5.7.2006 | 23:58
Gúrkutíð og þróunarstarf
Hvað ætti maður að skrifa núna um? Það er einhver gúrkutíð í þjóðfélaginu. Sennilega er nóg af fréttum allstaðar en bara eitthvað ekki nógu spennandi fyrir mann að nema það. Verðbólgan heldur alla vega áfram að hlaða á sig fleiri prósentustigum, fasteignverð á niðurleið, bensínið sífellt að skipta um verð og heyrir alveg til undantekninga að það lækki. Bandaríski herinn á Miðnesinu að fara til síns heima, þoturnar meira segja líka og svo á að fara að stofna þjóðaröryggisdeild hér á landinu. Maður bara spyr sig hvort eitthvað svona sem heitir þessu formlega nafni Þjóðaröryggisdeild eða öllu heldur Leyniþjónusta hafi ekki bara alltaf verið til þá samtvinnuð lögreglunni. Núna er sagt vera að stofna þetta, mér finnst það nú miklu frekar í átt að vera bara formsatriði til að skilja starfsemina frá almennum lögreglustörfum. Svo var verið að tala um að við íslendingar séum hamingjusamastir í heimi.
En annars ætli aðalfréttin sé ekki bara rigningarsuddinn sem er að gera út af við okkur hérna á skerinu daginn út og daginn inn það sem hefur lifað af sumrinu, ef sumar skyldi nú kalla. Ég hef ekki farið í eitt einasta sólbað á svölunum núna og það er komin Júlí aldrei þessu vant. Ég er farin að hafa verulegar áhyggjur af hvernig veðrið verður fyrir norðan í næstu viku.
Vinkona mín ein er að fara alla leið til Nambíu í Afríku núna á næstunni. Hún er að fara að kenna Nambíumönnum og konum hvernig eigi að kenna táknmál, búa til táknmálsnámsefni og hvað eigi að gera þegar heyrnarlaust barn fæðist í fjölskyldunni. Nokkuð sem við íslendingar höfum þróað í gegnum árin og nú erum við að vinna að því að kenna öðrum þjóðum það. Þetta verkefni er stutt af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ég hef alltaf verið nokkuð viss um að við íslendingar getum kennt þróunarlöndum fleira en fiskiveiðar og borun eftir vatni, þó vissulega séu þessi tvö dæmi góðra gjalda verð. Menntun heyrnarlausra í þróunarlöndum er mjög ábótavant, jafnvel í Kína er talið að aðeins 6% heyrnarlausra þar útskrifist með einhverja framhaldsmenntun. Hlutfallið er sennilega minna í Afríku. Þessu þarf að breyta og bara byrja núna þó svo við vitum að við sjáum ekki verulegan árangur fyrr en eftir hálfan eða heilan mannsaldur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.