Umbi tossanna

Eftir að ég hafði sett tossalistann á síðuna, þá skreið sú hugsun að mér að fatlaðir væru nokkurskonar tossar stjórnvalda í bókstaflegri merkingu.  Það skal þó samt segjast eins og er að nokkuð hefur verið gert til að bæta hag og lífskjör fatlaðra en samt eins og oft hefur komið fram eru þeir sjálfir lítið hafðir með í ráðum og oftar en ekki situr einhver óánægja í kringum málefni þeirra eftir á. Betur má en duga skal á hér eflaust við. Kannski einmitt þess vegna tekur svo langan tíma að koma einhverju í verk frá hugmynd til framkvæmda, jafnvel þó þörfin sé brýn.  Málefni fatlaðra hversu brýn sem þau eru oft látin gerjast lengi í nefndum og lítið sem ekkert gert þannig að úr verði einhver sérstök ánægja með afraksturinn, mig grunar hinsvegar að margar af nefndum sem komið hefur verið á fót um málefni fatlaða enda oftast sem “skúffunefndir” og ferill málsins eftir því, fastur í skúffunni. 

Af þessu langar mig að koma hingað að hugmynd sem lengi hefur setið í mér, það er að það embætti umboðsmanns fatlaðara verði komið á fót.   Ekki svo hæpið að setja á fót svoleiðis embætti þegar maður sér hve illa er komið fram við ýmsa fötlunarhópa af stjórnvöldum. 

Umboðsmaður Alþingis hefur unnið ærið starf og bent á varnagla í lögum sem gengið hefur verið eftir og lagað í sumum tilfellum. 

Hér er starfandi Umboðsmaður barna og hefur komið mörgu góðu til leiðar í hagsmunum barna og komið á framfæri viðhorfi barna til stjórnvalda.

Umdeildasti umboðsmaðurinn er eflaust Umboðsmaður hestsins, enn er ég ekki alveg að ná hvaða rök voru viðhöfð að baki ákvörðunnarinnar, nema að einn karlinn var atvinnulaus og þótti vænt um hesta og var tilvalin til starfsins, svo var hann líka jafnhár(-fax)prúður og fax hestsins er, þannig að betri auglýsing fyrir íslenska hestinn á erlendri grund var ekki hægt að fá.   Spurning núna hvort íslenskir fjárfestar og viðskiptamenn í útrás þyrftu á sérlegum umboðsmanni að halda í viðskiptum sínum en þeir virðast vera sífellt rakkaðir niður af afbrýðsömum dönum ef marka má umfjöllun Ekstrabladet á síðasta ári eitthvað.  

En já, aftur að fötluðum, sem sagt eru þeir sniðgengnir af stjórnvöldum verð ég bara að segja.  Í Svíþjóð til að mynda er sérlegur umboðsmaður heyrnarlausra.  Þeir starfa á vegum sveitafélagana, og eru þrír eða fjórir á öllu landinu þar rekur mig í minni.   Ekki veit ég hvort aðrir fötlunarhópar hafa sérlegan umboðsmann á vegum stjórnvalda eða sveitarfélaga líka en get mér til að svo er, því umboðsmaðurinn vinnur í samvinnu við samtök heyrnarlausra á því svæði sem hann er umboðsmaður fyrir. Ég er ekki frá því að í Bretlandi sé líka sérlegur umboðsmaður fatlaðra en allavega vann aðili frá þarlendum stjórnvöldum mikið í að semja og koma til samþykktar Réttindaskrá heyrnarlausra með bresku samtökum heyrnarlausra sem síðar var svo samþykkt á breska þinginu í  mars 2003. 

Það er erfitt að setja einhvern fötlunarhóp hérna í fyrsta sæti yfir sniðgengnustu tossa stjórnvalda, en ef einhver fer að hugsa svona eins og ég er að gera núna má alveg að líkum láta að full þörf sé á umboðsmanni fatlaðra hérlendis, hesturinn fékk sinn umboðsmann sér til vegs og vegsemdar á erlendri grund. Því ættu fatlaðir ekki að eiga einn slíkan þó ekki til vegs og vegsemdar á erlendri grundu heldur hér í sínu eigin landi.

Þennan pistil ætla ég að enda á að bæta við lið nr. 15 á tossalistann sem varðar málefni geðfatlara, en það hafa reyndar of oft komið upp tilfelli sem sýnt hafa að geðfatlaðir fá ekki þá þjónstu sem þeir þurfa, þjónustan skert eða illa sinnt af stjórnvöldum hvað varðar fjármagn, heilbrigðisþjónustu eða húsnæðismál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

kvitta

Ólafur fannberg, 11.1.2007 kl. 13:38

2 Smámynd: Óttarr Makuch

Styð það að vera með umboðsmann fatlaðra, reyndar gæti umboðsmaður neytenda séð um þessi mál, þar sem allir þjóðfélagshópar eru á einn eða annan hátt neytendur.

Óttarr Makuch, 11.1.2007 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband