Söngur eldsins

Ég skrapp eftir kvöldmat á Austurvöllinn að sjá hvað væri að gerast á þessu tilkomumikla sviði sem hefur eflt forvitni mína frá degi til dags sem ég hef gengið þar fram hjá.  Það átti víst að vera eitthvert show með eldglæringum og tónlist las ég.   Ég fór því með börnin mín og vin þeirra þangað.  Þegar við komum var allt svo til næstum því myrkvað.  Við komum okkur fyrir vel fyrir framan sviðið til að sjá sem mest.  Bara um leið og við mættum var byrjað að setja hátíðina af Vilhjálmi borgarstjóra og Geir forsætisráðherra  var þarna líka og einhverjir aðrir sem ég veit ekki deili á, held fransmenn. 

Svo byrjaði þetta allt, fyrst var kveikt á með risastórum gaskveikjutæki á einu, svo öðru, svo bara koll af kolli… smá eldur allavega á sviðinu og menn að berja í trumbur, einn að syngja og blása í eitthvað.  Ég horfði á, satt best að segja fór einhver höfgi að svífa rólega yfir mig og stutt var í geyspinn.  Ég var farin að verða eitthvað óþreyjufull eftir aðalsýningunni… því miðað við stærð sviðsins og fjölda pípna sem stefndu til himins var ég búin að gera mér hugarlund og jafnvel farin að hlakka til að sjá eldinn flæða úr pípunum beint upp í loftið, búin að búa mér til tilkomumikla skýjaborg með eldi og ógleymanlega eldsýningu.  Kona kom á sviðið með og hélt á kveikjusettinu knúnu eldi og lét það renna hægt og rólega um pípurnar… ég setti sjálfa mig í biðgírinn og hugsaði að tilkomumikla eldsýningin mín hlyti að fara að koma þá og þegar, ég leit aftur fyrir mig, voða voru allir svo hljóðir og horfðu á sviðið.  Svo fór konan, ég stimplaði þetta þannig að eitthvert klúður hefði komið í sýninguna, því enginn eldur flæddi um pípurnar. Svo kom maður með sama tæki fullt af eld, ekki bara eitt heldur tvö og fór að stærstu pípunum, ég hugsaði að sá skyldi sko ætla að lagfæra þetta og koma á virkilegri eldsýningu eins og mér fannst eiga að vera, það kom en bara í eina pípuna ekki allar sem voru í röð samtímis… og svo renndi hann eldinum hægt og rólega og lét flæða í pípurnar stundum kom mikill eldur stundum kom bara reykur úr pípunum.  Ég var orðin óróleg og farin að spyrja mig hvað væri að gerast, var allt misheppnað og svo voru mennirnir við trumburnar stundum að berja í þær og hættu stundum og horfðu lotningarfullir á eldmanninn við pípurnar.  Fólkið í kringum mig horfði líka lotningarfullt á og úr svip þeirra mátti alveg sjá að þau voru öll mjög hugfanginn.  Börnin mín tvö og vinur þeirra voru það líka, allir voru svo hljóðir og horfandi athuglir á sviðið.  Svo ég tók mig til og truflaði dóttur mína aðeins og spurði hana út í hvað væri um að vera.  Hún sagði mér þá að það heyrðist í eldinum þegar hann snerti stálpípurnar, sem sagt eldurinn er að syngja í pípunum.  Já, nú skildi ég – það var hljóðið í eldinum sem heillaði og setti mig þá í annan gír og lét hana í friði eftir það og leyfði henni að njóta þess. Alltaf fréttir maður eitthvað nýtt, eldurinn bara farin að syngja, auðvitað var það líka tilkomumikið.  Ég vissi ekki að það heyrðist í eldi, hef alltaf litið á hann sem einhvert þögult sjónarspil sem kannski heyrðist smávegis að værla tæki að nema það eða hvað þá tala um það. Við horfðum á til enda og ég líka.  Þetta var bara flott eftir allt saman, kannski einhvern tímann á ég eftir að sjá eldsýninguna mína sem ég gerði fyrir sjálfa mig í huganum, þá vona ég að þið fáið líka að njóta þess, yrði svakalegt augnkonfekt.

 

Þið viljið auðvitað heyra af þingsetunni. Af henni að segja þá gengur bara vel, nóg að gera hjá mér, táknmálsfrumvarpið komið í dreifingu.  Ég er núna í óða önn að leggja lokahönd á ræðuna, hana fáið þið að heyra í byrjun næstu viku. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Góður pistill og varð mér sjálfstætt bloggarefni!

Haukur Nikulásson, 23.2.2007 kl. 13:58

2 identicon

Góð lýsing á því þegar maður er ekki að upplifa nákvæmlega það sama og hinir heyrandi. En við upplífum án efa oft miklu meira en þau bara á annann hátt.

Elsa (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 10:03

3 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Góður pistill, áhugaverð innsýn.

Ragnar Bjarnason, 24.2.2007 kl. 21:23

4 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Góður pistill og fræðandi.

Hlakka til að fylgjast með táknmálsfrumvarpinu þegar það kemst á dagskrá. 

Björg K. Sigurðardóttir, 26.2.2007 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband