24.8.2006 | 16:54
Sykursýki
Ég hef víst aðeins komið að því að ég er með sykursýki hérna á síðunni. Ég hef ekkert verið voða mikið að opinbera þennan sjúkdóm minn sem nefnilega er lífshættulegur samkvæmt því sem góð vinkona mín komst að um daginn og sagði mér það alvarleg að bragði. Krabbamein er víst í fyrsta sæti svo sykursýki en hún mundi ekki hver þriðji sjúkdómurinn væri því henni varð svo mikið um þetta. Það var verið að ræða um sykursýki í fréttatíma RÚV nú á dögum og þá mest talað um sykursýki 1 en ég er með sykursýki 2. Fólk getur nefnilega orðið blint af sykursýki en bara ef það skulum segja sukkar með matarræðið og borðar það sem því lystir og sínir lítinn aga í mat. Þá geta æðar nefnilega skemmst og þar með sjónin farið. Ef ég hugsa til baka til þessa dags sem ég var greind nefnilega 1. apríl sl. þá held ég með sanni að segja að ég hefði átt að fá áfallahjálp, en það var ekkert boðið upp á neitt svoleiðis. Ég mældist svo hátt í blóðsykurinum að ég held í því ástandi að manneskjan gæti lagst í dá og var næstum búin að missa sjónina líka. Þannig að ég er víst með banvæna blöndu í mér sem sagt heyrnarlaus og sykursjúk. En sykursýki er einmitt af öllum sjúkdómum mesti óvinur heyrnarlausra, það hef ég alla vega lært um núna og er kannski meira tilbúnari að tala um þetta hérna. Þetta er nútímasjúkdómur sem kannski allt þjóðfélagið er ekki alveg tilbúið að meðtaka. Maður má fátt borða, því það er nefnilega sykur í velflestum mat og ef það er ekki sykur að finna, þá er sennilega að finna sýróp, hunang eða eitthvað álíka. Ég man þegar ég fór fyrst inn í búðina með körfu eftir að hafa verið greind. Þegar ég gekk á milli búðarekkana og skoðaði innhaldslýsingarnar þá hugsaði ég með mér hvað þetta allt dræpi mann nú. Grænmetis og ávaxtaborðið er það eina sem maður getur alveg verið óhultur með en samt sem áður er sumir ávextir varasamir vegna ávaxtasykurs í þeim. Þannig að ég borða bara 2-3 ávexti á dag og vilji ég fá vínber þá má ég bara fá 10 vínber því það er sama og einn ávöxtur. Grænmetið er allt hinsvegar leyfilegt og er það oftast í kvöldmatinn með öðrum mat sem er próteinríkur eins og kjöt, fiskur og kjúklingur. Pakkamatur og dósamatur eða öllu heldur allur unnin matur er á bannlista. Vilji ég fá mér súpu þá elda ég hana frá grunni og oftast er hún tær án rjóma. Ég sker líka niður allar mjólkurvörur og það var eldraun að setja Fjörmjólk í matarkörfuna en núna er þetta bara orðið að vana og vont getur vanist, spurning hvort ekki verði léttara á næstunni á láta Undanrennu í körfuna? Ég elda sem sagt allan mat frá grunni núna og það tekur ekkert lengri tíma en venjulega og er þar með bara miklu skemmtilegra. Börnin mín borða sama mat og ég nema þau fá kannski meira kolvetni en ég enda hreyfa þau sig miklu meira en ég samt er ég víst eitthvað að fara að ná þeim í því þó svo ég hafi nú ekki lagt í það að fara í fótbolta og handbolta. Frekar geng ég mikið og núna er ég aðeins byrjuð að hlaupa á hlaupabrettinu og það er bara gaman, kannski maður bara verði með í næsta marþoni, ekkert er það verra. Svo syndi ég líka og hjóla og núna var ég að byrja aftur eftir hlé hjá einkaþjálfara í Sporthúsinu. Ég er búin að missa 19 kíló síðan 1. apríl og verð gott eitt sátt þegar 10-15 eru farin til viðbótar, og þar með er ekki sagt að þessu er lokið. Ég þarf nefnilega að halda mér í kjörþyngd og að sneiða áfram hjá öllu sem heitir sykur. Þetta er eilífðarvinna og gott betur. Ég fékk mikla hjálp frá næringarfræðinginum á Landspítala til að byrja með og núna veit ég nákvæmlega hvað ég má og hvað ekki. Sömuleiðis líka frá læknunum. Einu sinni í viku fer ég á heilsugæsluna og læt mæla blóðsykurinn.
Eins og ég sagði áðan er sykur víst í velflestum mat. Skoðið bara nammibarinna sem eru í rekkum í sjoppunum, þar skófla börnin þessu í poka. Í þessu get ég trúað að sé mesti sykurinn og lítið verið að hugsa um magnið þegar komið er þangað. Svo er 50% afsláttur á laugardögum í velflestum sjoppum og þá fæst tvöfalt meira magn fyrir peninginn. Þetta er í raun og veru stórhættulegt að vera að bjóða börnum uppá þetta og segið svo ekki að það sé á ábyrgð foreldrana að sjá til þess hvað þau fái í pokann. Það sem ég óttast í þessu er að innan fárra ára verði tvöfalt fleiri sykursjúkir vegna þessa mikla sykursmagns sem líkaminn innbyrðir á nammibörunum. Það kostar líka heilbrigðiskerfið peninginn að annast sykursýkissjúklinga og lyfjakostnaðinn. Það gæti líka kostað mörg börn sjónina síðar og það er enginn blindrakennari til á landinu núna. Þetta er svolítið fjarstæðukennt núna en mig minnir að mér hafi verið sagt að 70% blindra í USA eru blindir vegna sykursýki. Það þarf því svolítið að spá í hlutina sem verið er að bjóða uppá, hvað munu þeir kosta þjóðfélagið síðar meir? Ég ætla nú ekki að fara að predika neitt um þetta en samt sem áður verður nú alltaf að sýna einhverja forsjálni eða fyrirhyggju þegar kemur að svona lífshættulegum sjúkdómi, jafnvel huga að forvörnum fyrir næstu kynslóð.
Athugasemdir
Takk fyrir þetta sem þú skrifar hér. Ég veit hvað þú ert að ganga í gegnum. Var alin upp við þennan sjúkdóm, móðir mín var með hann, systir og systurdóttir. Ég lærði snemma á þetta. Það er alveg ótrúlegt að með allri tækni sem er í dag að heyra að ungt fólk fari svona ílla með sig eftir að það greinist með sykursýki1.
Sigrún Sæmundsdóttir, 24.8.2006 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.