1. sætið fokið?

Landsþing Frjálslynda flokksins verður næstu helgi.  Þar verður að öllum líkindum mikil harka og sennilega verður mikið tekist á, sérstaklega þegar kemur að kosningum í formanns-, varaformanns- og ritara embætti flokksins.  Það er víst aðalmálið þessa dagana, enginn málefnaágreiningur hefur ratað á síður fjölmiðla nema bara þetta með kosningarnar og snýst mikið um hver sé víst bestur eða best í embættið.  Um leið og það er komið á hreint þá fyrst er hægt að snúa sér að uppröðun manna og væntanlega kvenna á framboðslista flokksins í öllum kjördæmum.

Það nýjasta sem komið hefur upp er að Valdimar Leó fyrrum Samfylkingarþingmaður, svo utan flokka þingmaður, er nú skráður þingmaður Frjálslynda flokksins.  Sem sagt einn fór og annar kom.  Munurinn er að hann fór úr einum stjórnarandstöðuflokk í annan stjórnarandstöðuflokk meðan hinn fór yfir í stjórnarliðaflokk og ég þurfti og þarf enn að líða stórkostlega fyrir það, sem varaþingmaður hans. Sett í gíslingu af stjórnarliðaflokk og um það ætla ég aðeins að ræða í lokin, en aftur að Landsþinginu og þeirri kreppu sem varir út þessa vikuna. 

Framboðslistar verða víst litaðir af þeirri forystu sem skipuð verður af kosningarbærum mönnum og konum á Landsþinginu.  Ég hef áður komið að því hér á síðunni að 1. sætið á framboðslista hérna í Kraganum er sérlega vinsælt og eftir því sækist ég, en mér hefur verið sagt að það sé öllu heldur mun hagkvæmara fyrir mig að vera í 2. sætinu vegna aðstöðumunarins á aðgenginu að upplýsingum.  Semsagt á lélegt upplýsingaraðgengi hérlendis að veikja stöðu mína og vilja að vera í 1. sætinu.  Ég þarf vitanlega á túlkum að halda og get nokkurn veginn eftir bestu getu útvegað mér þá. Tölvutæknin nú á dögum gerir mér kleift að fylgjast með því helsta sem er að gerast í þjóðfélaginu en samt hef ég ekki nægt forskot að fylgjast með því sem er á öldum ljósvakans þ.e. útvarpinu.

En hafa aðrir frambjóðendur alltaf tíma til að ná öllu sem sagt er þar? Ég á þokkalegan góðan gemsa sem sér til að ég sé sítengd, en ég treysti mér varla að ætlast sé til að svarað sé jafnt að nóttu sem degi, ég tapa ef ég þarf að svara símtali eða sms- skilaboðum að nóttu, en þarf virkilega að hringja eða senda sms-skilaboð að nóttu til? Það munar svo fáum tímum og ég iðulega vöknuð um og fyrir sjö. Þannig séð á þetta ekki að vera mjög mikið mál fyrir ja tja skulum segja heyrnarlausa konu að sækjast eftir 1. sætinu hér í Kraganum af því að henni finnst hún vera jafnframbærileg og aðrir á listum hinna flokkana.  

Nú er Valdimar Leo mættur á svæðið og ég horfði á hann setja upp xF merkið í beinni í Silfrinu án þess svo mikið að skilja hvað fram fór á milli manna þarna. Ég auðvitað reis aðeins upp úr stólnum til að sjá aðeins betur hvað fram fór með þennan merkisgjörning. Ég sá reyndar líka annað í þessum gjörningi – ég sá möguleika mína á 1. sætinu fjúka þarna fyrir karl.  Taki hann sætið verður hann maðurinn sem hrinti fötluðu konunni úr því sæti.  Hann sem er mikill talsmaður fatlaðra og hefur mikið unnið með þeim að mér skilst. Eftir Landsþingið þá fyrst geri ég mér grein fyrir hvar ég stend gagnvart 1. sætinu á framboðslista Frjálslynda flokksins. 

 

En nú aftur að því sem ég lofaði að tala meira um, þ.e. varaþingmannsstöðu minni.  Ég hef ekkert fengið að fara inn vegna þess að Gunnar Örlygsson hefur verið með einsdæmum “vinnusamur” og ekkert “frí” tekið svo ég komist inn.  Þessi “vinnusami” þingmaður hefur nú lítið mætt í “vinnuna” sem hann þiggur ríkislaun fyrir, allir vita hver þau eru svo ég þarf ekkert að nefna neinar tölur og nú er að mér skilist frjáls mæting í “vinnuna” hjá honum á Alþingi.  Er almenn sátt um þetta?  Hvað segja sjallar?  Sennilega segja þeir hann vera í “sérverkefni” fyrir þá sem ekki kalli mikið á að hann stígi í þingsal. 

    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég er ekki viss um að þú sért á réttum stað. Ég skoðaði þann möguleika að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn en fékk engar viðtökur. Framkvæmdastjórinn vildi ekki prófkjör og formaðurinn svaraði engum póstum. Ég fann þarna á einu bretti skort á lýðræðishugsjón og skorti á samskiptavilja. Þér má líka vera ljóst að samskipti formanns og framkvæmdastjóra hafa verið eitthvað skrýtin ef formaður segir framkvæmdastjóranum upp störfum byggt á 6 mánaða gömlu samtali! Mér finnst að formanninum hefði átt að vera í lófa lagið að gera þetta með friði. 

Haukur Nikulásson, 23.1.2007 kl. 08:20

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég gleymdi að bæta við að ef formaðurinn mat framkvæmdastjórann að verðleikum hefði hann aldrei sagt henni upp störfum. Hann fann einhverja hvöt hjá sér til að niðurlægja hana og býr til ástæður sem standast ekki.

Valdabaráttan er þarna í neikvæðum farvegi ens og stendur vegna þess að grundvöllur fyrir samkeppnina er ekki vel hugsaður. Það þarf að gera ráð fyrir samkeppninni og hafa umgjörð um hana sem allir geta gengið að sem vísri. 

Haukur Nikulásson, 23.1.2007 kl. 08:26

3 identicon

Magga! Þú átt að vera í 1. sæti og hvergi annarsstaðar, heyrnarlausir og aðrir minnihlutahópar þurfa konu eins og þig á þing, ég leyfi mér að efast um að einhver annar muni sinna okkar málum jafn vel, reyndar finnst mér þessi afsökun um að heyrnarlausir hafi ekki nægt upplýsingaaðgengi bullshit og léleg afsökun til að bola þér í 2. sætið, það er alveg öruggt að upplýsingaaðgengið á eftir að stórbatna þegar þú sest á þing og "neyðist" til að vera með á nótunum, þá er erfiðara að neita þér um aðgengi, neita þér um túlkaþjónustu og koma tölvuvæddri aðgengi á á milli þeirra sem venjulegast nota síma, Ég leyfi mér líka að halda því fram að þessi setning "af því að þú ert heyrnarlaus" sé misnotuð og það ekki í fyrsta skipti, sagan okkar segir að við höfum nógu oft sætt okkur við að hinir heyrandi hafi "rétt" fyrir sér varðandi það. En reyndin er oftast sú að við erum mun upplýsingavæddri en aðrir, að því leyti að við viljum hlusta á meðan aðrir ónefndir stunda það að vera í frjálsri mætingu og með frjálsann vilja til að nýta sér sitt upplýsingaaðgengi, svo er annað mál hvort þeir séu jafn upplýstir.

Þú veist það, ég veit það og þau vita það öll, þetta er ekki rökfærsla sem á að nota árið 2007 í því tæknivædda þjóðfélagi sem við búum, útvarpsfréttir er hægt að nálgast á annann máta en sperra við eyrun, svara smsi á nóttu, það ætti að vera hægðarleikur fyrir þig með blackberry símanum. Þú ert í mínum augum álítilegra efni í fyrsta sætið, aðalástæðan fyrir því er einmitt sú staðreynd að þú ert talsmaður minnihlutahópa, þú ert sálin og hjartað og þú skilur! Það vill maður sjá hjá þingmanni sama hvers flokks hann er. 

Möggu í 1. sætið.

Elsa (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 08:41

4 identicon

Sigðurlín Margrét.

Ég styð þig í 1. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir okkar flokk.  Það skaltu treysta á.

Kveðja, Sólborg Alda

Sólborg Alda (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 10:57

5 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Hef enga trú á að nokkur vilji kjósa Valdimar. Frjálslyndi flokkurinn mun aldrei hafa hag af því að "endurvinna" þingmenn sem aðrir flokkar vilja ekki. Sagan segir líka að þeir sem skipta svona um flokka og svíkjast undan merkjum á þingi eiga ekki mikla möguleika í prófkjörum. Ef frjálslyndir fara að kjósa Valdimar vita þeir ekki nema að hann verði kannski kominn í hóp einhverra annara áður en næsta kjörtímabili lýkur.

Svo ÞEGAR þú ert komin með fyrsta sætið og EF þú nærð á þing þá kemur þú því í gegn að táknmál sé kennt í grunnskólum í stað dönsku. Held að það gæti gert mikið fyrir þá sem þurfa að nota táknmál hér á landi að sem flestir skylji þá og geti talað málið :)

Ágúst Dalkvist, 23.1.2007 kl. 12:26

6 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Stend með þér!

Ingibjörg Stefánsdóttir, 23.1.2007 kl. 14:49

7 identicon

Ágústa Unnur Gunnarsdóttir

Magga mín kæra!

Auðvitað átt þú að vera í 1.sæti og ekkert annað kemur til greina.

Að segja að þú eigir að sætta þig við 2.sæti vegna fötlunar þinnar er bara fáránlegt og þeir sem hugsa svona eru 100 árum eftir tímanum.

Þegar þú komst í MH árið 1990 og baðst um að fá kennslu meðal heyrandi nemendum með túlki  í öllum tímum, þá þótti mörgum það óðs manns æði.  En viti menn þá ruddir þú brautina fyrir alla aðra heyrnarlausa sem á eftir þér komu og eru margir þeirra komnir með háskólapróf í dag.

Þú ert brautryðjandi og klár baráttukona.  Það er eins og karlarnir í þessu flokki þínum séu bara ALLS EKKI í takt við tímann!

Áfram Magga í 1.sæti

Ágústa Unnur Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 15:56

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég skil Sigurlínu Margréti ósköp vel. Gunnar Örlygsson var kjörinn til að berjast gegn kvótakerfinu en kaus að bregðast kjósendum sínum. Hann hafði um það orð að Sigurlín fengi að koma á þing til að flytja sín góðu mál en sveik það í þágu nýrra húsbænda.  Sigurlín er metin af verðleikum af sínum samherjum.  Hún misskildi af eðlilegum ástæðum það sem sagt var í Silfrinu.  Mér finnst illa gert af ykkur að leiðrétta það ekki, þó þið séuð í öðrum flokkum.

Sigurður Þórðarson, 23.1.2007 kl. 20:37

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég skil Sigurlínu Margréti ósköp vel. Gunnar Örlygsson var kjörinn til að berjast gegn kvótakerfinu en kaus að bregðast kjósendum sínum. Hann hafði um það orð að Sigurlín fengi að koma á þing til að flytja sín góðu mál en sveik það í þágu nýrra húsbænda.  Sigurlín er metin af verðleikum af sínum samherjum.  Hún misskildi af eðlilegum ástæðum það sem sagt var í Silfrinu.  Mér finnst illa gert af ykkur að leiðrétta það ekki, þó þið séuð í öðrum flokkum.

Sigurður Þórðarson, 23.1.2007 kl. 20:38

10 identicon

Valdimar held ég að sé happafengur fyrir frjálslynda og óska ykkur til hamingju með að fá hann í ykkar raðir.  Gott væri fyrir frálslynda að fá hann á lista, jafnvel í fyrsta sætið í Reykjavík norður, gæti vel hugsað mér þann valkost sem kjósandi þar.  Vona að hann verði þar fremur en td Jón Magnússon.  Ekki þarf að búa í því kjördæmi sem maður býður sig fram í

Sigurlín þú átt hins vegar að vera í FYRSTA sæti í þínu kraganum.  Kjósendur eiga það skilið.

Þóroddur (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 21:45

11 identicon

Ég hvet þig Sigurlín til að halda þínu striki og stefna á fyrsta sætið.Sem kjósandi í Kraganum gæti ég vel hugsað mér að kjósa framboðslista sem þú myndir leiða. Mér finnst þú samt ekki fara með rétt mál þegar þú talar um að taki Valdimar Leó fyrsta sætið , verði hann maðurinn sem hrinti fötluðu konunni úr því sæti.Það er alveg ljóst að sá sem skipaði fyrsta sætið á því kjörtímabili sem er að líða mun ekki taka sæti á listanum á ný.Fyrsta sætið er því laust sem stendur og þú átt ekki meiri rétt á því frekar enn hver annar.Valdimar er mikill happafengur fyrir Frjálslyndaflokkinn og honum ættuð þið að taka fagnandi.

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband