5.2.2007 | 13:33
Á hvert nef!
Ég las frétt á ruv.is að setja eigi nefskatt á hvert nef að borga fyrir RÚV. Enginn verður undanþeginn frá greiðslu, en áður var miðað við að bara þeir sem greiddu tekjuskatt greiddu nefskattinn. En nú eiga allir að borga hann. Sem sagt allir borga allir fá aðgengi sínu að fjölmiðlinum fullnægt. Verður það svona? Sé svo þá er vissulega tími fyrir mig og aðra heyrnarlausa/heyrnarskerta að hlakka til framundan. Textun verður stórefld og þeir þættir sem nú eru ekki textaðir verða textaðir. Mér finnst það liggja morgunljóst fyrir að fullt upplýsingaraðgengi verður að þessum fjölmiðli þar sem hvert einasta nef á að borga. Ef ekki, þá er þetta bara klóríhaus dæmi sem byggist á ójöfnuði og kallar enn meiri nauðsyn þess að lög verði sett á alla fjölmiðla að texta allt innlent sjónvarpsefni sitt.
Í dag er 5. febrúar, ég staldraði við eitt augnabliki þegar ég sá hvaða dagsetning var. Þessi dagur hleypur stundum frá mér en núna í morgun mundi ég hann. Það eru nákvæmlega 35 ár síðan ég missti heyrnina. Þennan dag árið 1972 gerðist það. Ég var 7 ára og átti um 2 mánuði í að verða 8 ára. Ég man vel eftir honum, jafnvel þó ég hafi verið í svolitlu móki og með háan hita. Minningarbrotin byggjast aðeins á hljóðum, þeim síðustu og svo mest á sjónminninu. Veðrið á þessum degi var svipað og í dag, sól, stilla, frost og mikill snjór yfir öllu. Miklu meiri snjór en er núna, alvöru skaflar sem hægt var að búa til almennileg snjóhús úr, hafa þau í nokkra daga og ylja sér inní þeim með kerti. Ég man eftir komunni á spítalann, man eftir þegar ég var sett á bekk í læknaherbergi og þögn yfir öllu, samt var mikið af fólki í kringum mig sem var mikið að stússast og varirnar á öllum hreyfðust ótt og títt. Mamma mín og pabbi sátu frammi á gangi og biðu átekta hvað læknarnir gerðu. Það var bara svona á þessum tíma. Sem betur fer er allt annar bragur á öllu svona í dag þegar barn veikist.
Athugasemdir
Eru ekki lægri afnotagjöld fyrir aldraða og öryrkja í dag?
Þetta verður örugglega útfært sem eyrna/augnskattur þ.a. þeir sem eru líkamlega ófærir um að "njóta" RÚV fá afslátt...
Einar (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 14:10
Ég vil og veit um fólk sem frekar vill fá að njóta alls sem í boði er í innlendu sjónvarpsefni, heldur en að láta stofnunina gefa sér afslátt.
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 5.2.2007 kl. 14:31
Hvað fyrir partinn varðar, þá get ég tekið undir þetta að einhverju leiti, m.a. fyrir eldri borgaðra og þá sem hafa áhuga á RUV, þ.e. allri dagskránni (heyrnaskerti/sjónskertir eru í þessum pakka) T.d. ég og f´ruin, við horfum á örfáa þætti á RUV og er teljandi á fingra annarar handar þeir þættir sem horft er á hér á þessu heimili. Við eigum 3 börn, 14, 16 og 20 og þau hafa sko alls engan áhuga á Ruv, nema Eurovision, (stelpan og kannski við hjónin) Þegar lögin taka gildi mun gjaldið á heimilið hækka umtalsvert vegna þess að börn eru mun lengur heima en áður og mun gjaldskráin ekki bara hækka um helming, heldur fjórfallt meira en núverandi gjaldskrá! Og því er ég sáttur við þessa hækkun! Textun á íslensku efni ætti að vera sjálfsagt mál og skil ég ekki hvers vegna það ætti að vera svo dýrt. Nógu miklu er eytt í að talsetja vonlaust barnaefni!
Bragi Einarsson, 5.2.2007 kl. 17:40
Hvað seinnipartinn varðar, ég get ekki gert mér í hugalund þá upplifun að þurfa að missa heirn á unga aldri!!
Bragi Einarsson, 5.2.2007 kl. 17:41
Já lausnin felst ekki í því að gefa öllum þeim (heyrnarskertir, útlendingar) sem ekki geta nýtt sér hljóð afslátt. Jafnrétti og jöfnuður felst í því að koma til móts við þarfir minnihlutahópa þó að það kosti okkur hin aðeins meira. Á því byggir t.d. allt heilbrygðiskerfið - samtrygging fyrir alla. Það er skylda ríkisrekins fjölmiðils að sjá um slíkt sé tæknin fyrir hendi. Það er ekki skylda RÚV að standa í samkeppni um erlenda framhaldsþætti. Það mætti skera niður í ýmsu og setja inn texta á margt íslenskt efni. Best væri í digital útsendingu að hægt verði að velja á milli þess að hafa textann eða ekki.
Bólusetning við heilahimnubólgum (geri ráð fyrir að það hafi verið orsökin) af völdum H. influenzae bakteríunni hefur nú útrýmt þeirri skæðu sýkingu sem m.a. gat valdið heyrnarleysi. Þá er einnig byrjað að bólusetja gegn N. Meningococci en sú baktería veldur örkumlun eða dauða á fáeinum klukkustundum. Þrátt fyrir að tilfellin hafi verið innan við 5 á ári hverju hefur þessi bólusetning mikið gildi. Það er sorglegt til þess að vita að í hverju heilsugæslusvæði eru nokkrir foreldrar sem hafa látið glepjast af erlendum "sérfræðingum" sem segja bólusetningar hættulegar. Takk fyrir að deila sögu þinni með okkur Sigurlín Margrét.
Svanur Sigurbjörnsson, 5.2.2007 kl. 19:47
Afsakið - það átti ekki að vera "y" í "heilbrigðiskerfið" -
Svanur Sigurbjörnsson, 5.2.2007 kl. 19:48
Mikið rétt í þessu hjá þér Svanur um textunarmálin. Ef við myndum þyggja afslátt værum við í raun að gefa stofnuninni afslátt á gæðum útsendingar á efni sem á að þjóna öllum.
Rétt til getið með heilahimnubólguna og ég er bara alveg hlessa að til séu foreldar sem þora eða öllu heldur voga sér að neita sjálfsagðri bólusetningu á barni sínu til varnar þessum skæða sjúkdómi. kveða SMS
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 5.2.2007 kl. 22:31
Já þetta er fínt, þá þarf maður ekkert bókstaflega að borga. Þetta er í raun enþá betri niðurstaða því að nú geta þeir enþá sem absolut hafa engann áhuga á að borga, komist upp með það.
Johann (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 06:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.