Ásjóna fyrir 52 miljónir

Sólin og það með bærilegum hita er bara loksins komin, tími til komin að krækja sér í smálit, þó fyrr hefði nú verið. En akkúrat í dag hef ég ekki svo voða mikinn tíma til að flatmaga á svölunum eða þá á sundlaugarbakkanum. Mér leiðist þó rigningin ekkert rosalega mikið, hún má koma svo framarlega sem hún er að víkja fyrir sólinni.

 

Ég fékk á dögum smátækifæri til að fikra aðeins fyrir mér í fjölmiðlaheiminum og var boðið að taka viðtöl eða koma með greinar í blaðið Hér og Nú.  Í síðustu viku birtist svo fyrsta viðtalið mitt og það við Evu Þórdísi Ebzenerdóttur, fatlaða konu og með einsdæmum hressa.  Á næstunni kemur svo annað viðtal við aðra konu.  Þessar tvær ungu konur hafa mikið að segja um staðalímynd fatlaðra kvenna ef hún er þá til.  Eins og til dæmis það af hverju ekki sé til fötluð Barbie dúkka og af hverju fatlað fólk sé aldrei haft sem fyrirsætur í víðlesnum bæklingum eins og til dæmis þessum frá Hagkaupi.  Eva Þórdís kom með skemmtilegt innlegg um hjálpartæki.   Þið verðið bara að kíkja í blaðið og sjá.   Ég hef áður unnið sem ritstjóri við Döffblaðið, tímarit Félags heyrnarlausra  og því ekki að feta mín fyrstu skref þarna í fjölmiðlaheiminum, það er gaman að þessu og gefur mikið af sér að kynnast nýju fólki. Viðtölin eru unnin með í tölvu, þægilegur samskiptamiðill það.

 

Ég verð að segja það að ég varð ekki mjög hress með fyrirsögn eina í Fréttablaðinu í morgun. Það var um að RÚV eigi listaverk að verðmæti 52 miljónir. Þið megið alveg ímynda ykkur í hvað ég vildi sjá þessa sömu upphæð fara í.  Útvarpsstjóri segir listaverkin vera hluti af ásjónu RÚV.  Merkilegt umhugsunarefni að hann skuli álíta það vera svo.  Í sakleysi mínu hélt ég að aðalásjóna RÚV væri það að vera sá miðill sem sýnir og segir frá íslenskri menningu hvernig sem hún útleggst, allt frá því að vera frétt, umræðuþáttur eða þá umfjöllun um listir sem ætti erindi til allra landsmanna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband