25.11.2006 | 12:10
Garðabær 30 ára
Á þessu ári er bærinn minn Garðabær að fagna 30 ára afmæli sínu. 30 ár eru síðan bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Garðabær er ört vaxandi bæjarfélag og hefur á síðustu 10-20 árum verið afar hröð uppbygging hverskonar. Byggð hafa verið mörg hús og íbúum hefur fjölgað hratt. Atvinnulífið hefur einnig tekið örum vexti og má þar nefna landsvæðið Kauptún, en þar mun á næstu árum rísa hverfi fyrir stórar þjónustu- hátækni og iðnaðarbyggingar. Nú þegar er IKEA staðsett þar og Max.
Garðabær er nú í dag sjötta stærsta bæjarfélagið á landinu með um 9000 íbúa og ört vaxandi, metnaðarfullur bær sem ætlar sér stóra hluti því áætlað er að árið 2036 verði íbúarnir orðnir 20.000. Mér finnst mjög gott að búa í Garðabæ allavega þau 12 ár sem ég hef búið þar og er stolt af allri þeirri uppbyggingu sem hefur orðið í bænum og það vel. Ég hef stundum látið til mín taka ef eitthvað finnst mér hægt að gera betur og til að mynda á ég einn stað í bænum þar sem komið var á þrengingu í götunni til að hægja á hraðanum eftir ábendingu frá mér. Þá götu sé útúr glugganum hjá mér og horfi oft á bílana fara um þrenginguna, stoppa með hægð leyfa öðrum bílum að fara í gegn og fara svo sjálfir í geng. Vegfarendur yfir götuna eru þar með miklu öruggari en var. Hér er mikið af útivistarsvæðum með góðum gönguleiðum, ég hef gengið þær flestar, hrifnust er ég hinsvegar af gönguleiðinni við Vífilstaðavatnið og hef ég oft gengið þann hringinn, jafnvel einu sinni tvisvar í sama rúntinum. Á þeim göngum hafa oft orðið til ansi margir pistlarnir eða greinar, einn rösklegur göngutúr er góður brain-stormari.
Íþróttafélag bæjarins ber flott og mikið nafn; Stjarnan. Sonur minn æfir þar handbolta og núna um helgina er hann að keppa á móti. Seinnipartinn í dag og fram á kvöld mun ég eitthvað vinna í foreldrastarfinu í tenglsum við mótið í Mýrinni. Það er gaman að sjá þessa ungu pilta keppast um boltann, sinna honum og eiga sínar góðu og slæmu stundir með honum, allir keppast að því sama að gera miklu miklu betur en síðast og vera bestir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.