Af menningarhátíðinni

Opnunarhátíðin

Það er búið að vera meiriháttar upplifun hérna fyrir norðan þessa dagana sem lítið hefur verið skrifað hérna.  Opnunarhátíð menningarhátíðarinnar var flott, haldnar voru fínar ræður um ágæti hátíðar sem svona.  Staðarval hátíðarinnar var rómað í ræðunum.  Eftir það var svo boðið upp á smá snittur og drykki.   Fólk kynntist þar aðeins og svona nokkurn veginn vissi enn betur hverju það átti von á á næstu dögum.  Ég er allavega búin að fara á eitt glerbræðslunámskeið og bætti tveim hlutum í safnið mitt.  Ég fór á pöbbinn í fyrrakvöld og líka í gærkvöldi.   Fyrra kvöldið sem ég fór var ástralinn Rob Roy með uppistand, það var heilmikið hlegið það kvöld.  Já, uppistand á táknmáli. Uppistand hans fólst í því að gera grín að samfélagi heyrnarlausra sem skiptist í tvo hópa, sem eru D og d, hópurinn með stóru D-i er reyndar sá hópur sem talin er reynslumestur, hefur inn í sér mest svona deaf-power en með hinn er öfugt farið.  Svo var gert góðlátlegt grín að kostum og göllum kuðungsígræðslu.   Kostirnir eru eitthvað fleiri ef móðir barnsins sem fer í ígræðsluna er einstæð móðir og hefur heilmikið að gera, þá getur hún einfaldlega bara smellt barninu á segulinn á ísskápnum og fest það þar meðan hún sinnir annasömu heimili sínu. Svo mörg voru þau orð en nokkuð er ég viss um að þetta sé ekki á listanum yfir ágæti kuðungísgræðslu almennt séð, en það er alltaf hægt að leika sér létt með þetta, til þess er einmitt uppistandið. 

Merkilegur fyrirlestur var í gærmorgun, Hilde Haueland frá Noregi hefur gert margar markverðar rannsóknir á samfélagi heyrnarlausra í víðu samhengi.  Hún sagði frá einni í fyrirlestri sem bar yfirskriftina Deaf People and Place/Space.  Efni hennar spannaði notkun heyrnarlausra á tímarýminu samanborið við heyrandi, hvað varðar notkun á símanum.   Hún rakti upp tímalínu símans og fjallaði um uppfinningamenn hans, það merkilega við þetta er að þeir sem komu að uppfinningunni eru allir tengdir heyrnarlausum á einn og annan hátt. Sá sem fann upp Morse var fátækur uppfinningarmaður sem tókst að komast í samband við Kendall nokkurn, sá átti peninga og leist honum vel á þetta.  Gallaudet háskólinn er einmitt stofnaður fyrir fé frá Kendalli þessum, má þar nefna skólann þarna Kendall school for deaf.  Bell sem fann upp talsímann, hann var giftur heyrnarlausri konu, jafnvel Edison var heyrnarskertur líka.   Og svo var það hann Vinton Graf, sem fann upp tölvupóstinn, hann var heyrnarlaus.   Já, sem sagt rót símans og tölvupóstsins sem við getum ekki verið án er einmitt frá heyrnarlausm komin - og það furðulegasta við þetta er að heyrnarlausir eru enn að leita að heppilegri lausn fyrir sig til samskipta, allt sem þeir finna upp í þesu samhengi verður til þæginda fyrir heyrandi samfélagið.  Merkilegt, ekki satt? 

Í gærkvöldi fór ég á leikritið Píkusögur, eftir Eve Ensler.    Það var leikið af franska leikhópinum IVT.  Þrjár leikkonur léku, já þær léku.   Stóðu ekki bara á sviðinu og héldu ræðu.   Ég hef sjálf tekið þátt í uppfærslu á Píkusögum hérna en sú sýning var bara orð, það að sjá þær þarna á sviðinu leika þetta allt svo lifandi létt var eins og orðin í bókinni bara dönsuðu fyrir framan mig.   Þær komu þessu öllu til skila á mjög sannfærandi hátt.  Franski leikhópurinn IVT er afar vinsæll í Frakklandi og í honum eru heyrnarlausir leikarar.  Alls vinna 15 heyrnarlausir leikarar í leikhópinum sem sýnir verk sín víðsvegar um Frakkland á hverju ári og líka í öðrum löndum, svona rétt eins og þau eru hérna á Íslandi núna.  

Eftir leikritið fór ég á barinn, og þar var fyrir finnska skífuþeytis teymið Signmark.  Í teyminu er þrír menn, einn er heyrnarlaus og aðalgaurinn, annar er heyrnarskertur og aðstoðar við margt, hinn er heyrandi og sér um að hljóðbrellurnar koma fyrir á réttum stöðum.  Þeir unnu með rap tónlist í gær og er núna búið að hóa til rap keppni milli norðurlandanna í kvöld og annað kvöld. Tónlist þeirra er kröftug og táknin sögð í takt við þau.  Svo kemur hún frá Finnlandi, heimalandi Lordis sem unnu í Evrovision, þannig að það má segja það um landið að mikið sé að gerast hjá þeim.  

Þetta var það helsta sem ég hef að segja núna en annars er það bara svona að bærinn er fullur af heyrnarlausum sem nota tímann til að kynnast og svo er setið á kaffihúsunum hérna á göngugötunni, því á svona hátíðum verður að passa upp á að nægur tími myndist til að fólk geti slakað á og spjallað.  Annars hafa erlendu gestirnir verið voða duglegir að skoða sig um og fóru þeir í hvalskoðunarferð um daginn, fullt var í þá ferð. Sjórinn var spegilsléttur og fengu þau að sjá fjórar tegundir af hvölum í þeirri ferð sem er mjög sjaldgæft að gerist og veðrið var hið besta fyrir þau.  Núna í þessum skrifuðum orðum eru flestir í ferð að Jarðarböðunum við Mývatn.   Seinnipartinn í dag verður svo grillað í Kjarnaskógi og í kvöld fer ég með börnin mín á leikritið This side up með Ramesh Meyyappan frá Singapore.   Það verða settar upp myndir hérna þegar ég kem heim, þá fáið þið að sjá herlegheitin.

 


Píkusögur
Döff DJ
Fyrirlestur
Ég

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband