Norræn Menningarhátíð heyrnarlausra 2006

Föstudagssíðdegi hérna, rigning og rok úti og hvað betra er hægt að gera en að skrifa nokkrar svona smáhugleiðingar.  Ég skrapp aðeins í bæinn í dag, kom við á Lágmúlanum og fékk óvænt skemmtilega gjöf sem mun án efa koma sér vel á næstunni.  Mér var sem sagt gefin pakki af rauðu eðal ginsengi.  Alltaf þörf fyrir svona vítamín, svo það er ekki annað að gera en að byrja að taka það inn í fyrramálið, því vikan eftir næstu viku þ.e. 10. -16. júlí verður upplögð af allskyns skemmtilegheitum hjá mér og bara öllum heyrnarlausum á Íslandi.  Það verður nefnilega haldin hérna á Íslandi nánar tiltekið á Akureyri; Norræn Menningarhátíð heyrnarlausra.  Nú þegar hafa skráð sig 170 manns sem verða alla vikunna og enn fleiri munu hafa dagpassa.  Margt skemmtilegt verður gert og hef ég ákveðið að fara í kennslustund í stafrænni myndatöku og vinnslu mynda í tölvu.  Eitt handverksnámskeið þar sem ég ætla að bæta einum hlut í glerbræðslusafnið mitt.  Svo verður líka alþjóðleg leiklistarhátíð líka haldin meðfram menningarhátíðinni og ætla ég að sjá Píkusögur á táknmáli í uppfærslu franska leikhópsins IVT og með honum kemur Emmanuelle frönsk heyrnarlaus leikkona sem er nokkuð fræg í döffheiminum.  Það merkilega við þessa uppfærslu er að leikhópurinn hefur fengið leyfi frá höfundi Píkusagna Eve Ensler að segja sögurnar út frá reynsluheimi heyrnarlausra.  Einnig verða aðrir merkilegir leikhópar þarna líka. Svo verður líka sýnd stuttmynd sem hefur hlotið frægð og verið verðlaunuð, hún fjallar um mótmæli í Gallaudet háskólanum í USA. Þetta er bara lítið brot af því sem er í boði en annars getið þið endilega kíkt á heimasíðuna www.deaf.is og komist að öllu um hátíðina.  En ég verð líka að segja frá því hérna að það kemur líka heimsfrægur plötusnúður – skífuþeytari eða DJ, hann er heyrnarlaus og afar fær í að kalla fram heyrnarlaust fólk á dansgólfið er sagt.  Svo verður auðvitað veglegt lokahóf í lokin.  Þannig að rautt eðal ginseng kemur sér ótrúlega vel.  Það er ekki oft sem maður getur hitt á svo marga heyrnarlausa samankomna á einn og sama staðinnm og það bara að þurfa ekki að fara lengra en til Akureyri. Það verður líka bloggað héðan af hátíðinni.  Táknmálsfréttir í Sjónvarpinu verða sendar út beint frá Akureyri þessa vikuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband