27.12.2006 | 13:01
Home Alone 2
Þá er fyrsta og æðsta stigi jólanna lokið. Ég vona að þið hafið notið þeirra jafnvel og ég. Ég eyddi þeim við einhverjar mestu lúxusaðstæður sem hver heilög húsmóðir gæti hugsað sér, nefnilega undir sænginni minni og ef ég var þar ekki þá fyrir framan sjónvarpið og er víst búin að vera í góðu vinfengi við fjarstýringuna þessa þrjá daga. Á aðfangadag laumaðist ég aðeins út í jólamat og kom heim dulítið máttfarin eftir átökin við jólasteikina á skikkanlegum tíma til að opna pakkana mína. Þetta byrjaði allt á aðfangadag, var reyndar búin að finna aðeins fyrir því fyrr og jafnvel láta líta á mig þegar ég fór í blóðsykurmælinguna tveim dögum fyrir jól og fékk þá úr því skorið að ég væri með smásnert af lungnabólgu og send heim með lyf. Nú er ég aðeins betri, börnin komin heim og fjarstýringin skilin við mig. Eitt er skemmtilegt að segja frá sjónvarpsáhorfi mínu þessa daganna. Ég horfði alein heima á Home Alone 2, svo sem ekkert frásögu færandi nema hvað að það glittir aðeins í mig þarna í lok myndarinnar. Ég nefnilega var ein á rölti þarna í New York á þessum tíma og fyrir einhverja einskæra tilviljun var ég allt í einu komin í upptöku á Home Alone 2 fyrir utan Plaza hótelið. Skrýtið að horfa á þetta allt saman, jólatréð í Rockfellerinum var eins og ég sá það á þessum tíma. Jafnvel ég gat fundið fyrir kuldanum þarna. Eftir upptökuna gekk ég inn á Plaza hótelið bara til að skoða, gólfið þar var allt í leiðslum og snúrum og menn voru í óða önn að taka saman eftir sig, ég hlýt að hafa verið mjög aðstoðarmannaleg þarna á rölti mínu því einn karlinn benti á mig og snúru þarna rétt hjá og gaf bendingu að ég ætti að taka hana saman, sem ég og gerði og rétti honum og hélt bara leiðar minnar áfram í skoðunarferðinni. Ég tók myndir af aðstæðum þarna en mátti ekki taka myndir inni á Plaza hótelinu, ég náði smámynd af aðalleikararnum Culkin, þær eru á góðum stað í órafrænu albúminu mínu. Þetta var mjög fyndið á sínum tíma. Svo mörgum árum seinna kem ég í heimsókn til systur minnar, hún er að horfa á þessa mynd með veikan son sinn. Yngsti bróðir minn er líka þarna. Ég sest niður hjá þeim horfi með og segi svo á réttu augnabliki: þarna er ég! hva, hva og hvaða? Já þú ert þarna nei þarna sko segi ég og bendi á sjónvarpið.. sko ég er í myndinni, þarna *spól til baka* mynd sett á stillimynd.. Þarna! geðveikt augnablik, fyrst þögn og svo skellihlátur.
En jæja, maður man þetta alltaf þegar maður rekst á þessa mynd, hún er sígild og alltaf hægt að hlæja að henni aftur og aftur.
Ég rétt aðeins skrapp í kirkju á annan í jólum. Fór í árlegu jólatáknmálsmessuna hjá Kirkju heyrnarlausra. Kirkja heyrnarlausra er 25 ára um þessar mundir. Gestir voru fjölmargir og verð ég að segja að kirkjusóknin var með mjög alþjóðlegum blæ því þarna meðal okkar voru komnir margir heyrnarlausir nýbúar sem sest hafa að hérna á árinu. Það var því margt og mikið rætt með jólakaffinu eftir messuna.
Bara smá skrif núna, fleira á eftir að koma á næstu dögum.
Athugasemdir
Ég vissi ekki að þú værir svona fræg Home Alone 2 er ein af fáum framhaldsmyndum sem gáfu frumgerðinni ekkert eftir. Það er þó leiðinlegt að hún fær bara 5.1 í meðaleinkunn á www.imdb.com Yngri kynslóðinni (undir 18) finnst hún þó skemmtilegri og gefa henni 5.7-6.3 Ég held að sífelld endursýning myndarinnar segji meira um hana en þessar einkunnir. :-)
Svanur Sigurbjörnsson, 27.12.2006 kl. 15:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.