5.10.2006 | 14:10
Linnulaus ójöfnuður
Stjórnliðar mala hátt þessa dagana um hve hagvöxtur landsins sé mikill og hrósa sjálfum sér í hástert fyrir þann mikla stöðugleika sem hefur skapast með því að fresta vegaframkvæmdum í nokkra mánuði og eru búnir að opna fyrir útboð og framkvæmdir í þeim efnum nú þegar. Þeir reyna eftir besta mætti að sannfæra þjóðina um hvað þeir hafi gert vel fyrir hana þau ár sem þeir hafa haldið í stjórnartaumana. Það eru því miður ekki margir að finna fyrir því, annars væri allt voða rólegt á Alþingi og enginn að hafa fyrir því að stíga í pontu og minna á ójöfnuðinn sem nú þegar er. Þeir hampa sjálfum sér fyrir nýja varnarsamninginn og segja hann trúverðuglegan í alla staði, en enginn má sjá efnislegan hluta samningsins eða þá um hvað var samið. Fullkomið varnaröryggi sem við búum við eða hvað?
Nú ætla stjórnliðar að láta umhverfisvernd til sín taka, það sagði forsætisráðherra allavega í stefnuræðu sinni, svolítið seint í rassinn gripið þar sem umhverfistraðrak er á hæsta þarna uppi á Kárahnjúkum og eftir nokkra mánuði lýkur þeim framkvæmdum og vinna hefst í álverinu á Reyðarfirði. Hálsalón er óðum að fyllast og borgarstjórnarflokkur Frjálslynda flokksins bað um að borgin sem er hluthafi að Landsvirkjun beindi sér að því að vatnshæð Hálsalóns yrði lækkuð um 20 metra til að auka öryggi mannvirkja, draga úr hættu á stíflurofi og minnka umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. En tillögu þessari í borgarráði var hrint burt af borðinu af forseta borgarstjórnar. Bara strax farið að sjást að fögur fyrirheit um umhverfisvernd séu bara orðin tóm hjá stjórnliðum og skiptir þar engu hvort um sé að ræða sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn eða þá hvort þeir eru við stjórnvöllinn í borgarstjórn eða þá í æðsta embættinu, ríkinu sjálfu.Ég varð vitni að svolitlu merkilegu þegar forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína sl. þriðjudagskvöld. Hann hafði rétt lokið eða átti kannski ólokið tveim eða þrem línum í ræðu sinni, þá var komin ítarleg frétt um ræðuinnhald hans á mbl.is og stuttu seinna var ræðan birt í heild í pfd. formi sem viðhengi við sömu frétt. Tækniundur samtímans að verki? Eða það skyldi þó ekki vera að hún hafi verið samin þarna á ritstjórnarskrifstofu eða bara svo vel viljað til þess að hún lá þarna þar sem kannski ritstjórinn prófarkarles allt sem frá forsætisráðherra kemur. Fréttin var komin á Morgunblaðsvefinn kl. 20.16, forsætisráðherra byrjaði flutning sinn á stefnuræðunnim kl. ca. 19.54. Aðrir fjölmiðlar voru ekki svona full ítarlegir um þetta nokkrum mínútum eftir að ræðuflutningi hans lauk. Mig setti svolítið hljóða við þetta og hugsaði svo sem af hverju stefnuræðan var ekki send líka til RÚV fyrirfram svo þeir hefðu getað smellt henni inn í textavarpið og þar með gert flutninginn aðgengilegan um 10% þjóðarinnar og fullkomnað þar með setningu sem getið er í stjórnarskrá að þingfundir eigi erindi til allra þjóðarinnar, um það snýst einmitt lýðræðið. Spurning hvort ekki búi allir fjölmiðlar við sama traust og sá sem var svo snöggur að setja ítarlega frétt inn, alfyrstur af öllum. Þarna er enn einn ójöfnuðurinn sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir, ég finn mjög áþreifanlega fyrir honum. Mér er meinað að fá sama upplýsingaraðgengi um stefnuræðuna og aðrir fá. Það er svosem ekkert nýtt, á þessum stjórnskrárbundna rétti mínum er traðkað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.