Í dag þegar ég var að tala við heyrnarlausan vin minn á MSN sagði hann mér að hann væri að tala við vinkonu sína í Líbanon. Frá henni hafði hann ekki heyrt svolítið lengi og var mjög glaður að heyra í henni. Hún heitir Nausa Gharis, 28 ára og heyrnarlaus. Hún var að segja honum frá aðstæðum sínum. Hún býr í Beirút og hafði orðið að flýja en var núna komin til sín heima vegna þess að það er tímabundið vopnahlé samkvæmt samþykktum Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna. Hún var það heppin að heimili hennar og móður hennar var ekki rústir einar, en nokkrir heyrnarlausir vinir hennar fengu hússkjól hjá henni af því að þeirra heimili var víst rústir einar. Vinnustaður hennar var gersamlega rústaður og stendur núna hreinsunarátak í gangi, hún vonast til að byrja að vinna á næstunni og segist vera mjög heppin að missa ekki vinnuna. Í Líbanon búa 4000 heyrnarlausir og sagði hún að 40 heyrnarlausir frá Suður Líbanon hefðu flúið til Beirút og eru núna á vergangi þar. Engir hjálparstarfsmenn þarna á svæðinu tala táknmál og aðgengi heyranarlausra að fréttum eða öðrum mikilvægum tilkynningum er ekkert.
Á þessari slóð má sjá í nágrenni við heimilis hennar:
http://fromisrael2lebanon.info/pa/thumbnails.php?album=13 Á þessari slóð má sjá hvernig umhorfs er á götunni sem vinnustaður hennar er við: http://fromisrael2lebanon.info/pa/displayimage.php?album=6&pos=8
Þetta er fyrirtækið þar sem hún vinnur: http://www.spinneys.com/Index.htm
Það að tala við hana þarna fékk svolítið á okkur. Í svona tilfellum hugsar maður kannski hvað maður hefur það gott hérna heima á Íslandi miðað við marga aðra sem búa við ótryggt ástand, sérstaklega það sem er núna fyrir botni Miðjarðarhafsins. En samt skal það segjast með sanni að hér á landi er ekkert almannavarnarkerfi í gangi sem beinir upplýsingum til heyrnarlausra ef vá ber fyrirvaralaust að.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.