Kæri Jón!

Nú liggur eitthvað í loftinu að uppsagnir séu yfirvofandi á NFS, hve mörgum er ekki vitað eða þá það hver framtíð NFS verður.  Maður klórar sér í hausnum og spyr hvort þetta sé virkilega að verða þannig að aðeins ein fréttastöð verður í vetur.  Ég held ég þurfi að fara að finna mér eitthvað annað að dundast milli hálf sjö og sjö.   Ótrúlegt hvað ég er búin að vera góð við þetta fréttalið, horfi á það á hverjum degi textalaust og hef  þróað með mér ágætis ágiskurnaraðferð til að greina fréttirnar, og svo ætla þeir að fara að leggja stöðina niður núna.  En hvernig verður þetta fréttadæmi okkar íslendinga ef við eigum bara að horfa á RÚV- fréttir?  Og svo eru víst kosningar í nánd og síðasta löggjafarþingið á þessu kjörtímabili.  Ég las opið bréf Róberts Marshalls til Jóns Ásgeirs aðaleiganda stöðvarinnar og rak svolítið í rogastans þar sem Róbert sagði blákalt að Jón ráði nú einn örlögum stöðvarinnar.  Þegar ég sá þetta þá var ég ekki bara að hugsa um hag fréttastofunnar heldur það að það er einmitt umræddur Jón sem ræður hvort fréttirnar verða sendar út textaðar sem og annað innlent efni á stöðinni. Spurning hvort ég ætti ekki bara að skrifa umræddum Jóni beiðni bréf um góðfúslega ósk um að fréttirnar og annað innlent sjónvarpsefni verði sent út með texta.  Bréfið mitt yrði kannski einhvern veginn svona:

 

Kæri Jón!

Sú sem þetta bréf til þín ritar hefur undanfarin tuttugu og fimm ár barist fyrir því að innlent efni hjá sjónvarpsstöðvum landsins skuli vera sent út textað.  Því miður hef ég víst talað fyrir daufum eyrum og stór spurning í þessu tilfelli hver sé heyrnarlausari. En það ætla ég ekki að kryfja í þessu bréf en ætla samt í stuttu máli að rifja upp það helsta sem gerst hefur í þessum málum á stöðinni þinni í gegnum árin.  Þetta byrjaði víst með honum Jóni Óttari sem stofnaði stöðina á sínum tíma nítján hundruð áttatíu og sex.  Ég skrifaði honum reyndar ekki alveg strax enda var maðurinn voða mikið upptekinn að koma stöðinni á fót og fullt var af erlendu efni sem sent var út textað en svo fór innlent efni að koma og þá fór ég að spyrjast fyrir.  Svör hans voru eitthvað á þá vegu að þegar 50 þúsundasta áskrifandanum yrði náð þá myndi hann texta.  Leið svo og beið og fímmtíuþúsundasti áskrifandinn lét í sér heyra en enginn kom textinn, svikið loforð, finnst þér það ekki?  Svo komu nýjir eigendur og þeim skrifaði ég líka fyrst ekkert gekk með þennan Jón Óttar.  Mig minnir að einhver Höskuldur eða Hafsteinn hafi svarað mér og sagt að þeir væru búnir að leggja svo miklar miljónir í að beturumbæta dreifikerfið sitt að þeir gætu ómögulega ekki ráðist í textann líka hann myndi alveg fara með dreifikerfið.  Maður varð nefnilega svolítið grænn við þessi svör en hvað getur maður nú gert þegar maður tilheyrir minnihlutahópi og er ekkert svo voðalega fjáður að geta keypt hlut í fyrirtækinu og fengið því framgengt að allt innlent efni skuli textað.  Þar með er enginn texti kominn.  Núna er víst komið að þér Jón Ásgeir minn, þú ert víst maðurinn sem ræður öllu í tengslum við þessa sjónvarpsstöð og ég er alveg nýorðin áskrifandi hjá þér, mér finnst ég eigi að fá að sitja við sama borð og aðrir áskrifendur þínir. Nefnilega það að njóta innlends sjónvarpsefnis sem þið gerið svo listilega vel, þ.e. það sem ég hef horft á textalaust, já textalaust sko, pæld í því að horfa á þættina þína hljóðlaust og vera að borga áskriftargjald.  Ég horfði meira að segja á þáttinn Örlagadagurinn þar sem hún Sirrý tók viðtal við pabba þinn.  Hann tók sig mjög vel út á myndinni, stórmannalegur en hvað hann sagði er mér sko alveg hulið en frétti daginn eftir að hann hefði sagt stóra hluti og þarna fannst mér ég nefnilega hafa misst af miklu. 

Ég hef nefnilega flutt tvisvar frumvarp til laga um textun á innlent sjónvarpsefni en því miður hefur árangur ekki verið voða mikill eins og raun ber vitni.  En hver veit nema menntamálaráðherra sjái að sér og komi lögum á ykkur sjónvarpsstöðvarnar að texta verði allt innlent efni, það væri draumastaða fyrir mig og reyndar 10% þjóðarinnar líka.  Jafnvel gæti það gerst að sá ráðherra sem hefur yfir sjónvarpsleyfum að úthluta gæti gerst svo strangur að skilyrði um að texta allt innlent efni yrði sett á sjónvarpsleyfin. Allt getur gerst, allavega er núna að skella á síðasta löggjafarþing á þessu kjörtímabili og kosningar í vor, maður veit aldrei hvað ráðherrar hrista framúr erminni þegar þeir eru komnir í kosningargírinn eða hvað heldur þú?

Jæja kæri Jón, ég ætlaði ekki að hafa þetta bréf svona voðalega langt en ég bara gat ekki á mér setið fyrst ég var byrjuð og þú maðurinn sem ræður öllu þarna eins og Róbert sagði í sínu bréfi.  Ég bið þig hér og nú að texta allt innlent efni sem sent er út á sjónvarpsstöðunum þínum og fréttir líka.  Ég verð líka að lokum að taka það fram að ég vona að þú takir orð Róberts í opna bréfinu hans til þín alvarlega og leyfir stöðinni að vinna áfram að því sem hún hefur verið að gera.

Með bestu kveðjum

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

 

Jæja, bara búin að skrifa Jóni, ég hef ekki netfangið hans en þið sem lesið þetta megið alveg koma því áleiðis til Jóns Ásgeirs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Sæl Sigurlín!

Hef verið dyggur lesandi þessa bloggs í dágóðan tíma en aldrei látið í mér heyra fyrr en nú. Ég verð bara að fá að gefa þér 5 stjörnur af 5 mögulegum fyrir þetta bréf - og ég skora á þig að senda það inn í blöð landsins!

Hlakka til að halda áfram að lesa frábær blogg um málefni sem ÞARF að koma inní haus stjórnmálamanna og annarra ráðamanna.

B.kv.

Fanney Dóra

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 21.9.2006 kl. 09:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband