Ég styð Margréti

Mig langar að fjalla um fyrirhugað framboð Margrétar Sverrisdóttur til embættis varaformanns í Frjálsynda flokknum.  Ég hef ekkert farið leynt með það að ég styð hana, enda er hún vinkona mín og góð samstarfskona.  Ég hef ritað hér á síðunni nokkur orð um mannkosti hennar, dugnað og elju í starfi sínu fyrir flokkinn.  Hún hefur sinnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn af heilindum.  Ég hef að sama skapi haldið uppi góðum orðum fyrir þingflokkinn í störfum sínum á Alþingi og dáðst að þeim fyrir vinnu sína þar.  Magnús Þór sem nú er varaformaður er ágætur maður og hef ég persónulega ekkert á móti honum, svo eru afar okkar Magnúsar nú líka hálfbræður.  Við Magnús höfum átt gott samstarf og gerum enn.  Ég er líka nokkuð viss um að við Magnús munum eiga eftir að vinna saman í komandi kosningum og met ég það mikils.  Mér þætti því mjög vænt um að öllum deilum á milli þeirra tveggja lægði.  Væri Margrét ekki í framboði styddi ég hann sennilega.  

Það hefur verið mér harmur að sjá þingflokkinn ekki lyfta litla fingri í því að halda uppi vörnum fyrir Margréti þegar hún er rægð niður hvað eftir annað á Útvarpi Sögu af körlum sem nánast hafa það eitt að markmiði að ryðja henni úr vegi.

Þegar umræðan um að Frjálslyndi flokkurinn væri rasistaflokkur fór fram, hélt ég uppi vörnum fyrir hann, vegna þess að það var verið að klína á hann ósanngjörnum stimpli sem átti sér enga stoð í raunveruleikanum. Umræðan um innflytjendamálin snérist aðallega um vinnumarkaðinn í þeirri mynd sem hann var orðinn og hafði ekkert með trú, kynþátt og annað sem heyrði undir mismunun að gera. Það voru aðrir sem komu þeirri umræðu af stað og voru þá ekkert að tala í nafni Frjálslynda flokksins þá.

Frjálslyndi flokkurinn hefur líka oft fengið orð á sig fyrir að vera eins málefnis flokkur eða kvótaflokkurinn og þar af leiðandi orðið nokkurs konar einkynjaflokkur eða karlaflokkur. Það skal þó segjast að flokkurinn hefur tekið á mörgum málum sem varða samfélagsmál, heilbrigðismál eða önnur mál sem stundum kallast mjúk mál.  Með fullri virðingu fyrir körlum í flokkinum þá finnst mér mikið vanta konur í flokkinn eða öllu heldur kynjajafnréttisásýnd.  Það er líka ástæða þess að ég styð Margréti í varaformanninn og mun jafnvel styðja hana í framboði til formanns taki hún stefnuna á það embætti.

Mér finnst því orð núverandi formanns Guðjóns Arnars Kristjánssonar mega sín lítills þegar hann segir að hann styðji Magnús Þór Hafsteinsson í varaformannsembættið.  Mér finnst núna vera meira spurning um að flokkurinn nái að sýna jafnréttisásýnd í komandi kosningum og ég veit að hann mun ná þeirri ásýnd með Margréti í fremstu forystunni.  Ég harma að karlarnir í flokkinum sjái ekki það sem ég sé út frá jafnréttislegu sjónarmiði.  Stuðningur Guðjóns við Magnús er líka til þess gerður að sýna engan vilja að ná sáttum. Skynsemissjónarmið að ná fram jafnréttisásýnd og sáttum eru því ekki á dagskrá hjá þeim.  Þannig að ég hvet sem flesta að sýna Margréti það traust sem hún á skilið og styðja hana í varaformannsembættið eða formannsembættið.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég gæti ekki verið meira sammála ég styð Margréti hvort heldur hún fari í formann
eða varaformann.

Kristín Þorðardottir (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 20:50

2 identicon

Styð Margréti einnig! Vonandi að félagsmenn frjálslynda flokksins sjái hve mikill styrkur það er fyrir flokkinn að hafa hana í forustunni

J. Hjalti Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband