6.3.2007 | 10:56
Almannaþjónustuhlutverk
Það er ánægjulegt að menntamálaráðherra skuli minnast á að textun verði stóraukin á forunnu innlendu sjónvarpsefni á RÚV ohf í framtíðinni. Um það er getið í þjónustusamningi sem gerður var á milli ráðuneytsins og RÚV ohf. Ég sé fyrir mér að velflest forunnið efni verið sent út textað. Margt af útsendu innlendu sjónvarpsefni RÚV ohf er forunnið. Til að mynda geri ég mér hugarlund að langþráð ósk rætist núna að Kastljósið verði sent út textað, mikið af efni þess er forunnið, þ.e. velflest viðtölin eru tekin upp fyrirfram. Allar fréttir í fréttatímunum kl. 19 og 22 eru forunnar þó sent sé út beint. Janfvel táknmálfréttir eru forunnar þó sendar séu út beint. Það yrði hrikalegt ef fréttaþulurinn færi nú að segja fréttir beint, alveg óundirbúið og óforunnið, kæmi ekkert vel út á köflum. Það eina sem er óundirbúið og óforunnið eru til að mynda kappleikir í beinni. Þannig séð er vissulega tilhlökkunarefni framundan hvað varðar áhorf mitt og 10% landsmanna á innlendu sjónvarpsefni RÚV ohf. Ég er kannski fullhógvær í væntingum mínum um textun að þora ekki að koma með kröfu um að beinar útsendingar af kappleikjum séu textaðar, satt best að segja er það vel hægt, tæknin er til, bara stundum vita menn ekki alveg hvar á að byrja. Það vantar líka ekkert tæknivitið hérlendis. En hvað með aðrar sjónvarpstöðvar, þessar einkareknu eiga þær ekkert að sinna almannaþjónustuhlutverki sem textun er núna orðin? Allavega sinna þær almannaþjónusthlutverki eins og til dæmis hljóðinu og skyldaðar að setja íslenskan texta á erlendar myndir sem sýndar eru. Allt innlent efni hjá þeim er líka forunnið því allar sjónvarpstöðvar hvort sem um eru að ræða einkareknar eða opinberar einkastöðvar hafa metnað í öllu útsendu innlendu sjónvarpsefni sínu. Mér finnst alveg fullt tilefni að skoða þetta mál þegar kemur að þeim að endurnýja sjónvarpsleyfi sitt. Almannþjónustuhlutverk sjónvarpstöðvana verður að endurskoða. Stóra spurningin er hvenær verður Kastljósið og fréttatíminn sendur út textaður? Stærsta spurningin er hvenær Ísland í dag og fréttatími Stöðvar 2 verði sent út textað? Jafnvel má skjóta hérna inn líka hádegisfréttum Stöðvar 2.
Táknmálfrumvarpið er núna á borðinu í menntamálanefnd. Nú standa yfir nefndardagar á Alþingi og þingfundir falla niður, aðeins er fundað í nefndum. Svo er líka vert að minna á að á borði sömu nefndar liggur líka frumvarp um textun á innlendu sjónvarpsefni. Þannig séð skortir nefndina ekkert umræðuefni og svo eru þar líka vissulega fleiri góð málefni hverskonar.
Það hefur ekki verið mikið skrifað hérna undanfarið, satt best að segja er ég ekkert hress með nýja lykilorðið sem mér var úthlutað þegar hitt var gert opinbert. Mér var úthlutað nýju sem hverjum manni er lífsins ómögulegt að muna, svo ósamsett. Ætli ég kippi þessu ekki bara í liðinn og set saman eitt lítið lykilorð sem er í stíl við eitthvað sem ég get munað.
Að öðru er bara annars gott að frétta. Ég er komin heim af Alþingi, orðin óbreytt skulum við segja. Sonurinn stiginn úr þessari skyndilegu flensu sem virðist vera að herja á suma og sendir ólíkilegustu menn og konur beina leið í rúmið. Sjálf er ég alveg alheil. Nýja framboðið fer að líta dagsins ljós á næstu dögum . Hvað oft ætli þið séuð búin að lesa þessa setningu einhverstaðar annarstaðar? Maður er sjálfur komin með hálfgert ógeð á þessari setningu en hvað getur maður sagt annað þegar kemur að því að vel sé vandað til verksins.
Athugasemdir
Ég er hjartanlega sammála þér! Það er löngu orðið tímabært að senda út innlent efni með texta. Ég skil ekki tregðuna hvað þetta varðar, eins og þú minnist á þá er stærstur hluti innlends sjónvarpsefnid forunninn og því ætti þetta ekki að vera mikið mál. Það eru því góðar fréttir að málið liggi á borði menntamálanefndar. Krossum puttana og vonum að það verði ekki þar að eilífu.
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 6.3.2007 kl. 11:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.