18.4.2007 | 07:16
Upplýsingaraðgengi
Jæja, það er víst komin tími á skrif hérna, búið að vera ansi þegjandalegt. Engin sérstök ástæða fyrir því, mörgu öðru hefur maður verið að sinna og ég verð víst með í kosningarslaginum og er staðsett í 3. sæti í Reykjavík-norður fyrir Íslandshreyfinguna - lifandi land.
En að öðru sem sagt upplýsingaraðgengi landans. Ég hef víst oftar en einu sinni minnst á það mál og hef þá helst komið að tvennu til að bæta upplýsingaraðgengið, þ.e. textun á innlent sjónvarpsefni og svo það að réttindi táknmálsnotenda á forsendum táknmálsins verði tryggð. Þetta tvennt stendur nú sem er í algeru lamasessi hérlendis og má jafnvel segja að íslensk stjórnvöld standi sig verr í þeim efnum en fyrrum kommúnistaríkin. Svör stjórnvalda hafa alltaf verið á þann veg eitthvað svona að þetta sé vissulega góðra gjalda vert EN þetta kostar nú peninga, með þessum svörum er sífellt er verið að klína á táknmálsnotendur og þá sem búa við skerta heyrn að þeir séu fjárhagsleg byrði samfélagsins og því miður að illómögulegt sé að framkvæma bættu upplýsingaraðgengi sökum þess að ríkiskassinn sé tómur í einhverju besta velferðarsamfélagi heims, landi sem stjórnvöld hafa löngum stært sig af að hafa besta hagvöxtinn og blómstrandi efnahagslíf. Þrátt fyrir það geta þeir ekki komist að því að sjálfsögð mannréttindi eins og upplýsingaraðgengi hefur aldrei verið ókeypis. Í stað þess að tuða sífellt um að ekki sé til peningar er ekkert kapp lagt í að leita þeirra. Það hefur nú oftar en einu sinni gerst að stjórnvöld hafa ráðist í framkvæmdir á kostnað ríkisins án þess svo mikið að gera sér grein fyrir kostnaðinum, má þar til dæmis nefna hið margumrædda rannsóknar/dóms/áfrýjunar/rannsóknar/dóms/áfrýjunar/rannsóknar/dóms .o.s.frv.- semsagt Baugsmálið svokallaða. Engan óraði fyrir kostnaðinum sem vínberjamúkk með dulbúnni smjörklípuaðferð þáverandi forsætisráðherra myndi kosta þjóðina og á meðan peningum er sperðað í þetta er fyrirfinnst varla blindrakennari til að kenna blindum börnum á grunnskólaaldri sína lögboðnu grunnskólaskyldu, svo mikið er lagt í kapp að eltast við menn sem hafa greitt mörg hundruð miljónir í ríkiskassan og stutt við mörg samfélagsmálefni, að foreldar blindu barnanna sjá ekki annan í stöðunni en að flýja land svo barnið þeirra geti lært blindraletur, sem yrði því sjálfasagt aðgengistæki að lögbundinni menntun sinni til framtíðar litið.
En aftur að bættu upplýsingaraðgengi. Í Bandaríkjunum eru til lög sem varða aðgengi, þessi umræddu lög eru í daglegu tali nefnd ADA (American with Disabilities of Act), markmið þeirra er meðal annars að skylda öll fjölmiðlafyrirtæki á sviði sjónvarps að texta innlent efni sitt, þau skylda líka að táknmálsnotendur fái upplýsingaraðgengi sitt á forsendum táknmálsins, þau skylda líka fjarskiptafyrirtæki að hafa í boði þjónustu í textaformi fyrir heyrnarlausa/heyrnarskerta sem og líka á táknmáli svokallaðar táknmáls/textasímamiðstöðar. Einnig ná þau líka yfir marga þætti aðgengis hjá öðrum fötlunarflokkum, s.s. hjólastólaaðgengi og aðgengi fyrir blinda svo fátt eitt sé nefnt. Þessi lög kosta líka sitt og svo hægt sé fyrir fyrirtæki hvort sem um er að ræða opinbert eða einkafyrirtæki þá er til staðar sjóður sem er nokkurskonar Aðgengissjóður. Í hann rennur til dæmis ákveðin upphæð af hverju einasta símtali bandaríkjamanna. Í hvert sinn sem bandaríkjamaður tekur upp símtólið og svarað er renna 10 cent í þennan sjóð. Þið getið ímyndað ykkur hve stór þessi sjóður er. Í hann geta fyrirtæki sótt fjármagn til að koma sér upp bættu upplýsingaraðgengi og aðgengi fatlaðra. Mér finnst þetta merkilegt, hér á landi er ekkert svona. Póst og fjarskiptastofnunin lætur sér fátt um fatlaða notendur finnast þó allt annar gangur sé í þeim málum á Norðurlöndum. Það sá ég bersýnilega þegar ég var viðstödd norrænt málþing póst og fjarskiptastofnanna á Norðurlöndum. Eftir að hafa hlustað á erindi fulltrúa frá öðrum Norðurlöndum þá var innlegg fulltrúa Íslands ansi klént og vissu þeir ekkert hvernig þeir ættu að koma þessu frá sér sem þeir höfðu ekkert verið að vinna í, svo þeir bara ákváðu að þegja. Þeirra hlutverk þarna var bara að undirbúa málþingið og sjá til þess að réttu tækin yrðu til staðar fyrir norrænu fulltrúana að miðla efninu sem og kaffi handa þáttökugestum sem voru ansi fáir því þetta var nú sossum ekkert auglýst. Þetta var fyrir ári síðan. Lýsandi ástand fyrir þessa stofnun.
Og að öðru sem brennur ansi við og mér finnst nú vera vegið að upplýsingaraðgengi táknmálsnotenda. Frá og með fimmtudeginum fram á sunnudagskvöld eða öllu heldur til mánudagsmorguns verður túlkalaust á Íslandi, vegna þess að túlkarnir á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra eru að fara til Kaupmannahafnar í starfstengda ferð og aðeins einn túlkur verður starfandi og hann aðeins nýttur vegna neyðartilvika s.s. hjá sjúkrahúsum og lögreglu. Það er bara ein stofun sem sinnir túlkaþjónustu hérlendis og er það Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og hefur verið þannig í um ár eða allt frá því einkarekna túlkaþjónustan Hraðar hendur varð að leggja upp laupana vegna þess að einkarekin túlkaþjónusta gat ekki starfað á svo lágum töxtum sem gjaldskrá fyrir túlkaþjónustu útgefna af menntamálaráðuneytinu var. Mér finnst þetta hálfvandræðalegt, jafnvel þó vitað var af þessu ástandi fyrirfram. Ég get ekki pantað túlk í kosningarbaráttu þennan tíma. Og svo þar sem táknmál er ekki viðurkennt eða allavega réttindi mín á forsendum táknmálsins þá er það þannig að ef fjölmiðlar til dæmis vilja viðtal þá verða þeir að borga fyrir túlkinn, skýrt dæmi um aðstöðumuninn sem er hérlendis hvað varðar þessi mál. Það er ekki sama hver pantar þjónustuna og fær greitt úr félagslega sjóðinum, einföld regla er í gildi: panti heyrnarlaus/táknmálsnotandi fæst greitt úr sjóðinum, en panti heyrandi þarf hann/fyrirtæki hans að borga. Er þetta brot á jafnræðisreglunni? Hvaða aðra frambjóðendur þurfa fjölmiðlar að borga fyrir að ræða við?
Athugasemdir
Áhugavert blogg hjá þér.Óska þér góðs gengis í kosningaslagnum.
Kristján Pétursson, 18.4.2007 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.