16.12.2006 | 14:01
...samkeppni hvað?
Ég minntist aðeins hérna í skrifum á að Samkeppniseftirlitið hefði ekki komið með niðurstöðu frá Hröðum Höndum í máli þess að skoðað verði hvort Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefði brotið á 14. grein samkeppnislaganna. Málið hefur legið á borði þeirra síðan í febrúar 2005. HH fannst sem sagt SHH sem er ríkisstofnun einoka alla túlkaþjónustu. Hvað sem kom til að þeir þarna í Samkeppniseftirlitinu tóku við sér þá er úrskurðurinn komin og það þó löngu sé komið yfir þann tíma sem þeir taka sér í svona málum. Í stuttu mál sagt hljóðar úrskurðurinn við fyrstu sýn að SHH ein megi aðeins annast túlkaþjónustu og sú eina sem megi taka við sérstöku fjárframlagi frá ríkinu fyrir þá þjónustu sem hún veitir. Önnur fyrirtæki á þessu sviði verða sem sagt að gera sér að góðu að fá ekkert fyrir vinnu sína og eiga ekkert að vera að hafa fyrir því að vera í einhverri samkeppni við ríkisbankið sem eitt hefur einkarétt á veitingu þjónustunnar. SHH eitt og sér hefur og á yfirburðarstöðuna á þessum markaði og enga frjálsa samkeppni við ríkisbankið sem sagt er víst niðurstaðan. Það er merkilegt að skoða þetta en Samkeppiseftirlitinu finnst ekkert meira þurfi að skoða þetta mál frekar og ætlar ekkert að aðhafast meira í málinu eru sem sagt lokaorðin. Til hvers er Samkeppniseftirlitið annars? Hvað segði fólk ef aðeins ein sjúkraþjálfunarstöð mætti ein taka við greiðslum frá ríki fyrir þjónustu sína? Önnur sambærileg fyrirtæki á sviði sjúkraþjálfunar ættu bara að gera sér að góðu að fá ekki neitt fyrir þjónustu sína úr ríkissjóði þó svo notendur eigi rétt á velja hvar þeir sæki þá þjónustu. Með þessari niðurstöðu er Samkeppniseftirlitið líka að hunsa vilja og val notenda táknmálstúlka, setja þeim skorður að fá sér bara túlk hjá SHH og hvergi annarsstaðar. Má þetta? Hvað heitir nú aftur orð yfir þetta mismunun? Ljótt ef satt er. Annars er lesningin svo ruglingsleg að það sé eins og það skipti einhverju máli hver hafi komið á undan, samkeppnislögin, stofnun SHH og lagasetning þess eða þá HH. Ég er bara ekki alveg að skilja þetta, það vefst greinilega fyrir öllum hvor hafi komið á undan hænan eða eggið.
En sko, ég útskrifast í kvöld úr NTV skólanum, skrifstofu og tölvunámi. Ég fór í þetta nám til að verða mér út um prófskirteini að ég kunni að fara með tölvur svo ég gæti sýnt atvinnurekendum að ég myndi standa mig vel við tölvurnar þeirra og vera voða góð við þær. Svo er þetta nám líka metið til 13 eininga og er það bara mikill kostur. Og þegar upp er staðið útskrifast ég núna sem bókari, er það ekki bara sniðugt. Ekki löggiltur en þó eitthvað, allavega á ég að vera fær á Navision og þá vitið þið það ef ykkur skildi kannski detta í hug að vilja ráða bókara. Ég er víst líka ansi talnaglögg og fyrir tíma debetkortana vann ég í Landsbankanum, taldi alla formúguna sem kom í næturhólfið þar í bæ, skráði allt samviskulega og lét stemma debet og kredit alveg á núlli. Einu sinni gerðist það að 20 krónur vantaði og alltaf munaði 20 krónum, ég get svarið að þessar 20 krónur hafa eitthvað dottið af borðinu og endað hjá skúringarkonunni eða eru jafnvel enn einhverstaðar undir gólffjölunum þarna, en hjartað í mér var alltaf lafmótt við þessar 20 krónur sem vantaði og að lokum til að losna við frekari óþægindi þá bara tók ég úr mínu veski 20 krónur og lét þetta stemma á núlli það sem eftir var. En þegar maður hugsar í dag og meira en 20 árum síðar hvað ætli þessar 20 krónur séu mikið að raunvirði núna og þetta var fyrir tíma einkavæðingarinnar, bankinn hefur vaxið með einsdæmum sem frægt er og um það hafa verið skrifað mikið um svo maður tali nú ekki um einkavæðingu bankanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.