16.1.2007 | 16:19
Hann var laminn
Í kjölfar frétta af nýútkomnum grunnniðurstöðum um kynferðismisnotkun á heyrnarlausum hafa verið tekin viðtöl við fórnarlömb kynferðisofbeldsins. Til að mynda var tekið viðtal við heyrnarlausan mann á Stöð 2 í laugardagskvöldfréttunum. Umræddur maður talaði um kynferðisofbeldi á sér, einnig talaði hann um líkamlegt ofbeldi á sér af hálfu starfsmanns skólans á þessum tíma. Maður verður að staldra hérna aðeins við og hugsa hvort líkamlegt ofbeldi á börnunum sé ekki tilefni til þess að lögregla taki við sér og hefji rannsókn, jafnvel þó svo langt sé liðið frá brotinu. Saksóknari myndi svo skoða málið og kæra sjái hann færi á því. Ég er líka nokkuð viss að þessi umræddi maður sé ekki sá eini sem var lamin af opinberum starfsmanni á þessum tíma.
Sjálf var ég nemandi í skólanum á þessum tíma og þegar ég lít til baka til veru minnar þarna í heimavistinni og skólanum, þá verður það að segjast eins og er að starfsfólk hafði mjög lítið álit á viðfangsefnum sínum sem þeim var treyst fyrir í opinbera starfi sínu. Börnin voru óþekk og illa alandi, hlustuðu ekkert á leiðbeiningar kennara og starfsfólks! Svo til að kóróna þetta allt var þeim ekki trúað á raunastundum, þau sögð dónaleg eða eitthvað í þá veru, eins og komið hefur fram í viðtölum við fórnarlömb. Á þessum tíma var líka ekkert farið að taka upp umræðu um kynferðisofbeldi hérlendis. Svona mál áttu bara heima undir teppinu fræga eða í lokaða kústaskápnum. Ég man eftir einu tilfelli þar sem ég var beðin af öðrum nemenda að ganga á fund skólastjórenda og kvarta yfir ákveðnu máli sem ég ætla ekki að tíunda hérna. Ég gerði það og uppskar háð og langan fyrirlestur fyrir að vera svona vitlaus að trúa þeim. Já, það hefði raunar verið kraftverk ef skólastjórinn hefði staðið upp og tekið á málinu eins og gert er í dag. Þetta umrædda atvik situr svolítið í mér enn í dag. Hefði ég barist um að eitthvað yrði gert þá hefði ég verið sögð óþekk og mögulega send heim, það hafði nú gerst af minna tilefni en þessu. Ég hef líka rifjað eitt og annað upp með sjálfri mér, ekki bara núna þegar þetta er til umræðu. Eitt af því er að í skólann kom nefnilega læknir í hverri viku, það var fastur punktur í skipulagi heimavistarinnar að börnin færu til hans á fimmtudögum kl. 18, fóru þá í röð og eyrnamergur sem heyrnartækin ollu skafaður úr. Þessi læknir hafði líka umsjón með líkamlegu heilbrigði nemenda. Var þarna í opinberum erindagjörðum. Tók hann ekki eftir neinu? Hann kunni ekkert táknmál heldur og gat ekkert talað við börnin. Maður spyr kannski stórra spurninga núna, stóra spurningin er hinsvegar hvort maður fái svör.
Athugasemdir
Aldrei!
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 16.1.2007 kl. 19:51
Fyrrum vinnufélagi minn átti á níunda áratugnum dóttur sem var þarna og heyrði ég ávæning af kynferðislegri misnotkun. Hún fyrirfór sér.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.1.2007 kl. 22:00
glæpur að ekki verður neinn dæmdur fyrir öll þessi voðaverk
Ólafur fannberg, 16.1.2007 kl. 22:47
Þú ættir að fara varlega í svona kjaftagang Heimir... það hefur enginn heyrnarlaus fyrirfarið sér sem fæddur er á 9 áratugnum.
Elsa (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 22:47
Já ég er sammála Elsu að það hefur enginn heyrnarlaus fyrirfarið af kynferðislegri misnotkun.
Guðrún, 17.1.2007 kl. 09:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.