23.8.2006 | 10:14
Skólinn er byrjaður!
Börnin mín eru byrjuð í skólanum sínum. Það ríkti ákveðin tilhlökkun hjá þeim þegar við þrjú skunduðum á skólasetninguna í gær. Sonurinn búin að fá nýjan kennara og aðspurður eftir fyrsta reynslutímann hjá henni komst bara eitt orð að hjá honum um þá reynslu ströng. Það lá að ég sýndi púkaglottið en passaði vel upp á að það sæist ekki. Dóttirin hefur enn sama kennarann sem er alveg ágætt og henni fannst fyrsti dagurinn bara mjög skemmtilegur og er full tilhlökkunar fyrir það sem framundan er. Hvað skólamálum mömmunar líður þá byrjar hún ekki í sínum skóla fyrr en 4. september og ætlar í Nýja Tölvu og Viðskiptaskólann. Ansi tvísýnt var að hún kæmist í skólann vegna þess að erfitt reyndist að fá túlka í verkið en það hafðist að lokum og var hún bara ansi lukkuleg með það.
Haustið er bara komið sýnist mér, allavega var mjög haustlegt veður í morgun. Öll lognmola sumarsins fokin fyrir veður og vind. Nóg verður að gera í vetur. Ég er fulltrúi Frjálslynda flokksins í starfshópi á vegum Öryrkjabandalags Íslands og vinna okkar í þeim hópi í vetur felst í að koma með tillögur jafnvel stefnur til að bæta hag öryrkja og hvernig stjórnmálaflokkar vilja vinna að þeim málum í kosningarbaráttu sinni. Fulltrúar frá öllum flokkum verða í starfshópinum og munum við funda nokkrum sinnum á næstunni. Öryrkjabandalagið mun stýra vinnu starfshópsins. Til hliðsjónar með þessu starfi verður stuðst við skýrslur sem hafa komið út um málefni öryrkja til dæmis skýrslu Dr. Stefáns Ólafssonar og svo ályktanir Öryrkjabandalagsins um þessi málefni. Ég trúi að þessi vinna muni skila miklu enda er það trú mín að allir flokkar vilja gera vel í þeim málum sem koma til með að bæta hag öryrkja sem mest. Það verður sennilega eitt af aðalmálunum í kosningarbaráttu flokkana í vor.
En áður en þessi mikla vinna skellur á fer ég með saumaklúbbinum mínum til Kaupmannahafnar í lok ágúst. Það verður örugglega gaman. Meðal dagskrárliða er að fara í heimsókn í Brygghuset, stofnun sem Frú Vigdís Finnbogadóttir stýrir og svo munum við líka kíkja í kaffi eða smástaup til Svavars Gestsonar sendiherra. Eitthvað verður verslað, skroppið á eitthvert safn sem mig rekur ekki alveg í minni hvað er um í augnablikinu, jafnvel farið í bátsferð, rölt um Nyhavn og svo verður farið út að borða öll kvöld en hápunkturinn er þegar límónsía sækir okkur á föstudagskvöldið og fer með okkur á fínan veitingarstað sem er eitthvað út fyrir miðbæinn og er í gömlu klaustri. Ég ætla nú að vona að mér hafi tekist að finna kjól á Strikinu eða þá í Field´s áður en lagt verður í hann. Við förum 12 saman og höfum verið svolítið duglegar að fara út, söfnum fyrir þessum ferðum samviskulega. Þar áður höfum við farið til Dublin og svo fyrir tveim árum fórum við í eftirminnilega ferð til Bracelona.
Að lokum verð ég að segja það að ég get ekki annað en dáðst að ótrúlegum árangri Magna okkar í Rockstar. Ég horfi eftir því sem mögulegt er, og finnst þetta bara aldeilis flott.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.