16.10.2006 | 15:47
Berskjölduð
Nokkuð liðið síðan hérna var párað síðast. Ég skrapp í sumarbústað um helgina, rólegt í rigningunni þar skulum við segja, það stytti þó stundum upp. Ein rjúpa var á vappi við bústaðinn, hún var eiginlega komin í snjófelubúninginn sinn. Nú er hún sennilega alveg berskjölduð fyrir veiðimönnum með byssur upp á heiði og getur sig hvergi varið því snjórinn hefur ekki látið sjá sig á hennar slóðum. Hún var líka ansi spök og smellti sonur minn mynd af henni sem þið fáið að sjá hérna.
Annars var umræðuefni þarna í bústaðinum meðal annars boðaðar matvörulækkanir sem ríkisstjórnin ætlar að framkvæma í mars á næsta ári og sennilega allir í óðaönn að undirbúa sig fyrir það fyrirbæri sem í raun á að vera gleðiefni á flestum heimilum. Það fóru hinsvegar að renna á okkur tvær grímur þegar við fórum að pæla aðeins betur í þessu. Málið er að matvörur sem eru sykraðar og/eða stimplaðar sem óhollusta lækka ekki. Matur í niðursuðudósum er niðursoðin og oftast er notaður sykur við niðursuðuna, þannig að álítum að til dæmis maískorn í dós muni ekki lækka neitt að ráði. Mjólkurvörur innhalda vel flestar mjólkursykur spurning um lækkun en þetta er nú allavega landbúnaðarvara. Kartöfluflögur, munu þær lækka? Eru reyndar stimplaðar óhollusta á hæsta en þær eru búnar til úr kartöflum sem eru landbúnaðarvara. Líka spurning mun sykurlaust kók lækka en ekki kók með sykri? En við höldum að þessi vinsæli drykkur muni ekki lækka neitt og er það svo sem ekki mikill missir. Mikið af kexi er reyndar sykrað, sú kextegund sem er alveg sykurlaus er vandfundinn jafnvel hægt að finna hrökkbrauð með sykri. Þannig að kexið mun ekkert lækka enda líka óhollusta. Er ekki komin tími á West-Ham sykurlaust kex? Verði það að veruleika mun það án efa samt sem áður verða flokkað til óhollustu, enda kex alltaf kolvetnisprengja með afbrigðum. Jafnvel morgunkornið lætur mann verða kjaftastopp þegar kemur að lækkun á þeim vöruflokki. Mörg hver morgunkornin eru sögð holl og góð en í þeim er sykur að finna, meira segja þessu K sem sagt er að komi línunum í lag. Þannig að tilhlökkunin í matvöruverðslækkunina liggur í því hvernig ríkisstjórninni tekst að útfæra lækkunina þannig að hún skili sér til neytenda. Hún hefur allavega rúma fimm mánuði til stefnu að útfæra matvörulækkunina- spennandi verður að sjá þá útkomu. Þetta er dæmigert klór-í-haus dæmi. Maður er eiginlega alveg jafnberskjaldaður og blessuð rjúpan fyrir svona bombum hjá þessari ríkisstjórn. Fáum við raunverulega lækkun í matarkörfuna eða ekki?
Þar sem ný færsla er komin hingað, verið svo væn að rifja upp síðustu færslu um Leikritið Viðtalið og endilega fara ef þið hafið ekkert betra að gera á fimmtudagskvöldið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.