Sitt og hvað um heilbrigði landans

Heilbrigiðskerfið er víst dýrasti pakkinn sem ríkissjóður greiðir í.   Maður skyldi ekki ætla að láta eins og það komi manni ekkert við, því maður getur hæglega fundið fyrir því þegar vélin í okkur vinnur ekki eins og á að vera.  Allar vélar geta einhverntímann bilað.  Stór spurning er um hvort vélin í okkur fái réttu greininguna við fyrsta kík hjá lækni, sé svo held ég að það yrði ódýrara fyrir báða aðila sem málið varðar. Mér finnst ég alltaf lenda á einhverju hægfara færibandi í vélarbilunargreiningu hjá mér.  Reyndar fer ég alltaf einu sinni á viku í blóðsykurmælingu á Heilsugæsluna hérna í Garðabæ. Það gengur snuðrulaust fyrir sig fyrir utan smásting sem ég ætla aldrei að venjast og kostar 350,- í hvert skipti að láta pikka í puttann á sér og kreysta út blóðdropa í mælinn. Það þarf ég að gera af því ég fæ ekki að hafa blóðsykurmæli hjá mér af því að einhver reglugerð þar að lútandi var felld úr gildi nánast sama dag og ég fékk mína sykursýkisgreiningu.  Þeir sem eru á töflum (eins og ég) fá nefnilega ekki lengur mæli, aðeins þeir sem eru á insúlínsprautum er mér sagt.  Sem sagt í heimsókn þarna fyrir 3 vikum, varð mér á orði við lækninn að ég væri eitthvað slöpp og greinilega að fá flensu eða eitthvað, hann skoðaði mig og hlustaði og sagði þetta vera einhver flensa, ég ætti sem sagt bara að vera heima og drekka vatn.   Viku síðar kem ég aftur og finnst mér hafa versnað.  Annar læknir skoðaði mig og hlustaði og fannst hann greina smábyrjunareinkenni lungnabólgu á vinstri síðu og lét mig hafa vægan pensilínskammt.  Þá byrjaði þetta alltsaman, eins og þið vitið kannski eru sýklalyf sem þetta ekki niðurgreidd og því þurfti ég að borga tæplegar 2.200,- kr fyrir lyfið sem reyndar kom ekki neitt rosalega að miklu gangi nema því að blóðsykurinn hækkaði og þá verð ég ör og get með litlu móti náð að festa svefn á kristlegum tíma og maður vaknar svo eftir því sem við á.  Og þar sem ég var komin með þessa byrjunareinkennislungabólgugreiningu og komin á lyf hélt ég að mér væru allir vegir færir og fór út í einhver skipti, þá fárveik án þess að það skipti einhverju voðalega mikilu máli. Nú í vikunni fór ég aftur og nefndi við vakthafandi lækni að mér væri eitthvað að versna og blóðsykurinn hefði aldrei mælst svona hátt 9,1.  Hann skoðaði mig og sendi mig í röntgenmyndatöku sem ég greiddi 1.004,- krónur fyrir.   Ríkissjóður greiddi reyndar fimm þúsund og eitthvað fyrir, bestu þakkir fyrir það Árni M. !  Niðurstaðan úr röntgenmyndinni leiddi ljós að um var að ræða lungnabólgu, það sagði læknirinn mér þegar hann opnaði umslagið sem ég var send með til baka (þarf ég að rukka fyrir boðsendinguna?)  Þá var víst bara eitt sem hann þurfti að gera, nefnilega skrifa nýjan lyfjaseðil og sem ég fór með í apótekið og greiddi 2.848,- fyrir (ég fékk þó 276 krónur í afslátt út á græna kortið mitt).  En áður en ég kvaddi lækninn og óskaði honum gleðilegra áramóta spurði ég hann hvað ég ætti að gera við hitt lyfið sem ég fékk viku áður?  Henda því sagði hann bara.  Heilmikið mál fyrir heilbrigðiskerfið að greina einfalt lungnabólgutilfelli og kostnaðurinn á bakvið hvert einstaka tilfelli hleypur á tugum þúsunda, ekki bara fyrir ríkissjóð heldur líka fyrir heimilin.  Við eigum besta heilbrigðiskerfi í heiminum er sagt, við megum ekki vanmeta það.  Við þökkum fyrir okkur í hljóði í hvert sinn sem við þurfum að nota það og fáum bót meina okkar í því.  Saga Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur sem er íslendingur ársins sem ég nefndi í síðustu bloggfærslu væri kannski öðrvísi en hún er ef hún byggi í öðru landi þar sem heilbrigðiskerfið væri í molum og hún fengi ekki þá góðu þjónustu sem hún fær hérna.  Við öll treystum mikið á þetta kerfi það er okkar öryggisventill þegar eitthvað er ekki eins og á að vera í okkur.  Það eru því sjálfsögð mannréttindi fyrir okkur að hafa svona góðan öryggisventill gagnvart heilsu okkar.   Það eru ráðamenn og aðrir sem sjá um að halda þessum öryggisventill gangandi og forgangsraða honum, stundum bara finnst okkur forgangsröðin ekki vera á réttu róli og alltaf er eitthvað sem við verðum að borga fyrir sjálf, sem kannski er rétt að við gerum en ekki alltaf þó.  Til dæmis finnst mér að það þurfi að endurskoða samanburðinn á greiðslum á kuðungsígræðslu og tannlækningum-og tannréttingum, eins og ég hef komið að í skrifum hérna.   En annars eru líka alltaf einhverjar raddir uppi um að vel þurfi að stokka í heilbrigðiskerfinu hérna.   Það er heilmargt í okkar neyslusamfélagi sem vel mætti skoða þegar kemur að forvörnum eins og til dæmis það að lækka virðisaukann af frumlyfjum og afnema vörugjöld og virðisaukaskatt af hollustuvörum t.d. sykurlausum vörum, því 500 grömm af gervisykri kosta 698 krónur út úr búð á meðan 2 kíló af óhollum sykri kosta hundrað og eitthvað krónur út úr Bónusbúðinni.   Einnig finnst mér að vel við hæfi að ríkið kæmi að einhverjum hluta með mótgreiðslu til þeirra sem stunda virka líkamsrækt á fullorðinsárum.   Bara svona að nefna þetta aðeins því til langstíma litið er ég nokkurn veginn viss um að þetta allt muni skila sér síðar í líkamlegu heilbrigði okkar og þar með minnka útgjöldin í dýrasta pakkann sem ríkissjóður greiðir í núna. Við erum svo lítið land og því auðvelt að sjá mælanlegan árangur innan nokkra ára.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

Æ nú já, þú líka... ekki gott það, en gerðu bara eins og næringarfræðingurinn segir, hann lýgur sko engu um hvað maður má borða og borða ekki. Þetta er erfitt en það hefst þegar í vanann kemst. kær kveðja

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 29.12.2006 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband