo til næstum því myrkvað. Við komum okkur fyrir vel fyrir framan sviðið til að sjá sem mest. Bara um leið og við mættum var byrjað að setja hátíðina af Vilhjálmi borgarstjóra og Geir forsætisráðherra var þarna líka og einhverjir aðrir sem ég veit ekki deili á, held fransmenn.
Svo byrjaði þetta allt, fyrst var kveikt á með risastórum gaskveikjutæki á einu, svo öðru, svo bara koll af kolli smá eldur allavega á sviðinu og menn að berja í trumbur, einn að syngja og blása í eitthvað. Ég horfði á, satt best að segja fór einhver höfgi að svífa rólega yfir mig og stutt var í geyspinn. Ég var farin að verða eitthvað óþreyjufull eftir aðalsýningunni því miðað við stærð sviðsins og fjölda pípna sem stefndu til himins var ég búin að gera mér hugarlund og jafnvel farin að hlakka til að sjá eldinn flæða úr pípunum beint upp í loftið, búin að búa mér til tilkomumikla skýjaborg með eldi og ógleymanlega eldsýningu. Kona kom á sviðið með og hélt á kveikjusettinu knúnu eldi og lét það renna hægt og rólega um pípurnar ég setti sjálfa mig í biðgírinn og hugsaði að tilkomumikla eldsýningin mín hlyti að fara að koma þá og þegar, ég leit aftur fyrir mig, voða voru allir svo hljóðir og horfðu á sviðið. Svo fór konan, ég stimplaði þetta þannig að eitthvert klúður hefði komið í sýninguna, því enginn eldur flæddi um pípurnar. Svo kom maður með sama tæki fullt af eld, ekki bara eitt heldur tvö og fór að stærstu pípunum, ég hugsaði að sá skyldi sko ætla að lagfæra þetta og koma á virkilegri eldsýningu eins og mér fannst eiga að vera, það kom en bara í eina pípuna ekki allar sem voru í röð samtímis og svo renndi hann eldinum hægt og rólega og lét flæða í pípurnar stundum kom mikill eldur stundum kom bara reykur úr pípunum. Ég var orðin óróleg og farin að spyrja mig hvað væri að gerast, var allt misheppnað og svo voru mennirnir við trumburnar stundum að berja í þær og hættu stundum og horfðu lotningarfullir á eldmanninn við pípurnar. Fólkið í kringum mig horfði líka lotningarfullt á og úr svip þeirra mátti alveg sjá að þau voru öll mjög hugfanginn. Börnin mín tvö og vinur þeirra voru það líka, allir voru svo hljóðir og horfandi athuglir á sviðið. Svo ég tók mig til og truflaði dóttur mína aðeins og spurði hana út í hvað væri um að vera. Hún sagði mér þá að það heyrðist í eldinum þegar hann snerti stálpípurnar, sem sagt eldurinn er að syngja í pípunum. Já, nú skildi ég það var hljóðið í eldinum sem heillaði og setti mig þá í annan gír og lét hana í friði eftir það og leyfði henni að njóta þess. Alltaf fréttir maður eitthvað nýtt, eldurinn bara farin að syngja, auðvitað var það líka tilkomumikið. Ég vissi ekki að það heyrðist í eldi, hef alltaf litið á hann sem einhvert þögult sjónarspil sem kannski heyrðist smávegis að værla tæki að nema það eða hvað þá tala um það. Við horfðum á til enda og ég líka. Þetta var bara flott eftir allt saman, kannski einhvern tímann á ég eftir að sjá eldsýninguna mína sem ég gerði fyrir sjálfa mig í huganum, þá vona ég að þið fáið líka að njóta þess, yrði svakalegt augnkonfekt.
Þið viljið auðvitað heyra af þingsetunni. Af henni að segja þá gengur bara vel, nóg að gera hjá mér, táknmálsfrumvarpið komið í dreifingu. Ég er núna í óða önn að leggja lokahönd á ræðuna, hana fáið þið að heyra í byrjun næstu viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2007 | 23:10
Fyrsti dagurinn
Ég sé í athugasemdakerfinu að það er strax komin spenningur á hvernig mér hafi reitt af fyrsta deginum á þingi. Satt best að segja gekk hann bara vel. Var mætt um tíuleytið í morgun, fór þá með túlkinum sem mættur var að skoða aðstæðurnar og þar fyrir var tæknimaðurinn að leggja síðustu hönd á fjarfundabúnaðinn eða öllu heldur fjartúlkunarbúnaðinn minn. Það gat ekki hitt betur á svo við prófuðum myndgæðinn og hraðann, aðeins þurfti að stilla hraðann og var það gert. Eftir það fór ég á skrifstofuna sem mér hafði verið úthlutað í Austurstræti, tölvugúrú þingsins kom og stillti outlokkið mitt og snaraði MSN forritinu inn í tölvuna, tók örskotssund og eftir það var farið að skoða póstinn minn, svara og gera klárt. Þegar þarna var komið var bara allt í einu komið að matartíma, þangað fór ég og túlkurinn, fiskibollur voru á matseðlinum enda bolludagur landans í dag. Átti stuttan en góðan fund með menntamálaráðherra eftir matinn og svo var skundað á þingflokksfund. Meðan þessu tvennu stóð reyndi ég eftir fremsta megni að redda mér túlk með sms-skilaboðum á þingfund kl. 15, það hafðist korteri fyrir þingfund og túlkurinn kom. Ég var sett inn á þing á þeim fundi. Sat í mínu sæti við fyrirspurnir dagsins. Tíminn leið hratt og klukkan var orðin 16 þegar túlkurinn fór og þá flýtti ég mér á skrifstofuna, sendi út tölvupóst á alla þingmenn og ráðherra líka með beiðni um að vera meðflutningsmenn á táknmálsfrumvarpinu, prentaði líka út tímana sem búið er að stilla inn túlk fyrir mig. Kíkti á netfjölmiðlana og svo var bara klukkan allt í einu orðin 17 og ég þurfti að fara í þingsal, þar voru komnir tveir túlkar handa mér. Við fengum okkur aðeins kaffi og ég notaði túlkana meðal annars til að hringja fyrir mig í börnin og afa þeirra. Það gekk vel hjá þeim en einna best gekk hjá afa þeirra því hann var að borða bollur þegar ég hringdi, sonurinn var á fullu í stuttmyndagerðinni og dóttirin fór með vinkonu sinni í píanótíma. Ég lét vita að ég kæmi í kvöldmat og pabbi minn, afi barnanna ætlaði að hafa soðna ýsu, lifur og hrogn í kvöldmatinn. Fór svo í þingsal og hlustaði á umræður um samgönguáætlun ríkistjórnarinnar til ársins 2010. Vegakerfið um allt land mun án efa taka miklum stakkaskiptum næstu árin, bæði til sjós og lands, jarðgöng hér og þar, gott mál fyrir alla landsbyggðina og öryggi á vegum landsins og þetta allt kostar jú sitt, þannig séð verður að vanda til verksins.
Ég er mjög hrifinn af veginum yfir Kjöl, ég trúi að hann verði mikið notaður svo framarlega sem hann verður vel gerður og viðhaldi á honum sinnt, og eins að hann sé vel malbikaður.
Svona var fyrsti þingdagurinn ég veit ekki hvað ég get mikið lofað ykkur að ég skrifi hérna dagsdaglega um hvað ég geri á þingi svona nákvæmlega, nóg mun ég hafa að gera á næstunni og þann tíma ætla ég að nota vel. Maður er svona hálfdasaður hérna og fyrir framan mig eru börn að gera sína heimavinnu.
Það skal þó alveg segjast eins og er að það er dásamlegt að vera komin aftur á þing, það er alltaf jafnlærdómsríkt og mikil upplifun er að vera með í ákvarðanatöku á Alþingi. Maður er að feta hinn breiða meðalveg og finna ásættanlegar lausnir sem landsmenn munu án efa njóta síðar. Maður leggur vilja sinn og sannfæringu á vogarskálarnar í ákvarðannatöku, maður verður að vera viss um að maður sé að gera rétt og trúa því að ein lausn sé betri en aðrar. Maður er þarna inni, einn af þessum 63 þingmönnum sem þjóðin hefur valið sér. Hvert atkvæði er fræ sem síðar mun fá að blómstra í ákvörðannatöku um lög þessa lands okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)