24.6.2006 | 21:03
Miðnæturganga á Heklu
Bílferðin upp að Hekluhlíðum gekk mjög vel í alla staði. Veðrið sem best var kosið, sól, stilla og blankalogn þegar komið var á staðinn. Lagt var af stað í gönguna kl 21, svona klukkutíma á eftir áætlun vegna umferðartafa í Reykjavík og á milli Hveragerðis og Selfoss. Í förinni var 70 manna gönguhópur frá Ferðafélagi Íslands og þrír fararstjórar. Við vorum sex heyrnarlaus og svo var túlkur með í för, sem reyndar var alveg frábært að hafa.
Gönguleiðin upp að tind Heklu er 7 km, afar brött og oft snjóbreiður líka. Sem sagt fram og til baka er þetta 14 km í allt segir reiknilistinn mér. Áætlað er að gangan upp taki um 3-4 tíma og svipaður tími á niðurleið en þó aðeins styttri. Eftir smákynningu á ferðinni frá fararstjóranum sem einnig fór yfir göngureglurnar var lagt af stað.
Ég byrjaði hægt og rólega að feta upp á brattann. Ég er frekar skrefstutt og var göngumönnum einmitt ráðlagt að vera það, spara á stóru skrefin því umtalsverð orka fer í þau. Stundum var stoppað í mínútu á leiðinni, þá köstuðu menn mæðinni og horfðu menn yfir landslagið sem þarna mátti sjá, stórbrotið í einu orði, róandi að horfa á að maður gleymir sér alveg í svona aðstæðum, bara horfa og njóta. Snjóbreiðurnar voru stundum erfiðar yfirferðar, þó samt ekkert voðalega. Flestir í hópinum voru með göngustafi þar á meðal ég líka. Það hjálpaði mjög til að hafa þá, gerði gönguna sjálfa svolítið léttari og veitti jafnvæginu góða stoð. Ég varð svolítið móð þarna á leiðinni upp og dróst talsvert úr hópinum en það var bara um að gera að fara rólega. Við vinkona mín gengum semsagt hægar en aðrir og það var allt í lagi, við áttum líka kannski fleiri mínútu hvíldarstundir til að njóta landslagsins og fá okkur að drekka.
Hekla er falleg sjón og merkilegt að komast í návígi við hana á þennan hátt. Hún gaus fimm sinnum á síðustu öld. Þeir sem voru fyrstir að ganga hana voru þekktir fræðimenn okkar þeir Eggert Ólafsson og Bjarni og skrifuðu þeir merkilega bók eða fræðirit um för sína þangað. En hvort þeir voru þarna á sama tíma og við í kringum sumarsólstöðurnar veit ég ekki. En það að upplifa jafntignarlega sjón og við sáum þarna á leið okkar verður ógleymanlegt í mínum minnum. Við fylgdum henni nokkuð vel og settist hún niður eftir miðnætti um hálf eitt og við sáum hana líka rísa upp aftur og var vel sýnileg okkur um klukkan hálf fjögur um nóttina eða væri ekki réttara að segja um morguninn.
Eins og ég sagði áðan var gönguhópurinn komin langt á undan okkur vinkonunum við horfðum á þau ganga hægum skrefum í snjónum upp snarbratta fjallshlíðina. Við vinkona mín komumst mest þangað sem mesti brattinn byrjaði og þá reiknast okkur til að við höfðum gengið svona 5 km í allt. Við ákváðum að snúa við, því við vildum eiga síðustu orkuna fyrir leiðina niður, þá var klukkan orðin um hálf tvö. Við gengum niður í mestum rólegheitum og fórum á þessum tíma að finna fyrir kulda, jafnvel þó við vorum mjög vel klæddar. Létum það ekki mikið á okkur fá og gengum markvisst niður, það var ekki jafnauðvelt og það lítur út fyrir að vera að ganga niður. Það var mest erfitt í snjóbreiðunum, en þá var stundum eins og maður stæði á bremsunni og rynni bara áfram. Ekkert vorum við voðalega mikið að flýta okkur niður og vorum komnar að stæðinu rétt eftir klukkan þrjú, biðum í svona klukkustund þangað til allir göngumenn skiluðu sér niður.
Nokkrir fóru ekki alveg upp eins og við en frásögn þeirra sem fóru alveg upp var á þann hátt að brattinn upp hafi verið gríðarlegur og það mest allan tímann í snjó. Sýnin sem þau sáu af tindinum var óskaplega falleg sögðu þau. Þau stöldruðu þó ekki lengi þarna á tindinum og héldu svo niður á leið og gekk allt mjög vel.
Ferðin til Reykjavíkur gekk svo eins og í sögu þó mikil þoka var fyrsta hluta ferðarinnar en þegar á Selfoss var komið rétt fyrir klukkan sex var þar glampandi sólskín.
Þetta var meiriháttar ferð og upplifun fyrir mig jafnvel þó ég hafi ekki komist á tindinn verður sennilega bætt úr því seinna, hver segir annars að það eigi bara að fara einu sinni að heimsækja Heklu? Við vinkona mín gengum tæpa 10 km miðnæturgöngu og skal bara segja að það sé hið besta mál.
Ég lofaði ykkur myndum og mun standa við það. Myndir af ferðinni koma á allra næstu dögum, smá tæknivandamál komu upp sem ekki verða útlistuð hérna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.