Á þing!

Jæja, það er búið að vera ansi rólegt og þegjandalegt hérna í skrifum mínum.  Það skal alveg segjast að það er búið að vera svo rólegt, samt hefur maður alltaf nóg að gera og það bættist heldur betur um í morgun þegar ég var að koma mér á lappirnar.   Mér var sent sms-skilaboð um leið og ég tók fyrsta kaffisopann, kaffið var vel heitt, ekkert helltist niður, enda ég yfirveguð kona og afar fátt slær mig útaf laginu.  Skoðaði það og það var frá Gunnari Örlygssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins, síðan eftir það hefur dagurinn verið eitt ævintýri og er enn.  Ég á sem sagt að setjast á þing á mánudaginn.  Það er nefnilega það. Á mánudag verð ég þingkona. Ég satt best að segja átta mig ekki alveg á þessu enn og miljón frumvörp, þingályktunartillögur og fyrirspurnir skjótast fram í kollinum á mér á þessum síðustu metrum Alþingis þessa kjörtímabils.

En eitt verður sett á oddinn, það er táknmálsfrumvarpið, enginn spurning, það skal fá að verða flutt og snerta borðplötuna fyrir framan formann menntamálanefndar og passa vel upp á að það detti ekki niður í ruslafötuna.  Það ríður eiginlega mest á núna að heyrnarlausir/heyrnarskertir og daufblindir fái réttindum sínum á forsendum táknmálsins fullnægt í þessu landi.  Það er ekki lengur hægt að vera að múlbinda þá í einangrun, nóg hafa þeir þurft að þola.   

Nú er árið 2007 og staðan núna í dag er að sé miðað við 100 virka notendur af félagslega táknmálstúlkunarsjóðinum þá mega þessir 100 notendur aðeins fá 18 tíma túlkaða á ári í félagslegar þarfir sínar.  Það er illmögulegt að lifa við svona aðstæður, mjög einangrandi og gefa af sér mikið óöryggi, eins og það sé ekki nóg að heyra ekki heldur þarf þetta að bætast við.  Hvernig þætti ykkur til dæmis ef sagt yrði við ykkur eitthvað þessu líkt – þú mátt bara fara 18 tíma á stjórnmálafundi á ári?  Þið mynduð hrópa orð eins og jafnræðisreglan brotin, aðstöðumunur, jafnréttisbrot og síðast en ekki síst mannréttindabrot og það í einhverju besta velferðarsamfélagi heims, landi sem sagt er að hagvöxtur sé einna mestur, svo þegar maður er með þessar staðreyndir á borðinu hjá sér þá spyr maður sig ósjálfrátt; hvað eiginlega sé að gerast?  Þetta ætla ég að laga og svo er auðvitað margt annað sem ég vildi láta ljós mitt skína en þetta eru bara tvær vikur og þetta þarf að vinna vel á stuttum tíma. Þannig að það þýðir lítið núna að vera í einhverjum sjálfskiptum gír – þetta verður unnið á fimmta gír.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Til hamingju og megir þú vel njóta stundarinnar!

Haukur Nikulásson, 15.2.2007 kl. 16:58

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Margrét ég styð þig 1000% og vona svo innilega að þú komir þessu frumvarpi í gegn. Sem barn heyrnarlausra foreldra veit ég nákvæmlega hversu mikið og oft þau hafa þurft að fá mína rödd lánað í túlkunarstörf. Og það eru mkilu meira en 18 tímar á ári!!!! Miklu miklu miklu meira. Ég hef sinnt þessu túlkastarfi ásamt systkynum mínum í áratugi. Sum mál eru einnig þess eðlis að það passar ekki að ég sem náinn aðstandandi sé að túlka. Ég vona af öllu hjarta að þessi mannréttindum verði komið í gegn og bind miklar vonir við þig sem baráttukonu þess. Og segi um leið..skammist ykkar þingmenn sem standið gegn þessum sjálfsögðu réttindum heyrnarlausra. Það er það minnsta sem samfélagið getur gert núna eftir alla skandala sem upp hafa komið í kringum þau sem áttu sér hvergi rödd né málsvara fái það lögbundið að fá að tjá sig á sínu máli. Táknmálinu sem er móðurmálið þeirra.

Áfram Sigurlín!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 15.2.2007 kl. 16:58

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gangi þér vel á þingi mín kæra.  Og já endilega ég krossa fingur og tær að náir fram þessu frumvarpi.  Mér hefur alltaf fundist frábært og gefandi að vera með þér á fundum og upplifa umræðurnar gegnum túlkana.  Það er einhvernveginn svo ... hvað á ég að segja.... gott fyrir sálina að sjá og vita að það skuli vera hér hjá okkur svona kraftmikið fólk eins og þú sem lætur ekkert hamla þér að gera það sem þú vilt.  Áfram elskuleg og gangi þér vel. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2007 kl. 18:07

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Til hamingju með þetta Sigurlín Margrét!  Gerði Gunnar Ö þetta í neyð eða af prúðmennsku?  Hvort sem er, þá er þetta dýrmætt tækifæri til að láta rödd þína og málefni heyrast.  Þú átt minn stuðning allan.  Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 15.2.2007 kl. 18:44

5 Smámynd: Snorri Bergz

"En eitt verður sett á oddinn, það er táknmálsfrumvarpið, enginn spurning, það skal fá að verða flutt og snerta borðplötuna fyrir framan formann menntamálanefndar og passa vel upp á að það detti ekki niður í ruslafötuna.  Það ríður eiginlega mest á núna að heyrnarlausir/heyrnarskertir og daufblindir fái réttindum sínum á forsendum táknmálsins fullnægt í þessu landi.  Það er ekki lengur hægt að vera að múlbinda þá í einangrun, nóg hafa þeir þurft að þola."

100% sammála. Gangi þér vel að koma málinu í gegn.

Snorri Bergz, 15.2.2007 kl. 19:36

6 identicon

HÚRRA.... hjarta mitt hoppar af gleði við þessar fréttir!

Elsa (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 23:43

7 Smámynd: Jón Svavarsson

Gangi þér sem best þarna á hinu háa Alþingi, sýndu þeim í báða heimana og gefðu ekkert eftir með Táknmálið, sem er jafn sjálsögð fræði að kenna í grunnskólum eins og íslensku. Sonur minn (14 ára) segir að það ætti að kenna til dæmis pólsku í stað dönsku eða allavega pólskuna að auki. Það má einnig kenna þingmönnum svolítið af kurteisi og fallegt orðaval í stað blótsyrða og skætings. Hamingju óskir og bestu kveðjur. Jón

Jón Svavarsson, 15.2.2007 kl. 23:52

8 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Frábært Sigurlín og ég vona innilega að þú náir þessu frumvarpi fram. 

Björg K. Sigurðardóttir, 16.2.2007 kl. 00:25

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Og þó fyrr hefði verið. Þú hefur fullt erindi á þing og ég óska þér alls hins besta.

Mér finnst þó dapurlegt að þú hafir þurft að ganga úr FF til að Gunnar Örlygs hleypti þér loksins á þing. Væntanlega er það gert af sömu góðmennsku og þeirra að hann hleypti þér ekki á þing meðan þú varst í FF.  Hvað um það þá er fyrir mestu að fólk standi fyrir góðum málum hvar í flokki sem þeir skipa sér. Þú munt örugglega njóta stuðning þinna gömlu félaga til þess.

Sigurður Þórðarson, 16.2.2007 kl. 01:18

10 Smámynd: Arnljótur Bjarki Bergsson

Gangi þér vel að nota þetta tækifæri sem best. Við skulum vona að fimmmenningarnir "frjálslyndu" standi ekki í vegi fyrir málflutningi þínum.

Arnljótur Bjarki Bergsson, 16.2.2007 kl. 06:46

11 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Gangi þér vel!

Hlynur Þór Magnússon, 16.2.2007 kl. 13:05

12 Smámynd: Bragi Einarsson

Gangi þér vel í þessum heimi, sem Alþingi er!

Bragi Einarsson, 18.2.2007 kl. 15:40

13 identicon

Hvernig var svo þingdagur no 1 ? komdu með blogg um það :D

Elsa (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 18:59

14 identicon

Gaman að heyra að þú sért komin á þing gangi þér vel.

Kveðja Bergný

Bergný Dögg (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 17:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband