3.8.2006 | 16:39
Í miðju sprengigabbi
Verslunarmannahelgin er víst að skella á og þá fer víst landinn meira og minna á stjá og kemur sér þægilega fyrir í tjaldi, fellihýsi og hvað þetta allt nú heitir. Fjölmargar útihátíðir setja sinn svip á helgina og úr mörgu að moða. Ég verð nú lítið á faraldsfæti um helgina, því ég þarf að mæta alla helgina í Efstaleitið og fara með táknmálsfréttirnar. Reyndar finnst mér þessi helgi alltaf lenda á mér, en það er auðvitað ekki rétt, stundum hef ég verið það heppin að eiga ekki vakt. Ég held ég geti samt alveg fullyrt að ég sé ekki mikil verslunarmannahelgarmanneskja og hef ekki svo mikið lagt einhverja útihátíðina undir fót um þessa helgi. Ég hef þó farið í Þórsmörkina fyrir eitthvað svona tuttugu og eitthvað árum eða svo og Þingvellina líka. Annars ætlum við krakkarnir bara að hafa það fínt hérna í bænum um helgina og gera okkur eitthvað til dundurs, fara í sund, bíó og fá okkur gott að borða, jafnvel stutta ferð úr bænum og auðvitað að hjóla á nýja hjólinu eitthvað líka gefist veðurfæri til slíks.
Táknmálsfréttir hafa verið lengi í RÚV. Reyndar er rétt að fræða ykkur aðeins um þennan mikilvæga þátt sem sendur er út á hverjum degi, stundvíslega kl. 17.50 og gegnir miklu lykilhlutverki í lífi margra heyrnarlausra táknmálsnotenda í landinu, jafnvel þeirra sem búa eða eru einhverra hluta staddir erlendis þeir horfa á á netinu. Þannig að það eykur þægindin til muna að sjá táknmálsfréttirnar á netinu missi maður af þeim fyrir framan sófann. Ísland var reyndar fyrsta landið á Norðurlöndum sem byrjaði með táknmálsfréttir árið 1981. Nú eru táknmálsfréttir á ríkissjónvarsstöðvunum á Norðurlöndum og er það bara vel. Ég byrjaði þarna 1984 minnir mig, hef unnið þarna frá þeim tíma með tveim smáhléum á milli sem voru vegna þess að ég bjó á Akranesi og svo þegar ég eignaðist börnin. Þetta hefur verið bara góður tími og maður hefur fengið þarna tækifæri til að vera með í allri þeirri þróun sem gerð hefur verið á þessum tíma. Þetta hefur alla tíð verið sent út í beinni.
Einstaka sinnum hafa minnisstæð atvik komið fyrir, sum kannski frekar skondin. Hjá mér gerðist það þegar ég var svona tiltölulega nýbyrjuð að vinna þarna og það vildi svo til að ég þurfti að mæta á 21s eða 22 ára afmælisdaginn minn. Þá var RÚV á Laugaveginum. Ég vann mína forvinnu eins og vanalega og fór inn í stúdióið 5 mínútum fyrir útsendingu, gerði allt klárt á borðinu með blöðin (á þessum tíma var textavélin ekki komin) útsending á þessum tíma var 19.50. Svo var ég alveg tilbúin og mínúta í útsendingu, beið alveg róleg og fylgdist með klukkunni fyrir framan mig. Hún tifaði áfram og ég gerði mig alveg klára til að birtast alþjóð á mínútunni. En vísirinn tifaði og tifaði svo yfir útsendingartímann, ein mínúta, svo tvær og þrjár, ég var orðin fullfrosinn í stöðu minni og þorði mig hvergi að hæra. Þótti þetta mjög skrýtið en beið bara áfram og hugsaði svo sem að þeir hlytu að fara að ýta á útsendingarhnappinn eða í það minnsta að koma og láta mig vita af einhverri ófyrirséðri bilun. En ekkert gerðist og nú voru komnar hreinar 7 mínútur í biðinni. Mér var farið að verða um og ó þarna einni inni og svo var hitinn frá ljósunum að gera útaf við mig líka og hjartað var farið að taka nokkur aukaslög líka. Að lokum þegar komið var yfir minn tíma þá reiknaði ég bara með að táknmálsfréttir þetta kvöld hefðu verið felldar niður án þess að ég hafi verið látin vita og ég stóð upp þegar um 2 mínútur voru að aðalfréttatíminn hæfist. Ég kom inn í útsendingarherbergið og þar var enginn, ég prufaði að kalla en enginn kom, á tækjunum var kveikt og bara hið furðulegasta mál, ég gekk fram á gang og þar var heldur ekki hræðu að sjá. Ég fór inn í sminkherbergið og þar var heldur enginn. Fór aftur á ganginn og þar brá mér illilega þegar ég sá lögreglumann koma hlaupandi með hund í bandi niður stigann. Hann sá mig þarna og gaf mér harkalegt merki að koma mér út, ég fór og þreif í jakkann minn og hljóp út og þá voru allir úti á bílaplaninu og lögreglubílar að auki með blikkandi sírenurnar. Ég varð hissa á þessu öllu saman og þá sá fólkið mig koma út, ég fór til föðrunarkvennana og spurði hvað væri að gerast. Já, það hafði verið hringt inn og sagt að til stæði að sprengja Sjónvarpshúsið stundvíslega klukkan 20. En svo var þetta víst sprengigabb, sem frægt varð og ég gleymdist þarna innilokuð í studíóinu. Já svona lá þá að þessu og gerði bara afmælisdaginn minni eftirminnilegan. Það er gaman að rifja upp þessa sögu og skjalfesta hana hérna ykkur til upprifjunar á sprengigabbinu en þó aðallega til að kitla aðeins í brosviprunar í þessu roki og rigningu sem er úti núna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.