Sóknarfæri ...

Hér í Garðabæ var borið í hús bréf eitt.  Svo sem ekkert merkilegt að bréf berist hingað en þetta fékk mann aðeins til að staldra við og huga að því hvað sé eiginlega að gerast í skólunum hérna á svæðinu, sem sagt skóla barna minna.   Bréfið bar yfirskriftina “Hlutlausa skóla, takk!”  Bréfið byrjaði á að bera saman tvær leiðir sem heita Félagaleiðin og Vinaleiðin.  Félagaleiðinni stjórnar komminn og er tengiliður á milli uppeldis, menntunar og stjórnmálalífs.   Vinaleiðinni stjórnar djákni og er tengiliður milli uppeldis, menntunar og trúarlífs.  Í stuttu máli sagt er það einmitt Vinaleiðin sem er umdeild hér í skólalífinu í Garðabæ og orðin staðreynd.  Þessi Vinaleið er á vegum þjóðkirkjunnar og hefur nú verið hleypt inn í grunnskólana og þar er djákni og prestur með skrifstofu og viðveru einn dag í viku.  

 

Samkvæmt lögum um grunnskóla segir að markmið náms og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúbragða eða fötlunar. (VI. Kafli, 29. gr.).

 

Í aðalnámskrá grunnskóla segir meðal annars að mikilvægt sé að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum t.d. neyslu- og lífsvenjur.  Þetta á sérstaklega við um trúar og lífsskoðanir (bls.51).  Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun…  (bls 9).

 

Í siðareglum kennara segir að kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða. (nr. 3).

 

Álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna:

Norsk stjórnvöld brjóta trúfrelsi almennra borgara með því að stunda trúboð í skólum, svo sem með því að láta börn læra og fara með bænir, syngja sálma og trúarleg lög, taka þátt í trúarathöfnum, fara í skoðunarferðir í kirkjur, vera með trúarlegar yfirlýsingar, lita eða teikna trúarlegar myndir, taka þátt í helgileikjum og láta þau taka á móti trúarlegu efni s.s. Biblíu eða Nýja testamentinu (15. nóv 2004).

 

Biskup Íslands Karl Sigurbjörnssson hefur lýst Vinaleiðinni sem stórkostlegu sóknarfæri kirkjunnar.  Vegna kvörtunnar um að hér væri trúboð aftók hann það í Fréttablaðinu 10. okt. sl.  Það er þá í fyrsta skipti í sögunni sem vígðir menn kirkjunnar eiga ekki að boða fagnaðarerindið í störfum sínum.

 

Skólastjórar, kennarar og skólanefnd bera ábyrgð á því að mörgum, sem aðhyllast ekki kristna trú, sárnar og er misboðið vegna trúarstarfs í grunnskólum.

 

Á Íslandi er lögboðið trúfrelsi en trú manna er einkamál, rétt eins og stjórnmálaskoðanir.  Almennur skóli á að vera hlutlaus í slíku – annað er óréttlæti og mismunun óháð því hversu stór hluti aðhyllist þá hugmyndafræði sem yfirvöld eða skólinn hefur kosið að hleypa að. 

 

Ég get ekki annað en verið sammála því sem stendur í bréfinu að Vinaleiðin á ekkert erindi í grunnskóla barna minna eða annara.  Skólinn á að vera hlutlaus fræðandi barnanna og kenna þeim á gagnrýna hugsun, en ekki boða rétttrúnað, hvorki í trúmálum né stjórnmálum.

 

Mér finnst kristin trú að mörgu leyti hafa fallegan boðskap og í aðalnámskrá er kveðið á um fjölda kennslustunda í kristinfræði (trúbragðafræði) en Vinaleiðin er greinilega viðbót við það og tel ég hana ekki eiga að vera á skólatíma.  Vilji foreldar á annað borð að börn þeirra fái meiri trúarlega fræðslu þá er það á ábyrgð þeirra að fylgja þeim í kirkju og taka þátt í kristnu kirkjulegu starfi í sinni heimakirkju. 

Þess vegna vil ég hafa hlutlausan skóla fyrir börnin mín.

Þetta mál þarf því að skoða vel af nærgætni.

 

Það er líka umhugsunarefni hve íslenskt samfélag er breytt og nú búa hér margir nýbúar sem hafa aðra trú en meginþorri fólks almennt hefur hérna.  Þá er ég að tala um múslimatrú, gyðingatrú, kaþólska trú og önnur trúarbrögð sem til eru og komin til að vera hérna.  Skólarnir halda Litlu jólin hátíðleg síðasta dag fyrir jólafrí og allur desembermánuður fer í að undirbúa jólin, leika Jesú og Maríu, búa til marga hluti sem tengjast jólunum á einn og annan hátt. Það eru nefnilega ekki öll börn í skólanum sem aðhyllast sömu trú, jólavenjur og siði sem við íslendingar höfum haft í mörg ár og myndað okkur hefð um.  Það á ekki að skipta neinu máli hvort þau börn séu í minnihluta, þeim sárnar kannski og finnst sér misboðið.  Nú er komin tími til að staldra aðeins við og íhuga hvort ekki eigi að breyta þessu aðeins og hafa til dæmis almenna hátíð þar sem allir geta tekið þátt í  áður en haldið er í jólafrí.  Mörgum finnst þetta kannski svolítið viðkvæmt og erfitt að breyta útaf venjunni en ég held að allir verða að sýna öðrum trúarbrögðum umburðarlyndi og ekki má gleyma því að trú er einkamál hvers og eins.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband