14.12.2006 | 11:21
...allir vinir á jólunum
Tíu dagar til jóla. Maður getur verið stoltur af sjálfum sér að vera búin með tvo þriðju af undirbúningi jólanna. Maður getur því án samviskubits setið hérna og bloggað fárveik. Ég á bara eftir að þrífa hérna rækilega vel, skreyta jólatréð (get ekki beðið eftir því og er ekki ein um það, það er segin saga með fyrsta jólartréð hérna sem var í fyrra) og svo á ég eftir að kaupa jólagjafir handa viðhengjum mínum tveim. Ég baka sko minnst þessi jól, aðalega eitthvað flott að bíta í um jólin helst sykurlaust án þess að viðhengin mín verði þess vör. Hef látið Mylluna eða Kökumeistarann sjá krökkunum mínum fyrir jólasmákökunarti. Ég hef staðið mig eins og hetja þegar ég fer á stórmarkaðina og ekkert smakk fengið mér af konfektinu eða smákökunum sem er í boði, en stóðst ekki mátið að fá mér að smakka paté um daginn sleppti sko alveg rifsberjasultunni (ógisslega sykrað). Maður vill nú varla fá þennan fjórðung sem horfin er af manni þetta ár aftur. Nei, sko aldeilis ekki. Ég er semsagt alveg í fríi og ætlaði að vera svo voðalega dugleg í ræktinni að bæta upp það sem ég sleppti að fara vegna anna við lokaverkefnið í skólanum, en nei, þá fæ ég þessa flensu. Hún byrjaði um það leyti sem ég var að taka mig til að fara í ræktina á þriðjudagseftirmiðdaginn, byrjaði með kuldakasti sem breyttist í hroðalegan hausverk og engar pillur dugðu til. Miðvikudagurinn var bara notaður að sofa og sofa, reyna að rífa þetta af sér til að geta mætt á miðstjórnarfundinn en það brást rosalega illa og núna í þessum skrifuðum orðum er hausverkurinn enn viðloðandi.
Ég get ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægð með niðurstöðuna á miðstjórnarfundi Frjálslynda flokksins sem ég missti af í gærkvöldi. Mér finnst þetta skynsamleg lending, nokkurskonar sátt milli allra og er það vel. Um upphaf deilanna ætla ég sem minnst að tjá mig um en það skiptir í raun engu hvert deiluefnið er, menn og konur í svona stöðu eiga bara ekkert að vera að deila með blaðamenn hangandi fyrir sér sem skrumskæla hvert orð. Ég hef oft verið spurð á meðan þessu stóð með hverjum ég stæði, manni var stundum eins og stillt upp á vegg og krafist svara af manni. Ég er ekkert mikið fyrir að skipa mér í eitthvað horn með hinum og þessum. Það er málefnastefna flokks míns sem gildir og hún er í fullu gildi hvað öllum deilum líður. En hér get ég alveg sagt að Margrét Sverrisdóttir er mín kona, hún er minn mentor í þátttöku minni í stjórnmálastarfi. Það er hún sem prófarkarles allar greinar mínar og ræður án þess svo mikið að breyta efninu á nokkurn hátt, hugsun mín í efnið er það sem gildir. Margréti Sverris kynntist ég fyrst fyrir alvöru þegar ég fékk boð frá félagsmálaráðuneytinu um að taka þátt í námskeiði fyrir konur í stjórnmálastarfi árið 2003. Ég mátti velja mér leiðbeinanda og ég valdi Margréti Sverrisdóttur af þeirri ástæðu að mér fannst og finnst hún enn vera mikill leiðtogi, framsýn með einsdæmum og stendur fast á sínu. Eftir því sem ég kynntist henni betur sá ég að ég hafði rétt fyrir mér. Það er gott að vinna með henni. Hún ver málefnastefnu flokks síns af heillindum og veit alveg hvað hún er að tala um þegar hún þylur yfir stefnuskránna sem og veit nákvæmlega fyrir hvort málefni falla inn í stefnu flokksins eða ekki. Margt í stefnuskrá flokksins lýtur að sjálfsögðum mannréttindum. Hún er líka trú sínu fólki. Þingmenn flokksins hafa verið mjög heppnir að hafa hana sem framkvæmdastjóra sinn þetta kjörtímabil, hún hefur reynst þeim vel og það veit ég. Það hefur mikið mætt á svona litlum þingflokki í öllum þeim málum sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur og farið í ræðustól með. Þeir eru þungaviktarmenn á þingi, þeir eru með þeim afkastamestu í ræðupúlti þingsins og hafa látið mörg mál til sín taka. Frjálslyndi flokkurinn er því engan veginn verður að fá á sig stimpill að vera eins málefna flokkur. Dugnaðarforkar allir þrír til samans. Og já, allir eru vinir á jólunum, ekki satt?
Athugasemdir
þetta er víst að ganga, sit hér eins og gömul tyggjóklessa, með hausverk, nefrennsli og allt. En ég á góð viðhengi líka og á bara eftir að setja upp stofuskreytinguna mína og fara í búðartúr með frúnni!
Bragi Einarsson, 14.12.2006 kl. 11:40
Gott að vita, þá er ég alveg normal....
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 14.12.2006 kl. 15:23
Sigurlín, kærar þakkir fyrir hlý orð í minn garð. Þú veist sjálf hversu mikils ég met þig - enda met ég þig að verðleikum. Þú ert einstök kona og ég hef alltaf dáðst að sjálfstæði þínu, kjarki og greind. Það er ótrúlegt að kynnast því hvernig þú stendur alltaf stolt og berst fyrir rétti þínum og fjölda annarra. Ástæðan fyrir því að ég breyti ekki hugsun þinni við yfirlestur greina sem þú skrifar er einfaldlega sú að hugsunin kemur alltaf skýrt fram. Það er fullkomlega eðlilegt að það þurfi að ,,snurfusa" (eins og við köllum að báðar) lítið eitt ritaðan texta hjá konu sem hefur ekki heyrt mælt mál síðan hún var barn. En það hefur verið sérstök lífsreynsla að kynnast því hvernig þú hefur rutt öllum hindrunum úr vegi og staðið stolt og keik í ræðupúlti á Alþingi og barist fyrir jafnrétti allra þjóðfélagshópa.
Baráttukveðja, þinn vinur Margrét Sverrisdóttir.
Margrét Sverrisdóttir, 15.12.2006 kl. 02:25
Margrét mín, við erum bestar. Við á þing í vor! kveðja Magga
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 15.12.2006 kl. 16:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.