Fyrsti dagurinn

Ég sé í athugasemdakerfinu að það er strax komin spenningur á hvernig mér hafi reitt af fyrsta deginum á þingi.  Satt best að segja gekk hann bara vel. Var mætt um tíuleytið í morgun, fór þá með túlkinum sem mættur var að skoða aðstæðurnar og þar fyrir var tæknimaðurinn að leggja síðustu hönd á fjarfundabúnaðinn eða öllu heldur fjartúlkunarbúnaðinn minn.  Það gat ekki hitt betur á svo við prófuðum myndgæðinn og hraðann, aðeins þurfti að stilla hraðann og var það gert.  Eftir það fór ég á skrifstofuna sem mér hafði verið úthlutað í Austurstræti, tölvugúrú þingsins kom og stillti outlokkið mitt og snaraði MSN forritinu inn í tölvuna, tók örskotssund og eftir það var farið að skoða póstinn minn, svara og gera klárt.   Þegar þarna var komið var bara allt í einu komið að matartíma, þangað fór ég og túlkurinn, fiskibollur voru á matseðlinum enda bolludagur landans í dag.  Átti stuttan en góðan fund með menntamálaráðherra eftir matinn og svo var skundað á þingflokksfund.  Meðan þessu tvennu stóð reyndi ég eftir fremsta megni að redda mér túlk með sms-skilaboðum á þingfund kl. 15, það hafðist korteri fyrir þingfund og túlkurinn kom.  Ég var sett inn á þing á þeim fundi.   Sat í mínu sæti við fyrirspurnir dagsins. Tíminn leið hratt og klukkan var orðin 16 þegar túlkurinn fór og þá flýtti ég mér á skrifstofuna, sendi út tölvupóst á alla þingmenn og ráðherra líka með beiðni um að vera meðflutningsmenn á táknmálsfrumvarpinu, prentaði líka út tímana sem búið er að stilla inn túlk fyrir mig.  Kíkti á netfjölmiðlana og svo var bara klukkan allt í einu orðin 17 og ég þurfti að fara í þingsal, þar voru komnir tveir túlkar handa mér.  Við fengum okkur aðeins kaffi og ég notaði túlkana meðal annars til að hringja fyrir mig í börnin og afa þeirra.  Það gekk vel hjá þeim en einna best gekk hjá afa þeirra því hann var að borða bollur þegar ég hringdi, sonurinn var á fullu í stuttmyndagerðinni og dóttirin fór með vinkonu sinni í píanótíma.  Ég lét vita að ég kæmi í kvöldmat og pabbi minn, afi barnanna ætlaði að hafa soðna ýsu, lifur og hrogn í kvöldmatinn.  Fór svo í þingsal og hlustaði á umræður um samgönguáætlun ríkistjórnarinnar til ársins 2010. Vegakerfið um allt land mun án efa taka miklum stakkaskiptum næstu árin, bæði til sjós og lands, jarðgöng hér og þar, gott mál fyrir alla landsbyggðina og öryggi á vegum landsins og þetta allt kostar jú sitt, þannig séð verður að vanda til verksins.

Ég er mjög hrifinn af veginum yfir Kjöl, ég trúi að hann verði mikið notaður svo framarlega sem hann verður vel gerður og viðhaldi á honum sinnt, og eins að hann sé vel malbikaður. 

Svona var fyrsti þingdagurinn… ég veit ekki hvað ég get mikið lofað ykkur að ég skrifi hérna dagsdaglega um hvað ég geri á þingi svona nákvæmlega, nóg mun ég hafa að gera á næstunni og þann tíma ætla ég að nota vel.  Maður er svona hálfdasaður hérna og fyrir framan mig eru börn að gera sína heimavinnu.

Það skal þó alveg segjast eins og er að það er dásamlegt að vera komin aftur á þing, það er alltaf jafnlærdómsríkt og mikil upplifun er að vera með í ákvarðanatöku á Alþingi.  Maður er að feta hinn breiða meðalveg og finna ásættanlegar lausnir sem landsmenn munu án efa njóta síðar.  Maður leggur vilja sinn og sannfæringu á vogarskálarnar í ákvarðannatöku, maður verður að vera viss um að maður sé að gera rétt og trúa því að ein lausn sé betri en aðrar.  Maður er þarna inni, einn af þessum 63 þingmönnum sem þjóðin hefur valið sér.  Hvert atkvæði er fræ sem síðar mun fá að blómstra í ákvörðannatöku um lög þessa lands okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Sigurlín Margrét Sigurðardóttir.

Mér fannst mjög skrýtið þegar þú segist hafa skundað á þigflokksfund?

Hvaða þingflokksfund varst þú að sækja var það hjá Sjálfstæðismönnum eða hvaða stjórmálaflokk fórstu á þingflokksfund það væri mjög athyglisvert að fá að vita það? Það getur ekki verið hjá Frjálslindarflokknum vegna afsagnar þinnar var það ekki rétt hjá mér.

Með bestu kveðju.

Jóhann Páll Símonarson

Jóhann Páll Símonarson (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 23:48

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Falleg lokaorð hjá þér.  Til hamingju með þetta.  Nú er bara að fá frumvarpið í fulla "aksjón".  - Kveðja, Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 20.2.2007 kl. 00:01

3 identicon

Sæl og blessuð Sigurlín..
Það er frábært að lesa að allt hafi gengið vel. Ég vona svo sannarlega að frumvarp þitt komist alla leið. Ég hef lengi haft áhuga á táknmáli og ætla mér einhvern daginn að læra það. Gangi þér.. 

Kjartan Vídó (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 07:43

4 identicon

Mig langar nú bara að minna á að greinaskil eru vinir allra skrifandi manna.

Skil svona bendu hjá ómálga unglingum á blabla og skyldum síðum.

Ég nennti t.d. ekki að lesa þetta allt. Mögulega er ég að missa af merkisskrifum vegna þess.

Ívar (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 12:35

5 identicon

Til hamingju elsku Magga mín! Ég er svo stolt af þér, þú stendur þig eins og hetja :)

Bið að heilsa afa og krökkunum, hefði alveg verið til í að fá mér ýsu með ykkur í gær!

Kveðja, Dagbjört

Dagbjört Ólöf Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 14:02

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Til lukku með þetta Sigurlín Margrét mín.  Gott að vel gengur. 

Ég vil samt ítreka spurninguna sem kom hér fram í upphafi.  Ég hélt að þú værir óháður þingmaður.  Á hvaða þingflokksfund fórstu ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.2.2007 kl. 16:28

7 Smámynd: Jón Svavarsson

Hvaða hvaða, hún hefur áreiðanlega farið á óháðan þingflokksfund, það breytir ekki öllu, því mest um vert er að henni takist ætlunar verk sitt sem er mikið brýnna en einhverjar hártoganir og orðaskak. Til hamingju með þennan fyrsta dag í einu elsta leikhúsi heimsins, Alþingi Íslands.

Jón Svavarsson, 20.2.2007 kl. 17:23

8 identicon

Já það væri gaman að vita á hvaða þingflokksfund þú hefur farið á.
óháður þingflokksfundur?? Jón....þú veist betur en það...var hún þá bara ein á þeim fundi??? enda eini óháði þingmaðurinn á þingpöllum núna.

Sigurlín, það væri gaman að þú svaraðir þessum spurningum um á hvaða þingflokksfund þú hefur farið þá?

kveðja
Benedikt Sigurðsson

Benedikt Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 19:41

9 Smámynd: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

Sæl

Mér líkar forvitið fólk og spurningar ykkar eiga fullan rétt á sér, sossum ekkert leyndarmál, ég bara gleymdi að geta flokksins, nokkuð viss um að þið fyrirgefið mér það enda voru tugabrot dótturinnar mér ofarlega í huga við skrifin.  Ég svara ykkur eins og ég svaraði einum fjölmiðli.  Það er bara svona:

Ég kem inn fyrir Gunnar Örn Örlygsson þingmann sem er í Sjálfstæðisflokkinum.  Ég er óháður þingmaður en þeim fannst eðlilegt að ég sæti þingflokksfundi og buðu mig velkomna á þá.  Það geri ég í fullri sátt við mig og er velmeint af Sjálfstæðismönnum. Þetta er líka það stuttur tími og það er alveg fyrirsjáanlegt að ég komst nú varla á alla þingflokksfundi vegna vöntunar á túlkum, þannig séð finnst mér seta mín á þingflokksfundi ekki skipta svo miklu höfuðmáli meðan ég er hérna.   Forysta Sjálfstæðisflokksins gerir sér alveg ljóst að ég er óháður þingmaður.  Bestu kveðjur

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 20.2.2007 kl. 20:45

10 identicon

Heil og sæl Sigurlín Margrét Sigurðardóttir.

Mikið er gaman þegar kona sem stendur fyrir sýnu þorir að segja satt og rétt frá Enn eitt vil ég segja þér það er ekki rétt hjá þér að þetta sé forvitni heldur var rétt ákvörðun hjá þér ef þú vilt ná þínu fram. Það er mín skoðun að þú sem kona átt að ganga formlega í Sjálfstæðisflokkinn þar mun þér vegna betur og átt þar heima heldur enn í öðrum flokkum. Þetta er mín afstaða til þín. Að lokum ég mun bíða og sjá hvort af þessu verður.

Með þakkar kveðju til þín fyrir virðingu og traust.

Jóhann Páll Símonarson

Jóhann Páll Símonarson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 23:34

11 identicon

"Meðan þessu tvennu stóð reyndi ég eftir fremsta megni að redda mér túlk með sms-skilaboðum á þingfund kl. 15, það hafðist korteri fyrir þingfund og túlkurinn kom"

Þarftu að redda túlk sjálf, á alþingi ekki að sjá þér fyrir túlk?

Gangi þér gamla vinkona, sérstaklega með táknmálsfrumvarpið.

Kveðja Halldóra Traustadóttir

Halldóra Traustadóttir (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband