15.3.2007 | 13:14
Hlaðborð
Nú er á Alþingi víða mikið hlaðborð sem ekki sést í endann á að klárist fyrir þinglok. Á hlaðborðinu er einhver ótrúlegasti fjöldi rétta sem bera heiti eins og "kryddlegnir ferskir EES samningar", "beikonvafið trjáræktarsetur", "snöggsteikt stjórn fiskiveiða", "KHÍ og HÍ tríó" og í eftirrétt trónir svo "eldborið minningarstef Jóns Sigurðssonar á ís", svo fátt eitt sé nefnt af þessum áttatíu réttum sem á síðustu sentimetrum dagskrár Alþingis er í dag og enn hafa ekki náðst sættir um þinglok. Miðað við umfang málanna finnst mér raunhæft að þinglok ættu að vera svona síðustu daga fyrir páskafrí.
Í morgun voru til umfjöllunar málefni blindra og sjónskertra eða öllu heldur aðgerðarleysi stjórnvalda í málefnum þeirra, sérstaklega kennslumálum. Hugið að þessu; einn blindrakennari á 160 blind og sjónskert börn hér á landi eins og segir í skýrslunni um menntunarmál blindra og sjónskertra. Þrautarganga blindra og heyrnarlausra fyrir menntun sinni, aðgengi og lífsgæðum virðist engan endi ætla að taka. Táknmálsfrumvarpið er til umræðu í menntamálanefnd í dag og miðað við orð Kolbrúnar Halldórsdóttur í umræðunni um blinda og sjónskerta þá kom hún aðeins að því að stjórnvöld ætli sér líka að bregðast heyrnarlausum eins og blindum því táknmálsfrumvarpið situr fast í nefndinni. Ætla stjórnvöld að hafa það að engu rétt eins og þau hafa lokað augunum við málefnum blindra í áranna rás, svona rétt eins og heyrnarlausir hafa barist fyrir réttindum sínum og tilverurétt fyrir daufum eyrum. Nú er bara spurning hver er blindur og heyrnarlaus í þessu samhengi. Samkvæmt svari menntamálaráðherra á að skipa framkvæmdarnefnd um málefni blindra og sjónskertra. Hver hefur meiri reynslu af nefndarbrölti stjórnvalda undanfarin 13 árin eða lengur en heyrnarlausir? Óekkí, ekki eina nefndina enn, of dýrmætur tími fer til spillis og spurning hvort það sé of stórt mál fyrir þessa ríkisstjórn að hefja framkvæmdir. Hún hefur allavega ekki verið í vandræðum fyrir framkvæmdagleði á hálendinu. Það er auðlind í blindum og heyrnarlausum, jafnhæfileikaríkt fólk eins og allur meginþorri landsmanna. Hver veit nema stóriðja leynist í þessum fötlunarhópum sem og öðrum. Þingi er ekki lokið og enn er tími tækifæranna.
Athugasemdir
Stórskemmtilega skrifað hjá þér :-)
Þrátt fyrir góðar móttökur fer frumvarpið þitt í skúffuna. Þannig er það með mörg mannréttindamál sem hafa komið á borð Sjálfstæðismanna. Björn Bjarnason hafði engan áhuga á réttindamálum trúlausra og vildi ekki standa að frumvarpi um lögskráningu lífsskoðunarfélaga eins og Siðmenntar. Hins vegar hlustuðu þeir á Karl Sigurbjörnsson biskup þegar hann vældi yfir því í áramótaræðu að þjóðkirkjan gæti ekki staðið í þeim sporum að mega gefa saman samkynhneigða. Ríkisstjórnin henti því út viðbótartillögunni um þetta fyrirhugaða frelsi trúfélaganna og fríaði Þjóðkirkjuna ábyrgð. Þetta var og er smánarblettur fyrir bæði Þjóðkirkjuna og ríkisstjórnina.
Svanur Sigurbjörnsson, 16.3.2007 kl. 00:40
Mikið er ömurlegt að heyra þetta....burtu með þessa fávita!!!
Afsakaðu orðbragðið en stundum getur maður bara ekki hamið undrun sína og reiði yfir aumingjaskap stjórnmálamanna sem sjá ekkert nema það snúi að þeirra eigin hagsmunum.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 16.3.2007 kl. 18:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.