24.7.2006 | 23:24
ÖBÍ deilurnar
Ég hef verið að velta þessu máli með Öryrkjabandalagið sem hefur verið í fjölmiðlum fyrir mér undanfarna daga, Mér finnst ég verði að koma þessum vangaveltum frá mér því þær eru farnar að trufla prjónaskapinn minn nokkuð og mér liggur svolítið á að klára peysuna. Málið sem um ræðir er í stuttu máli það að tveir aðalstjórnarmenn ÖBÍ hafa kært formann ÖBÍ fyrir ólýðræðisleg vinnubrögð á aðalstjórnarfundi ÖBÍ. En á þeim fundi var samþykktur ráðningarsamningur við núverandi framkvæmdarstjóra og á þeim fundi var líka samþykkt að lögfræðingi ÖBÍ yrði falið að ganga frá starfslokum brottrekins framkvæmdarstjóra bandalagsins.
Ég er ekki að skrifa þetta til þess að lýsa yfir stuðningi yfir öðrum hvorum tveggja þeirra manna sem málið snýst að mestu um, þá Sigurstein Másson formann ÖBÍ og Arnþór Helgason fyrrum framkvæmdarstjóra ÖBÍ heldur vegna þess að mér finnst að allir hlutir eigi að vera upp á borðinu, það er nú eða aldrei eða bara þá allt eða ekkert. Ég veit ekkert hvað stendur í ráðningarsamningi nýja framkvæmdarstjórans sem samþykktur var á þessum umrædda fundi. Satt best að segja og ef ég skil málflutninginn rétt þá finnst mér málið hljóða upp á þannig mynd að það sé eins og formaðurinn hafi alveg eins getað veifað hvítu lokuðu umslagi sem innhéldi ráðningarsamninginn og beðið aðalstjórnarmenn að samþykkja það sem í því væri. Aðalstjórnarmenn fengu ekki að sjá samninginn nema þeir undirrituðu þagnareiðsyfirlýsingu. Þeir sem það gerðu voru aðeins þrír og þeir máttu á engan hátt ræða innhald ráðningarsamningssins við félag sitt sem þeir eru kjörnir fulltrúar fyrir til setu í aðalstjórn ÖBÍ. Þarna var samþykktur samningur sem meginþorri aðalstjórnarmanna vissi ekkert hvað gekk út á. Það var svo sem samþykkt plagg sem enginn vissi hvað stóð í nema formaðurinn og nýji framkvæmdarstjórinn og ég ætla rétt og slétt að vona að framkvæmdarstjórnin viti það líka. Ólýðræðislegt. Ef svona lagaði hefði nú gerst í einhverri bæjarstjórn á landinu yrði fjandinn víst laus. Enn hefur ekki verið gengið frá starfslokum við fyrrum framkvæmdarstjóra, ég hef ekki séð neinar tölur í tengslum við það mál sem fram hefur komið í fjölmiðlunum. Það hefur oft sinnis verið sagt frá í fjölmiðlum tölur af starfslokasamningum sem þjóðinn hefur gubbað yfir eða þagaðir í hel. Af hverju hvílir svo mikil leynd yfir þessum samningi? Er það vegna þess að hann er lægstur allra starfslokasamninga sem gerðir hafa verið vegna þess að maðurinn er fatlaður eða er það gert vegna þess að mönnum gæti blöskrað sú upphæð sem stór heildarsamtök fatlaðra eru að greiða? Það væri fróðlegt að vita það.
Annað deiluefni sem vekur upp spurningar hjá mér er að enn hefur ekki komið á yfirborðið hin raunverulega skýring á skyndilegri uppsögn fyrrum framkvæmdarstjóra sem nefnilega kallast brottvikning. Formaður hefur gefið þá ástæðu fyrir því að hann geti ómögulega ekki skýrt hana því þá væri hann að eyðileggja möguleika Arnþórs að fá aðra vinnu. Enn hefur umræddur Arnþór ekki fengið neina vinnu og síðast þegar ég frétti af atvinnuleit hans fyrir nokkrum vikum þá hafði maðurinn ekki fengið neina vinnu þrátt fyrir að hann sækti um hvert starfið á fætur öðru.
Því miður fyrir Örykjabandalagið í heild eru þessar deilur að sliga bandalagið og engum til góðs. Fyrrum framkvæmdarstjóri hefur ekki samþykkt starfslok sín og formaðurinn hefur ekki náð að verða það sameiningartákn sem bandalagið þarf á að halda, það mætti e.t.v. segja að bandalagið séu klofið í með- og á móti liði. Það er engum til góðs. Bandalagið þarf öflugan formann sem allir aðalstjórnarmenn treysta og allt þarf að leggja á borðið og formaðurinn þarf að treysta aðildarsamtökunum fyrir val sitt á aðalstjórnarfulltrúa sínum. Það skiptir engu máli hvort fyrir sé ótti að einhver aðalstjórnamanna leki upplýsingum í fjölmiðla, það þarf nefnilega að taka áhættu svo allir geti unað sáttir við þær upplýsingar sem komnar eru. Jafnvel þjóðin öll á rétt á að vita hvað sé að gerast. Öryrkjabandalagið er hagsmunabandalag sem snertir marga landsmenn í hverskyns baráttu, það hefur unnið í þeirri baráttu af miklum heillindum og áunnið sér traust landsmanna og þannig vil ég hafa það áfram. Þessari deilu verður því sem sagt að ljúka svo ekkert flækist fyrir bandalaginu í því góða starfi sem það sinnir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.